Geirharður Þorsteinsson arkitekt er látinn og verður borinn til grafar á morgun.
Í mínum huga var Geirharður einstaklega flinkur arkitekt með sterka vitund um byggingalist. Hann var rökfastur og djúpþenkjandi með góða nærveru. Hann hafði skoðun á málum og lét hana óhikað í ljós. Hann var ekki þeirrar gerðar að krefjast þess að fólki væri honum endilega sammála. Hann kaus umræðuna og sagði sína skoðun og gaf fólki svigrúm til að meta hana. Á sama hátt hlustaði hann á fólk og lagði mat á skoðanir þess en gaf því svigrúm til að halda sinni í friði. Geirharður sá skoðanir og sjónarmið takast á en ekki persónur. Það var gaman að ræða málin við Geirharð því það voru aldrei nein leiðindi þó menn væru ekki sammála og maður fór alltaf ríkari af hans fundi.
Geirharður var mjög virkur í arkitektafélagi Íslands, formaður þess um tveggja ára skeið. Hann var ritari og um tíma og var bæði í gjaldskrárnefnd, laganefnd, menntamálanefnd, samkeppnisnefnd og skemmtinefnd. Hann var sérlega virkur í allri umræðu um fagleg málefni innan félagsins. Það er mikill missir af þeirri umræðuhefð sem er nánast lögð af nú á dögum.
Nú hefur hann kvatt eftir langa baráttu við Altzeimer sjúkdóminn. Við áttum síðast tal saman á Grund fyrir um einu ári. Hann tók mér vel en mundi ekki hver ég var eða hvað ég hét. En hann sagðist kannast við mig og brosti. Samtalið var ekki eins og áður. Það var slitrótt og samhengislaust. En ég fór að spyrja hann um eitthvað sem varðaði Munchen. Svona til að segja eitthvað. Þá lifnaði hann við og fór að segja mér frá strákapörum þeirra námsmannanna þar í borg um miðjan sjötta áratug síðurstu aldar. Þetta voru skemmtilegar lifandi og líflegar sögur af honum og „Gunna Torfa“ og einhverjum fl. (líklega Gunnari Torfasyni verkfræðingi) Við skemmtum okkur báðir við þetta. Hann sem sögumaður og ég sem hlustandi. Síðasta samverustund mín með Geirharði snerist upp í að verða skemmtileg minning sem ég er þakklátur fyrir og gleymi aldrei.
+++++
Geirharður Þorsteinsson var einn þeirra arkitekta sem hafði mikla og góða yfirsýn yfið viðfangsefnið og sterk höfundareinkenni. Allt sem hann tók sér fyrir hendur var úthugsað og vel útfært í þeim anda sem tilheyrði honum og honum einum. Ég tek hér dæmi um eitt verka hans sem skýrir þetta ágætlega út fyrir þeim sem sjá.
Þetta er húsið Skildinganes 62 í Reykjavík sem teiknað var fyrir 41 ári eða árið 1976. Líklega eitt af bestu sérbýlishúsum á Íslandi.
Húsið stendur í Skerjafirði niður við sjóinn. Handan við Skerjafjörð eru iðagrænar grundir Álftaness. Á milli er sjór og í fjörunni eru sæbarðar klappir og grjóthnullungar. Þessar aðstæður ásamt húsrýmisáætluninni hafa gefið arkitektinum innblástur. Hann velur að hafa húsið á tveim hæðum gagnvart sjónum en einni að götu. Horn hússins eru rúnnuð og mjúk eins og strandlengjan og sæbarið fjörugrjótið. Það er gras á þakinu sem kallast á við Álftanesið í fjarska og náttúru strandlengjunnar. Það er margt fleira sem kemur til. En öllu þessu er mætt á snilldarlegan hátt frá hendi Geirharðar. Þessi ávölu form sem áttu upphaf í Skildinganesinu notaði Geirharður síðar víða í byggingum sínum.
Þetta hús stendur við Skildinganes 62 og getur hvergi staðið annarsstaðar og þetta hús getur ekki verið teiknað af neinum öðrum en Geirharði Þorsteinssyni.
Geirharður varði miklum hluta starfsæfinnar í skipulagsmál sem hann sinnti af miklum áhuga, fagmennsku og með góðum árangri, enda félagslega sinnaður. Það er samt þannig að ég hefði viljað að hann sinnti húsahönnun í meira mæli því þar nutu hæfileikar hans sín best eins og sést á því húsi sem hér er fjallað um.
Að neðan koma nokkrar myndir af umræddu húsi.
Húsið er fyrirferðalítið frá götunni sét. Grænt grasþakið á vel við þarna. Handan Skerjafjarðar sérst í Álftanesið.
Í húsinu er gert ráð fyrir lítilli einstaklingsíbúð með sérinngangi. Íbúðinni er gefið mikið vægi og virkar ekki sem einhver hjálega eða hliðarbúgrein í öllu samhenginu. Hún er á efri hæð hússins séð frá suðri.
Suðurhliðin er öguð í formi en samt organisk að vissu marki. Litla íbúðin er á efri hæð til vinstri með sameiginlegum svölum með aðalíbúðinni.
Aðalaðkoma og austurhlið. Þarna sést til sjávar og út á Álftanes.
Aðalinngangur og nokkrar sæbarðar steinvölur.
Götuhlið
Það er sama hvaðan litið er til hússins, allt er í samræmi og miklu jafnvægi. Höfundareinkenni Geirharðar eru augljós og leynast hvergi.
Að ofan er snið í húsið Skildinganes 62 frá 1976. Þetta er sérlega fallegt snið sem minnir á snið Alvars Aalto í Villa Carré frá miðjum sjötta áratugnum. En það var sagt um Aaltó að hann hafi oft byrjað á sniðinu þegar hann teiknaði hús. Sniðið gefur strax fyrirheit um umfang hússins og leguna í landinu. Nú er sagt að arkitektar byrji á að velta fyrir sé í hvaða forriti eigi að teikna!
Að ofan eru grunnmyndir hússins sem fróðlegt er að rýna í. Takið eftir litlu íbúðinni sem óskað var eftir. Hún er hvorki sett í kjallara né ris. Heldur er henni skapað rými á besta stað í húsinu. Þó lítið hafi verið fjallað um þetta hús undanfarin ár þá leikur ekki nokkur vafi á að þetta er í flokki bestu húsa á Íslandi.
Ef smellt er á myndirnar þá stækka þær.
Þetta hús er „fjallamjólk“ íslenskrar byggingalistar.
Takk fyrir að vekja athygli á þessu.
Ég hafði ekki heyrt af þessu húsi áður.
Falleg samlíking: „Fjallamjólk íslenskrar byggingarlistar“
Falleg grein um góðan arkitekt og hans verk. Mér kemur samt í hug spurningin um „höfundareinkenni“ sem voru áberandi í verkum arkitekta á árum áður. Nú verður maður ekki eins mikið var við þau. Er það e.t.v. vegna þess að arkitektarnir eru fleiri? Eða er það vegna þess að áður unnu þeir mikið einir en nú eru þetta stór fyritæki?
Ég hef oft dáðst að þessu húsi sem blasir við þegar genginn er stígurinn meðfram sjónum frá Ægissíðu í Nauthólsvík. Ég gerði mér einu sinni erindi upp stíginn við hliðina á húsinu til að skoða götuhliðina og varð ekki fyrir vonbrygðum.