Miðvikudagur 09.05.2012 - 21:17 - 6 ummæli

Fleiri gamlar myndir frá Reykjavík

Hér koma aftur nokkrar ljósmyndir úr smiðju Vigfúsar Sigurgeirssonar sem sýna hvernig Reykjavík leit út á árunum fyrir fyrri heimstyrjöld. Neðst er mynd eftir Ólaf K. Magnússon og  tvær eftir Sigfús Eymundsson.

Efst er ljósmynd tekin frá Gamla Garði til norðurs og miðborgina. Bjarkirnar við Bjarkargötuna eru vart sýnilegar vegna smæðar. Hringbrautin er þarna malarvegur. Húsið næst er óvenju fallegt í sínum hlutföllum og er snúið örlítið vegna staðsetningarinnar við götuhorn

Mikilvægt er að tvísmella á myndirnar til þess að stækka þær og skoða betur.

 

Hér er mynd sem tekin er til vesturs yfir byggðina við Túngötu og Hávallagötu. Seltjarnarnesið er nánast óbyggt. Þarna er þyrping húsa sem Gunnlaugur Halldósson teiknaði fyrir Félagsgarð. Þetta eru mjög vönduð parhús sem byggð voru um miðjan fjórða áratug síðustu aldar. Takið eftir að bakgarðar eru notaðir til kartöflu og grænmetisræktunar. Þarna var vísir af sjálfbærni í verki.

Lesa má frekar um þessi hús Hér:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/03/18/felagsgardur-gunnlaugs-halldorssonar/

 

Þessi mynd er tekin við Reykjavíkurhöfn á fyrsta sjómannadeginum þann 6. júni 1938. Þarna má sjá kolakranann og kolabinginn. Fjær er Sænska frystihúsið og bygging höfuðstöðva SÍS þar sem menntamálaráðuneytið er nú til húsa.

Myndin að ofan er ekki er eftir  Vigfús. Myndin er tekin af Ólafi K. Magnússyni ljósmyndari Morgunblaðsins tók við  Reykjavíkurhöfn og sýnir sjómenn gera að afla sínum.

Hér að neðan koma svo tvær ljósmyndir eftir Sigfús Eymundsson. Þær eru teknar á ofanverðri nítjándu öld og sýna Aðalstræti til suðurs annarsvegar og hinsvegar yfir Reykjavíkurhöfn í átt að Esjunni.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Rósa Hannesardóttir

    Mynd frá ofanverðri nítjándu öld sýnir ekki Reykjavíkurhöfn enda var þá engin höfn í Reykjavík.

    Myndin sýnir skip liggja fyrir akkerum úti fyrir ströndinni.

  • Hilmar Þór

    Þakka þér kærlega ábendinguna Sveinn Ólafsson. Ég er búinn að lagfæra þessa vitleysu í mér. Það er augljóst að ljósmyndin er ekki tekin úr Þjóðmijnasafninu heldur Gamla Garði.

    Tölfræði Stebba er tilefni mrgra hugleiðinga. Þakka þér fyrir Srebbi.

  • Í Lögréttu 5. Febrúar 1930 segir:
    „Vegamálastjóri hefur samið skýrslu um bílaeign hjer á landi síðastliðið ár. Samkvæmt henni eru til hjer 1151 bíll, þar af 636 vöruflutningabílar, 249 fólksflutningabílar og 86 tvíhjólabílar eða „mótorhjól“. Flestir eru bílarnir í Reykjavík, eða 662, eða 296 vöruflutningabílar og 281 fólksflutningabíll, en 68 tvíhjólabílar og 17 kassabílar.“

    Árið 1930 bjuggu í Reykjavík 28.052 manns samkvæmt Hagstofu. Þá hafa verið 24 bílar á hverja þúsund íbúa, mest atvinnutæki.

    Árið 1938 eru aðeins fólksbílar í Reykjavík orðnir 675, þ.e. 17 fólksbílar á hverja 1000 íbúa sem voru alls um 37 þús. Í dag er fólksbílaeignin 613 bílar á hverja þúsund íbúa.

    Samkvæmt þessari tölfræði mátti það heita viðburður að mæta bíl í Reykjavík á fjórða áratugnum og það má telja víst að hraði bíla hefur verið lítill, kannski 20-30 km/klst. Samt hafa bæjaryfirvöld kosið að hafa fullkominn aðskilnað gangandi og akandi í nýjum hverfum samanber myndina frá Hávallagötunni. Maðurinn á myndinni frá Aðalstræti, mynd sem tekinn er fyrir daga bílsins, býr hins vegar einn að götunni.

    Stefnumörkun í skipulagi borgarinnar sem tekur mið af bílnum á sér greinilega djúpar rætur eða nánast frá þeim tíma sem bíllinn fyrst birtist fólkinu í bænum.

  • Sveinn Ólafsson

    Efsta myndin er tekin úr Gamla Garði á móts við Hringbraut 22, húsið sem er snúið örlítið vegna staðsetningar við götuhorn.

    Ljósmynd Ólafs K. Magnússonar af sjómönnum er tekin um það bil þar sem veitingastaðurinn Við Höfnina er núna, skip við Ægisgarð í bakgrunni.

    Þessar myndir Vigfúsar eru stórglæsilegar, hafðu þökk fyrir að birta þær.

    kveðja, Sveinn Ólafsson.

  • Sveinn í Felli

    Hugsanlega sést enginn nema ef viðkomandi hefði staðið kyrr í einhvern tíma, því myndirnar eru væntanlega teknar á löngum lýsingartíma (til að auka dýpt þeirra og nákvæmni). Á nokkrum myndanna sést fólk, helst í fjarska (t.d. á Fríkirkjuveginum á efstu myndinni).

  • Björn Jónsson

    Var einhver að tala um draugabæ? Á þessum myndum er hvergi mann að sjá. Nú eða bifreið. Sennilega var fólk ekki utandyra nema við einhver störf. Útivist sér til heilsubótar eða ánægju hefur ekki tíðkast nema kannski á Sjómannadaginn.
    Verð samt að segja að þetta eru allt skemmtilegar og áhugaverðar myndir frá fjórða áratugnum sem gefa þarf út á bók.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn