Þriðjudagur 03.09.2019 - 11:04 - Rita ummæli

Flugvöllur í Vatnsmýrinni í heila öld

Ég hitti tvo kollega mína við þriðja mann í vikunni. Staðsetning flugvallarins í Vatnsmýrinni kom til umræðu ásamt skipulagsáætlunum þar.

Fljótlega var farið að tala um inngrip Breta í borgarskipulagið og hversu illa Reykjavíkurborg hefði farið út úr heimstyrjöldinni síðari þegar Bretar ákváðu staðsetningu Reykjavíkurflugvallar nánast í miðri borginni, sem ver auðvitað tóm vitleysa þó borgin hafi síðar byggst umhverfis flugvöllinn.

Ég leyfði mér að mótmæla þessu og sagði að flugvallastæðið hefði verið ákveðið af okkur Íslendingum meira en tveim áratugum áður en Bretar tóku sig til við að leggja flugvöllinn. Tveir áratugir er langur tími þegar hugsað er til þess að flug á Íslandi er einmitt í dag 100 ára gamalt og flugsagan í heild sinni aðeins 116 ára.

Þessu mótmæltu kollegar mínir kröftuglega og fengu sterkan stuðning frá þriðja manninum sem er verkfræðingur.

Þarna var um ofurefli að etja. Flökkusagan hafði djúpar rætur, vitnað var til ummæla margra og engu var haggað.

En lítum nú á staðreyndirnar.

Vorið 1919 fékk Knud Ziemsen, þá bæjarstjóri, frænda sinn, flugmanninn Rolf Ziemsen, til þess að kanna aðstæður fyrir samgöngur í lofti á Íslandi. Hann taldi Vatnsmýrina besta kostinn fyrir flugvöll í Reykjavík. Þeir töldu flugsamgöngur mikilvægar fyrir bæinn sem höfuðstað landsins. Í framhaldinu lagði bæjarstjórnin til 92.300 fermetra svæði, svonefnt Briemstún, undir flugvöll. Þá var kominn Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrina og hefur varið þar í heila öld.

Það var sem sagt bæjarstjórn sem útvegaði landið sem þá var tæpir 10 hektarar.

Um haustið (1919) kom svo til landsins flugvél af gerðinni AVRO 504. Flugvélin flaug þónokkuð. Mest útsýnisferðir. Fyrsti flugmaðurinn var Cecil Faber. Árið eftir tók vesturíslenskur flugmaður við starfi Fabers, hann hét Frank Fredrickson.

Árið 1928 var nýtt flugfélag stofnað að fumkvæði Alexanders Jóhannessonar prófessors. Það starfaði á Reykjavíkurflugvelli til 1931 þegar heimskreppan og fleira urðu því að falli.

Næstu árin var flugvöllurinn notaður af útlendingum. Aðallega hollenskum veðurathugunarmönnum. Þá hafið verið byggt þarna flugskýli og fl. vegna starfseminnar.

Árið 1937 teiknaði Gústaf E. Pálson bæjarverkfræðingur flugvöll í Vatnsmýrinni en ekkert varð úr framkvæmdum fyrr en 1940 þegar Bretar tóku til við að leggja flugvöllinn eftir eigin skipulagi.

Svona eru nú staðreyndirnar í mjög stuttu máli.

Allar þessar lífseigu flökkusögur um að Bretar hafi ekki spurt kóng né prest og tekið Vatnsmýrina og lagt undir flugvöll að okkur forspurðum eru hæpnar. Einkum vegna þess að bæjarstjórn Reykjavíkur tók sjálf ákvörðunina 21 ári áður öllum til heilla.

En svo oft er hægt að endurtaka flökkusögur að þær enda sem einskonar sannleikur í hugum fólks.

Ástæða er til þess að óska Íslendingum og sérstaklega höfuðborgarbúum til haminngu með flug á Íslandi í 100 ár.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn