Miðvikudagur 06.05.2015 - 12:09 - 15 ummæli

Gömlum verðmætum tortímt

 photo11

Ég kom inn á nýinnréttað veitingahús í miðborg Reykjavíkur nýlega. Veggklæðning vakti athygli mína en hún er sennilega  í samræmi við tíðarandann.

Hönnuðurinn hafði valið að taka einar 10 ágætar gamlar spjaldhurðir (fulningshurðir) og saga þær niður og setja upp í eitthvað gjörsamlega óskiljanlegt munstur og skrúfa þær fastar á einn vegginn.

Í mínum huga er þetta ekkert annað en gróft skemmdarverk á gömlu handverki. Mér var hugsað til gömlu mannanna fyrir um hundrað árum, eða kannski 150 árum, sem með sín frumstæðu handverkfæri stunduðu iðju sína af vandvirkni og fagmennsku.

Og svo eru það lamirnar, hurðahúnarnir og rósetturnar umhverfis skráargötin. Allt gersemi í augum þeirra sem sjá og skilja svonalagað.

Svo er þetta allt skemmt af fullkomnu virðingar- og tilgangsleysi.

Mér var líka hugsað til allra gömlu húsanna sem nú er verið að endurnýja um allt land, og eyðibýlanna sem verið er að gefa nýtt líf.  Þar eru hurðir af þessari gerð eiginlega forsenda þess að vel takist til.

Svo koma menn sem handfjatla þessi verðmæti á svipaðan hátt og ISIS gera með fornminjar austur í löndum, og tortíma þeim. Allt siðað fólk er forviða yfir framgöngu ISIS manna og hneykslast. Sitja kannski með einn kaldann undir þessum vegg og hneykslast á ISIS og framferði þeirra og  virðingaleysi þeirra fyrir fortíðinni.

En þetta sér maður víða í smáu og stóru, því miður.

Að neðan og efst eru myndir af sundursöguðum hurðunum.

+++++

Til gamans vek ég athygli á skólaverkefni Aldísar Gísladóttuir sem lærði á Arkitektaskólanum í Kaupmannahöfn. Verkefnið er endurreisn eyðibýlis á Íslandi.  Deildin fyrir endurbyggingu eldri húsa er nú um stundir sú vinsælasta á arkitektaskólanum í Kaupmannahöfn að því mér er tjáð.

Í greinargerð Aldísar stendur m.a. „Hvis de islandske gårde ikke skal forsvinde må vi gribe ind og finde en metode til at bevare kulturarven før det bliver for sent og der kun står ruiner tilbage af det liv som en gang var“

Slóðin að verkefni Aldísar er þessi:

http://studark.dk/?p=9568#more-9568

 

 

 

 

photo22

 

photo33

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Það hefur verið talsverðu magni af þessu efni verið hent á haugana í gegnum tíðina, þó svo að sumt af þessu fái skrúfgöt í gegnum sig þá er margt þarna endurnýtanlegt. Á meðan engin vill þetta þá er eins gott að þetta finni nýan tilgang í stað þess að vera hent. Það sem sorglegast er, er það að þetta handverk er ekki þess virði lengur og jafnvel í mörgum tilvikum óþarfi (of dýrt og það er hægt að fjölfalda þetta á ódýran máta úr einhverjum drasl efnum sem samt eru dýrari en orginalin). Eitt skal þó vera skýrt að Isis er að endurskrifa mörgþúsundára sögu með eiðileggingu á meðan íslenskir hönnuðir eru að endurnýta hluti sem fólk hreinlega vill ekki leingur.. En kannski eftir vegg eins og þennan hugsar fólk sig tvisvar um. Nú er ég trúmaður á handverk og sögu og kannski bara spurning um að hlú aðeins betur að þessu, þar sem erlendis eru svona hlutir í hávegum hafðir, fínn bissness fyrir fólk með smá vit… Þið megið eiga þessa hugmynd, gjör svo vel. Þetta er kallað „Architectural salvage“ 😉

  • Stefán Benediktsson

    Sammála Hilmari, þetta er frekar ruddaleg sóun.
    Spjaldahurðir, húnar og lamirgætu farið í Góða Hirðinn

  • Ólafur Kristinsson

    Þetta er hömulegt að sjá. Það hlýtur að vera hægt að nota þessi gersemi á þann hátt sem ætlað var í upphafi.

    Þetta er rembingsleg tilraun hönnuðarins til að vera frumlegur

  • Birna Björnsdóttir

    Hér áður fyrr var svona hurðum hent hér í Danmörku, en það hefur breyst.
    Nú eru fleirri heimasíður á netinu með gamlar hurðir og glugga til sölu.
    Hér er t.d. ein þeirra: http://klassiske-vinduer.dk/doere
    Ég vona að viðhorf til gömlu hurðana og gluggana eigi eftir að breytast á Íslandi.

    • Hilmar Þór

      Þetta er áhugaverð síða sem Birna bendir á.

      Endilega skoðið hana.

      Er ekki einhver sniðugur sem getur stofnað svona síðu hér á landi?

  • Orri Ólafur Magnússon

    Þörf á tillögum um varðveislu gamals handverks svo sem þessara spjaldhurða. Persónulega finnst mér þessi „hurða – veggur“ átakanlega misheppnaður og í raun vandræðaleg lausn. Ég minnist þess að í DIE ZEIT – eða var það Frankfurter Allgemeine Zeitung – voru smáauglýsingar þar sem gamlir („antik“ ) arnar ( Kamin ) voru boðnir til sölu. Ekki nema skiljanlgt að margir húseigendur vilji glæða húsakynni sín notalegu lífi með sögulegum , fornum munum – ekki síst ef peningarnir eru alveg glænýir. Hvað um það, með slíku tekst a. m.k. að varðveita eitt og annað sem ella væri kastað á glæ.

  • Finnur Birgisson

    Alveg sammála Hilmar. Þetta er ekki geðslegt.

  • Sigrún Gunnarsdóttir

    Þetta er kaffihús á horninu við Naustin og Tryggvagötu. Ég tók eftir þessu og hætti við að setjast.

  • Sammála Brynjari
    Mér finnst þetta mjög flott og gefur eiginlega handverkinu framhaldslíf því sennilega hefði þetta endað á haugunum. Þetta væru skemmdarverk þegar þetta yrði rifið niður og hent.

    • Hilmar Þór

      Jú sitt sýnist hverjum, sem betur fer.

      Ef valið stendur milli þess að farga hurðunum á haugunum og því að saga þær í tætlur og setja upp á vegg held ég að síðari kosturinn sé betri. En er samt ekki viss vegna þess að hann gefur slæm skilaboð til þeirra sem taka eftir þessu.

      En ég velti fyrir mér þessari notkun, skraut á vegg og hinsvegar upphaflegt hlutverk þeirra sem var að vera hurð. Af hverju eru þetta ekki bara hurðir áfram. Ég þess fullviss að það er fjöldi aðila sem vilja gefa þessum gersemun framhaldslíf sem hurð og eru beinlínis að leita þeirra.

    • Auðvitað er best ef þetta fengi bara að vera hurðir áfram 🙂

      Það er samt ótrúlegt hversu miklu við hendum af öllu, bæði nýju og gömlu…

  • plebismus

  • Brynjar Birgisson

    Ég sá fyrirsögnina og myndina þegar ég opnaði þennan pistill og hugsaði „vá hvað er að fólki, þetta er frábær hugmynd að gera svo vegg og síðan kemur einhver og rifur þetta niður“ og komst svo að því að þér finnst skemmdarverkið vera einmitt það sem mér finnst svo gríðarlega flott.

    Magnað hvað mismunandi hlutir heilla suma en ekki aðra

  • Allt er einnota í dag.

    Því miður.

  • Eysteinn Guðmundsson

    Akkurat svona fara verðmætin forgöðum. Þetta er tímabær áminning. Mér er hugsað til allra pottofnanna. Þeim er sennilega ekki fargað lengur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn