Eftir að hafa skoðað hugmyndir ungu arkitektanna um uppbyggingu í miðbæ Reyukjavíkur í síðustu færslu er ekki óeðlilegt að maður fari að efast um hvort þeir sem eru að véla með skipulagsmál hverju sinni hafi siðferðislega leyfi til að axla þá ábyrgð að þurrka fortíðina út eins og tillögur arkiitektanna fyrir 50 árum gerðu ráð fyrir? Þetta á reyndar sérstaklega við um aðalskipulag Bredstorf frá sjöunda áratugnum og margar skipulagsákvarðanir síðustu áratuga þar sem sagan hefur vikið fyrir þeim nútíma, sem þá var. Vonandi er sú hætta að mestu liðin hjá.
Þurfum við ekki að sameinast um að gera fortíðina að hluta framtíðarinnar?
Vera jákvæðari varðandi fortíðina og stíga varlegar til framtíðar en við höfum verið að gera?
Skipulagshugmyndir eldast og allar byggingar eldast. Jafnvel nýjustu húsin eiga eftir að eldast eins og nýfæddu börnin.
Byggingar eldast eins og fólk. Það koma rifur og sprungur í ytra byrðið og það verður niðurbrot af marvíslegu tagi. Burðavirki og tæknikerfi verða fyrir áföllum bæði í mönnum og mannvirkjum. Það kemur stundum leki og raki á hinum vandræðalegustu stöðum í mannfólkinu og í byggingum. Og þessi vandamál eða hrörnum gengur jafnt yfir bæði bestu byggingar og besta fólk.
Munurinn er sá að hægt er að endurnýja byggingarnar, halda þeim við og aðlaga nýjum kröfum og nýrri starfssemi.
Það er ekki hægt í sama mæli hvað mannfólkið varðar.
Varðandi byggingarnar koma upp tvær spurningar. Í fyrsta lagi vill fólk halda þeim við og gefa þeim þannig lengra líf. Og ef svarið er já, þá vaknar ný spurning: Hvernig gerum við það?
Já ; Hvernig gerum við það?
Er svarið kannski fyrst og fremst að finna í skipulagsáætlunum?
Hugsum okkur að það hefði komið bullandi góðæri þarna uppúr 1960. Gnægð gulls hefði fundist í Esjunni. Þá er ekki ólíklegt að þessar hugmyndir ungu arkitektanna og fyrsta aðalskipulagsins hefðu orðið að veruleika.
Þá hefði enginn ferðamaður nennt til Reykjavíkur. Þeir hefðu farið til Stuttgart!
Hefðum við viljað það?
Ljósmyndirnar sem fylgja færslunni eru af byggingum og umhverfi sem hefur verið í stöðugri hættu um áratugaskeið. Vonandi er þeim borgið.
Ljósmyndirnar tók Finnbogi Helgason tannsmiður
„……leki og raki á hinum vandræðalegustu stöðum í mannfólkinu…“:)
Vissulega rétt og þetta er hægt að lagfæra í húsunum en ekki (alltaf) mannfólkinu.
Skemmtilegur leikur með myndavél.
Ég veit ekki hvort það hafi verið sannað eða rannsakað. En það er ljóst í mínum huga að fólki liður betur á söguslóðum innan um gamlar byggingar en á söguslóðum þar sem eru einungis nýjar byggingar og ekki hægt að lesa söguna nema örfáa áratugi.
Veit einhver um rannóknir sem styðja þá staðhæfingu að nýjar byggingar auðgi mannlíf meira en gömlu byggingarnar sem fyrir voru?
Hér er upprifjun frá 2008 – því miður hefur viðmælandi Egils fundið sér annan og síðri vettvang. Á þessum tíma hélt hann erindi þar sem gerð var grein fyrir mikilvægi sögulegra, gamalla miðbæja fyrir borgarheildir – þ.e. að fallegur, gamall miðbær gat sameinað ljóta og sundurlausa borg sem nýtískulegur miðbær (skv. nútímaborgarskipulagi) gat ekki. Að vísu er þessi tilgáta ekki nefnd hér – en hún var niðurstaða úr rannsóknarverkefni hans.
Skemmtilegar myndir. Ekki síst hvernig ljósmyndaranum tekst að vekja athygli á gersemum sem etv njóta sín ekki til fullnustu í götumyndinni. Þetta á td við um húsið hans Guðsteins við Laugaveginn og Gamla bíó. Takið eftir hversu stór hluti byggðarinnar í miðbænum er 2-3 hæða og svo hve auðu skörðin í byggðini eru nauðsynleg fyrir birtu og yl í borginni. Ég sé ekki betur en nú sé stefnt að 4-5 hæða byggð sem víðast og öllum skörðum lokað. Ég held að Reykjavík þoli ekki mikið af Austurvallar skipulagi eins og Guðjón heitinn sá það fyrir sér.
http://sphotos-c.ak.fbcdn.net/hphotos-ak-frc1/734441_541045875913435_1203058681_n.png
„Læk“
Svei mér þá, ef Laugavegurinn og Ingólfsstrætið koma ekki betur út sem bogagötur eins og sýnt er á ljósmyndunum hér. Hins vegar er þessi ljósmyndatækni ekki gjaldgeng fyrir arkitekta og gerir gamalli byggð öngvan greiða.
Það leynir sér ekki að framtið elsta hluta Reykjavíkur liggur í fortíðinni og gömlu húsunum sem eru aðal aðdráttaraflið. Hvern sjáið þið til dæmis á gangi í Skuggahverfinu?
Sá sem leyfir sér að snerta svo mikið sem eitt „hár“ á þessum karakterum sem þessar gömlu byggingar á frábæum ljósmyndum Finnboga Helgasonar eru, sýnir að viðkomandi hefur enga tilfinngu fyrir gömlu góðu Reykjavík.