Undanfarin ár hefur átt sér stað umbreyting hafna í allri Evrópu og víðar. Enginn annar staður í borgarlandslaginu hefur tekið jafn miklum og hröðum breytingum og hafnirnar.
Flutningagámar, þjónusta skipa og útgerða, kranar, ferjubryggjur og verksmiðjur eru á brott og í þeirra stað hafa komið íbúðir, höfuðstöðvar stórfyrirtækja, hótel og menningarbyggingar.
Spurningum á borð við, hvernig á að nota gömlu hafnarsvæðin? hversu mikið á að byggja? fyrir hverja á að byggja? eða á eitthvað að byggja? hefur ekki verið svarað. Hér, eins og stundum áður, virðist atburðarásin hafa tekið völdin.
Hvert stefnir þróunin hér í Reykjavík? Er borgin að feta svipaða slóð og Kaupmannahöfn?
Kíkjum á stöðuna í dag.
Á Austurbakkanum er að rísa tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa. Sunnan Hörpu eiga að rísa tvö stórhýsi. Annarsvegar hótel og hins vegar skrifstofubygging. Næst miðbænum er gert ráð fyrir bankabyggingu (höfuðstöðvum Landsbankans) og fjölbýlishúsi.
Á Miðbakka liggja ekki fyrir breytingar ef skoðuð er heimasíða borgarinnar .
Við Suðurbugt og á Slippasvæðinu liggur fyrir deiliskipulag sem í aðalatriðum gengur út á að breyta svæðinu úr slippasvæði í íbúðar- og þjónustusvæði. Þarna hefur farið fram slippastarfsemi í meira en 100 ár.
Við Ægisgarð hefur farið fram undirbúningsvinna vegna byggingar hótels.
Rífa á tæplega helming verbúðanna grænu sem hafa fengið kröftuga andlitslyftingu undanfarið með sjávarréttarstöðum og fl. Til að rétta Myrargötuna af og breikka hana. Slippastarfsemin er lögð niður.
Af þessu má ætla að höfnin sé að þróast á svipaðann hátt og höfnin í Kaupmannahöfn.
Fyrir réttu ári lágu fyrir úrslit í hugmyndasamkeppni um framtíð Reykjavíkurhafnar. Í vinningstillögunni (frá Graeme Massie Architects) kom fram skemmtileg hugmynd um að framlengja götur niður að höfn þannig að þær endi í bryggju. Þetta er snjöll tenging hafnarinnar inn í borgina. Höfundar gerðu líka ráð fyrir að slippurinn yrði áfram. Hvort tveggja sjálfsögð atriði sem allir sjá að eru til góðs eftir að búið er að benda á þau.
Það sem eftir stendur af tillögunni er hinsvegar eitthvað sem þarf að staldra við og skoða betur. T.d. að fjarlægja eitt stærsta útvegsfyrirtæki landsins, HB-Granda úr Örfirisey. Svo er það fleygur sem rekinn er inn milli hafnarinnar og gömlu miðborgar sem er einkennilegur og treystir ekki samband gömlu miðborgarinnar og hafnarinnar. Að síðustu virðist sá arkitektúr sem sýndur er á tölvumyndum verðlaunatillögunnar ekki gefa fyrirheit um umhverfi í anda staðarins.
Höfnin, ásamt flugvellinum og sjálfum miðbænum, er ein þriggja helstu stoða sem uppbygging borgarinnar hefur byggst á um áratuga skeið. Þessar stoðir þarf að huga að og rækta, því án þeirra er Reykjavíkurborg ekki svipur hjá sjón.
Verkefnið, að finna gömlum höfnum nýtt hlutverk, hefur verið viðfangsefni skipulagsarkitekta og borgarstjórna víða um heim síðustu 3-4 áratugi.
Þegar skipin hættu að leggja upp á suðurhluta Manhattan voru pakkhúsin í fyrstu notuð fyrir óskylda starfsemi. Flestir þekkja hugtakið “loft” sem voru risastórar íbúðir sem innréttaðar voru í þessum húsum. Menn komu heim til sín um vörulyftu.
London Docks, The Docklands, varð að meiri háttar viðskiptahverfi. Höfnin í Cape Town breyttist eins og aðrar hafnir og er nú ein skemmtilegasta höfn sem ég hef heimsótt. Þar ægir saman skipum og mannlífi.
Skoðið höfn Cape Town á Google Earth.
Austurhöfnin með Hörpu, hóteli og aðalstöðvum stórfyrirtækja. Svo er þarna eitthvað sem kallað er “Reykjatorg” Engu skipi er lagt við Austurbakka, Miðbakka eða Ingólfsgarð en einhverjir skemmtibátar eru þarna. Þetta virðast stórkallalegar byggingar sem vindar munu nauða um.
Suðurbugt og Slippasvæði. Slippurinn er ekki þarna lengur en vel er séð fyrir legusvæða smábáta, Óðinn bundinn við bryggju sem safn og hvalbátarnir fara hvergi.
Verðlaunatillaga í hugmyndasamkeppni gerir ráð fyrir að HB-Grandi víki fyrir íbúðabyggð og að gamli miðbærinn sé skorinn frá höfninni með íbúðarbyggð sem nær á haf út. Slippurinn og gömlu verbúðirnar við Ægisgarð eru þarna áfram. Götur sem liggja norður-suður enda í bryggju sem mun styrkja tengsl miðbæjarins við hafnarsvæðið.
Þeir sem vilja kynna sér málefni Reykjavíkurhafnar nánar er bent á þessar slóðir:
Slippasvæðið:
http://arcims.rvk.is/website/skipulagssja/upplysingar/DSK_PDF/Slippa_Ellingsenreitur_20070605.pdf
Austurhöfnin:
http://arcims.rvk.is/website/skipulagssja/upplysingar/DSK_PDF/TRH_2006.pdf
Vinningstillaga hugmyndasamkeppni:
http://www.worldarchitecturenews.com/index.php?fuseaction=wanappln.projectview&upload_id=13029
Frjálsar handfæra veiðar leysa fátæktar og atvinnu vanda Íslendinga,
og mundu fylla Reykjavíkurhöfn af lífi!
Við ættum frekar að taka Þórshöfn til fyrirmyndar, höfnin þar er enn skemmtileg, veitingastaðir og hótel allt um kring, en höfnin þó full af bátum og skipum og líf á hafnarbakkanum, stundum markaðir og uppákomur. Þar er smábátalægi innst í höfninni og stór skip utar (smábátahöfnin sést vel hér: http://www.kristiina.kaapeli.fi/images/Torshavn_satama_2.JPG). Annars finnst mér ömurlegt til þess að hugsa að missa Slippinn úr bænum. Fór í borgargöngu með Hjálmari Sveinssyni fyrir nokkru þar sem hann leiddi hópinn upp á Arnarhól. Þaðan var tignarlegt að sjá skipin í Slippinum gnæfa yfir Kv0sinni.
Ég segi nú eins og Eiður, Cape Town heitir Höfðaborg á íslensku!
Gera á allt svæðið milli Vonarstrætis og hafnarinnar að “shared street” svæði og koma fyrir vindubrú um hafnarmunan. Endurskoða svo allt skipulag hafnarinnar með þetta tvennt sem forsendu.
Eigum við ekki að minnka bílaumferðina og halda slippnum og hlúa að þeirri þróun sem byrjaði í grænu verbúðunum í vor.
Það er ekki smart að vera stórhuga lengur.