Sunnudagur 06.05.2012 - 19:53 - 3 ummæli

Gamlar myndir úr Landakotsturni frá um 1930

Það er alltaf gaman að skoða gamlar myndir af fólki eða umhvefi sem maður þekkir.

Gunnar Vigfússon ljósmyndari sem er sonur Vigfúsar Sigurgeirssonar sem einnnig var ljósmyndari hefur gefið mér leyfi til þess að birta hér nokkrar gamlar ljósmyndir eftir föður sinn.   

Síðunni er sýndur sá  heiður að fá tækifæri til þess að birta þessar ljósmyndir og þakka ég kærlega fyrir það.

Í næstu færslum verða birtar nokkrar áhugaverðar ljósmyndir sem Vigfús tók í Reykjavík og  víðar á landinu á ferðalögum sínum.

Vigfús Sigurgeirsson var fæddur árið 1900 og lést  árið 1984. Hann ferðaðist víða og eftir hann liggur fjöldi ljósmynda sem allar hafa sterk höfundareinkenni listamannsins.

Efst er ljósmynd af Vigfúsi þar sem hann mundar Leica myndavél sína með aðdráttarlinsu sem hefur verið komið fyrir á hana. Leica myndavélina eignaðist Vigfús eftir dvöl sína í New York þar sem hann ljósmyndaði mikið í aðdraganda seinni heimstyrjaldarinnar.

Við byrjum á myndum sem Vigfús tók úr turni Kristskirkju við Landakot í Reykjavík.  Ef tvísmellt er á myndirnar stækka þær um leið og þær verða skýrari. Þá kemur í ljós hversu mikil gersemi þessar ljósmyndir eru.

Séð norður Ægisgötu. Takið eftir skipstjóravillunum sem eru að taka við gömlu timburhúsinum norðar og nær höfninni. Göturnar eru lagðar möl og þarna eru ljósastaurar og mikið af símastaurum. Áberandi á myndinni er hús Þorleifs Eyjólfssonar (1896-19689) húsameistara að Öldugötu 19, sem samþykkt var í byggingarnefnd 1930.  Þar er einungis búið að steypa kjallaraveggina.

Svo má sjá Landakotsspítalann gamla neðst til vinstri. Endilega tvísmellið á myndirnar.

Hér er horft norðaustur yfir Kvosina. Þessi mynd er tekin fljótlega eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnnar. Þarn sést að glæsibygging Búnaðarbanka Íslands eftir Gunnlaug Halldórsson arkitekt hefur náð fullri hæð. Þjóðleikhúsið blasir við ásamt húsum við Austurvöll. Bifreiðum er lagt beggja megin við Hólavallagötu enda var hún tvístefnugata.

 Hér er horft suðaustur yfir Tjörnina.  Sennilega er þessi mynd tekin skömmu fyrir stríð.  Hallgrímskirkju er ekki að sjá og Hlíðahverfið er bara holt. Athygli vekurað hvergi er trjágróður að sjá, enga bíla og ekkert fólk, en mikið af hágæða arkitektúr.

Ég man að Gunlaugur Halldórsson sem útskrifaðist frá konunglegu Dönsku listaakademíunni sagði að það hafo þótt  „bísna“  fínt að vera arkitekt á þessum áum.

Ég endurtek að gott er að tvísmella á myndirnar til þess að njóta þeirra betur.

Ef rýnt er vandlega í ljósmynd Vigfúsar Sigurgeirssonar sem tekin er niður Ægisgötu sést í sjóflugvél í Reykjavíkurhöfn. Þetta er stórmerkileg flugvél frá konunglega breska flughernum sem kom hingað gagngert í tengslum við Alþingishátíðina 1930.  Hín er af gerðinni Blackburn Iris. Einungis voru smíðaðar 5 (8) vélar af þessari gerð og flugu þær um allt breska heimsveldið enda með mikið flugþol. Í áhöfn voru 5 manns. Ekki veit ég hvað marga farþega vélin gat borið. En það fór eitthvað eftir því hvað langt flugið var.  Athygli vekur að farþegarnir sátu innandyra meðan flugmennirnir sátu úti í kuldanum líkt og kúskarnr sem stúrðu hestvögnum hefðarfólks nokkrum áratugum áður.

Myndin niður Ægisgötuna er einnig merkileg  fyrir þeirra hluta sakir að þarna voru einungis liðin 3 ár frá því að Lindberg flug einn síns liðs fyratur manna yfir Atlandshafið frá New York til Parísar.

Að neðan er myndband af þessari merku flugvél byggt á tökum frá 1926.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Einsleitt, homogent og harmoniskt byggingarefni vekur athygli. Í dag er of mikið útval byggingarefna og arkitektunum finnst þeir þurfi að nota þau öll. Kannski til þess að draga athyglina frá hinum eiginlega arkitektúr?

  • Steinarr Kr.

    Takk, mjög skemmtilegar og áhugaverðar myndir.

  • Einar Jónsson

    Ótrúlegar myndir. Ótrúlega fá tré, fátt fólk og fáir bílar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn