Föstudagur 04.03.2016 - 07:43 - 5 ummæli

„Góði markaðurinn“

 

        Le Bon Marché í París, lauslega þýtt “ Góði markaðurinn“ er talinn fyrsta “department store” eða kringla veraldarinnar. Hann var stofnaður árið 1838 með 12 starfsmönnum sem afgreiddu fjóra mismunandi vöruflokka á um 300 fermetrum.

Hugmyndafræðingurinn að baki vöruhúsahugmyndarinnar, Aristide Boucicaut, breytti verslunarháttum þannig að verðin voru föst (ekkert prúttað) og möguleiki var á að skipta vörunni. Hann auglýsti líka þjónustuna og tífaldaði veltuna á 8 árum frá 1852 til 1860.

Hann byggði nýtt hús yfir starfssemina árið 1869, sem enn stendur ad mestu óbreytt að ytra byrði. Húsið þótti mjög framúrstefnulegt á sínum tíma, en það var teiknað af arkitektinum Louis-Auguste Boileau og verkfræðingnum Gustave Eiffel sem sá um burðarvirki og þök yfir innigörðunum.  Sá hluti  ber sterk höfundareinkenni Eiffel sem teiknaði Eiffelturninn eins og flestir vita.

Húsið stendur enn þann dag í dag og þjónar tilgangi sínum fullkomlega og jafnvel betur en nýbyggð hús fyrir sömu starfssemi gera í dag. Nýbyggingin sem stendur við Rue des Serves er um 50 þúsund fermetrar eða nánast tvöfalt stærri en Kringlan í Reykjavík var við opnun hennar meira en  öld síðar.

Fyrir okkur Íslendinga er  forvitnilegt hvernig að sjá hvernig þetta virkar allt saman í París. Til dæmis eru engin bílastæði sem fylgja verslunarmiðstöðinni þó hún sé svona stór. Það er vegna þess að helsta farartæki Parísarbúa eru fæturnir, síðan koma reiðhjól og almanningssamgöngur eins og Metró. Svo koma Strætó og leigubílar. Einkabíllinn er lítið notaður í París en það er þónokkuð um lítil mótorhjól.

Af þessu leiðir að það eru eðlilega engar „vegasjoppur“ í París meðan þær eru einstakt fyrirbrigði í höfuðborg Íslands. Þær eru sennilega þrjár í mínu hverfi í Reykjavík.

Herra Boucicaut kom með margar nýjungar í verslun. Hann kom fyrir í verslunarkjarnanum einskonar afdrepi fyrir eiginmen þar sem þeir gátu lesið bækur og blöð og átt félagsleg samskipti sín á milli meðan eiginkonurnar versluðu. Konurnar gengu almennt ekki með peninga á sér á þessum árum. Þegar eiginkonurnar höfðu lokið versluninni komu karlarnir og greiddu reikninginn. Að því loknu héldu þau saman heimleiðis, sæl og ánægð með sitt.  Boucicaut auglýsti líka mikið í dagblöðum og gaf út verðlista sem var nýung á þessum árum. Hann útbjó leiksvæði fyrir börn í verslunarmiðstöðinni.

Það má segja að hann breytti með hugmyndum sínum innkaupum úr því að vera verk sem þurfti að vinna í að vera upplifun og skemmtun.

Þar sem rúmlega helmingur starfsmanna voru konur, oftast ógiftar útbjó hann svefnskála fyrir þær á efstu hæð verslunarmiðstöðvarinnar.

Margir halda að Parson, Pirie & Scott sem byggt var eftir brunann mikla í Chicago (1871) eftir Louis Sullivan, höfund kennisetningarinnar “Form must always follow function” hafi verið fyrsta “department store” í heiminum. En það er rangt. Hún var opnuð 1899 en sú sem hér er fjallað um var opnuð 30 árum fyrr á hugmyndagrunni sem var 61 ári eldri.

++++

Efst er gömul mynd af húsinu frá þeim tíma þegar það var opnað. Að neðan kom svo nokkrar myndir sem teknar voru í gær. Þær eru allar teknar í þeim hluta sem selja þekktustu merkjavörur heims. Sá hluti Le Bon Marché sem selur matvöru er sá alglæsilegasti sem ég hef nokkurntíma séð. Þar er ferskri matvöru stillt upp eins og um sé að ræða helstu listaverk heimsins. Neðst eru svo gamlar myndir frá 150 ára sögu þessa merkilega húss og starfsseminni þar.

 

 

 

 

Ég hef ekki upplifað annarsstaðar í vöruhúsum að listaverkum sé komið fyrir í verslunarrýminu með sama hætti og hér. Í miðrýmunum eru óróar eftir menn á borð við AI WEIWEI og fleiri ámóta.

 

Hér er málverk eftir frönsku listakonuna Carole Benzaken. Þarna er verslunarferð upplifun og vörum stillt upp í samræmi við húsið og gæði vörunnar í bland við fyrsta flokks nútíma listaverk.

 

 

 

 

 

Hér gefur að líta mynd frá fyrstu tíð „Góða Markaðarins“.  Aðföng eru þarna flutt í hús með hestvögnum.

Mynd sem sýnir innirýmið í upphafi. Manni sýinst helsta breytingin vera tilkomin vegna rúllustiganna sem hafa komið í stað hefðbundinna íburðamikilla stiga.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Halldór Guðmundsson

    Takk fyrir þessa upprifjun á sögu verslunarinnar. Gaman að sjá mynd af versluninni í upprunalegri mynd með sínum íburðamiklu stigum eins og mikið gekk útá í þá daga. Í dag er ekki hægt að koma fólki upp á aðrar hæðir nema með lyftum og rúllustigum. Svona til upplýsingar þá er Kringlan um 50 þús. m2.

  • Jóhanna

    Ég hef komið í þetta verslunarhús og er stórhrifin. Þetta er mun skemmtilegra en galleríin við Haussmann.(Lafayette) Skemmtileg lesning. Ég vissi ekki neitt um alla þessa sögu 🙂

  • Jón Gunnarsson

    Þetta er ótrúleg saga og gaman að sjá hvernig hægt er að gera svona án bílastæða. Sennilega hefði þessi staður fyrir bygginguna ekki orðið fyrir valinu ef bílar hefðu verið komnir til sögunnar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn