Mánudagur 14.01.2013 - 09:07 - 23 ummæli

Gallar í nútímalegum byggingum

Þekkt er sagan af því þegar Herbert Johnson (Johnson Wax) hringdi í arkitektinn sinn, Frank Lloyd Wright, og tjáði honum vandræði sín.  Hann var búinn að dekka borð fyrir kvöldmat í sumarhúsi sínu þegar þakið fór að leka  beint ofan á mitt borðstofuborðið.  Þetta var á Thanksgiving. Hinn heimþekkt arkitekt er sagður hafa haft lausn vandans og svarað um hæl: „Af hverju flytur þú ekki borðstofuborðið þannig að það standi ekki beint undir bununni“.

Þetta er saga sem sögð er af einum þekktasta arkitekt heims sem teiknaði hús sem er þekktara en arkitektinn sjálfur, sumarhúsið Falling Water.

Falling Water hefur tæknilega verið vandamál nánast frá því það var tekið í notkun árið 1930. Eins ótrúlegt og það kann að virðast og þrátt fyrir alla tæknilegu gallana er húsið álitið eitt af meistaraverkum byggingalistrinnar á síðustu öld og mikið dásamað.

Um miðjan november síðastliðinn varði akitektinn Ævar Harðarson doktorsritgerð sína frá háskólanum í Þrándheimi sem hann nefnir „Dristige Detaljer“.  Ritgerðin fjallar um galla í nútímabyggingum og þar er fjallað sérstaklega um Falling Water.

Í rannsóknum sínum kemst Ævar að því að nútímahús eru gölluð. Þar er mikið um rakavandamál, lekavandamál og margskonar niðurbroti í veggjum, þökum og gluggum. Þetta er svo mikið að algengur  kostnaður vegna gallanna er um 10% af byggingarkostnaðinum þar sem 5% er lagfært á byggingatíma og 5% síðar. Oft eru gallarnir enn meiri og stundum minni.

Ævar segir gallana megi oft rekja til forgangsröðunar þeirra sem stjórna framkvæmdinni og að helsta orsökin sé form og útlit, sem byggir á fagurfræðilegum viðmiðunum.

Mér sýnist að Ævar sé að segja að hönnuðir einbeiti sér að útliti frekar en traustum staðbundnum byggingaraðferðum. Þetta eru gömul vísindi og þarf ekki annað en að vitna í 10 bækur Vitruvíusar sem skrifaðar voru fyrir réttum 2000 árum en þar færir hann rök fyrir því að ekki sé skynsamlegt að byggja á sama hátt á Iberia skaganum (nú Spánn og Portúgal) og í Egyptalandi. Hann segir það vera vegna þess að veðurfar sé ekki það sama og byggingarefnið á staðnum mismunandi (fyrsta BREEAM kenningin?)

Þetta er mjög merkileg rannsókn hjá Ævari og tímabær. Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.

Hvað mig varðar setur rannsókn Ævars stoð undir sannfæringu mína um að alþjóðahyggjan í byggingarlist sé frekar til bölvunar.  Og þá breytir engu hvort horft er til forma og sérkenna staðanna eða til tæknilegra úrlausna. Hvert hús á sinn stað og sinn tíma fagurfræðilega og tæknilega.

Svo má velta fyrir sér hvaðan hin fagurfræðilegu viðmið, sem Ævar telur til ama, komi . Líklegt er að þau komi úr  alþjóðlegum tímaritum sem leidd eru áfram af þeim fyrirmyndum sem stjörnuarkitektar eru.

„Vörumst stjörnuarkitekta“.

Dr. Ævar Harðarson mun kynna ritgerð sína og rannsóknir víða á næstu vikum. Hann heldur erindi í Listaháskóla íslands þann 7. febrúar n.k. og á ráðstefnu um veðurhjúp bygginga á Grand Hotel þann 25 janúar n.k.

Hér er slóð þar sem hægt er að nálgast ritgerðina í heild sinni.:

http://ntnu.diva-portal.org/smash/record.jsf?pid=diva2:572324

Þá er hér slóð að viðtali við Ævar á RUV sem sent var út nýlega:

http://www.ruv.is/menning/galladur-arkitektur

Og tveir pistlar sem tengjast efninu:

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/03/19/regionalismi/

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/10/19/varist-stjornuarkitekta/

Ljósmyndirnar sem fylgja færslunni tók  Helgi Solberg.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (23)

  • Örnólfur Hall

    ÓLÁNIÐ og ‚ÓVÆRAN‘ á AUSTURLANDI:

    Mér er ofarlega í huga þessir ólánsömu Austfirðingar sem sitja nú uppi með um 50 óíbúðarhæf gallahús, sýktum af bygginga‘óværu‘ eins og lýst hefur verið. – Fjölskyldur hafa veikst vegna þessa og flutt út. – Skyldi þetta fólk fá bættan skaðann(veikindin, húsin og hliðarkostnað) hjá þeim sem seldu ? Eða verður þetta kannski eins og svo oft áður að saklausir þolendur bera skaðann og þeir sem bera ábyrgðina eru fríaðir?

  • Guðrún Ingvarsdóttir

    Takk fyrir að vekja athygli á þessari stórmerkilegu ritgerð kæri Hilmar.
    Gríðarlega flott vinna hjá Ævari – hlakka mikið til að hlýða á hann 25. jan.

    Ég vil nota tækifærið og skora á Iðuna, AÍ og Ævar að halda námskeið út frá verkefninu.

    Byggingageirann sárvantar góðan farveg fyrir endurgjöf og lærdóm – það þarf að auka þverfaglegt samstarf og samskipti allra hlutaðeigandi s.s. hönnuða, framkvæmdaraðilan og ekki síst rekstraraðilanna sem sitja uppi með „krógann“…… El þá von í brjósti að ráðstefnan um hjúpinn 25. jan sé upphafið að aukinni samvinnu og lærdómi 🙂

  • Örnólfur Hall

    BYGGINGARHRAÐI og GALLAR í NÚTÍMABYGINGUM :

    Það er ekki allt sem sýnist eins og kollegi Guðlaugur Gauti bendir réttilega á.
    Krafa nútímans er að hannað og byggt sé mjög hratt sem oft kostar að mistök verða (mannleg og tæknileg). Oft er líka verið að eltast opnanir og vígslur á fastsettum tíma.
    Má t.d. nefna að í byggingarflórunni í arabísku Furstadæmunum hafa komið upp alvarlegir gallar í hönnun, smíði og frágangi bygginga. – Undirstöður og landfyllingar hafa gefið sig og byggingar hafa reynst gallaðar.
    Nú síðast reyndist 27 hæða bygging (eftir rækilegar mælingar burðarþolssérfræðinga) , það léleg í þoli að hún var álitin geta hrunið. Það var alltof dýrt að reyna að styrkja hana því var ákveðið að brjóta hana niður innan 6 mánaða. Þar áður hafði t.d. gler‘fassaða‘ 6 hæða byggingar hrunið og 21 erlendir byggingamenn sluppu naumlega.
    Þá kom upp í hugann að fyrri suðurveggur Tónlistar- og ráðstefnuhússins, hússins sem er kallað „okkar allra“ skuldaranna, var rifinn niður eftir að áður hafði komið í ljós galli þ.e.s. að stálstyrkurinn var víst ekki nógu góður og veggurinn hefði getað hrunið. Fjórir eftirlits- og/eða byggingaraðilar komu að !

    ANNAÐ: Af heims-„Adwards“ nútímabygginga:

    Í byggingaflórunni er fjöldi skreyttur alls konar heims-„Awards“(heims-frægust, flottust og fegurst) eftir því hver gefur. — Það er víst þekkt staðreynd að fjölmiðlafulltrúar ‚Stórstirnanna‘ eru duglegir við að afla þeim allskonar„Awards“ úr þeirri stóru flóru sem mun vera um 100 talsins samkv. upplýsingum úr netheimum.- Ráð er t.d. að bjóða ‚réttum‘ umfjöllurum á ‚réttum‘ tíma í góðri gistivináttu til að fá góða umfjöllun verks í heims-„Adwards“-flórunni. Ætla má að þá séu byggingarnar ekkert endilega ‚þuklaðar‘ í þaula.

  • Af því að verið er að fjalla um byggingargalla, langar mig að benda ykkur á skemmtilega mynd sem kemur með áhugaverðan vinkil á verðlaunaða byggingu eftir sjálfan stjörnuarkitektinn Rem Koolhas.

    http://www.koolhaashouselife.com/

    Must see !

    P.S. Ég elska bygginguna meira eftir að hafa séð myndina. Fegurðin er oft í ófullkomnuninni 🙂

  • Byggingagallar.Ekki dettur mér í hug að gera lítið úr þeim en langar að benda á einn eftir Zaha Hadid. Ég skoðaði þessa slökkvistöð fyrir nokkrum árum og skyggnið, sem er svo þunnt og töff, stendur eiginlega ekki undir sjálfu sér. Sigið sést reyndar ekki á þessari mynd. Margt er smart í innréttingum þarna og heildarlausnin er með þeim ágætum að ekki hefur verið mögulegt að nota mannvirkið sem slökkvistöð. í stað þess var það gert að listaverki. Gott ef það átti ekki sinn þátt í að mannvirkin og stólarnir, sem þarna var hægt að skoða þegar ég var þarna, var allt saman gert að safni litlu síðar. Þetta bara til gamans vegna Falling Waters.

    http://de.wikipedia.org/w/index.php?title=Datei:Vitra_fire_station,_full_view,_Zaha_Hadid.jpg&filetimestamp=20061004214745

  • Þodnjoð

    Maðurinn heitir Þorgeir Jónsson og er arkitekt, Ríkharður.

    Mér var kennt í skóla að nota aldrei krossvið í undirklæðningu á þök né í stífingar á grind. Þegar heim var komið lét maður í minni pokann fyrir verkfræðingum um að nota krossvið í stífingar. Það kom mér á óvart að sjá nokkur stór hús hér á höfuðborgarsvæðinu klædd einnota málmklæðningum á krossvið og það rússnenskum. Þessi sveppur sem um er rætt, hefur verið blóraböggull í hartnær 30 ár og er honum kennt um marga kvilla sem fólk sannanlega finnur fyrir. En veikindin stafa meira af uppleystum límefnum, þéttingum og gerfiefnum en sveppnum sjálfum. Við værum löngu útdauð á jörðinni ef þessi sveppur væri einn svona hættulegur. Hann hefur fylgt okkur í yfir 6000 ár og jafnvel lengur. Þeir sem gera út á rannsókni á fúasvepp munu finna sveppinn í öllum húsum. Það að hann finnst í næstum hundrað ára húsi Landsspítalans er ekki af því að hann ákvað allt í einu að láta á sér kræla. Það er vegna rangra byggingarefna s.s plastmálningar á kalkmúr, akryl kíttis í gluggum og silikonþéttinga við viðhald.. Korkeinangrun þess tíma fúnar ekki nema liggja í bleytu án loftunar. :Þá er það tjaran í efninu sem gufar upp og veldur sjúkdómum. Líklegasta skýringin varðandi LHS sveppinn er rangt viðhald og tillitsleysi við gamlar byggingarhefðir.Annars kenndi Leifur Blummenstein mér að það sem skiptir máli er loftun, loftun og loftun.

    • Örnólfur Hall

      Það var ómetanlegt að geta sótt í reynslubrunn Leifs Blumensteins heitins.
      Þodnjoð er greinilega glöggur og reyndur arkitekt með góða yfirsýn.

  • Ríkharður Kristjánsson

    Ég vil byrja á því að óska Ævari til hamingju með titilinn en ekki síður bókina sem er mjög skemmtileg sem ekki er oft hægt að segja um doktorsritgerðir. Kannski verður þetta til þess að arkitektar fái meiri áhuga á byggingargöllum þegar einn úr þeirra hópi segir að þeir séu aðalframleiðendurnir.
    Á einum stað skjátlast honum að mínu mati en það er þegar hann segir að hefðbundinn íslenskur útveggur hafi reynst vel. Það er að mínu mati ekki rétt en um það fáum við tækifæri að ræða á komandi ráðstefnu 25. janúar.
    Ég ætlaði þó ekki að fjalla meira um það en svara Þodnjod sem eg veit reyndar ekki hver er. Hann segir: „Svo þurfum við að svara þessu bannsetta rugli með myglusveppi í húsum sem einhverjum hönnunargalla.“ Mér finnst líklegt að hann sé hér að vísa til nýlokinnar rannsóknar minnar á húsum á Egilsstöðum sem sannaði skaðsemi þess að velja birkikrossvið í þök og hefur fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Þodnjod er því raunar sammála að birkikrossviður sé skaðvaldur og er þar með sá fyrsti sem samsinnir mér. En hann telur að það sé ekki mál hönnuða. Þar erum við hins vegar ósammála. Ég tel að það sé hlutverk hönnuða að velja efni í byggingar.
    Síðan er annað atriði sem virðist hafa farið framhjá hönnuðum en það er undirkæling vegna útgeislunar frá málmklæðningum og döggun á krossviðnum sem því fylgir.
    Það telja norskir vísindamenn að sé raunar aðalatriðið í skemmdum á slíkum þökum.

  • Þodnjoð

    Þetta dregur úr klaufaskap, flýtir samræmingu. Þeir sem kunna það ekki verða ekkert betri á því að fela sig bakvið BIM. Hins vegar er að opnas nýtt verksvið hjá okkur þar sem ótal nýjar „söluvörur“ munu falla okkur í skaut í byggingariðnaði á lífaldri húsa sem við hönnum.

    Virtual Building er eitt vöruheiti sem gæti orðið of á. Þó BIM sé mikið notað
    sem samheiti yfir þessa tækni. Byggingarlíkan, sýndarveruleika líkan eru góð íslensk orð.

    Varið ykkur sem ætlið að nota þessa tækni. Látið líkanið aldrei af hendi til viðskiptavina ykkar, sérstaklega byggingarfyrirtækja og innkaupastofnana.
    Þeir verða að gera sér ÖPPIN að góðu með lesaðgang og prentun úr gagnagrunninum..

    .

  • Það er alveg klárt í mínum huga að það kemur fleira til en hönnunin eins og þodnjoð nefnir þegar um myglusvepp er talað. Smáatriði eins og bilið milli borðanna þegar þak er klætt á gamla mátann með 1″x6″ borðum er gríðar mikilvægt. Það loftar bæði í gegnum timbrið og milli borðanna og þannig milli sperrubilana. Allt þetta hjálpar. Krossviðsðlötur sem límdar eru saman með allskonar eiturefnum eru mjög þéttar og anda nánast ekkert.

    Þessar vangaveltur og aðrar slíkar tekur öll þessi tölvuforrit eki tillit til hvað sem þeu heira BIM eða BAM. Í hönnun dugar ekki frasinn „the computer says so“. Fólk hefur oftrú á tölvuforritum

  • Þodnjoð

    Það má líka benda á að hér á landi var lengi vel ekki skóli fyrir arkitekta. Starfandi arkitektar fengu sjaldan reynslusögur eldri kynslóða arkitekta, og fá varla enn, þó hér hafi verið starfandi arkitektaskóli í áratug. Það ber því að fagna Ævari og doktorsgráðu hans. Vonandi mun kunnátta hans nýtast ungum arkitektum í listaháskólanum.

    Svo þurfum við að svara þessu bansetta rugli með myglusveppi í húsum sem einhverjum hönnunargalla.
    Mjög sjaldgæft er að myglusveppur sé eina orsök heilsuleysis fólks. Það er fyrst og fremst mikil fjölgun byggingarefna sem gefa frá sér heilsuspillandi
    gastegundi og ekki síst röng notkun á byggingarefnum s.s. rússneskur birkikrossviður sem myglar alltaf við hærra jafnvægisrakastig en 20% og plastmálning á innveggi.

    Svo vona ég að menn hætti að nota orðið BIM því þetta er skrásett vörumerki hjá Autodesk Inc. Margir nota eitthvað annað forrit sem kalla BIM eitthvað annað.

    Ég er ekki að drekka Coka Cola ef ég er að drekka Malt.

    • Hilmar Þór

      Þodjoð, hvað viltu þá kalla bimmið? Framkvæmdasýslan kallar það BIM. Og hvaða skoðun hefur þú á þesskonar forritum?

  • Hilmar Þór

    Nú hefur þeim sem þróað hafa og selja teikniforrit tekist að sannfæra markaðinn um að mistök í hönnun og framkvæmd megi minnka verulega með notkun BIM líkana (Building information modeling).

    Einhvernvegin hef ég á tilfinningunni að þetta sé ofmetið og að seljendur forritanna hafi tiltölulega meiri hag af verklaginu en byggingariðnaðurinn.

    Ég man ekki eftir dæmi þess að forrit af nokkurri gerð hafa afstýrt hönnunarmistökum eða að kenna megi forriti eða vöntun á slíku, um mistök í hönnun eða framkvæmd.

    Þvi er nefnilega þannig háttað eins og sjá má af rannsókn Ævars að hönnun byggist mest á þekkingu og reynslu þeirra sem eru að hanna.

    Er eitthvað vitað um hvort slík kerfi (t.d. BIM) geti fyrirbyggt þá gerð af göllum sem Ævar hefur verið að rannsaka? Liggja fyrir einhverjar þekktar rannsóknir sem sýna að þessi forrit hefðu getað afstýrt einhverjum hönnunarmistökum?

    Ég vil taka fram að ég er svosem ekkert hissa á að mönnum hafi tekist að selja þesssi forrit þó ekki væri nema vegna þess hversu impónerandi það er að sjá allt húsið með öllum lögnum í þrívidd. Það er stórkostleg sjón en ég spyr hvort það sé eitthvað gagn af þessu sem nemur fyrir höfninni?

    • Sæll Hilmar.

      Já, það minnkar hættu á mistökum að vinna með þrívíðar upplýsingar í þverfaglegri hönnunarvinnu. Ekki nokkur spurning.

      Svo er hægt að nýta BIM-módelin til að sýna kúnnanum hönnunina í rauntíma, meira að segja á farsímanum sínum. Ekki slæmt það.

      Útópían (fullkomnunin sem stefnt er að) er að stytta ferlið frá hugmynd/hönnun til framkvæmdar: CAD/CAM.

      Annars finnst mér alltaf teiknibrettið og fisikal módel heillandi. Það er kannski bara rómantíkerinn í manni ?

  • Örnólfur Hall

    Af Frank Lloyd Wright :

    Frank Lloyd Wright varð fyrir ýmsum rógburði og tilbúnum sögusögnum á starfsferli sínum. – Öfundarmenn og gagnrýnendur kölluðu hann t.d. Frank Lloyd Wrong. – En snillingurinn lét það ekki á sig fá og hélt sínu striki og lét eftir sig ómetanleg byggingalistaverk. – Má nefna GUGGENHEIM-safnið.

    • Hilmar Þór

      Svo var talað um að höfundareinkenni FLW væru sterk og menn sögðu „Thats Wright all right“!

  • Örnólfur Hall

    Ég fagna því mjög að við arkitektar skulum hafa
    eignast doktor í byggingagöllum.
    Það var löngu kominn tími til. -Vonandi fjallar Dr. Ævar um glerbáknið við Austurhöfn og ýmislegt ófagurt þar. – Reyndar er ekki vinsælt að gagnrýna báknið (tekið óstinnt upp af mörgum) en það kemur að því að við verðum að horfast í augu við staðreyndirnar.-

  • Guðmunur Guðmundsson

    Er ekki eðlilegt að gallar séu á framleiðslu sem er jafn lítið stöðluð og arkitektúr? Og til að forðast misskilning þá er ég þeirrar skoðunnar að staðlaður arkitektúr sé enginn arkitektúr!

    • Jú jú,

      hús eru einstök og óstöðluð og arkitektúr heimsins flóknasta fag 😉

      Nei en svona grínlaust, koma ekki sömu gallarnir upp aftur og aftur, ár eftir ár (þar til tískan breytist, og menn fara að gera annars konar galla…) svo við afsökum tæplega megnið af byggingargöllum með því að hvert hús sé svona einstakt.

  • Stefán gleymir að nefna það að öll hús eru frumgerð. Það er að segja að þau eru gerð bara einu sinni. Vinna arkitektsins er óhemju flókin og flækjustigið margfalt meira en í nokkurri annarri skapandi vinnu. Ofan á allt kemur svo viðskiptavinurinn sem oftar en ekki þvælist fyrir sköpuninni og frelsi arkitektsins til að vinna sig til lausnar og frelsi hans til að velja byggingarefni til verksins.

    Þetta er sko ekki léttur leikur.

    Tek undir að varast beri stjörnuarkitekta og fara að ráðum Vitruvíusar og horfa sér nær!!!!

  • Einar Jóhansson

    Þetta er meiriháttar efni en það vantar tengilinn á sjálfa ritgerðina.

    • Hilmar Þór

      Þakk þér ábendinguna Einar. Það er búið að lagfæra og setja tengilinn á sinn stað.

  • stefán benediktsson

    Það er til mikils mælst að menn geti allt. Þú þarft að skipuleggja innmat hússins þannig að allt virki þægilega fyrir notendur, þú þarft að uppfylla alls kyns kröfur og skilyrði laga og reglna og þú þarft að velja efni og frágang sem tryggir minnst 50 ára endingartíma og síðan verður þú að gera þetta af þvílíkri snilld að það komi myndir af húsinu í blöðum.
    Verð þjónustu þinnar verður einnig að vera samkeppnisfært og framfleyta þér og þínum.
    Stjörnuarkitektar verða bara þeir sem fá myndir birtar í blöðum og þeir setja mælikvarðann sem við gjarnan miðum við. Við byrjum gjarnan með ásetning um að teikna Bjarnarfossahús og endum með Botnlangagötu 17.
    Er þetta ekki bara eins og allt annað í lífinu og ef lekur oná borðið þá færir maður það bara, þarf ekki arkitekt til að segja manni það.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn