Sunnudagur 12.12.2010 - 16:35 - 4 ummæli

Framhald um fegurðina

Stefán Snævarr skrifaði athugasemd við færslu mína um fegirðina  á fimmtudag. Uppistaðan í færslunni er myndband þar sem hlusta má á  Denis Dutton halda fyrirlestur sem hann kallar “The Darwinian Therory of Beauty”.  Stefán dýpkar umræðuna með heimspekilegum vangaveltum um fegurðina.  Athugasemd Stefáns byggir á myndbandinu sem gott er að skoða m.t.t. eftirfarandi skrifa Stefáns.

Stefán Snævarr er prófessor í heimspeki við Háskólann í Lillehammer og hefur skrifað um listspeki, “kunstfilosofi”.  Stefán er virkur bloggari hér á Eyjunni sem vert er að mæla með.

Gefum Stefáni orðið:

„Ég hef eitt og annað við boðskap Duttons að athuga. Hann virðist gefa sér að ef mönnum og skyldum skepnum líki við eitthvað eða eitthvað vekji jákvæða kennd hjá þeim þá sé það sama og að þeim finnist það fagurt.
En augnabliks íhugun sýnir að svo er ekki, það er ekki einu sinni hægt að segja að ef mönnum líki við eitthað á estetískan máta þá finnist þeim það fagurt. Mönnum getur þótt viðfangið stórbrotið eða elegant, ekki endilega fagurt.
Að finnast persóna kynferðislega aðlaðandi þýðir ekki endilega að manni þyki persónan fögur. Konum sérstaklega finnast sumir karlmenn of sætir til að vera aðlaðandi, sumar konur laðast að ólaglegum mönnum.
Í mörgum tungumálum eru orð á borð við fagur varla til, Grikkir hinir fornu drógu ekki skarpar markalínur milli þess sem var fallegt og þess sem var almennt gott.
Í okkar máli og mörgum öðrum eru leifar af mun víðtækara fegðurðarhugtaki en nú er notað, „það var fallega gert“ segjum við. Kannski þýddi „fallegt“ upprunalega „gott, jákvætt“, kannski höfðu forfeður okkar ekki eiginlegt hugtak um fegurð.
Platon telur að ríki og margt fleira sem við tengjum ekki við fegurð geti verið fagurt.
Dutton á að vita að þær rannsóknir sem hann vitnar í um landslag sem öllum þykir fagurt eru mjög umdeildar. Sumir segja að vestrænar hugmyndir um fallegt landslag hafi fyrir löngu gegnsýrt alla menningarheima, þess utan er engan veginn öruggt að eskimói sem líkar við mynd af tilteknu landslagi hafi neina hugmynd um að það sé fallegt, kannski er hugtakið um fegurð ekki til í hans menningarheimi.
Lítið er vitað um líf forfeðra vorra á sléttum Afríku og því vafasamt að draga víðfeðmar ályktanir af því hvað þeim hafi þótt eftirsóknarvert.
Homo erectus kann að hafa fílað þessa steina sem hann sýndi en getur skepna sem ekki hefur tungumál í raun og veru haft hugmynd um fegurð? Að þykja X fagurt þýðir að viðkomandi hafi íbyggt viðfang (.e. intentional object), dæmi um slíkt viðfang er að nú er kenning Duttons viðfang minnar hugsunar. En til þess að hafa slík viðföng verður viðkomandi að vera svo avanseraður að hann hlýtur að hafa eitthvað sem líkist máli.
Auk þess getur hann ekki haft slíkt viðfang sem viðfang fyrir fegurðarskyn nema hægt sé að gera einhverja grein fyrir þeim ástæðum sem hann hefur eða ætti að gera haft fyrir því að finnast X fagurt en ekki skemmtilegt, stórbrotið, flippað, elegant, grasiöst, aðlaðandi osfrv.
Til að geta greint milli þessara hugtaka verður viðkomandi að geta byggt afstöðu sína á rökum en þá hefur hann einhvers konar sjálfræði eða viljafrelsi. En þá er ekki hægt að líta svo á að fegurðarskyn hans sé bara eitthvað sem orsakast af erfðum eða menningu.
Dutton telur ranglega að annað hvort sé fegurðarmat menningarlegt eða meðfætt. Við verðum að hafa frjálsan vilja til að geta unnið úr menningarlegu og meðfæddu hráefni með þeim hætti að við fellum dóma um vissa hluti sem fagra aðra ekki.“
 
Hjálag eru myndir sem ég fann á netinu þar sem verið er að leita svara við spurningunni “Is perfect possible?”.  Eins og í hluta athugasemdar Stefáns eru hér konur viðfangsefnið. Fremsta myndin sýnist mér vera af Marilyn Monroe og hin er af einhverri ægifagurri konu sem ég ekki kann deili á.

Slóðin að fyrri færslu minni um fegurðina er þessi:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/12/09/hvad-er-fegurd/#comments

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Samhverfan í andlitum kvennanna er aðlaðandi

    af því hún gefur vísbendingu um heilbrigði

    og boðar gott fyrir gen karlmannanna

    sem vilja fá þær til fylgilags,

    segir Darwin 😉

    En hvað er svo sem að marka hann?

  • Hilmar Þór

    Í framhaldi af hugleiðingu Árna Ólafssonar (við fyrri færslu) þar sem hann segir : ”Torfbærinn hittir okkur í hjartastað – við skynjum fegurð hans með hjartanu”

    Ég velti fyrir mér hvort þetta styðji Darwins kenningu Duttons? Við bjuggum í torfhúsum í sennilega nokkur þúsund ár. Fyrst þegar farið var að byggja hús úr timbri og öðrum efnum og fólk áttaði sig á því að gömlu torfbæirnir voru heilsuspillandi og slæmir til búsetu í samanburði við nýrri hús fór smekkurinn að breytast. Á fyrri hluta síðustu aldar þóttu torfhúsin ekki falleg og voru þau mörg felldi ef ekki voru not fyrir þau sem geymsla eða gripahús.

    Á seinni hluta síðustu aldar snerist þetta við og fólki fór aftur að þykja torfbæirnir fallegir. Getur verið að það stafi af áunnu genetisku fegurðarskyni sem safnast hefur í undirmeðvitundina í aldanna rás? Ef svo er ættu torfhúsin ekki nauðsynlega að vera falleg í augum t.d. spánverja. Eða hvað?

  • Stefán Snævarr

    Kristján, ég sagði að menn hefðu á árum áður notað „fegurð“ í víðari merkingu enn í dag. Það sannar náttúrulega ekki að þeir hafi beitt öðru fegurðarhugtakið en bendir samt til þess þar eð mál og hugtök eru samslungin. Mér finnst Dutton fara of yfirborðslega í fegurðarhugtakið en tel samt sennilegt að einhver tengsl séu milli líffræðilegrar þróunar og fegurðarupplifunar.

  • Kristján Karlsson

    Arkitektar halda margir að fegurðin sé falin í því sem maður sér. Það segir Dutton líka. Stefán bætir við og segir að fegurðin sé fólgin í mörgu öðru eins og því sem gert er. Það er fallega gert að hjálpa gamalli konu yfir götu. Svo er líka til falleg tónlist, Falleg hugsun og fallegt manníf. Fegurðina er víða að finna. Þetta eru til dæmis fallegar færslur um fegurðina.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn