Fimmtudagur 24.01.2013 - 08:18 - 7 ummæli

Getur arkitektúr fyrirbyggt glæpi?

 

„Það er skýrt samhengi milli skipulags íbúðahverfa og tíðni glæpa og skemmdarverka“.

Þetta segir danski arkitektinn Bo Grönlund sem hefur s.l. 15 ár einbeitt sér að rannsóknum og ráðgjöf um möguleika til að nota arkitektúr og skipulag til þess að draga úr innbrotum og skemmdarverkum. Hann hefur auk rannsókna verið ráðgjafi fyrir meira en 60 sveitarfélög í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hvað þetta varðar.

 „Ég upplifi vaxandi áhuga fyrir að lækka tíðni glæpa með þeim tækjum sem skipulag og arkitektúr hefur yfir að ráða“  segir Grönlund í nýlegu viðtali.

Yfirgripsmiklar rannsóknir og reynsludæmi sýna að bæjarskipulag þar með talið lögun borgarrýma, form og lögun bygginga, götulýsing, garðar, lega gatna og göngustíga skipti miklu máli þegar innbrot og aðrir glæpir eru annarsvegar. Þá er betri yfirsýn, meiri umferð gangandi, hjólandi og akandi., félagsleg samskipti íbúanna og eignarhald mikilvægt í baráttu gegn glæpum.

Því er haldið fram að þar sem þetta allt fer saman geti  fækkun glæpa numið allt að 95% án þess að glæpir flytjist í önnur hverfi að marki.

Meðvituð hönnun og skipulag hvað þetta varðar getur dregið úr margvíslegum ófriði í hverfunum og aukið öryggi íbúanna.

Grönlund heldur því fram að arkitektúr í víðum skilningi geti beinlínis komið í veg fyrir innbrot, skemmdarverk og graffití. Hann bendir á að í Hollandi sé gefin út vottun um öryggi íbúðahverfa í þessu tilliti og segir að arkitektar þurfi að blanda sér í þessa umræðu.

Efst er mynd þar sem óvelkomnum er haldið utan íbúðagötunnar með múrum og grindarhliðum ásamt öryggismyndavélum og þess háttar lausnum. Að vissu marki er svona lokun vísbending til  afbrotamanna um að innan múrsins sé að finna verðmæti sem gætu gefið nokkuð í aðra hönd. Afbrotamennirnir tílka þessar aðstæður sér í hag vegna þess að sennilega erufáir heima og íbúarnir ekki félagslega tengdir á sama hatt og í hefðbundnum opnum húsagötum. Svona öryggisbúnaður stuðlar einnig að leiðinlegum líflausum aðstæðum með takmörkuðum félagslegum samskiptum sem ekki eru ákjósanlegar til búsetu.

Hér er slóð þarsem skoða má slíðrur úr fyrirlestri Bo Grönlund:

http://www.re-ad.dk/files/31559320/CPTED_KTH_2010_general_75dpi.pdf

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Stefán Benediktsson

    Rannsóknir hafa sýnt aukna glæpatíðni í miðjugangs- og svalgangsblokkum í USA og UK en ekki Þýskalandi.

  • „Það er skýrt samhengi milli skipulags íbúðahverfa og tíðni glæpa og skemmdarverka“
    Nú hélt ég að það ætti að fara að tala um skipulagsferlið og glæpi og skemmdarverk í því sambandi. Er enginn búinn að rannsaka það?

    Annars, er ekki verið að rugla saman tvennu. Ég fór í heimsókn um daginn í íbúðarhverfi í BNA þar sem ég varð að framvísa skilríkjum til að komast inn í hverfið. Ófélagslegt já, en ekki ólöglegt og reyndar framkvæmt með hjálp lögreglu sem skönnaði skilríkin. Þetta þykir hið ákjósanlegasta hverfi í landi ójöfnuðarins.

  • Þodnjoð

    Breta lokuðu nokkra arkitekta inni í stríðinu til að koma fram með skipulag sem kæmi í veg fyrir að nazismi festi rætur í Bretlandi…..hm’?

    Það er einnig þekkt að skólar eru sums staðar hannaðir með tilliti til eineltis.
    Þá er forðast að hanna svokölluð eineltishorn og afkima….samt skjóta menn í skólum í BNA

  • Guðmundur

    Sýnist þetta ríma vel við (og byggja að e-u leyti á) kenningum Jane Jacobs í Death and Life of Great American Cities (hér er t.d. fínt yfirlit http://citybuilderbookclub.org/schedule-death-and-life-of-great-american-cities/).

    Hins vegar getur þessi hugsunarháttur, að það megi leysa félagsleg vandamál með skipulagi og arkitektúr (þ.e. ofanfrá), verið varasamur eins og dæmin sanna í gegnum tíðina, sérstaklega hvað varðar byggingu félagslegra íbúða í anda módernismans (Pruitt-Igoe væntanlega alræmdasta dæmið). Þetta sýnist manni þó vera skref í rétta átt.

    • Hilmar Þór

      Jú Guðmundur, þetta rýmar við Jane Jacobs enda vitnar Bo Grönlund oft í þá merkiskonu. Ef þú googlar danska arkitektinn þá finnur þú bæði í texta og á videoviðtölum kafla þar sem hann vitnar sértaklega í Jane.

  • Sigurður Kristjánsson

    „Getur arkitektúr fyrirbyggt glæpi?“

    Stót er spurt.

    Það er greinilegt að Bo Grönlund tekur mið af hverfum þar sem fyrir var óvenju mikil glæpahverfi eins og þarna sunnan Odense. Á slíkum stöðum er sjálfsagt hægt að mæla minkun glæpa um 90% Eftir að hafa Googlað arkitektinn þá trúi ég þessu.

    Eitt er mikilvægt sem Hilmar nefnir ekki og það er atvinnuleysi. Í hverfum (samkvæmt Bo) þar sem atvinnuleysi er mikið eykst glæpastarfsemi og skemmdarverk viðgangast.

    Þetta virðist flókið í fyrstu en eftir að hafa skoðað hugmyndirnar betur á netinu þá blasir við að þetta er rétt hjá Bo.

    Virkustu leiðirnar til þess að minnka glæpi í íbúðahverfum má leysa með arkitektúr og skipulagi annarvegar og félagslegum ráðstöfunum hinsvegar.

    Refsing og allskonar viðvörunakerfi duga lítið.

  • Einar Jóhansson

    Þarna opnast enn ein fosenda skipulagshöfunda og húrateiknara að hyggja að. Fram að þessu hefur meginforsenda skipulags verið þarfir einkabílsins. Danin bendir á að fáfarnar boangagötur séu séega varasamar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn