Þriðjudagur 21.09.2010 - 21:17 - 6 ummæli

Fræðsla í byggingarlist

melaskoli[1]

Í menningarstefnu Menntamálaráðuneytisins í mannvirkjagerð er fjallað nokkuð um menntun í arkitektúr, skipulagi og staðarprýði. Það var tímabært að setja markmið í þessum efnum.

Ég man þegar ég gekk í skóla lærði maður ýmislegt smálegt um ýmsar byggingar og borgir úti í hinum stóra heimi. Píramídana í Egyptalandi, Akropolis í Aþenu og þ.h.  Kennslan byggðist ekki á skilningi á umfjöllunarefninu heldur frekar utanbókarlærdómi.  Þetta hafði lítið breyst þegar börnin mín gengu í grunnskóla áratugum seinna.

Við vorum aldrei,  svo nærtækt dæmi sé tekið,  upplýst um hvernig Melaskólinn er hugsaður eða hvaða markmið voru höfð að leiðarljósi þegar Hagarnir voru skipulagðir.  Hvernig  háttað var dreifingu á þjónustu,  eða hvernig gatnakerfi og húsaskipan var hugsuð.

Við lærðum auðvitað Gunnarshólma utanað, hugsunarlaust og gagnrýnislaust og án nokkurs skilnings,  en ekkert um umhverfið sem mótaði okkar daglegu störf.  Við erum jú ”bókmenntaþjóð”

Nú stendur þetta allt til bóta því Menntamálaráðuneytið hefur sett á blað hugmyndir sínar um fræðslu í skipulagi, arkitektúr og staðarprýði í grunn- og framhaldsskólum.

Ég leyfi mér að birta hér stuttann kafla sem fjallar um fræðslu og er að finna í stefnunni á bls. 31.

”Fræðsla

Ein áhrifaríkasta leiðin til að auka áhuga á góðri hönnun er að veita innsýn í eðli hennar og möguleika. Gera verður umræðu um skipulag, byggingarlist og hönnun mannvirkja skiljanlega fyrir almenning. Þegar upp er staðið er það almenningur sem nýtur þeirra verka sem unnin eru. Samfara auknum kröfum borgaranna um þátttöku í ákvörðunum um mikilvæg mál sem snerta þeirra daglega líf og umhverfi er nauðsynlegt að huga að uppfræðslu almennings á sviði byggingarlistar og skipulags. Hið opinbera móti áætlun um fræðslu á hönnun, byggingarlist og skipulagi. Efla þarf samstarf skóla og safna, auka útgáfu, sýningahald og námskeið og nota til þess fjölbreytt form á miðlun.

Kennsla á grunn- og framhaldsskólastigi

Skilningur á hönnun og byggingarlist hefst á unga aldri þar sem börn og unglingar nálgast umhverfi sitt oft með opnari hætti en þeir sem eldri eru. Kennsla á þessu sviði býður upp á þverfaglega nálgun við lista- og verknám en einnig við sögu, samfélagsfræði, stærðfræði og náttúrufræði. Kynningu og kennslu í hönnun og byggingarlist þarf að tengja markvisst aðalnámskrá leik- grunn- og framhaldsskóla. Gera skal fjölbreytt námsefni sem hentar ólíkum aldurshópum með áherslu á íslensk dæmi og samhengi þeirra við umheiminn. Einnig þarf að þjálfa leiðbeinendur í kennslu á þessu efni. Kennsla í sköpunarferli hönnunar frá hugmynd til verks spannar vítt svið frá rökhugsun að listrænni vinnu og verkþjálfun og eflir sjálfstæða og gagnrýna hugsun. Hún hentar vel til að örva sköpun og opnar augu nemenda fyrir hinu manngerða umhverfi. Fylgja þarf eftir og þróa tilraunaverkefni á þessu sviði.”

Spurt er hvernig mennta- og menningarmálaráðuneytinu gengur að fylgja þessum göfugu áætlunum sínum eftir?

Arkitektar bjóða án vafa fram strarfskrafta sína ef eftir þeim er kallað.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Þorsteinn G.

    Myndlistin, dansmenntin, tónlistin svo maður nefni nú ekki bókmenntirnar. Allt eru þetta skyldufög í grunn- og framhaldsskólum landsins. Og sameiginlegt með öllu þessum greinum er að maður kemst ágætlega af án þess að stunda þær nema einstöku sinnum.

    En án arkitektúrs og skipulags er engin forsenda til lífs. Maður mundi fara á vit feðra sinna á örfáum dögum vegna kulda, hungurs og vosbúðar. Við gætum ekki einusinni fjölgað okkur án skjóls frá byggingarlistinni.

    Þrátt fyrir þetta er engin fræðsla um þessi mál í grunnskólum.

    Hvernig getur staðið á þessu. Og svo eru það mótökurnar sem arkitektarnir fá í þingnefndum.

    Úff bara. Þetta er ljóta ástandið.

    Með vísan til fræðslukafla menningarstefnunnar; Er ekki rétt að ráða svona einn arkitekt til kennslu í hvern grunnskóla í svona 20% starf svona til að byrja með?

  • Borghildur Sturludóttir

    Tek undir með Árna um að halda áfram að lesa umhverfið, en það þarf fleiri til. Mikið væri það nú gott ef byggingarlist og umhverfishönnun yrðu gerð góð skil strax á grunnskólastigi.
    Þetta er ekkert einkamál fagstéttanna og það þurfa fleiri að koma að málefnalegri umræðu. Legg til að arkitektar og aðrir umhverfishönnuðir fái að koma að kennslu í grunnskólum landsins, samhliða Gísla Súrsyni og Bjarti frá Sumarhúsum.

  • Árni Ólafsson

    En er Hagatorgið nothæft borgarrými?
    Að mínu mati er það andstæða hlýlegs og aðalaðandi borgarumhverfis.
    Fráhrindandi staður þótt hann sé rammaður inn af þokkalegum byggingum (sbr. upptalninguna hér að ofan). Ágætt skólabókardæmi um hið móderníska borgarskipulag sem er án þeirra þátta, sem nauðsynlegir eru í borgarumhverfinu; götunnar (sem fjölnotarýmis), torgsins (sem rýmis) og garðsins (sem rýmis).
    Höldum áfram að lesa umhverfið.

  • Úlfar Bragason

    Ja, Hótel Sögu má lesa sem slys en önnur hús við Hagatorg eru ágæt dæmi um byggingar sem hafa heppnast bærilega, ekki síst Neskirkja, þótt krossinn sem settur var á hana seinna sé til lýta. Því miður sinnir borgin torginu ekkert. Æskilegt væri að það væri lagfært eftir tillögum Ragnhildar Skarphéðinsdóttur sem til eru!

  • Sveinbjörn

    Mikið er hægt að læra af Melaskóla Einars Sveinssonar og byggingunum þar í grenndinni.

    Ef kennari fengist til þess að kenna börnunum að lesa skólann sinn, Melakólann, Neskirkju Ágústar Pálssonar, Hagaskóla Skarphéðins, Háskólabíó Gunnlaugs og Guðmundar, Hótel Sögu Halldórs Jónssonar og fjölbýlishús Gísla Halldórssonar við Birkimel þá væri kominn hópur meðvitaðra notenda skipulags og byggingarlistar.

    Góð byggingarlist verður ekki til nema að fyrir hendi séu kröfuharðir upplýstir neytendur.

    Ég spyr eins og pistlahöfundur, hvernig gengur áætlunin?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn