Föstudagur 23.04.2010 - 11:03 - 8 ummæli

Framhaldsskóli í Mosfellsbæ

Aðkoma

Nú stendur yfir sýning á tillögum í samkeppni um nýjan framhaldsskóla í Mosfellsbæ á Torgi í Kjarna, Þverholti 1 í Mosfellsbæ.

Ég ætla hér að kynna stuttlega þá tillögu sem hlaut 1. verðlaun í keppninni og atti þar kappi við 38 aðrar vel útfærðar tillögur sem flestar báru höfundum sínum gott vitni.

Þegar hugsað er um Mosfellsbæ þá koma fyrst upp í hugann iðagrænar grundir, rósarækt og fjölbreytt landslag með fellunum, Lágafelli, Úlfarsfelli, Helgafelli, Mosfelli, Reykjaborginni og svo eru þar auðvitað hestamennska og Halldór Laxness.

Höfundar fyrstu verðlaunatillögunnar nálgast tillögu sína í samræmi við þetta og leggja út af setningu úr Höll sumarlandsins eftir sveitungann Halldór Laxness sem segir á einum stað:“…og blómin vaxa á þakinu …Landslag verður að byggingu sem verður að landslagi..” og í samræmi við þetta samfléttast byggingin landslaginu með “villtum” gróðri, mosa og steinum á þökum sem eru í beinni snertingu við landslagið.

Auk þess að hafa sterk tengsl við staðinn og hnökralausa skipan rýma, er lögð áhersla á félagslega virka byggingu.

Hinn félagslegi þáttur skólabygginga hefur ekki fengið þá athygli sem honum ber.  Á menntaskólaárum myndast tengsl milli nemenda sem endast alla ævi. Þetta er ekki síður mikilvægt en sjálft námið. Í vinningstillögunni er hugað að þessu á óþvingaðan hátt. Félagslegu rýmin eru staðsett á réttu stöðunum, þeim er dreift um bygginguna á afslappaðan hátt og eru þannig, að þau eru dregin léttilega til hlés. Flest eru velhugsuð og vel staðsett og vel hönnuð.

Ég bendi á upphækkun við suðurgarð gegnt inngangi. Þar er upphækkun, ”hangs-svæði” sem veit inn að anddyri, matsal og skáparými. Þetta er staður til þess að hittast, hangsa um leið og góð yfirsýn er yfir það sem fram fer. Þessi trappa er líka utan dyra og veit þá til suðurs og gefur tækifæri til þess að njóta góða veðursins þegar þannig stendur á.

Tillagan er sterk í öllum aðalatriðum og hefur að geyma gullmola á borð við þann sem ég  nefndi. En auðvitað er tillagan ekki gallalaus og sýnist sitt hverjum. T.d. leiðist mér þetta litaða gler sem þarna er fyrirhugað að nota. Ég skil það ekki enda er þarna sennilega um stundarfyrirbæri tískunnar að ræða.

Höfundar tillögunnar eru Aðalheiður Atladóttir, arkitekt FAÍ, Falk Kruger, arkitekt og Filip Nosek, arkitekt. Ráðgjafi var Árni Þórólfsson arkitekt FAÍ.

Sýningin er opin alla daga og stendur til og með fimmtudeginum 29. apríl n.k.

Afstodumynd

Ef afstöðumyndin er ekki í lagi verður allt annað unnið til einskis. Öll grundvallaratriðin koma fram þar. Hér sést hvernig skólinn tengist byggðinni til austurs og hvernig aðkoman er og bílsatæði. Tillit er tekið til vinda, sólargangs og útsýnis til norðurs.

gr 02 1-200

Jarðhæð með aðkomu, stjórnun, matsal, skáparými og tengsl við útisvæði til suðurs.

gr 02 1-200Önnur og þriðja hæð hýsa kennslurými.

Sneidingarcrop

Á  sniðinu má sjá upphækkun sem nefnd er að ofan og mynda stigabrekku innandyra og utan til félagslegra athafna og samskipta. Þarna sést líka hvernig húsið mætir landslaginu. Snið bygginga er yfirleitt vanmetið. Það má geta þess hér til gamans að Alvar Aalto byrjaði oft á sniðinu þegar hann hóf skissugerðina. Maison Louis Carré í Frakklandi er gott dæmi um það.

Utlit

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • BERGMUNDUR

    Flottasta bloggid a Eyjunni.
    Tharf bara at vera virkara med fleiri faerslum.

  • Í sambandi við bílastæðin má benda á að í samkeppnislýsingu var gert ráð fyrir 230 bílastæðum við fullbyggðan skóla en 115 bílastæðum í fyrsta áfanga. Þar af áttu helmingur stæða að vera undir þaki í kjallara eða hálfniðurgrafið bílskýli.

    Þegar þessi lýsing er skoðuð kvikna margar spurningar:
    Þarf framhaldsskóli þennan fjölda bílastæða?
    Á ríkið að eyða takmörkuðu fjármagni sínu til að greiða fyrir einn samgöngumáta fremur en annan? (230 bílastæði kosta 150-250 milljónir eftir gerð)
    Væri ekki eðlilegt að taka gjald af notendum fyrir bílastæðin?
    Þetta er i miðbæ Mosfellsbæjar, væri ekki nær að samnýta bílastæðin í miðbænum með því að útbúa einn stað þar sem bílum er lagt og síðan gengið á aðra, frekar en að umkringja hverja byggingu bílastæðum?
    Er þetta gott fyrir heilsu- og holdafar nemenda og kennara?
    Er þetta í samræmi við stefnu skólans sem kennir sig við auðlindir og umhverfi?
    Er þetta í samræmi við umhverfisstefnu sveitarfélagsins, Staðardagskrá 21?

    Hérna má skoða loftmynd. Framhaldsskólinn á að rísa milli Bjarkarholts Langatanga og Vesturlandsvegar neðan við B-ið í Bjarkarholti:
    http://ja.is/kort/#q=index_id:395434&x=368749&y=409894&z=9&type=aerial

  • Gunnar Á.

    Rosalega er ég feginn að vera ekki sá eini að tala um mikilvægi þess að bygging og umhverfi tali saman. Mikið væri nú gaman ef allir arkitektar og verkkaupar myndu nú gera sér grein fyrir þessu.
    Það er lítið mál að gera fallega byggingu sem gæti verið hvar sem er, öllu erfiðara gera byggingu sem samsvara umhverfi sínu. – Það skilur á milli góðra arkitekta og þeirra bestu.
    Það er þetta að ná að tengjast anda staðar

  • Mikilvægi þess að byggingar tengist staðnum sem þær standa er aldrei vanmetin. Gott að lesa hér að nýr framhaldsskóli í Mosfellsbæ tengist staðnum á svo næman hátt eins og hér er lýst.

  • Hilmar Þór

    Gaman að fá athugesemnd frá Jaques Tati. Ég hef ekki orðið hans var í ein 30-40 ár eða síðan ég sá kvikmyndir hans “Mon Uncle” og “Traffic” ef ég man nöfnin rétt. Þær fjölluðu báðar um arkitektúr. Frábærar kvikmyndir sem gaman væri að sjá aftur.

    En það sem ég vildi koma hér að er slóðin að bæklingnum sem Jaques nefnir en hún er:

    http://mos.is/Stjornsysla/Frettir/Lesafrett/urslit-i-honnunarsamkeppni-um-nyjan-framhaldsskola

    Þar má skoða allar tillögurnar ásamt ummælum dómnefndar. Bæklingurinn er í einhverskonar flettiforriti og er neðst á síðunni. Klikkið bara á bæklinginn sem er fróðleg lesning, og hann opnast.

  • Þessari síðustu athugasemd Jaques er ég hjartanlega sammála, varðandi menntaskóla og háskóla. Starfsfólk á samt, að mínu mati, að geta lagt fyrir framan þessar byggingar eins og í öðrum geirum atvinnulífsins, þar sem það er ekki bundið við að starfa í sínu hverfi á sama hátt og nemendur þessara skóla (utan háskóla) eru hverfisbundnir.
    Þó er rétt að benda á að nágrannar þeirra mennta- og háskóla sem hafa haft takmarkað magn bílastæða (sem raunar ætti í öllum tilfellum að vera meira en nóg) hafa lent í því að geta ekki lagt bílunum fyrir framan eigin hús. Að þessu ber að hyggja og leysa á einhvern hátt, hvort sem er með sektum eða hreinlega með því að draga bíla í burtu.

    Fyrst að bílastæði eru þarna á annað borð þarf hins vegar að huga að því hvort ekki megi leysa þau á fallegri hátt en nú er gert.

    Hvað varðar þessa byggingu þá vona ég að hún sé ekki þannig að innan að kennslustofurnar séu glerbúr. Það þekki ég af eigin reynslu úr nýbyggingu HR í Vatnsmýrinni að slíkt veldur ómældri truflun þegar fólk gengur framhjá.

    Þá hefði verið gaman að sjá mynd af byggingunni og umhverfinu í kring, þ.e. öðrum byggingum sem eru á þessu svæði, en ugglaust má sjá það á sýningunni.

    Að því sögðu þykir mér, m.v. þær upplýsingar sem hér hafa komið fram, byggingin allvel heppnuð.

  • Jaques Tati

    Það er hárrétt sem hér kemur fram að arkitektar leggja of litla áherslu á afstöðumynd og sneiðingu. Hvorutveggja er ráðandi um hvernig byggingin fellur að borgarlandslaginu og umhverfinu almennt.

    Næst á eftir þessu tvennu koma grunnmyndirnar og útlitin reka lestina í mikilvægi hlutanna. Í bækling sem gefin var út vegna samkeppni um framhaldsskóla í Mosfellsbæ eru birtar teikningar. Oftar en ekki eru það útlit. Það eru slæm mistök þegar afstöðumynd stendur til boða.

    Það er hinsvegar þannig með byggingar á sama hátt og karlar og konur, eða eru í upphafi metin eftir útlitinu og þeim klæðum sem þau bera. Mat á innri gerð atgervi öllu og staðsetningu þeirra í félagslegu og vitsmunalegu umhverfi kemur síðar og kannski alls ekki.

    Ef hægt væri að gera e.k. afstöðumynd og snið af persónum þá væri auðveldara að lifa.

    Arkitektar leggja allt of mikla áherslu á útlit bygginga sinna og of litla áherslu á grundvallaratriði hönnunarinnar. Það er að segja hvernig byggingin virkar í umhverfi sínu.

    Að lokum (í tilefni af góðri athugasemd frá Stefáni Benediktssyni) er ég þeirrar skoðunar að engin bifreiðastæði eiga að vera við skóla og þá skiptir ekki máli hvort um leikskóla, grunnskóla, menntaskóla eða háskóla er að ræða. Hinsvegar má hugsa sér sleppistæði við skólana, einkum leikskóla og grunnskóla. Skóla á að staðsetja þannig að fólk þurfi ekki einkabíl að halda til þess að sækja þá, hvort heldur er sem nemandi eða kennari.

  • stefán benediktsson

    Þessi „samrunahugsun“ við náttúru er sannfærandi. Tillögum þeirrar ættar hefur fjölgað undanfarin ár. Þessvegna er enn meira áberandi hvað bílastæði eru enn „gamaldags“. Bílarnir verða að vera einhversstaðar, í landi án almenningssamgangna, en við verður reyna að draga úr yfirþyrmandi áhrifum þeirra á lóð og í forgrunni bygginga.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn