Mánudagur 07.02.2011 - 08:45 - 9 ummæli

Global Warming – Fljótandi borgir

Í ljósi þess að yfirborð sjávar muni hækka í kjölfar gróðurhúsaáhrifa er gert ráð fyrir miklum fólksflutningum, jafnvel þjóðflutningum þegar þéttbýl svæði fara undir vatn.

Reiknað er með flutningum sem eru meiri og svakalegri en nokkurn tíma hefur gerst í veraldarsögunni. Hundruð miljóna manna munu þurfa að flýja vatnsflóðið þegar ís heimskautanna og jöklar meginlandanna bráðna. Auðvitað vonar fólk að þessi spá gangi ekki eftir en meðan þetta er möguleiki eru skipuleggjendur að velta fyrir sér hvernig bregðast skuli við ef illa fer.

Einn þeirra er arkitektinn Vincent Callebaut sem gert hefur tillögu að algerlega sjálfbærum fljótandi borgum þar sem búa allt að  50 þúsund manns.  Hann kallar þetta „ecopolis“ samanber „metropolis“ og líkir forminu við vatnaliljuna Victoria

Callabaut segir þessa hugmynd vera fyrir “climate change refugees”

Þetta er mikið verkefni sem tekur á öllum umhverfisþáttum á róttækan hátt. Þetta á að vera sjálfbært hvað varðar orku og fæðuöflun. Þarna verður stundaður venjulegur landbúnaður með grænmetisrækt  auk þess að þarna verður umfangsmikil aquaculture eða grænmetisræktun neðansjáfar.

Vincent Callebut og hans teymi gerir ráð fyrir að þetta geti orðið að veruleika um árið 2100 ef það verður ekki þegar orðið of seint þá.

Eitt aðalvandamálið er að hugmyndin er svo dýr að fólk sem þarf sérstaklega á þessu að halda, svo sem íbúar í Bangladesh, mun aldrei hafa ráð á þessu athyglisverða úrræði. En hvað sem öllu líður þá fá hugmyndirnar fólk til þess að velta aðsteðjandi loftslagbreytingum fyrir sér og leita lausna.

Sneiðing.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Sýnist þetta henta vel fyrir ríka fólkið .. sem siglir svo í land til að sjá „gamla“ bæinn og skrýtna fólkið sem býr þar!

  • Ásmundur E.

    B. Fuller var stórhuga og mikill hugsuður. Á slóðinni að neðan má sjá eina af hugmyndum hans. Sennilega þá sem Stefán Benediktsson er að tala um. Þetta er hjúpur sem helst á lofti yfir New York með hitamismuninum einum saman. Kíkið á þessa 50 ára gömlu ótrúlegu hugmynd:

    http://www.studio-international.co.uk/studio-images/cold_war_modern/buckminster_b.asp

    Það gleymir enginn Fuller sem hefur einhverntíma tekið efftir honum á annað borð.

  • stefán benediktsson

    Muniði eftir bjartsýnismanninum Buckminster Fuller. Hann hannaði fljótandi 5000 manna þorp „í Tókíó“, Triton city. Líka fljúgandi þorp með Shoji Sadao. „Geodesisk“ kúla, 1 míla í þvermál, úr sívölum álprófílum með hillu fyrir um 5000 manna sjálfbært þorp, „Ský númer níu“ á að haldast uppi, samkvæmt þyngdarlögmálinu, af yfirþrýstingi vegna gróðurhúsaástands inní kúlunni.

  • Hörður

    Mögnuð framtíðarsýn og í sjálfu sér ekkert sem segir að eitthvað þessu líkt geti ekki orðið að veruleika í framtíðinni.
    Benda má hinsvegar á að yfirborð sjávar hefur farið hækkandi síðan síðustu ísöld lauk (fyrir um 10.000 árum síðan) og hækkar u.þ.b. um 3 sentimetra á áratug. Eins metra hækkun sjávarborðs mun því taka um 350 ár með sama áframhaldi. Það er því ástæðulaust að láta móðursýkina ná tökum á sér vegna hækkunar sjávarborðs. Nýjustu mælingar sýna reyndar að hækkunin virðist hafa hægt á sér undanfarin ár.

  • Guðmundur

    Annars, svona í framhjáhlaupi, var ég að ljúka við mjög góða bók e. breska rithöfuninn China Mieville, The Scar, þar sem lýst er fljótandi sjóræningjaborg. Óneitanlega áhugaverðar lýsingar fyrir áhugafólk um arkitektúr: http://en.wikipedia.org/wiki/Armada_(Bas-Lag)

  • Þegar ísöld skall á síðast gerðist það á nokkrum mánuðum, á hálfu ári minnir mig. Skuggalegt. Þegar það gerist næst, væntanlega vegna breytinga á Golfstraumnum t.d. vegna bráðnunar jökla og norður/suður skautanna, verður norðurhjarinn óbyggilegur, bæði Norður Ameríka og Evrópa. Þetta svæði verður að sífrera á örstuttum tíma. Þetta er því ekki skemmtileg sviðsmynd eða einhver „lausn“ á hlýnun jarðar, a.m.k. ekki fyrir okkur.
    Annars skilst mér að hækkun sjávar, sem er óumflýjanleg, hvaða ráðstafanir sem við álpumst til að gera í umhverfismálum, komi aðallega til vegna rúmmálsaukningar sjávar vegna hækkandi hitastigs, ekki endilega af bráðnun íss.

  • Guðmundur

    Það fyrsta sem manni dettur í hug eru óneitanlega gervieyjarnar í Dúbaí. Og það er einmitt málið, eins og Hilmar og Þorsteinn benda á þá er þetta of stór hugsun, og sjálfsagt frekar sett fram til umhugsunar frá hendi arkitektsins. Og það væri einmitt helst hægt að sjá fyrir sér svona eyjar rísa á stöðum eins og Dúbaí, þar sem saman fara mikið ríkidæmi og mikil völd stjórnvalda fara saman. Það er ólíklegt að farið verði í svona stórvirki þar sem fjármagn og völd eru dreifðari og lýðræði virkara.

  • Árni Ólafsson

    Jörðin leitar jafnvægis – ég held að framreikningur eins þáttar í náttúrufarinu án tillits til annarra sé óraunsær. Hlýnun verður aðeins að því marki að jafnvægi móður jarðar raskist.

    Er ekki líklegt að bráðnun heimskautaíss muni hafa áhrif á hafstrauma? Hafstraumar hafa áhrif á hitafar og veðurfar. Verði breyting á Golfstaumnum verða að öllum líkindum miklar breytingar á veðurfari á okkar slóðum – þ.e.a.s. kólnun. Hvaða áhrif mun ísöld í Norður-Evrópu hafa á byggð á Íslandi? Safnast þá ekki meiri ís á pólinn? Lækkar yfirborð heimshafanna aftur? Verður siglingafært á norðurslóðum? Verður byggilegt á Íslandi og í Skandinavíu? Fæst meira byggingarland í Hollandi? Gerir jarðhitinn okkur kleift að búa hér áfram?

    Hefur einhver gert framtíðarstúdíu á snjófjölbýlishúsum og ístónlistarhöllum?

  • Þorsteinn G.

    Þetta er einhversstaðar milli draums og veruleika, fallegt, úthugsað og vel útfært. En í raun einhversstaðar milli martraðar og veruleika fyrir flesta. Fólkið í Bangladesh og á stórum svæðum við vesturströnd Afríku munu bara veslast upp og hverfa af yfirborði jarðar. Kannski að viðlagasjóður fjármagni þetta fyrir þá sem búa á Eiðismýri og í bryggjuhverfunum hér á landi.

    Aðalgallinn við hugmynd Callebaut er að þetta er of stór hugsun. Stórar hugsanir með stórum lausnum eru að líða undir lok sem betur fer.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn