Föstudagur 10.03.2017 - 19:05 - 9 ummæli

Glatað tækifæri?

Að ofan er áhugavert myndband af tillögu Dönsku arkitektastofunnar C.F Möller í stórri samkeppni um sjúkrahús á norður Sjálandi í Danmörku. Myndbandið  sýnir hvernig sjúkrahús sem er byggt á opnu svæði gæti litið út.

Danirnir ákvaðu að byggja nýtt „supersjúkrahús“ á opnu svæði  þar sem rúmt var um það og mikil tækifæri til þróunnar til langrar framtíðar.  Þeir stóðu frammi fyrir tveim kostum. Annaðhvort að byggja nýtt sjúkrahús á nýjum stað eða tjasla við eitt af þeim sjúkrahúsum sem ákveðið var að sameina.

Þetta er í raun heillandi umhverfi og heillandi arkitektúr sem sjá má á myndbandinu.  Það hefur verið vitað í byggingalistinni um aldir að fallegt og manneskjulegt umhverfi er heilsubætandi.

Þetta eru frændur okkar Danir meðvitaðir um.

Endilega skoðið hjálagt myndband og látið ykkur dreyma.

Það hlýtur að vera eftirsóknarvert fyrir starfsfólk og sjúklinga og aðstandendur þeirra að hafa aðgang að sjúkrahúsi í svona umhverfi og í svipuðum gæðaflokki.

Tillaga C.F. Möller varð ekki fyrir valinu þegar upp var staðið.

Gert er ráð fyrir að sjúkrahúsið þjóni un 300 þúsund manns og verði tilbúið árið 2021.

Það var haldin stór samkeppni um verkið þar sem skiladagar arkitektanna voru í september 2013 og í síðari áfanga í apríl 2014.  Þarna er gert ráð fyrir að það taki 7 ár frá því að arkitektarnir skiluðu inn tillögum sínum í samleppninni þar til sjúkrahúsið er fullbyggt. byggingakostaður var áætlaður 4 milljarðar danskra króna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Gunnar Gunnarsson

    Er e.t.v. ástæða til að rannsaka stjórnsýsluna í þessu máli?

  • Hilmar Þór

    Já Vilhjálmur.

    Og afhverju segir Framkvæmdasýslan og Skipulag Ríkisins að það muni seinka opnun sjúkrahússins ef fundinn yrði nýr staður?

    Þau segja að það taki 16-21 ár að gera það sem danir gera á 6 árum!

  • Manni líður hálf undarlega eftir að hafa horft á þetta videó. Vitandi að bæjarstjórnin í Garðabæ hefur boðist til að láta af hendi land fyrir svona sjúkrahús. Maður finnur fyrir vanmætti gagnvart ofbeldi þessa pólitíska afls sem er keyrt áfram af embættismönnum og ráðgjöfum sem eru hagsmunatengdir Hringbraut. Þeir telja farsælast að segja ekki neitt.

  • Sigrún Gunnarsdóttir

    Þessi þögn ráðamanna er óskiljaneg!

  • Frábær hugmynd að nýjum Landspítala á nýjum stað fylgt eftir af höfundi bloggsins með yfirskriftinni „Glatað tækifæri“, sem lýsir engu nema uppgjöf. Margoft hafa birst á þessum vettvangi ámóta hugmyndir með teikningum af eftirtektarverðum sjúkrahússbyggingum erlendis og nýlega fjallaði einn helsti áhugamaður um byggingu nýs Landspítala á nýjum stað, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson um nýjan spítala sem verið er að byggja við Herning á Jótlandi og birti mynd af framkvæmdum á svæðinu sem er opið og víðfemt og liggur vel við samgöngum. Sigmundur bendir á Vífilsstaði og segir þá staðsetningu og umhverfi um margt líkjast þeirri sem er á Jótlandi. Því miður hefur baráttan ekki fengið hljómgrunn í stjórnkerfinu þó fyrir liggi, að nýr spítali á nýjum stað eigi sér marga fylgismenn jafnt meðal almennings og heilbrigðisstarfsmanna. Vegna þessa mótbyrs í stjórnkerfinu og allt að því þöggunar virðast hugsjónamennirnar um það bil að missa móðinn.
    Ákvörðunin um uppbygginguna við Hringbraut var tekin fyrir nær tveim áratugum og þrátt fyrir stórfelldar breytingar í miðborginni og eins varðandi eldri húsakost Landspítalans má einhver þar til kosin elíta ekki til þess hugsa að málin verði endurskoðuð. Hvaða hagsmunir liggja þar að baki og hvers vegna þessi þráhyggja er erfitt að greina en eitt er víst að almannahagsmunir eru ekki hafðir þar að leiðarljósi.Og hvað hefur breyst? Hótel og gististaðir rísa nú eins og gorkúlur í miðborginni og þangað er stefnt milljónum ferðamanna. Háskólar og aðrar menntastofnanir, fjármálageirinn, opinberar byggingar og ef hugsjónir borgarstjórnar rætast um flugvöllinn burt á að reisa þrjátíu þúsund manna byggð í Vatnsmýrinni. Inn í þetta kraðak á að sprengja nýjan Landspítala og vandséð hvernig aðkoman verður fyrir sjúklinga og starfsmenn í fyllingu tímans. Nógu slæmt er umferðaröngþveitið núna og mun sannarlega fara versnandi. Annar vandi blasir við. Núverandi byggingar Landspítalans eru margar hverjar afar illa farnar, lekar og þjást af sveppagróðri og talið að tugi milljarða þurfi til þess að koma þeim í sæmilegt horf.Fyrirhyggjuleysið virðist því algert, framtíðarsýnin engin og alvarlegastur er doðinn á Alþingi og hjá fjárveitingarvaldinu.
    En þeir sem vilja nýjan spítala á nýjum stað mega alls ekki gefast upp í sinni baráttu. Þeir hafa rökin og hagsmuni almennings með sér og það eru til áhrifaríkar leiðir. Fá Gallup eða önnur ámóta fyrirtæki til þess að gera vandaðar skoðanakannanir um vilja landsmanna í þessu máli. Viltu nýjan Landspítala á nýjum stað? Já eða nei. Gjarnan mætti hafa þessa könnun í tvennu lagi þannig að sérstaklega verði kannaður hugur heilbrigðisstarfsmanna. Og síðan væri ekki úr vegi, að hugsjóna-og baráttujaxlinn, Sigmundur Davíð taki málið fyrir í þinginu með þeirri rökhyggju sem honum er lagin. Þingheimur hefur gengið í gegnum afgerandi endurnýjun og ungir eldhugar sest á þingbekkina í stórum stíl. Kannski sjá þeir Landspítalamálið í nýju ljósi og tilbúnir til þess að feta inn á nýjar slóðir með nýjan Landspítala á nýjan stað t.d. Vífilsstaði. Kemur í ljós þegar á reynir.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér þetta GSS.

      Það er hressandi að fá svona viðbrögð.

      Og það er rétt hjá þér að það er augljós þöggun í gangi.

      Hringbrautarsinnar treysta sér ekki einu sinni í umræðu um þetta mikla þjóðþrifamál.

  • S. Sigurðsson

    Á svona stað vildi ég fæðast og deyja í stað þess að vera boðið uppà að upplifa tvær stærstu stundir lífsins í mygluteknum húsum á stórum byggingastað!

  • Gerðu opinberir aðilar með ráðherra í öndvegi ekki ráð fyrir að það mundi seinka opnun sjúkrahússins um 10-15 ár ef fundinn yrði nýr staður. Það er að nýtt og flott sjúkrahús á Íslandi mundi opna á árunum milli 2032-2037.

    Hvaða vitleysa er þetta?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn