Mánudagur 24.09.2012 - 00:10 - 12 ummæli

Frumvarp um “sögulega byggð”

 

 Það er ánægjulegt að verða þess var að alþingirmenn bregðist við almennum umræðum um bygginga og skipulagsmál með þeim hætti sem nú hefur gerst.

Ég hvet alla sem láta sig skipulag eldri hverfa varða að lesa eftirfarandi texta sem barst síðunni:

Í nýju frumvarpi á alþingi er lagt til að „sögulegri byggð“ í borg og bæjum verði gefin sérstaða í skipulagslögum og búið þannig um hnúta að eigendur fasteigna á slíkum svæðum fái ekki sjálfkrafa skaðabætur við breytingu á deiliskipulagi sem skert gæti meinta framtíðarhagsmuni þeirra. Með þessu væri almannahagur efldur á svæðum á borð við Kvosina og Laugaveginn í Reykjavík, gömlu kjarnana á Ísafirði og Akureyri, elstu hluta Seyðisfjarðar, Þingeyrar, Flateyrar og miklu fleiri byggða. Kveikja frumvarpsins eru umræðurnar í sumar um nýframkvæmdir og hugmyndasamkeppni kringum Ingólfstorg í Reykjavík.  Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Mörður Árnason.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að sveitarstjórn geti afmarkað „sögulega byggð“ í deiliskipulagi. Á slíku svæði gildi sú regla að breytingar á skipulagi skapi fasteignareigendum því aðeins skaðabótarétt að þeir hafi áður aflað sér byggingarleyfis fyrir tiltekinni framkvæmd, en byggingarréttur rennur út eftir ár ef framkvæmdir hefjast ekki áður. Með þessu móti yrði hægara um vik fyrir kjörna fulltrúa að breyta deiliskipulagi í viðkvæmustu hlutum byggðar sinar í þágu almannahagsmuna, með verndarsjónarmið, menningarleg rök og útivistarþarfir í huga.

Söguleg byggð er þannig skilgreind í frumvarpinu að um sé að ræða hverfi eða hverfiskjarna þar sem byggð er að stofni til frá því fyrir 1920, eða þar sem byggð hefur sérstakt byggingarsögulegt gildi, eða þar sem byggð hefur sérstakt menningarsögulegt gildi. Víða erlendis er slíkum skipulagshugtökum beitt til að auka vernd gamalla byggðakjarna eða sérstæða, en í íslenskri löggjöf hefur skort á með þeim afleiðingum að um framkvæmdir og skipulag í sögulegum byggðarkjörnum hefur staðið styr áratugum saman, og margir þeirra verið eyðulagðir að hluta eða heild.

Flutningsmenn eru alls átta, úr fjórum þingflokkum auk óháðs þingmanns, allir fulltrúar í umhverfis- og samgöngunefnd alþingis sem fjallar meðal annars um skipulagsmálefni.

Sjá frumvarpið sjálft í viðhengi og um þessa slóð: http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=141&mnr=149

Það er mkilvægt að bregðast við þessu frumkvæði og fagna áhuga þingmannanna á þessu merkilega máli og styðja þá til allra góðra verka.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Sigurður

    Það ber að fagna þessu frumvarpi sérstaklega, þó svo að það komi seint fram. Verst er að þetta getur ekki verið afturvirkt og stangast á við 72. gr. Stjórnarskrárinnar ef svo væri.

    Það væri fróðlegt að heyra hverjar voru ástæður borgarinnar fyrir því að auka byggingarmagn á öllum þessum reitum innan Hringbrautar og afhenda lóðarhöfum án skilyrða? Þetta er nokkurskinar gjafakótamál í byggingarheimildum.

    Var það að ósk verktaka, eða var það að ósk stjórnmálamanna eða embættismanna?. Eða það sem er líklegast, að ráðgjafarnir hafa álitið það meginverkefnið að auka nýtingu á þeim reitum sem þeim var falið að deiliskipuleggja.

    Embættismennirnir sem eru helstu ráðgjafar stjórnmálamannanna bera á þessu höfuðábyrgð.

    Af hverju gerði borgin ekki fyrirvara?. Ef það hefði verið gert væri þetta annars ágæta frumvarp óþarfi.

    Ég tel samt að sjálfsagt sé að koma því í gegn vegna þess að það mun gagnast þó síðar verði.

  • Mér finnst þetta góð hugmynd og frábært tækifæri til að renna styrkari stoðum undir sjálfa Menningarstefnuna í Mannvirkjagerð.

    Ég hef velt fyrir mér og viðrað það hér á blogginu, af hverju innviðir og ásýndir bæjarkjarna/hluta, væru ekki varðveittir, rétt eins og húsa.

    Ég vona að það verði haft breitt samráð um málefnið og það verður gaman að fylgjast með framgangi mála. Sérstaklega spennandi verður að sjá hvernig sérákvæðin sem falla undir skilgreininguna muni tengjast Menningarstefnunni.

  • Magnús Skúlason

    Mál til komið að alþingismenn vakni upp og sinni þessum málaflokki. Ekki tókst svo vel með hin nýju skipulagslög hvað áhrærir gildistíma deiliskipulags og skaðabótarétt. Með þessu frumvarpi er gerð tilraun til að bæta þar úr og því ber að fagna.

  • Torfi Hjartarson

    Er ekki full langt gengið gagnvart hagsmunum almennings með þessu frumvarpi?
    Hvers eiga þeir að gjalda sem keypt hafa lóðir eða hús með ákveðnum byggingarrétti og/eða samþykktum aðaluppdráttum með breytingum? Það hefur jafnan verið borgað fullu verði í kaupsamningi og samþykkt af viðkomandi skipulagsyfirvöldum á hverjum tíma.
    Gildistími byggingarleyfis upp á tólf mánuði er nú þegar alltof skammur. Á undirbúningstíma byggingaráforma og byggingarleyfistímanum geta breytingar á sköttum, fasteignagjöldum og útsvari ásamt ýmsum aðgerðum eða aðgerðaleysi sveitarfélaga kollvarpað öllum áætlunum fólks þannig að fresta verður framkvæmdum. Það er afar ósanngjarnt sveitarfélög geti einhliða svipt húsbyggjendur eigum sínum og rétti á grundvelli svona einhliða lagasetningar vegna þess að það liggur vel við höggi.
    Síðan er full ástæða til að skilgreina betur hvað felst í hugtakinu almannahagsmunir í þessu sambandi. Eru almannahagsmunir eingöngu áhugasvið hinna ýmsu meirihluta og þrýstihópa í skipulagsmálum á hverjum tíma en ekki frelsi almennings til athafna skv. gildandi lögum og reglum?

  • Finnur BIrgisson

    Samkvæmt frumvarpinu stofnast réttur til bóta vegna skipulagsbreytinga ekki \“nema byggingarleyfi hafi verið í gildi\“ þegar skipulagsbreytingarnar voru gerðar, þar sem \“söguleg byggð\“ hefur verið afmörkuð í deiliskipulagi.
    Þarna er þá gengið út frá þeim skilningi, að í öllum öðrum tilvikum geti stofnast bótaréttur vegna deiliskipulags, s.s. þegar dregið er úr byggingarmagni, en um það hafa verið skiptar skoðanir. Ef þetta frumvarp verður samþykkt, væri Alþingi sjálft búið að taka af skarið um bótarétt sem nú leikur vafi á að sé fyrir hendi og ekki eru dómafordæmi um. Það væri verr af stað farið en heima setið.
    Síðan lýsir það talsverðum ókunnugleika á því hvernig hlutirnir gerast á þessu fagsviði, að ætla að skilgreina „sögulega byggð“ í deiliskipulagi. Auðvitað ætti að gera það í aðalskipulagi, ef einhvers staðar.

  • Þodnjoð

    Það er innbyggt inn í lagarammann í dag ákveðin vernd á byggingum, þessi rammi mun færast sjálfkrafa upp aldursstigann ( er nú, held ég 1905 fyrir íbúðarhús og 1918 fyrir kirkjur) Framtakið er gott hjá forsvarsmönnum tillögunnar en það mætti víkka rammann í það að ná til nýrra bygginga sem hafa einstaka sérstöðu hér á landi, s.s. Ráðhússins, Hæstarétt, Hörpu og Hofs. Að sjálfsögðu losna þessar byggingar við að greiða fasteignagjöld eins og núverandi lög heimila. Þannig fæst meira fé í að viðhalda þessum húsum um langan aldur.Nokkuð sem vill gleymast í mörgum byggingum.

  • Takk, Hilmar Þór, fyrir að vekja athygli á málinu — það á sér auðvitað rætur í umræðu m.a. arkitekta núna í sumar, og ekki síður í athugasemdum frá m.a. Reykjavíkurborg og Húsafriðunarnefnd sem ekki tókst að vinna úr þegar skipulagslögin urðu til haustið 2010.

    Skilgreiningin er þannig hjá okkur að hverfi/hverfiskjarna megi kalla ,sögulega byggð’ þegar eitt af þrennu er uppfyllt: 1) byggð er að stofni til frá því fyrir 1920; 2) byggð hefur sérstakt byggingarsögulegt gildi; 3) byggð hefur sérstakt menningarsögulegt gildi. Sveitarstjórn hefði nokkuð frjálsar hendur innan þessarar skilgreiningar, og ég sé í sjálfu sér ekkert gegn því að svæðið innan Hringbrautar í Rv. gæti allt talist söguleg byggð. Mér skilst að nú sé einmitt verið að athuga sérstaklega hjá borginni hvaða vernd er hægt að veita gamla bænum í heild. — Líklega er þó heppilegra að byrja á smærri svæðum ef þetta verður samþykkt.

    Ég leitaði til þingmanna í umhverfis- og samgöngunefnd um meðflutning, og þeir brugðust allir vel við, óháð orðaskiptum í Ingólfstorgsdeilunni 🙂 — nema Sjálfstæðismennirnir Árni Johnsen og Birgir Ármannsson, sem ekki svöruðu ítrekuðum boðum. Ég túlka það þó ekki sem andstöðu við málið, við bara sjáum til þegar það kemur inn í nefndina. Þá verður beðið um umsagnir helstu hagsmunasamtaka plús fag- og áhugafólks, og ef þær eru jákvæðar met ég flutningshópinn það sterkan að málið eigi möguleika á að fara í gegn. Hef líka skynjað jákvæða strauma úr Skuggasundinu.

  • Spennandi að fylgjast með þessu. En þetta virkar varla afturf yrir sig. Nú er búið að diliskipuleggja flesta reiti innan Hringbrautar og staðfesta. Þó þetta frumvarp komi seint fram þá er um að gera að bjóða það velkomið.

    Ég bíð spenntur eftir svari við spurningu Jóns Ólafssonar að ofan.

  • Elín Sigurðardóttir

    Aðkoma VG að þessu máli er mjög einkennileg. Þeir tala fyrst um rannsóknarnefnd og kattaþvott og vilja síðan auka völd kjörinna fulltrúa með vísan til menningarlegra raka.

    http://thorleifurgunnlaugsson.com/category/greinar_og_alyktanir/ur_fjolmidlum/

    Hvernig væri að fá niðurstöðu úr rannsókninni fyrst með vísan til spillingarsjónarmiða og spillingarmenningarsögu?

  • Mjór er oft mikils vísir. Spurningin sem vaknar er af hverju ekki eru neinir sjálfstæðismenn meðflutningsmenn frumvarpsins?. var þeim ekki boðið upp í þennan dans eða sáu þeir eitthvað að þessu frumvarpi? Ef þeir sjá á þessu galla þá væri gaman að heyra þá strax og þurfa ekki að bíða eftir að fjallað verður um frumvarpið í þinginu.

  • Elín Sigurðardóttir

    Stendur til að endurvekja Fjárhagsráð? Þessu tengt þá skilst mér að lögmenn missi réttindi sín við gjaldþrot. Eru alþingismenn tæknilega gjaldþrota? Þurfa kjósendur ekki að fá ítarlegar upplýsingar um fjármál þeirra sem eiga að höndla með „almannahagsmuni“?

  • Jón Ólafsson

    Þetta er mjög mikilvægt mál og gott framtak. Mér finnst bara að það þurfi að skilgreina þetta öðruvísi. Ekki miða við árið 1920 einggöngu. Heldur þarf einhverja skilgreiningu á karakter hverfa. T.d. hafa Melar og Norðurmýri sterk einkenni en þau eru frá um 1945-50. Það þarf að fara varlega þar.

    En eitt verð ég að spyrja um. Mundi þetta ná til alls svæðisins innan gömlu Hringbrautar?. En það svæði er að stofni til frá því fyrir 1920 þó skipulagið sé frá 1927.

    Getur Hilmar eða flutningsmenn svarað því? T.d. væri gott að heyra í Merði varðandi þá spurningu.

    Ég endurtek þakklæti fyrir frumvarpið. það verður spennandi að fylgjast með umræðunum og vegferð þess í þinginu

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn