Mánudagur 02.11.2009 - 12:25 - 15 ummæli

Framtíð Reykjavíkurflugvallar

 

 

 

Í kjölfar bankahrunsins hefur orðið verðfall á fasteignum og  byggingarlandi. Eftirspurnin hefur minnkað.

Þetta hefur í för með sér að nú þarf að endurmeta stöðu skipulags borgar og bæja að nýju. Málefni  Reykjavíkurflugvallar og forsendur fyrir framtíð Vatnsmýrarinnar eru allt aðrar en fyrir tveimur árum. Verð landsins sem helgað er vellinum er ekki það sama og  fyrir 2-3 árum og þörfin fyrir það er minni.

Það má því gera ráð fyrir að við munum ekki þurfa á  landinu að halda næsta áratuginn eða jafnvel áratugina

Þurfum við ekki að bregðast við þessu og í stað þess að láta flugvöllinn drabbast niður í einhverju limbói þar sem atburðarásin og ákvarðanir teknar frá degi til dags ráða för?

Í stóru alþjóðlegu samkeppninni sem haldin var árið 2007, þegar farið var að braka í bankakerfinu, var markmiðið að fá „heimsfræga“ stjörnuarkitekta til verksins frekar en góðar hugmyndir.  Samkeppnin mistókst vegna þess að markmiðin voru ekki skýr. Þau voru ekki skýr vegna þess að stjórnmálamenn gátu ekki tekið afstöðu um framtíð flugvallarins. Það var ekki búið að finna vellinum annan stað. Borgin lét ákvörðunina í hendur keppenda.

Þessi tvískinnungsháttur, „þetta haltu mér, slepptu mér“ syndrom veldur okkur tjóni eins og staðsetning Háskólans Reykjavík, færsla Hringbrautar, brýrnar yfir hana og fl. bera glöggt vitni um.

Er ekki rétt að boða til nýrrar samkeppni eða ráða fólk til hugmyndavinnu um flugvallarsvæðið nú þar sem forsendan væri að hann yrði um kyrrt og viðfangsefni vinnunnar væri að aðlaga flugvöllinn borginni þannig að sem mest nýting fengist út úr landinu og að ónæði vegna hans yrði lágmarkað. 

Þetta yrði ekki vinna vegna framtíðar Vatsmýrarinnar heldur um framtíð flugvallarsvæðisins.

Það hefur verið haldin samkeppni sem sýnir okkur hvernig flugvallarsvæðið gæti litið út ef flugvöllurinn færi.  Þurfum við ekki líka að vita hvernig svæðið gæti litið út ef flugvöllurinn yrði í Vatnsmýrinnin til framtíðar?

Áhugavert ítarefni er að finna í aðalskipulagi Reykjavíkur og á þessarri slóð þar sem er að finna úttekt á framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar:

 

http://www.samgonguraduneyti.is/media/rvkflugvollur-skyrslur/Flugvollur_uttekt.pdf

 

 

Ég leyfi mér að setja hér inn ummæli frá Árna Ólafsyni vegna síðustu færslu minnar. Hægt er að sjá hana í samhengi undir færslunni „Reykjavíkurflugvöllur“

 „Árni Ólafsson // 2. nóv. 2009 kl. 09:38

Ég get ekki annað en verið sammála fyrstu athugasemdinni við pistilinn. Reykjavíkurborg hefur hvergi tekist að byggja „fjölbreytta, þétta, blandaða og lifandi borgarbyggð“ undanfarna áratugi. Flugvallarsvæðið felur í sér mikla möguleika til þess að styðja við og stækka gamla miðbæinn í Reykjavík en fyrst þurfa að verða veigamiklar breytingar á viðhorfum skipulagsyfirvalda til borgarmyndarinnar svo og aðrar endurbætur á borgarbyggðinni. Ég vil sjá áþreifanleg dæmi um slíkt áður en við ráðumst í handahófskennda ústkúfun innanlandsflugsins frá höfuðborginni, m.a. með kostulegum bútasaum eins og Hilmar bendir á (afsakið – en yfirleitt er bútasaumur mjög fallegur og áhugaverður – óheppilegt að nota orðið í þessu samhengi).

1 Hringbrautin er úthverfaskipulag. Þegar ekið er eftir Miklubraut vestur úr Hlíðunum lendir maður allt í einu út út borgarumhverfinu, svífur um einskismannsland og hafnar aftur inni í borginni við Háskólann.

2 Hvernig klappar maður ketti? Með hárunum. Hvernig á skipuleggja Reykjavík? Í samræmi við það hvernig hún hefur vaxið sjálfsprottin hvað sem öllu skipulagi líður. Miðbæjarstarfsemi borgarinnar hefur vaxið eftir austur-vestur ás frá Kvosinni upp fyrir Keldnaholt. Endurbætur, endurbygging og endurnýjun byggðar á þessum ás með þéttri blandaðri byggð, nokkrum áherslupunktum (miðkjörnum) og línulegum almenningssamgöngum myndi skapa miðbæjarumhverfi í grennd við sem næst öll úthverfi borgarinnar og bæta þar með stöðu þeirra og búsetuumhverfi íbúa allra borgarhluta. Ef draumarnir um betra borgarlíf ættu bara að rætast í Vatnsmýrinni myndu allir aðrir Reykvíkingar sitja áfram í sömu (bíla-)súpunni. Vatnsmýrin er ekki lausnin – þótt auðvitað sé auðvelt að sjá ýmislegt fyrir sér þar. Hið erfiða og ögrandi viðfangsefni er að lagfæra allan austurhluta borgarinnar, endurnýta einskismannsland, enduhæfa þegar byggð athafna- og iðnaðarsvæði og breyta borginni í samfelldan lifandi borgarvef. Þegar það hefur tekist skulum við pæla í Vatnsmýrinni – ekki fyrr.

3 Góðar samgöngur við þungamiðju verslunar, þjónustu og stjórnsýslu landsins eru mikilvægar höfuðborg. Ef samband höfuðborgarinnar við landsbyggðina verður stirt og langsótt er viðbúið að eitthvað alvarlegt gerist – t.d. verulegur afturkippur úti á landi og flótti til borgarinnar (enn á ný innrás sveitavargsins) – eða upp komi krafa um flutning stjórnsýslumiðjunnnar. Ef innanlandsflugið verður flutt til Keflavíkur er rökrétt að láta stjórnsýslu ríkis og helstu stofnanir fylgja. Alþingi á Beisnum! Þjóðleikhúsið í Andrews Theater o.s.frv. Ráðuneyti og helstu stofnanir stjórnsýslu og heilbrigðismála yrðu í ríki Árna Sigfússonar. Hins vegar er hugmyndin um Skerjafjarðarflugvöll stórsnjöll – þ.e.a.s. ef hún er raunhæf af flugtæknilegum ástæðum. Umhverfisáhrifin eru talsverð – flugvöllurinn myndi sjást og innan hans í Skerjafirðinum fengist draumaland siglingamanna. Smámál miðað við Kárahnjúka en Reykjavík yrði áfram höfuðborg.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Það er að sjálfsögðu ekki auðvelt að umbreyta vondri byggð í góða borgarbyggð. Miðað við að byggja á auðu svæði er hið sóðalega aukaskref sem felst í því að díla við eigendur þeirra bygginga sem fyrir eru á svæðinu og þurfa að víkja. Sem betur fer er þó um atvinnusvæði að ræða þar sem um tiltölulega fáa eigendur er að ræða, sérstaklega þar eignarhald á atvinnuhúsnæði hefur verið að safnast á fáein stór fasteignafélög.

    Skeifan er sérstaklega spennandi kostur, þar má alveg halda í núverandi gatnakerfi en bæta við nýjum götum inn á milli til að þétta netið og byggja upp þétta randbyggð á 4-6 hæðum (kannski með stöku hærri turnum) með verslunum á jarðhæðum en íbúðum og skrifstofum á efri hæðum. Þetta er auðvelt að gera í áföngum.

    Ég held að það þurfi ekki að stilla upp vatnsmýri og skeifunni sem andstæðum valkostum. Til lengri tíma litið þarf að borgarvæða bæði svæðin. Það er bara spurning um hvar er byrjað og mér finnst margt mæla með því að þróa miðborgina til austurs frekar en suðurs, það er æskilegt með tilliti til samgangna til dæmis.

    Með borgarvæðingu Skeifunnar nást líka tvö markmið, þ.e. vond byggð hverfur og góð byggð verður til á meðan ný byggð á auðu svæði uppfyllir aðeins annað markmiðið.

  • Eina leiðin til að leiðrétta úthverfavæðingu Reykjavíkur og endalausa þenslu austurávið er að prjóna við langþéttbýlasta part hennar sem er ennþá 101 og aðliggjandi svæði. Þannig ef að menn vilja búa til einhverja borg eins og við þekkjum frá Evrópu er óhjákvæmilegt að færa flugvöllinn.
    Það tíðkast heldur ekki neins staðar á byggðu bóli að flugvallarbraut sé nokkur hundruð metrum frá sögulega kjarna borgarinnar. Þannig að það er bara tímaspursmál hvenær þessi blessaði flugvöllur fer, en það gæti reyndar verið 20 ár í það eins og ástandið er núna.
    Ég hef enga trú á að það sé auðveldlega hægt að „laga“ hverfi eins og Skeifuna, Mjóddina eða önnur úthverfi, þá þyrfti að rífa hverfin eins og þau leggja sig og byggja ný, þar sem vandamálið liggur í meingölluðu götuneti sem hentar ekki fyrir blandaða byggð. Þ.e. byggð sem hefur fótgangandi eða almenningssamgöngur í fyrsta sæti en ekki einkabílinn, og blandar saman atvinnustarfsemi sem oft er á neðri hæðum saman við íbúðabyggð í efri hæðum eins og gert er mjög skemmtilega í mörgum eldri borgum Evrópu.

  • Menn geta haft allskonar skoðanir á flugrekstri í Vatnsmýrinni en það er bara óskhyggja að ímynda sér að völlurinn leggist af fyrr en í fyrsta lagi eftir 20-30 ár.

    Athugið líka að ný byggð í Vatnsmýri er líka „útþennsla byggðar“. Þó að staðsetningin sé miðlægari en Geldinganes eða hraunin sunnan Hafnarfjarðar þá væri samt verið að brjóta nýtt land undir byggð. Eru arkitektar og skipulagsfræðingar ófærir um að vinna með annað en óskrifuð blöð? Í borginni eru fjölmörg hverfi þar sem ljótleikinn er yfirþyrmandi og landnýtingin glæpsamlega vond. Afhverju ekki að leggja áhersluna fyrst og fremst á að endurvinna svæði eins Skeifuna, Grensás, Borgartún, Kirkjusand, Bíldshöfða, Sundahöfn, Mjóddin, Smiðjuhverfið í Kóp, utanvert Kársnes, syðri höfnina í Hfj. og svo framvegis? Skynsamleg borgaruppbygging á þessum svæðum hlýtur að fullnægja þörf fyrir nýtt húsnæði á höfðuborgarsvæðinu næstu áratugina. Á meðan getum við haldið áfram að rífast um flugvöllinn.

  • Hringbrautin er á vissann hátt eins og „pylsa/pulsa“. Góð „pylsa/pulsa“. hefur rúsínu í endanum en Hringbrautin tvo hnúta.

  • Þar fyrir utan er Hringbrautinn líklega dýrasta og styttsta hraðbraut í heimi. Er hún ekki 600 metrar

  • Þessi umræða um flugvöllin er svolítið sérstök. Ég er svo sammála Árna Ólafssyni og um leið Margréti. Borgin hefur vaxið til austurs á undanförnum áratugum og í raun erfitt að stöðva þá þróun, nema eins og Árni segir svo rétt. „Á kostnað þegar byggðra hverfa“. Þessi vöxtur undanfarinna ára er samt sem áður svo tilviljunarkendur eða pólískt svo hrapalega vitlaus. Sem dæmi „Bústaðahverfið“ verkamannabústaðir byggðir í lok 1940. Foreldrar mínir voru ein af þeim sem byggðu þar sína fyrstu íbúð. Bústaðahverfið var eins og „Geymskip“ sem lent hafði í eyðimörk í engum tengslum við Reykjavík. Við sem ólumst þar upp gengum efir hitaveitustokknum niður í Valsheimili til að æfa fótbolta. Þar gengum við meðal annars framhjá grænu svæði Gólfklúbbs Reykjavíkur, þar sem nú er Kringlan. Þessar uppbyggingarhugmyndir í Vatnsmýrinni eru með öllu óraunhæfar nema að farið sé verulega gagngert í að leysa umferðatengls Reykjavíkur við aðliggjandi sveitarfélög austan við borgina. Umferðalega er gamli miðbær Reykjavíkur eins og endastöð eða botnlangi í uppbyggilegum skilningi. Botnlangar eru vandræði. Enda í flestum tilfellum sem aðgerð í líkamlegu samhengi. Miðbærinn getur ekki annað en „dáið“ verði aðkoma ekki bætt. Til þess að komast hjá „botnlangakasti“ miðbæjarins þarf að endurvekja nokkrar gamlar humyndir um betri umferðartengsl. Einu tengls borgarinnar í dag til austurs eru Hafnarfjarðavegur/Kringlumýrabraut.
    Ég er einn af þeim sem bý austan við borgina með atvinnurekstur í miðbænum. Annað hvort legg ég á stað klukkan 7 eða eftir 9, annars tekur þessi 12 mínúta akstur 40 mínútur, tala nú ekki um ef það hefur snjóað um nóttina. Umferðatengsl frá vestanverðum Hafnarfirði í gegnum Álftanes um vestanverðan Kópavog inn til miðbæjar Reykjavíkur eru að mínu mati einu raunhæfu tengslin til þess að miðbær Reykjavíkur eigi sér lífvon. Annars vex byggðin meðfram Reykjanesbrautinni til suðurs og miðbær Reykjavíkur fær sitt „botnlangakast“
    Eins og Margrét kemur inn á þá er þessi bygging 160.000 m2 háskólasjúkrahúss, samkvæmt tillögu um 1 km á lengd á þessu viðkvæma stað ömurleg hugmynd og í engu samhengi við aðliggjandi byggð, hvað þá umferðalega séð. Ef þessi bygging hefði verið ætlaður staður við t.d. við Vífilsstaði hefði umferðaálagið verið þveröfugt miðað við hvernig það er í dag. Allir sem þar vinna væru að keyra til austurs á meðan við sem vinnum í miðbænum keyrðum til vesturs og svo öfugt
    Reykjavík er ekki eina borgin sem er með flugvöll inn í miðri borg, dæmi er Whasington. Samgöngur innanlands eru oft mjög erfiðar, sérstaklega að vetri til. Man eftir smá dæmi. Þurfti á að fara til vestfjarða kl.9 að morgni. Flugi var frestað til 11 síðan til kl. 14, þá var flogið. Hefði innanlandsflug verið í Keflavík hefði ég tekið rútu um kl.7 og beðið þar til kl. 14. Vegna staðsetningar vallarins gat ég hringt og fengið að vita hvenær flugið yrði og haldið áfram að vinna. Þetta er kanski „hundalógik“. En við búum við eyjaloftslag sem tekur sífeldum breytingum. Tek undir með Árna bætum þau hverfi sem fyrir eru, það er miklu mikilvægara.

  • Það er ekki rétt að bera Reykjavík saman við Freiburg. Í Þýskalandi eru járnbrautir, sem ekki eru hér, og því er innanlandsflugið hérna eiginlega það sem lestasamgöngur eru í Þýskalandi. Ef hér væru lestarsamgöngur myndi flugvallarmálið horfa öðru vísi við, og þá væri hægt að grípa til samlíkinga við evrópskar borgir.
    Annars er alveg ljóst að völlurinn fer ekki neitt næstu áratugina, þannig að það er óþarfi að hafa um þetta mörg orð. Sem betur fer.

  • Stefán Benediktsson

    Lækkun fasteignaverðs er hluti af niðurfærslu lífskjara vegna hrunsins. Nauðsynjar, bensín, innflutningur sem vegur um 70% í efnahagslífi okkar er orðinn mikið dýrari og hrópar á skipulagslausnir sem draga úr ferðaþörf fólks og kostnaði sem fylgir eign og rekstri einkabíls. Þessvegna er Vatnsmýrin enn mikilvægari fyrir framtíðarþróun byggðar en áður. Hérna er kort af Vauban sem er hverfi í Freiburg þar sem bara helmingur 5000 íbúa á bíl. Þéttleikinn er um 140 íbúar á ha., engin háhýsi og skipulagið „styður bíllaust líferni“. Það gerir reyndar skipulagið í Freiburg almennt. Mér finnst ný samkeppni alveg koma til greina en „flugvallarsvæðið“ á ekki framtíð fyrir sér. Innanlandsflug er að verða ferðamáti sem hefur litlum sem engum breytingum tekið í bráðum 70 ár nema til hins verra. Fyrir 50 árum var Reykjavík „Hub“ og þú gast flogið til (og frá) fjölda staða á öllu landinu og víða voru innan við 50 km í næsta flugvöll, en núna þurfa menn oft að aka í einn til einn og hálfan tíma (á vegum með slitlagi) til að komast á flugvöll. Innanlandasflug hefur nokkuð mikla þýðingu fyrir nokkur byggðarlög og þá sérstaklega á Héraði og Vestfjörðum en vægi þess fyrir Reykjavík eftir að viðkomustöðunum fækkaði svona mikið er sáralítið.

  • Helgi Hallgrímsson

    Kristján, það var haldin atkvæðagreiðsla meðal Reykvíkinga um hvort völlurinn ætti að fara eða vera, niðurstaðan var að hann ætti að fara. Er þá ekki lýðræði að láta hann fara?
    Reykvíkingar verða að ákveða þetta, ég ætla ekki að skipta mér af hvar flugvöllurinn á Akureyri er staðsettur þó mér finnist þægilegt að hafa hann nálægt bænum.

  • Stjörnuarkitektúrasamkeppnin sem efnt var til var mjög lýsandi fyrir þann hugsunarhátt sem ráðið hefur ferðinni hjá þeim sem vilja völlinn burt. Sýndarmennska, og draumórar um að Reykjavík geti orðið „evrópsk“ borg á borð við Barcelona eða París. Meirihluti landsmanna vill að völlurinn sé í Vatnsmýrinni – já, virðum lýðræðið. En umfram allt verður skynsemi að fá að ráða úrslitum, eins og færslan hér að ofan um varavöll er gott dæmi um.

  • Varla getur flugvöllurinn verið áfram þegar búið er að samþykkja að byggja nýtt hátæknisjúkrahús. Þar kristallast nú slæmur arkitektúr sem virðist vera kappsmál hér í borginni. Ljótur risa hlunkur sem troðið er í eitt af fallegustu íbúahverfi borgarinnar!

  • Hörður Hall..

    Reykjav.flugvöllur er vara flugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll.þeir tveir eru nauðsynlegir saman.Ef Reykjav.flugvöllur fer þarf að finna annan vara flugvöll í hentugri fjarlægð frá Keflavíkurflugvelli(flugmenn verða að hafa varaflugvöll með í flugplaninu,meiri fjarlægð frá varavelli ,,meira bensín nauðsynlegt = þyngri vél =aukinn kostnaður) .Hólmsheiði eða land fyrir sunnan Selfoss ??? Mér finnst að eigi að hlú að Reykjav.flugvelli og það mætti öruglega stytta hann og setja N-S flugbraut meira á landfyllingu.Þungamiðja Höfuðborgarsvæðisins hefur færst austar.’Eg hef bloggað um það áður en eitthvað af þessum flottu „projektum “ sem þá eru í gangi þarna vesturfrá s.s Háttæknisjúkrahús Háskólinn í RVK eða Tónlistarhöllin eitthvað af þesssu hefði mátt byggja annar staðar.Háttæknisjúkrahúsið og Háskólinn í RVK hefðu vel mátt fara í Garðabæ í nánd við Reykjanesbraut meginstofnbraut Höfuðborgarsvæðisins .Myndi jafna dreifingu umferðar töluvert .Menn sjá það á morgnana að umferðarflaumurinn og teppan er vestur á morgnana og svo í austur síðdegis.

  • Samúel T. Pétursson

    „Reykjavíkurborg hefur hvergi tekist að byggja “fjölbreytta, þétta, blandaða og lifandi borgarbyggð” undanfarna áratugi“

    Það er eiginlega ekki nóg með það, heldur hefur hún líka mikið til glatað þeirri blöndun og lífi sem eitt sinn mátti finna í miðbænum … en hún er reyndar í sömu súpu og margar aðrar borgir með þetta.

    Leiðin til baka krefst því miður mjög agaðra vinnubragða í á borð við þá landnotkunar- og skilmálastrategíur sem Hollendingar hafa þróað og yrðu alltaf pólitískt mjög óvinsælar á Íslandi.

    Það er nefnilega ekki nóg að láta nýja byggð líta út eins og París til að það verði lifandi… það þarf að virka á sama hátt samgöngulega séð.

  • Garðar Garðarsson

    Ekki gleyma því að það er búin að eiga sér stað lýðræðisleg kosning um flugvöllinn og kosningin fór þannig að meirihlutinn vildi hann burt.

    Virðum lýðræðið.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn