Miðvikudagur 13.03.2013 - 13:33 - 48 ummæli

Flugvöllur á Hólmsheiði

 Copy of yfirlit2

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að samkvæmt áæltlunum Reykjavíkurborgar eru aðeins þrjú ár þar til flugvöllurinn í Vatnsmýri verði nánast lagður af.

Það sem gerir þetta sérstaklega ótrúlegt er að ekki hefur enn fundist lausn á flugsamgöngum við höfuðborgarsvæðið sem leyst getur Reykjavíkurflugvöll af og sátt er um.

Undanfarna daga hafa þó borist fréttir um að Hólmsheiðarflugvöllur sé í alvarlegri athugun sem arftaki Reykjavíkurflugvallar.

Síðunni hafa borist upplýsingar og nokkrar myndir sem sýna staðsetningu framtíðarflugvallar á Hólmsheiði. Þetta eru nokkuð tæknileg gögn sem þó er hægt að draga út nokkur atriði sem öllum ætti að vera skiljanleg.

Þá hefur komið hefur fram í nýlegu áliti að staðsetning Reykjavíkurflugvallar á Hólmsheiði sé “viðunandi”.  Þá er rétt að spyrja næst, viðunandi fyrir hverja? Er átt við íbúa Reykjavíkur, íbúa höfuðborgarsvæðisins eða íbúa landsbyggðarinnar? Er verið að tala um flugrekstraraðila, verktaka eða skattgreiðendur. Spyrja má hvort  maður setji ekki markið hærra þegar um er að ræða 20-30 milljarðafjárfestingu. Vill maður viðunandi samgöngukerfi eða viðunandi sjúkra og skólahús. Það á eftir að koma i ljós.

Lítum aðeins á málið.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrr er getið verður fyrihugaður Hólmsheiðarflugvöllur i um 135 metra hæð og yrði hæsti áætlunarflugvöllur landsins. Þetta veldur því að rekstur flugvallarins verður erfiður vegna skyggnis og veðurfars. Rekstur flugrekstraraðila verður kostnaðarsamari og vegna nálægðar við fjöll verður aðflug á tíðum slæmt.

Það er vitað að veðurskilyrði á Hólmsheiði er verra en á Reykjavíkurflugvelli og þegar hæðarlega flugvallarins bætist við verður hinn svokallaði „nothæfisstuðull“ mun verri samkvæmt skýrslunni.

Umhvefislega eru mörg álitamál varðandi staðsetninguna ef marka má greinargerðina. Má þar nefna vatnsvernd og háfaðamengun yfir Grafarholti og fl.

Því er haldið fram að kostnaðurinn við að byggja nýjan flugvöll verði á bilinu 18-20 milljarðar auk margskonar kostnaðar vegna aðstöðu sem flugrekendur þurfa að koma upp.

Til viðbótar kemur vegakerfi og óþekktur kostnaður við að setja háspennulínur, sem eru þarna um alt, í jörð. Því er einnig haldið fram að færa þurfi spennistöð á Geithálsi  2 km fjær flugvellinum. Hitaveitulögn frá Nesjavöllum er sögð í veginum og margt fleira. Á mynd neðst í færslunni sést að fyrirhuguð staðsetning nýja fangelsins sem á að hefja byggingu á 4. apríl n.k . virðist fljótt á litið í veginum fyrir flugvallaráformunum. (Strax er byrjað á að þrengja að flugvellinum)

Það er mikilvægt að vekja umræðu um samgöngur í lofti við höfuðborgarsvæðið strax. Maður óttast að annars  taki atburðarásin enn og aftur völdin í skipulagsmálum.

Í mínum huga er ekki tímabært að flytja Reykjavíkurflugvöll næstu áratugina. Fyrir því liggja margar ástæður. Í fyrsta lagi höfum við ekki efni á þvi að leggja niður mannvirki sem er í fullri notkun og byggja nýtt á verri stað. Í öðru lagi er sem stendur ekki þörf á byggingarlandi í Vatnsmýrinni. Í þriðja lagi er óábyrgt að leggja niður flugvöllinn áður en annar betri kostur er fundinn.

Mikilvægasta skipulagsmál höfuðborgarinnar nú er að þétta þau svæði sem þegar eru byggð og auka  þjónustu við íbúa í grennd við heimilin. Bæta almenningssamgöngur og tengja sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu betur saman. Vatnsmýrin getur beðið betri tíma.

Auðvitað er það ljóst að skipulag Reykjavíkur liti öðruvísi út hefði flugvöllurinn aldrei verið byggður. En það þarf jafnframt að gera sér grein fyrir því að hafi hann valdið borgarskipulaginu tjóni þá er sá skaði skeður.

Svo er það auðvitað rétt að skipulagsvaldið í Vatnsmýrinni er á höndumn borgarinnar. En sem höfuðborg hefur hún skildur gagnvart nágrannasveitarfélögunum og landsbyggðinni, skildur sem henni ber að sinna hvað sem tautar og raular.

P.S. Vakin er athygli að myndirnar sem hér fylgja eru einungis drög sem höfundi var send frá ónafngreindum aðila og ber því einungis að skoða sem skýringarmyndir við færsluna.

Sjá einnig:

Vansagt um Vatnsmýrina:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/08/16/vansagt-um-vatnsmyrarskipulag/

Vatnsmýrarsamkeppnin:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/01/13/vatnsmyrarsamkeppnin-upprifjun/

Reykjavíkurflugvöllur , flökkusaga:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/12/08/reykjavikurflugvollur-flokkusaga/

Þarf flugvöll á höfuðborgarsvæðið?

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/07/26/tharf-flugvoll-a-reykjavikursvaedid/

bilde

Á Holmsheiði er meiri rigning og súld en í Vatnsmýri auk þess að ókyrrð í loft er meiri og sökum hæðar í landslaginu er flugvöllurinn „oft í skýjum“

 untitled222

 Að neðan má sjá staðsetningu fangelsisins á Hólmsheiði og flugvöll þar.

 untitled4crop

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (48)

  • Birkir Ingibjartsson

    Jón: Ég er algerlega sammála því að liggja þurfi fyrir heildræn skipulagsáætlun um Vatnsmýrina áður en byrjað að byggja þar og tel ég vinningstillagan margumrædda að mörgu leyti góður grunnur. Hún gefur fyrst og fremst sýn á þann anda sem allavega ég sé fyrir mér í mýrinni, þétt reitaskipulag með blandaðri byggð og iðandi borgarlífi. Draumsýn ég veit en samt ekki endilega. Helst segi ég að það mætti jafnvel auka byggingarmagnið, þ.e. eins og kannski eina hæð í viðbót að meðaltali.

    Það sem ég vildi reyna benda á með fyrri athugasemd minni er að við þurfum ekki að bíða eftir því að flugvöllurinn fari til þess að við getum byrjað að byggja í Vatnsmýrinni. Þau svæði sem ég tiltók, t.d. Hlíðarendi og nágrenni Öskju og ÍE, jafnvel Landspítalasvæðið og N1, væri hægt að byggja strax á morgun ef viljinn væri fyrir hendi. Þessi svæði ættu sjálfsögðu að vera fyrstu skrefin í þróun byggðarinnar í Vatnsmýrinni og taka mið af einhverri heildar skipulagshugmynd. En um leið væru þau eðlilegt framhald af eldri hverfunum sem þau tengjast.

    Með þessu móti gefst okkur tími til að sjá hvernig þessi nýju hverfi þróast og getum með betri hætti brugðist við ef okkur dettur einhver snilld í hug í millitíðinni.

    Ég segi því aftur: Hættum að bíða eftir að flugvöllurinn fari og byrjum bara að byggja. Hann fer fyrir rest.

  • Magnús Skúlason

    Kosning um flugvöllinn var markleysa. Þetta er ekki einkamál Reykvíkinga heldur allra landsmanna þrátt fyrir skipulagsvald fyrrnefndu.

    Þá má það ekki gleymast að á landinu eru ekki járnbrautarsamgöngur. Því er flugstöðin í Reykjavík ígildi aðaljárnbrautarstöðvar eins og eru í flestum borgum sem við þekkjum. Þær eru í miðborgum en ekki upp á heiðum. Efla þarf því innanlandsflugið til að minnka umferð á vegum(líka strandsiglingar). Það verður ekki gert með flutningi þess suður í Keflavík.
    Flutningur vallarins innan Reykjavíkursvæðisins er ekki annað en stórfelld sóun á fé og eyðilegging á náttúru og umhverfi. Er ekki t.d búið að malbika hátt í 50% af öllu svæðinu?Viljum við meira bik?
    Og hvað er svo vitað um þróun flugvéla og lestarkerfa eftir 20-50 ár.

    Flest rök fyrir því að hreyfa ekki við vellinum hafa komið fram í grein Hilmars ásamt ummælum Elínar, Örnu og Árna, sem ég ætla ekki að tíunda. Við þurfum bara að fá alvöru flugstöð hið fyrsta.

    Það er hægt að byggja nóg í kringum völlin eins og hann er. Ekki eru íbúar í Skerjafirði óánægðir með hann þannig að nálægð byggðar þarf ekki að vera vandamál.
    Hafa menn t.d. upplifað London City Airport sem liggur í viðskiptahverfinu í SA London. Sá völlur svínvirkar.

    Þétting byggðar hefur ekkert með Vatnsmýri að gera, en fyrst minnst er á það hugtak sem misnotað var til að eyðileggja gamla byggð í borginni, er rétt í lokin að minna á að slíkt á ekki að koma niður á þeirri byggð sem fyrir er. Hætta er á að það sé í vændum.

    Þétting byggðar merkir, að byggja á auðum svæðum sem nóg er af á höfuðborgarsvæðinu, eða byggja við eða innan um núverandi byggð í sátt við hana.

  • Guðmundur Kristján Jónsson

    Ég er þeirrar skoðunar að þegar (og ef) að því kemur, þá sé nærtækast að flytja flugvöllinn til Keflavíkur og stórefla síðan samgöngur milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur. Það myndi vissulega kosta stórfé en það gerir nýr flugvöllur á Hólmsheiði svo sannarlega líka. Hraðlest þarf ekki að vera svo fjarlægur draumur.

    Ég hef einnig of leitt hugann að því að ef að lestarsamgöngum yrði komið á til Keflavíkurflugvallar þá gætu opnast forsendur fyrir því að flytja fyrirhuguð áform um hátæknisjúkrahús þangað og jafnvel koma upp einhversskonar læknanema-kampus á svæðinu. Þá væru einnig áhyggjur fólks af sjúkraflugi leystar.

    Annars tek ég undir með Birki hér að ofan. Það má þétta byggð víða í Reykjavík áður en við þurfum að leggja Vatnsmýrina undir.

  • Jón Guðmundsson

    Er þetta ekki lúxusvandi að hafa áhyggjur af rekstri flugvallar í miðborginni? Við eigum nóg af flugvöllum og nýr völlur á Hólmsheiði hljómar sem ofmettun.
    Patterson flugvöllur við Njarðvík liggur til dæmis ónotaður, innanlandflugstöð mætti reka þar samhliða Keflavíkurflugvelli. Aksturstími frá Njarðvík til Hafnafjarðar/Garðabæjar er svipaður og frá Garðabæ vestur á Þorragötu. Vatnsmýrin þarf ekki að breytast í villt byggingakrana Klondike þótt völlurinn fari. Mannvirki og flugskýli má nýta undir sprota og hátæknifyrirtæki tengd háskólunum. Uppbygging á 102 Reykjavík í Vatnsmýrinni gæti þannig orðið á forsendum nýsköpunar og nýrra tækifæra innan markaðs skipulagsramma.
    Við þurfum að taka ákvarðanir og setja okkur skýr skipulagsmarkmið hvað varðar Vatnsmýrina. Hugmyndin um að þrengja hægt og rólega að vellinum getur reynst dýrkeypt. Dýrmætt land og tækifæri gætu farið forgörðum, niðurstaðan gæti orðið sundurlaus bútasaumur. Tilviljanir mega ekki ráða ferðinni.

  • Birkir Ingibjartsson

    Nú er ég nýlega fluttur erlendis, nánar tiltekið til Stokkhólms, þar sem ég hygg á frekara nám í arkitektúr. Áður en ég fór út var ég spurður hvenær ég kæmi svo aftur heim og svaraði ég þá þegar flugvöllurinn fer. Ég hef reyndar áhyggjur af því að þá yrði ég orðinn heldur rótgróinn hér úti ef ég biði svo lengi.

    Ég hef verið nokkuð eldheitur í afstöðu minni gegn flugvellinum og viljað hann burt sem fyrst. Eftir því sem ég hugsa þetta meira hef ég sífellt minni áhyggjur af því að hann fari ekki en á sama tíma efast ég um að við þurfum að flýta okkur svo mikið. Það er nægt svæði í kringum flugvöllinn sem hægt er að byggja á áður en hann fer að öllu leyti. Í kringum Hlíðarenda, við Öskjuhlíðina, í Skerjagarðinum (sbr. fréttir dagsins), í nágrenni við HÍ og ÍE, svokölluðum vísindagörðum. Það er hægt að byrja á því að byggja á þessum svæðum og þjarma þannig hægt og rólega að flugvellinum. Þjarma er hér engin hótun notabene. Þessi svæði ættu að vera nógu stór til að fullnægja þörfinni fyrir nýtt byggingarland á þessu svæði á að giska næstu 10-20 árin ef við viljum. Held ég.

    Þetta er auðvitað ekki jafn spennandi framtíðarsýn og sú sem vinningstillagan ber með sér þar sem allt í einu birtist bara borg í Vatnsmýrinni í einum vettvangi. Það er líka ekkert nema tálsýn. Vatnsmýrin á að byggjast upp hægt og rólega á sýnum eigin forsendum og þess samfélags sem þar lifir. Ég vona að það gerist á nokkrum áratugum, jafnvel öld. Ef ekki verður 102 Reykjavík jafn líflaust og einsleitt og 201 Kópavogur. Ég kem þaðan btw. Það breytir því ekki það þarf að vera heildarskipulag fyrir svæðið. Rétt eins og það ætti að vera heildarskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið allt.

    Það eina sem þarf er ákvörðun og tímasetning og þá er hægt að byrja. Frá hendi borgarinnar er þetta skýrt, 2016 á að loka fyrstu flugbrautinni, um það er almenn sátt allavega í borgarstjórn.

    Ég vil flugvöllinn burt en hvort 2016 sé ekki fullsnemmt er spurning…

    • Birkir Ingibjartsson

      Byrjum að byggja strax í dag og svo flugvöllurinn þegar hann vill fara…

    • Guðmundur Ólafsson

      Þetta er gulkorn dagsins og mikið er ég sammála:

      „Ég vona að það gerist á nokkrum áratugum, jafnvel öld. Ef ekki verður 102 Reykjavík jafn líflaust og einsleitt og 201 Kópavogur“.

      Við viljum ekki stóru groddalausnirnar samanber Kárahnjúka, Landspítala og vinningstillögu skotanna í Vatnsmýri

    • Um það leiti sem samkeppni um Vatnsmýri var auglýst sagðist Egill Helgason ekki treysta arkitektum til þess að hanna í einni hendingu svona stórt svæði. Ætli þetta sé ekki rétt hjá honum og Birki? Byggjum upp á forsendum mýrarinnar og borgarinnar. Hendum skotunum aftur til síns heima.

  • Magnús Orri

    Hefur einhver labbað um þetta svæði sem talað er um að nota undir flugvöll? Það er hvorki slétt né lárétt (ekki einu sinni nálægt því) og það útheimtir alveg óheyrilega jarðvinnu að leggja flugbrautir með öryggissvæðum. Að ógleymdum flugstöð, bílastæðum, vegum, flutningi ýmissa veitukerfa/virkja svo fátt eitt sé nefnt.

  • Sverrir Bollason: Veðurfar fer sífellt skánandi vegna hlýnunar jarðar svo kannski er Hólmsheiðin ekki afleitur kostur veðurfarslega séð. En hún hlýtur að vera alveg óviðunandi kostur út frá umhverfissjónarmiðum (hvað þá út frá kostnaðarsjónarmiðum). Ég hef enga trú á þessu Hólmsheiðardæmi.

    Hilmar Þór: Sennilega er þetta rétt hjá þér, að Keflavíkurflugvöllur verði þrautalendingin eftir eitthvað 10 eða 20 eða 50 ár. En sú lausn kallar á hraðvirkar lestarsamgöngur frá flugvellinum til höfuðborgarinar. En eigum við að bíða með að pæla í því miljarðadæmi í 20 eða 50 ár? Ég myndi segja nei. Ég myndi segja að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ættu að snúa sér að því eigi síðar en núna að leggja grunn að hraðvirkri lest í gegnum svæðið. Áður en það verður orðið alltof flókið dæmi sökum annarrar uppbyggingar og framkvæmda..

    En ég held að það sé engin heil hugsun í gangi hérna á höfuðborgarsvæðinu. Við sitjum einlægt uppi með einhverja smákónga sem geta ekkii hugsað út fyrir sinn belg eða út fyrir sitt kjörtímabil.

    • „Veðurfar fer sífellt skánandi vegna hlýnunar jarðar“
      Á hvaða veg fer það skánandi? Það að það sé hægt að sitja loksins úti við og sötra kaffi niðrí miðbæ þýðir ekki að veðurskilyrði fyrir flug á Hólmsheiði fari batnandi.

  • Birgir Hauksson

    Það eru peningamenn, braskarar og verktakar sem sjá Vatnsmýrina sömu augum og „fé án hirðis“
    Veit ekki um marga borgarbúa sem agnúast að viti og elju útí flugvöllinn okkar.

    Hann er fínn þar sem hann er.

  • Birgir Hauksson

    Það eru peningamenn, braskarar og verktakar sem sjá Vatnsmýrina sömu augum og „fé án hirðis“
    Veit ekki um marga borgarbúa sem agnúast að viti og elju útí flugvöllinn okkar.
    Hann er fínn þar sem hann er.

  • Sverrir Bollason

    Ég held að Hilmar lesi hér of mikið í orðalagið „viðunandi“. Einu upplýsingarnar sem hafa raunverulega komið fram um nýtt flugvallarstæði eru bráðabirgðaniðurstöður veðurkönnunar sem Veðurstofa Íslands hefur unnið fyrir borgaryfirvöld. Þar kemur fram að nýtingarstuðull hugsanlegs flugvallarstæðis á Hólmsheiði sé lægri en á Reykjavíkurflugvelli en vel yfir þeim mörkum sem talin eru góð. Nýtingarstuðullinn er reiknaður skv. þar til gerðu reiknilíkani ICAO. Annað er nú ekki kannað að sinni.
    Enn vantar þó lengri mælingar á nokkrum þáttum og því verður vonandi haldið áfram svo ekkert sé útilokað.

  • Hvað mælir gegn því að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur?

    Og af hverju eru menn ekki alvarlega að íhuga lest milli Leifsstöðvar og Reykjavíkur? Er það út af því að bæjarfélögin eru svo mörg að það séu engar líkur á því að menn geti sameinast um svona framkvæmd?

    • Hilmar Þór

      Anna R.

      Mér sýnist nánast tveir kostir vera í stöðunni. Annar er að halda flugvellinum í Vatnsmýrinni og hinn að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur eins og þú nefnir. Síðari kosturinn verður sennilega lendingin þegar fram líða stundir. En það er ekkert að fara að gerast næstu 20-50 árin eða svo og fyrir því liggja margvíslegar ástæður sem margoft hafa komið fram.

      Þess vegna á að gera ráð fyrir því í skipulagi að samgöngur í lofti við höfuðpborgarsvæðið veði um Vatnsmýri næstu áratugina.

      Þegar svo flugvöllurinn fer úr mýrinni þarf að finna henni hlutverk.

      Besta hugmyndin sem ég hef heyrt fram að þessu er komin frá Steinunni Sigurðardóttur fatahönnuði, sem lagði til í ræðu á fjölmennum fundi fyrir nokkrum árum að mýrin yrði notuð sem votlendi þar sem mófuglar og endur hefðu friðland. Restin yrði svo fólkvangur á borð við Central Park í NY.

      Allavega er ég þeirrar skoðunar að okkur vanti ekki byggingaland á komandi áratugum.

      Ef við hefðum í hendi fjármagn til þess að byggja nýjan flugvöll væri nær að nota það til þess að rífa HR og byggja hann aftur á stað sem hæfir slíkri byggingu.

  • Kristján

    Sem umræða er flugvallarmálið athyglisvert, því að það hefur verið rætt árum saman, mikið og oft, en samt virðist ekkert hafa haggast í því. Umræðan er enn á sömu forsendum, sömu rök tínd til með og á móti.

    Í hvert sinn sem þessi umræða hefst er hún því fyrirsjáanleg og maður veit nokkurnvegin hverjir eru með og hverjir á móti og hver helstu rök hinna „venjulegu þátttakenda“ eru. Maður veit líka að umræðan mun lognast útaf og liggja niðri um hríð og hefjast svo á ný, alveg eins og síðast.

    Spurning með að fara í greiningu á því hvort þetta er árstíðarbundin umræða eða hvað það er sem kemur henni jafnan af stað, hversu lengi hún stendur að jafnaði og hvort hún er enn (hvað varðar rök með og á móti) á nákvæmlega sömu forsendum og hún var fyrir t.d. 20 árum.

    Einnig væri forvitnilegt að heyra hvort þátttakendur líta svo á að (a) einungis sé um að ræða „retoríska æfingu“ eða hvort þeir telja að (b) umræðan hafi áhrif á hinn áþreifanlega raunveruleika (þ.e. eiginlega staðsetningu flugvallarins).

    Sjálfur er ég í hópi (a).

  • Þessi flugvallarumræða er á villigötum. Vatnsmýrarflugvöllurinn er ekkert að fara næstu áratugi. Til þess standa engin efni.

  • Magnús Jónsson

    Er hægt að reiða sig á stjórnmálamenn?

    Kárahnúkar
    Landspítalinn
    Reykjavíkurflugvöllur

    Allt fyrirséð skipulagsslys!!

  • Bjarni Kristinsson

    Fyrsta skref. Það þarf að sameina öll sveitafélög á höfuðborgarsvæðinu.

    Stoppa þessa smákóngana alla sem eru ekki að vinna að hagsmunum borgaranna, heldur eru bara að skaffa sér og sínum (verktökum) verkefni. (er að tala um Gunnar Birgis ofl…).

    Með sameiningu myndum við (íbúar sveitafélaganna) spara fullt, fullt af pening. Þó það væri ekki nema bara eins og að spara okkur 7x bæjarstjóralaun. Við myndum síður enda uppi með fjölmörg glæný hverfi sem kannski aldrei verða neitt (Úlfarsárdal og Urriðaholt… (bara ástandið 2009 -… )) og tilheyrandi offramboð af óspennandi húsakosti (hvítur x (Kassi kassi kassi kassi kassi)

    Stoppa þessa samkeppni milli sveitarfélaga á svæðinu. Bjánalegt að tala um samkeppni milli Kópavogs og Reykjavíkur. Á meðan hin raunverulega samkeppni um íbúa er á milli Reykjavíkur og borga í útlöndum. (Hvað hafa margir flutt bara til Stavanger o.s.frv.)

    Borginn vill að sjálfsögðu ekki missa flugvöllin og tekjur og atvinnu frá honum úr sinni umsjá. Ef Höfuðborgarsvæðið væri orðið eitt sveitarfélag þá kæmu til greina fleiri staðir fyrir flugvöll heldur en Hólmsheiði.

    Nefndi Ómar Ragnarsson ekki einhvertíman. Álftanes sem ákjónsanlegan stað fyrir flugvöll. Hlýtur að vera ódýrara en að byggja upp á Lönguskerjum og væntanlega eitthvað minni sjógangur en úti á sjó. Þar er hinsvegar mun snjóléttara en uppi á Hólmsheiði. Þetta friðland í kringum forsetann, sem þarna er, getur ekki verið svo merkilegt (ekki að ég viti neitt um það). og eflaust eru nokkrir fleiri staðir sem koma til greina.

    • Voru ekki allir búnir að lesa þessa grein ? :

      http://www.dv.is/blogg/adsendar-greinar/2013/3/8/arna-mathiesen-samkeppni-eda-samvinna/

      ég sendi fyrirspurn til flokkanna á spyr.is

      Þeir veigra sér við því að spyrja flokkana um afstöðu varðandi sameiningu sveitarfélaganna fyrir alþingiskosningarnar, vegna þess að þetta er ekki nógu mikið rætt á opinberum vettvangi. Ég bið fleiri að taka upp þetta mikilvæga mál fyrir kosningar. Sveitarfélögin hafa miklu sterkari hvata til að vinna EKKI saman enn að vinna saman. Sameiningu verður að ákveða á Alþingi.

    • Ég tek heilshugar undir hugmyndir um sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, hún er löngu tímabær.

      Mér þykir hugmyndir um flugvöll á Álftanesi áhugaverðar.

      Nú hefur verið ákveðið að byggja brú (reyndar göngubrú) frá suðurenda Reykjavíkurflugvallar yfir í Kópavog. Hægt væri að uppfæra í brú undir almenna bílaumferð og gera svo aðra brú frá Kópavogi yfir á Álftanes. Svo mætti nýta norður-suður flugbrautina undir akveg frá miðbæ Reykjavíkur út á brúna yfir í Kópavog.

      Með þessu yrði vegalengd frá flugvellinum inn í miðborg RVK og á Landsspítalann tiltölulega stutt, allavega styttri og mun fljótlegri en frá Hólmsheiði eða Keflavík.

  • Spurning líka hvers virði græni trefillinn er borginni?
    Fyrir utan vatnið. Er það alveg á hreinu að brunnarnir geti ekki mengast frá flugvelli þarna þegar þarf að spúla með afísingarefnum t.d?

  • Torfi Hjartarson

    Fyrir utan öll rökin gegn því að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni þá er kostnaðurinn nær örugglega vanmetinn. Það þyrfti hreinlega að reisa þarna nýjan bæjarhluta með allri sinni grunngerð og mannvirkjum opinberra aðila og einkaaðila. Vissulega spennandi verkefni og atvinnuskapandi fyrir byggingariðnaðinn en algjört óráð. Af hverju byggja menn ekki frekar í hlíðunum í kringum tankana í Öskjuhlíð í stað botnlausrar mýri ef það er svona mikill skortur á landrými í miðborginn?

    • Sigurður Guðmundsson

      Rétt, rökrétt og róttækt Torfi Hjartarson, en ekki raunhæft.

  • Árni Ólafsson

    Ég er sammála Hilmari um að réttast væri að aðhafast ekkert – því ekkert liggur á.
    1 Borgaryfirvöldum hefur hvergi tekist að byggja upp nýja byggð með þá eiginleika sem Vatnsmýrarbyggðin á að hafa. Bara þess vegna skulum við geyma (varðveita) flugvallarsvæðið til framtíðar og ekki taka það undir borgarbyggð fyrr en borgaryfirvöld (og Íslendingar almennt) ráða við (og hafa af því reynslu) að skipuleggja og byggja fallega, þétta, vistvæna, blandaða, fjölbreytta og samfellda borg.

    2 Verkefni næstu áratuga er að bæta það borgarumhverfi, sem þegar er byggt. Byggð í Vatnsmýrinni færir áherslur frá því verkefni. Byggð í Vatnsmýri bætir ekki það umhverfi sem fyrir er.

    3 Fréttir af Hólmsheiðarskýrslunni eru lítið spennandi. Keflavík væntanlega skárri kostur a.m.k. gagnvart fjárfestingum. Þó ber að taka mið af fjarlægðinni – sem jafnvel með nýtískulegum hraðlestum verður ekki göldruð í burtu – auk þess sem slíkar lestir eru langt frá því ókeypis. Lestarferðir munu væntanlega hækka ferðakostnað flugfarþega um a.m.k. 50%.

    4 Reykjavík hefur skyldum að gegna við allt landið. Hugsanlegt er að létta þeim skyldum af borgarbúum. Ég tel eðlilegt að höfuðborgarhlutverkið fylgi samgöngumiðjunni. Alþingi, ríkisstjórn og ráðuneyti á Beisinn. Þjóðleikhúsið í Andrews Theater, Landspítala-Háskólasjúkrahús í Keflavík o.s.frv. Og innanlandsflugið til Keflavíkur – og málið dautt 

    5 Borgarbúar gætu haft gagn af því að kynna sér þá fjölmögu flugvelli sem sem eru í nágrenni miðborga. Hér er eitt dæmi af mörgum:
    http://www.facebook.com/photo.php?fbid=483964011660863&set=a.483240461733218.108902.480740595316538&type=1&theater

    Í tilefni páfakjörs í kvöld minnist ég fystu ferðarinnar til Rómar þegar flogið var í lágflugi yfir Péturskirkjuna í aðfluginu.

  • Kristján

    Var það ekki eftir þessa atkvæðagreiðslu sem Ingibjörg Sólrún sagðist líta á niðurstöðna sem „siðferðislega“ bindandi – en það vissi aldrei neinn hvað það merkti.

    Það vill gjarnan „gleymast“ að kosningin var ógild vegna ónógrar þátttöku.

    • Ástvaldur Tryggvason

      Það er alrangt að kosningin hafi verið ógild. Hún var hins vegar ekki bindandi, sem er allt annar hlutur.

  • Ásgeir Baldursson

    Í raun er flugvöllur á Lönguskerjum eini valkosturinn sem myndi ekki hafa áhrif á notkun og þróun innanlandsflugs til verri vegar og sem myndi geta fullnægt öllum þeim notum sem núverandi flugvöllur í Vatnsmýri býður upp á.

    Lang hagkvæmasti kosturinn er þó að flytja flugið til Keflavíkur, en ljóst er að ýmsar flugleiðir innanlands myndu þá leggjast af. Auk þess sem sjúkraflug myndi ekki vera eins skilvirkt, nema þá við myndum byggja nýtt sjúkrahús fyrir sunnan Hafnarfjörð. Kannski væri bara best að gera það.

    • Sveinbjörn

      Læk!!!
      Það þarf nefnilega aðendurhugsa alla byggð á Íslandi verði flugvöllur í Vatnsmýri lagður af. Og vissulega er Landspítalinn hluti af þeirri vinnu.

    • Ásgeir metur það svo að ýmsar flugleiðir innanlands myndu leggjast af ef innanlandsflugið verður fært til Keflavíkur. Ekki er það nú líklegt ef áfangastaðir Flugfélags Íslands eru skoðaðir: Akureyri, Ísafjörður, Egilsstaðir, Vestmannaeyjar, Vopnafjörður, Grímsey og Þórshöfn á Langanesi.

    • Tek undir með Sveinbirni – LÆK!!

      Flugvöllurinn á Löngusker er einni valkosturinn og mjög góður valkostur. Með þeiri framkvæmd þá má tengja þann völl með framlengdri suðurgötu við Álftanes/Garðabæ, Hafnarfjörð og svo Kópavog.

      Til að takmarka ummál vallarins og flæmi þá mætti hanna flugvöllin sem flugmóðurskip með flugskemmur undir flugbrautinni og jafnvel þjónustu við farðþegaflug. Ekki lengur þörf að tippla yfir skafla og drullupolla á vellinum.

  • Í þessari ágætu grein hér að ofan eru færð sterk rök gegn flugvelli á Hólmsheiði. Fyrst og fremst veðurfarlegar ástæður en ekki síður hundruð milljarða tilkostnaður við gerð flugvallarins og tilheyrandi mannvirki, vegagerð, færslu á háspennulínum, spennistöð og hitaveitulögnum og er þá ekki allt upp talið.
    Þessi atriði ein og sér ættu að nægja borgarfulltrúum til þess að hverfa frá hugmyndinni í eitt skipti fyrir öll. Ef það er hins vegar eitthvert trúaratriði að flugvöllurinn hverfi úr Vatnsmýrinni er annar möguleiki fyrir hendi og ekki hefur verið nefndur hér en það er að færa innanlandsflugið til Keflavíkur.
    Miðað við þann þankagang borgarfulltrúa, að miðborg Reykjavíkur sé nafli alheimsins má gera ráð fyrir því, að fyrir farþega í innanlandsflugi væri akstur frá Hólmsflugvelli í naflann um 20 mínútur. Frá Keflavíkurflugvelli um 40 mínútur. Þessar mínútur sem þarna skilur á milli skipta engu máli fyrir hinn venjulega landsbyggðarmann sem á erindi til borgarinnar annað slagið. Mínúturnar skipta kannski máli fyrir örfáa forstjóra og alþingismenn en varla réttlætir það hundruð milljarða útgjöld og að tekin sé áhætta sem fylgir Hólmsheiðinni af veðurfarsástæðum.
    Þegar rætt er um hina ýmsu kosti tengjast rökin gegn Keflavík oft sjúkrafluginu en lausn á því liggur í augum uppi. Þótt innanlandsflugið hverfi úr Vatnsmýrinni er ekkert því til fyrirstöðu að halda einni braut opinni, hæfilegri til þess að þjónusta sjúkraflugið auk þess sem þyrlupallur hlýtur að fá sinn stað í því kraðaki sem stefnt er að á Landsspítalalóðinni.

  • Elín G. Gunnlaugsdóttir

    Ég vil koma hér með árettingu varðandi kosningarnar 2001 um Reykjavíkurflugvöll sem Björn og Helgi vísa í hér að ofan.

    Skv. heimildum þá ákvað Borgarráð að niðurstaðan yrði bindandi ef a.m.k. 3/4 hlutar eða 75% atkvæðisbærra manna í Rvík tækju þátt í kosningunni eða ef a.m.k. 50% atkvæðisbærra manna greiddu atkvæði á sama veg.
    Hvorugt þessar skilyrða var uppfyllt og því var umrædd kosning ógild og ómerkt!

    Reykjavíkurflugvöllur er ekki bara fyrir Reykvíkinga heldur fyrir alla landsbyggðina þ.e. ALLA Íslendinga. Kosningarnar þarna um árið þar sem einungis Reykvíkingar tóku þátt , voru því algjörlega fráleitar!!

    Ég vil líka koma því á framfæri að Reykjavíkurborg er búin að úthluta umræddu svæði, þar sem umræðan snýst um að hafa nýjan flugvöll á, til annars aðila næstu 20 árin og hefur sá aðili nú þegar byggt upp sína starfsemi

    Góð grein hjá þér, Hilmar eins og ávallt!

    • Helgi hallgrímsson

      Þrátt fyrir að kosningaþáttakan hafi ekki verið í samræmi við væntingar breytir það ekki þeirri staðreynd að einfaldur meirihluti kaus á þann veg að flugvöllurinn skyldi fara. Það er eðlilegt að einungis Reykvíkingar kjósi um skipulagsmál innan lögsögu Reykjavíkur. Hins vegar geta allir landsmenn gert kröfu um góðar flugsamgöngur til og frá höfuðborginni en það er ekki það sama og að gera kröfu um að völlurinn sé akkúrat í vatnsmýri og hvergi annarstaðar. Hólmsheiði er ágætis kostur.

    • Sigurður Guðmundsson

      Nei Helgi Hallgrímsson, Hólmsheiði er afleitur kostur. Rókstuddu þína skoðun.

  • Sveinbjörn

    Getur það verið að ríki og borg standi saman að þessu? Hvaða fólki dettur í hug að byggja fangelsi nánast á flugbrautarenda?

  • Helgi Hallgrímsson

    Það alvarlegasta í málinu er að samgönguyfirvöld dragi lappirnar með að finna flugvellinum nýjan stað þegar Reykjavíkurborg (sem fer með skipulagsvald í borginni) er búin að ákveða að völlurinn skuli úr vatnsmýri. Það sem gerir það ennþá alvarlegra er að sú ákvörðun var tekin í kjölfar lýðræðislegrar íbúakosningar.

  • Kristján

    Það er Reykjavíkurborg sem er búin að ákveða að völlurinn fari, en völlurinn er á forræði ríkisins, sem ætlar ekki að færa hann. Þannig að völlurinn er ekki á förum í raun og veru, bara í hugum nokkurra borgarfulltrúa.

  • Magnús Birgisson

    Líklega verða lóðir í Vatnsmýrinni einhverjar dýrustu lóðir sem um getur á Íslandi…fyrr og síðar. Lóðverðið þarf að standa undir kaupum á landinu af ríkinu, flutningi flugvallarins, gatnagerð og undirbúningi lóða og innviða, t.d. skóla (sbr. Úlfarsársdal), aðgerðir til vatnsverndar og síðast en ekki síst og oft gleymist að það þarf að keyra allt efni í burtu um langan veg því tippurinn er núna langt fyrir utan Reykjavík og síðan mikið efni til baka því það þarf að fylla uppí mjöööög djúpa grunna. Þarna mun enginn hafa efni á að búa nema efnafólk !!

    • Ástvaldur Tryggvason

      Ef ég man rétt þá á Reykjavíkurborg um 2/3 hluta landsins, þannig að kaup á því sem eftir stendur yrðu ekki mög íþyngjandi. Það er svo hlutverk ríkisins að færa flugvallarstarfsemina og bera kostnað af því.

    • Magnús Birgisson

      Ásvaldur. Þetta er ekki flókið. Í blöðunum í morgun er verkefnið kynnt þannig að sérstaklega er tekið fram að landið muni seljast dýrt. Það þýðir einfaldlega hátt lóðaverð og hátt lóðaverð þýðir hár byggingarkostnaður og hár byggingarkostnaður þýðir dýrar íbúðir. Um þetta þarf ekkert að efast…þetta er framlag Besta Flokksins og Samfylkingarinnar til húsnæðismála á höfuðborgarsvæðinu.

    • Ástvaldur Tryggvason

      Ég var nú bara að benda á að þessir tveir liðir sem þú nefnir koma ekki til með að hækka verðið. Annars er ekkert að því að lóðirnar verði seldar á markaðsvirði, þannig fá ríki og borg meira fyrir sinn snúð (og ekki veitir af). Ég skil ekki afhverju skattgreiðendur ættu að niðurgreiða lóðir á besta stað á landinu.

  • Björn Gunnlaugsson

    Það var kosning árið 2001 þar sem meirihluti þeirra sem greiddu atkvæði völdu að skipulag Reykjavíkurborgar myndi gera ráð fyrir brotthvarfi flugvallarins frá árinu 2016. Ef ég man rétt á fyrst að leggja af notkun N-S brautar en V-A brautin að leggjast af 2024.

    • Bara að árétta að þessi könnun/kosning sem alltaf er verið að vitna í var aldrei lögleg. Þetta er beint upp úr samþykktum borgarráðs á sínum tíma:

      „Borgarráð samþykkir að niðurstaða atkvæðagreiðslu um framtíðarnýtingu Vatnsmýrar og staðsetningu Reykjavíkurflugvallar 17. mars n.k. verði bindandi, ef a.m.k. ¾ hlutar atkvæðisbærra manna taka þátt í henni. Jafnframt samþykkir borgarráð að niðurstaðan verði bindandi, ef a.m.k. 50% atkvæðisbærra manna greiða atkvæði á sama veg.“

      Það er ekki hægt að neita því að þessi niðurstaða var aldrei bindandi þar sem einungis 37% kosningabærra manna tóku þátt í kosningunni.

      Til að bæta gráu ofan á svart þá munaði það innan við 400 atkvæðum á Já-i og Nei-i.

      Andrúmsloftið í þjóðfélaginu er allt annað í dag en þá og virðist mér sem að meðbyr með vellinum sé öllu meiri en þá.

  • Ólafur Jónsson

    Ert þú að segja að flugvöllurinn fari árið 2016??????

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn