Þriðjudagur 11.08.2015 - 07:20 - 10 ummæli

Flatey og Halldór Kiljan Laxness

 

Place_337_2___Selected

Halldór Kiljan Laxness lætur eftirfarandi falla um Flatey á Breiðafirði í bók sinni Dagleið á Fjöllum (útg 1937):

+++

„Það var að morgni dags snemma í júní. Ég steig þá í fyrsta sinn á land í þessari yndisey þar sem öll mannverk höfðu yfirbragð fortíðarinnar, en náttúran svip hinnar eilífu fegurðar. Æðarkollurnar litu vingjarnlega til mannanna, og það var næstum hægt að taka þær í fang sér. Mér hefur alltaf síðan fundist hér ríkja annað tímabil en í öðrum hlutum heims; að þessi eyja sé utan við almanakið. Alltaf þegar ég stíg á land í Flatey síðan, finn ég þessa eilífðarkennd. Það er kannski af því að ég var svo ungur þegar ég kom hingað fyrst, að mér fannst ég sjálfur vera eilífur; að gista einn mánuð, tvo mánuði, á fallegum stað, aðeins til að mega liggja guðslangan daginn í þanginu og horfa á hreyfingar fuglanna og hlusta á kliðinn, það var eins og annar lítill greiði við sjálfan sig og allt aðrir dagar en nú, þegar maður kemur þreyttur af langferð til góðs vinar seint um kvöld og verður að leggja af stað í býtið að morgni – – – –

– – – –  Það eru liðin fimmtán ár.

Mér er aftur vísað á tvö vesturherbergin uppi á lofti í gesthúsinu eins og þegar ég kom hér fyrst. Það er aftur björt júnínótt eins og þá. Aftur horfi ég á þessi lágreistu rifluðu hús og hlýði á klið sjófuglsins fyrir utan gluggann eins og þá, hinir liðnu áhyggjulausu dagar tvítugsáranna koma til mín aftur, óendanlegir, án kvölds. Og ég finn allt í einu, að þessi kliður sjófuglsins er mér meira virði en öll heimsins tónlist, sem ég þó elska svo mikið. Kannski er þetta sjálf óskanna en þar sem sælan býr, þar sem tíminn líður ekki“

+++

Það hefur lítið breyst í Flatey og Vestureyjum síðan Halldór Kiljan Laxnes skrifaði þetta. Flatey er enn „utan almanaksins“,  hreyfing fuglanna og kliðurinn er sá sami og þarna standa þau enn „lágreist rifluð húsin“.

Mér er minnisstætt þegar ég var lítill drengur í Svefneyjum að maður tók æðarkolluna „í fangið“ af hreiðrinu og lagði hana til hliðar. Hún horfði á meðan maður tók hluta af dúninum, skygndi eggin, tók eitt eða tvö, lagaði svo hreiðrið til og lagði kolluna aftur á hreiðrið og gekk að næsta hreiðri.

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/03/28/husin-i-flatey-i/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/06/21/hella-flatey-og-serkenni-stadanna/

http://blog.dv.is/arkitektur/2014/12/09/ranakofinn-i-svefneyjum-elsta-hus-a-islandi/

 

http://www.ruv.is/sites/default/files/styles/1000x563/public/80122215.jpg?itok=Kd9dWl8t

 

flatey-660x330

 

https://ullarsokkurinn.files.wordpress.com/2011/05/kria1.jpg

http://www.skessuhorn.is/images/Mynd_1648239.jpg

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Sigurður Halldórsson

    „Í Flatey vil ég ævi una
    Á eintali við náttúruna“

    Kvað Þórbergur!

    Man ekki meir.

  • Örnólfur Hall

    Nokkrir sögulegar stiklur um Flatey::

    -Flatey er fyrir marga hluti merkileg sögulega. Þar var um skeið klaustur og við hana er kennd Flateyjarbók, sem nægja myndi til þess að halda nafni eyjarinnar á lofti þótt ekki væri annað.
    -Flatey var mikið menningarsetur með m.a. framfarafélagið: „ Flateyjar farmfara stiftunar stofnfélags bréflega félag“, sem studdi m.a. Matthías (var um tíma ungur á eyjunni) til mennta. Úr varð bókasafnið sem hét „Flateyjar framfara stiftun“ og heitir kannski enn.

    -Flatey var um langan aldur höfuðstaður héraðanna um Breiðafjörð norðanverðan. – Þar voru ríkir bændur, prestar og læknar. – Verzlun og útgerð lyftu eyjunni upp í þennan virðingarsess.

    -Það er líka gaman að geta þess að Flateyingar voru í fararbroddi í öldrunarmálum og gerðu húsið Bakkabæ að elliheimili. Þar bjuggu síðast 3 gamlar konur sem ræktuðu kálgarðsholu vestan við húsið sér til dundurs og gleði. (M.a. úr heimildum: Björn Sigfússon & Guðm. Thoroddsen).

    • Örnólfur Hall

      Leiðrétting í fyrirsögn : -Nokkrar sögulegar stiklur um Flatey-

      Smáviðbót til gamans:
      Sigurður Breiðfjörð var um tíma í Flatey og þótti gjósturssamt þar í norðanátt og kvað:

      Í Flatey er svo fjandi kalt
      fyrir norðan hólinn,
      en sunnantil á eynni allt
      eru betri skjólin.

  • Fallegur texti um fallegan stað. Ég fékk líka Þessa sömu tilfinningu og skáldið lýsir þegar ég kom fyrst í Flatey fyrir þrem árum.

  • Anna Th. Rögnvaldsdóttir

    „Lágreist rifluð hús“. Gaman að þessu! Þetta gæti hafa verið bárujárn, þetta gæti hafa verið einhvers konar „skoruð“ timburklæðning.

    Virkilega gott orð, rifflaður, en maður heyrir það sjaldan. Virðist vera að hverfa úr málinu.

    http://www.lexis.hi.is/cgi-bin/ritmal/leitord.cgi?adg=daemi&n=381466&s=472717&l=riffla%F0ur

  • Dennis Davíð

    Ég dvaldi þarna síðast fyrir nokkrum árum í Hótel Flatey sem hafði þá nýlega verið gert upp á afar smekklegan hátt í anda staðarins. Ógleymanlegt að sitja þar við húsveggin á bjartri sumarnótt og horfa út á Breiðafjörðin, hlusta á fuglakliðinn og sjá sólina hníga við Látrabjarg. Þvílík fegurð og friður.
    Ég ætla rétt að vona að okkur takist að vernda þess „yndisey þar sem öll mannverk höfðu yfirbragð fortíðarinnar, en náttúran svip hinnar eilífu fegurðar.“ Þetta eru ómetanleg verðmæti ekki síst í dag þar sem áreiti nútímatækni er stundum yfirþyrmandi.

  • Kristbjörn Árnason

    Gaman væri að vita hver það er sem skrifar þennan fallega pistil.

    Einnig hvort hann er svo gamall að hann muni eftir þeim Önnu Kristínu og Sveinbirni sem voru fóstur foreldrar föður míns.

    Þetta fólk kallaði ég alla tíð, ömmu og afa

    • Hilmar Þór

      Textinn er eftir Halldór Kiljan Laxness og kom fram í ritgerða/greinasafni sem gefið var úr í bókinni Dagleið á fjóllum. Hún var fyrst gefin út 1937 og svo aftur skömmu seinna.

  • Og hvað var gert við æðareggin? Voru þau borðuð? Er fuglinn ekki friðaður?

    • Hilmar Þór

      Eggin voru borðuð. Þau voru nokkuð stór og stundum þurfti að skipta þeim í tvennt. Þá var gætt að því að kona og karl borðuðu ekki sinn hvorn helminginn nema að þau væri gift!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn