Föstudagur 26.02.2010 - 13:28 - 13 ummæli

Form Follows Function

vitruvius_manuscriptlettlett

Yfirgnæfandi meirihluti nútíma arkitekta eru “funktionalistar”,  hvort sem þeim líkar það betur eða verr.

Þetta segi ég vegna þess að byggingarlist er nytjalist.

Ef arkitektar kynna sér bækurnar ”Kindergarten Chats” eða ”Autobiography of an Idea” eftir Louis Sullivan (1856-1924), þar sem hin fleyga setning “ Form follows Function” kom fyrst fram, átta þeir sig strax á því að þeir eru funktionalistar.

Þeir sem kynna sér hina rúmlega 2000 ára “10 bækur um arkitektúr” eftir Vitruvius (80-70 fK- 15 fK)  eða ”Townscape” eftir Gordon Cullen, (1914-1994), “Experiencing architecture” eftir Steen Eiler Rasmussen, (1898-1990) eða ”Bogen om grimt og smukt” eftir Odd Brochmann (1909-1992) sjá að funktionalisminn er góður og óumflýjanlegur.

Alvar Aalto var funktionalisti,  Gropius, Le Corbusier,  Sigurður Guðmundsson og Gunnlaugur Halldórsson voru allir funktionalistar,  Arne Jacobsen og Gunnar Asplund voru líka í þeirra hópi.  Þeir skiluðu góðum arkitektúr.  Þeir skiluðu af sér nytjalist sem stendur tímans tönn.

Tilefni þessarar færslu er,  að ég var að lesa,  einu sinni enn,  bækur Harðar Ágústssonar um Íslenska byggingararfleifð.  Þar er vitnað í Sigurð Guðmundsson (1885-1958) sem var mikilvirkur arkitekt á fyrri hluta síðustu aldar. Tilvitnunin sem fjallar um “hinn nýja stíl” sýnist mér vera frá því um miðjan fjórða áratug síðustu aldar, fyrir brátt 80 árum.

Sigurður sagði: “…hinn nýi stíll gerir fyrst og fremst þær kröfur að húsin séu svo nothæf sem framast má verða, og að öll gerð þeirra og allt form svari til þess hlutverks sem þeim er ætlað. (….) Ennfremur að hin ytri ásýnd segi sannleikann, en sé ekki dulargerfi til þess að leyna sannleikanum”

Þetta hefur verið grundvallaratriði byggingarlistarinnar um áratugaskeið og því er óskiljanlegt að arkitektar hafi enn þá ímynd meðal almennings að þeir séu sífellt að reisa sér minnisvarða. Jafnvel nánustu samstarfsmenn arkitekta, verkfræðingarnir,  átta sig ekki á þessu og taka sér á hendur að vera ábyrgðarmenn á verkum arkitektanna, sem mestu valda þó um niðurstöðu verksins þegar upp er staðið og tímar líða.

Ég verð mikið var við, að þeir sem tjá sig um funktionalismann kenna honum um flest það sem illa fer í byggingarlistinni.

Menn verða að  átta sig á því að það voru rónarnir sem komu óorði á vínið og það er ekki víninu að kenna að til eru rónar.

Lélegu arkitektarnir og verkfræðingarnir komu óorði á funktionalismann, það er ekki stefnunni að kenna.

P.S. Bækur Harðar Ágústssonar um Íslenska byggingararfleifð (I og II) eru til sölu á bókamarkaði í Perlunni núna á góðum prís.

1213809820_SPLASH[1]

Myndir af Villa Savoye eftir Le Corbusier byggð úr LEGO kubbum og opna úr bók Vitruvíusar, “10 bækur um arkitektúr” sem skrifuð var fyrir Krists burð fylgja færslunn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Ólafur Gísli Reynisson

    Gæti verið að arkitektar hafi enn þessa ímynd af því byggingar sumra þeirra falla ekki að umhverfi sínu? Er byggingalist eins og tónlist og tónverk byggingalistaverks allt nánasta umhverfið? Er áheyrilegt að skeyta klassík, pönki, þungarokki, diskó og rappi saman? Eða er þessi ímynd kanski bara vegna þess að listaverk arkitektsins er jafn sýnilegt almenningi og jafn lengi og minnisvarðar?

  • Stefán Benediktsson

    Það hefur verið sagt að það séu ekki svörin sem máli skipta heldur spurningarnar. Hilmar spyr um muninn á modernisma og funkis. Ég hef mikið velt þessu fyrir mér en þykist ekki hafa „svarið“. 1. tilraun. Til að byrja með er hugtakið modernismi óþægilegt því hvað tekur við að því loknu? Corb var modernisti sem kemur skýrt fram í málverkum hans (kúbismi) og yfirfærist á byggingarnar sem eru ljósárum nútímalegri en bílar þess tíma. Ekki er eins augljóst að Grópíus sé modernisti því hann var miklu trúrri Form follows function hugsuninni en Corb og ætti því líklega að flokkast sem fúnkisti. Þannig séð eru Vellirnir, Melarnir, Norðurmýrin og Hlíðarnar fúnkis en Heilsuverndarstöðin etv. módernískari en margt líkt og Hringbrautarblokkirnar og Lönguhlíðarblokkin. Íslendingar virðast hafa hallast að Adolf Loos í þeim skilningi að hann sá húsið sem stein sem holaður var að innan og út en Corb sá húsið sem hulu utan um starfsemi líkt og Heilsuverndarstöðin. Wright er líklega meiri módernisti en fúnkisti ef sú hugsun mín er rétt að fúnkismi setji meiri bönd á formleiki en modernismi. Ef fúnkismi kallar á meiri tryggð við efnið en módernismi þá er Mies módernisti því hann lagar efnið að „sínum“ þörfum sem skapanda.

  • Hilmar Þór

    Það er alveg rétt að sennilega hefur enginn íslenskur arkitekt lesið 10 bækur Vitruvíusar. En flestir þekkja tilvitnanir í bækurnar eins og þá sem segir að maður byggir ekki á sama hátt á Íberiuskaga og í Egyptalandi vegna þess að veðurfar er ekki það sama á þessum tveim stöðum, hefðir aðrar og fleira er tínt til.

    Það er líka hárrétt að maður ruglar saman hugmyndafræðini og stílbragði funktionalismans. Stílbragðið á sennilega uppruna í Bauhaus meðan hugmyndafræðin varð til í Chicago og var alls ekki stílbragð.

    Ég tek undir þetta :“Afrek okkar kynslóðar er e.t.v. aðeins ámátleg nálgun við formhugsun þeirra”. Ég held að þær byggingar sem byggðar hafa verið undanfarin ár séu ekki funkis heldur frekar moderniskar ef hægt er að tala svoleiðis.

    Ég vil kasta fram spurningunni hver sé munurinn á modernisma og funktionalisma. Ég hef ekki áttað mig á honum en skynja þar stílbragð v.s. hugmyndafræði eins og Árni nefnir.

    Ég þekki ekki heilsuverndarstöðina við Barónsstíg en ég veit að Einar Sveinsson var upptekinn af funktionalismanum og byggingin er örugglega funkis samkvæmt skilgreiningu Sullivans. Hitt er annað að hún hefur ekki til að bera “stílbragðið” sem margir kenna við funktionalismann.

  • stefán benediktsson

    Form follows function í Heilsuverndarstöðinni þannig að mas segja sem barn gat maður áttað sig á því hvar klósettin voru í húsinu með því að horfa á það. Og innbyrðis vægi herbergja augljóst líka. Ég átta mig ekki á því hvernig bíll Palladios hefði litið út en það er til mynd af nýjum bíl fyrir framan hús eftir Gropius eða Corbusier að mig minnir og hann (bíllinn) lítur út eins og hestvagn fyrir framan geimskip.

  • EiríkurJ

    Hvernig hefði veröldin okkar litið út ef Vitruvius og Palladio hefðu lagt línurnar fyrir hönnun á bílunum, skipunum og flugvélunum okkar?

  • Árni Ólafsson

    Vitruvius er torræður. Ekki til á íslensku. Vænti þess að enginn hafi lesið hann. Palladio með sínar fjórar bækur um arkitektúr (vissulega færri en 10 hjá Vitrúvíusi) er þó nær okkar menningarheimi (hluti endurreisnarinnar). E.t.v. hafa fleiri stautað í gegn um hann (?).

    Staðreyndin er sú að þorri íslenskra arkitekta nam sín fræði í nafni módernismans í skólum þar sem búið var að henda klassískum fræðum fyrir róða. Bestu verk íslenskra fúnksjónalista voru unnin af mönnum sem námu klassíska byggingarlist en lentu inni í nýjum hugsanagangi í umróti þriðja og fjórða áratugar síðustu aldar (sbr. Gropius, Le Corbusier, Sigurð Guðmundsson og Gunnlaug Halldórsson , Arne Jacobsen og Gunnar Asplund – svo vitnað sé í upphafsorðin).

    Afrek okkar kynslóðar er e.t.v. aðeins ámátleg nálgun við formhugsun þeirra. Innihaldslaus (sjá Vallahverfið í Hafnarfirði t.d.). Er það nytjastefna, fúnksjónalismi eða aulaháttur? Hvað táknar formleysan sem rís í höfninni í Reykjavík – tónlistarhúsið? Hátindur íslenskrar byggingarlistar? Er hótelbyggingin í Aðalstræti, sem fjallað var um hér síðast, uppgjöf eða upphrópun/yfirlýsing?

  • Jóhannes

    Það er því miður ekki alveg nægjanlega vel skilgreint hvað er átt við með funksjónalisma hér á landi – margur virðist nota það hugtak um allt sem var gert og hugsað í byggingarlist í um 50 ár – ef ekki lengur – en málið er að sjálfsögðu ekki alveg svo einfalt.
    Scharoun er til að mynda alveg sérstaklega áhugavert viðfangsefni – fáum líkur og ekki sérlega skúffuvænn, en það á nú við um margan meistarann.
    Ekki versta hugmyndin kannski að sundurgreina það tímabil, fúnksjónalismann, örlítið betur hér á þessu góða bloggi- menn hafa jú betri tíma til að hugsa um teoríuna nú en oft áður.

  • Leiðrétting: …sbr. td. Fílharmónían í Berlín og fleiri verk þýskra expressionista um og upp úr þriðja áratug 20. aldarinnar.

  • @stefán benediktsson
    Eigum við kannski að segja „expressionískur funktionalismi“?
    Heilsuverndarstöðin minnir mig á verk Scharoun, sbr. óperuhúsið sem hann teiknaði.

  • stefán benediktsson

    Er þessa dagana að skoða heilsuverndarstöðina og áttaði mig á því að hún er ekta fúnkis, merkilegt nokk.

  • EiríkurJ

    Er ekki ein af ástæðum þess að „að arkitektar hafi enn þá ímynd meðal almennings að þeir séu sífellt að reisa sér minnisvarða“ sú að þeir ríghalda sjálfir í þá hugmynd að hönnun byggingarinnar sé alltaf komin frá einum höfundi, rétt eins og listamaður sem hafi málað málverk. Ef arkitektar slökuðu til í þessu efni og lofuðu fleirum að taka þátt í hönnuninni held ég að ímynd arkitektanna mundi lagast.

  • Árni Ólafsson

    Hin praktísku not hafa alltaf mótað arkitektúrinn. Skrautið, sem varð svo yfirgengilegt að engu tali tekur t.d. í barrokkinu, hafði í sjálfu sér ákveðna „fúnksjón”. Upplifun og skynjun er „fúnksjón”.

    Fúnksjónalismi sem hugmyndafræði er eitt – fúnksjónalismi sem stílbragð í arkitektúr er annað. Stílbragð sem íslenskir arkitektar og húsateiknarar hafa étið yfir sig af undanfarin ár.

    Fúnksjónalísk hugsun í borgarskipulagi, þ.e. nútímaborgarskipulag, hafði hins vegar enn afdrifaríkari breytingar í för með sér en húsatískan. Og ekki jafn jákvæðar þótt allt virtist rökrétt og nauðsynlegt á sínum tíma. En að öllu gamni slepptu fylgir hér ágæt greining:
    http://www.teikna.is/Ymislegt/pity.jpg

  • Ég hef lesið bæði “Om at opleve arkitektur” og “Kindergarten Chats” og það er sammerkt þeim báðum að maður lærir af þeim að lesa hús.

    Í gömlu húsunum byggðist lesturinn á stílbrögðum, Edwardian, Gothic, Roman, Neoclassic o.s.frv. Allt var það spurning um byggingarlistasögu. Nokkurskonar utanbókarlærdóm. Ekki sérlega merkilegt og ætlað límheilum.

    En bækurnar tvær kenndu mér að lesa hús með öðrum hætti. Form húsanna töluðu til manns með öðrum hætti en áður. Maður les af forminu hvar húsin eru byggð, Hvort það hafi verið orkukreppa þegar þau voru byggð. Hvort það hafi verið skortur á stáli eða timbri á byggingartímanum. Hvort konurnar ynnu utan heimilis og fl. Allt þetta getur maður lesið af formi húsa funktionalistanna. Ég mæli með þessum bókum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn