Föstudagur 11.06.2010 - 09:43 - 6 ummæli

Grænar og bláar útivistarleiðir

 

storakort-3d

Fyrir um 20 árum gerðu skógræktarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sér grein fyrir því  að með aukinni byggð og auknum þéttleika  eykst þörf fyrir stærri frístundasvæði í jaðri byggðar. Með hliðsjón af þessu, á árunum 1992-93, báðu skógræktarfélögin á höfuðborgarsvæðinu landslagarkitekta að vinna frumdrög að samanhangandi svæði í upplandi Höfuðborgarsvæðisins til útivistar.  Lögð voru drög að samræmdu umferðarkerfi á svæðinu jafnt fyrir gangandi, hjólandi, ríðandi sem akandi. Þetta átti einkum að þjóna fólki til útivistar og flétta því saman við skógræktaráætlun. 

Með skýrskotun til hlýrrar flíkur um hálsa höfuðborgarsvæðisins var verkefninu gefið nafnið ”Græni trefillinn”.

Í Græna treflinum hefur verið hönnuð göngu- og hjólaleið sem ber vinnuheitið ”Græni stígurinn”. Hann er um 50 km langur og liggur frá Esjurótum í norðri að Undirhlíðum við Kaldársel í suðri. Stígurinn þræðir áhugaverðar náttúruperlur og útivistarsvæði í skjóli vaxandi skógarteiga og er unnið að frekari þróun hans á vegum Skógræktarfélags Íslands.

Nú hafa landslagsarkitektarnir hjá Landslagi ehf haldið áfram með hugmyndina  og dregið á blað þrjá aðra stíga sem nefndir eru Rauður,Gulur, Grænn og Blár eftir hæð í landi.

 ”Blái stígurinn” sem liggur með strandlengjunni er hjóla- og göngustígur í byggð.  Hann liggur frá Straumsvík í suðri norður að Grundarhverfi á Kjalarnesi í norðri. Stór hluti hans er þegar byggður og er mikið notaður.

”Græni stígurinn” hefur þegar verið lagður að hluta en þó ekki í endanlegum gæðum og liggur hann í Græna treflinum um Heiðmörkina frá Kaldárbotnum norður að Mógilsá. Hann hlykkjast milli hæða og draga snertir fjölda fallegra vatna og skógarteiga.

Svo kemur ”Guli stígurinn” sem  liggur um heiðarnar og er hugsaður til 2-4 daga tjaldferðalaga. Guli stígurinn hefur sama upphaf og endi og græni stígurinn og liggur um heiðarnar ofan við Græna trefilinn.

Að lokum er það Rauði stígurinn sem er 3-5 daga trússleið um fjallahringinn umhverfis höfuðborgarsvæðið.  Hann hefur upphaf og endi á sama stað og sá guli og græni. Rauði stígurinn liggur frá Kaldárseli um Bláfjöll, yfir Hellisheiði og Nesjavelli og þaðan til Þingvalla, Skálafell, Móskarðshnúka, Esju og endar svo við Mógilsá.

Á kynningu sem Þráinn Hauksson landslagsarkitekt hélt nýverið sýndi hann myndir sem hann hafði tekið á þessum leiðum, sem hann hefur prufugengið. Hann sannfærði viðstadda um þau miklu gæði sem íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa aðgang að rétt við bæjarhelluna.

Hjálagt er kort sem sýnir aðstæður, Græna trefilinn og gönguleiðirnar fjórar auk mynda sem hann tók á Móskarðhnúkum á Jónsmessunótt fyrir nokkru. Hin ljósmyndin er einnig tekin af Þráni um miðja nótt á Þverfellshorni.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar á Jónsmessunótt eins og himaríki á jörð.

Thrainn

Þverfellshorn að næturlagi

http://landslag.is/frettir/gulur-raudur-graenn-og-blar

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • NotEiður

    Varðandi færslu frá 19. mars sl.:
    http://blog.eyjan.is/arkitektur/2012/03/19/staersta-draugaborg-i-heimi/

    Fínn pistill, helst að örfáar villur dragi úr gildi lestursins:

    grendinni -> grenndinni

    auðlyndir -> auðlindir

    Menningarhús Ordos, safn -> menningarhús eða safn?

    hannað af einum af stjörnuarkitektum í Kína MAD. -> mínus í; og komma á eftir Kína

    Nánar má kynnast þessu húsi á þessari skóð: -> Nánar má kynnast húsinu á þessari slóð:

    eins og húsið að ofan sem teiknað er af kínverskum aðilum meðan verkfræðingar eru Buro -> … aðilum, en meðal verkfræðinga …

    Borgin og torg hennar eru hlaðin húsum og verkum skv. pistlinum. Það getur verið að borgir og torg megi hlaða, en eitthvað er undarlegt við að tiltaka að verkin sem hlaða torgin séu þrívíð. Getur ekki verið að borgin í heild sinni sé öll þrívíð?

    Mikið af tvöföldum bilum, annars lítið til að setja út á.

  • Nú þarf Þráinn Hauksson og Landslag ehf ásamt skógræktarfélögunum að fara á fund Gnarristana og kynna þeim málið.

    Því ef þetta er ekki skemmtileg hugmynd þá er ekkert skemmtilegt.

  • Bæjarbúi

    Fínt kort. Ef það væri eitthvað hægt að treysta skipulagsyfirvöldum í þessu landi. Man það vel þegar ég vann eitt sumar í bæjarvinnunni við að planta trjám í græna trefilinn á Grafarholtinu. Það var einmitt farið að skila árangri þegar skipulaginu var breytt og byggð þar íbúðabyggð og skóginum rutt burtu. Sama með Hólmsheiðina. Þar er að vaxa upp skógur og þá er verið að skipuleggja byggingarlóðir og jafnvel flugvöll í skógræktinni. Þetta er meira eins og grænir plástrar en trefill. Og engir samahangandi stígar þarna á milli.

  • Þorseinn

    „The best things in life are free“ sungu Bítlarnir.

    Þessi hugmynd frá landslagi er eimitt þannig.

    Það kostar ekkert að ganga.

    Endilega að stika þessar leiðir og undirbúa stígana.

    Setja margar duglegar hendur stúdenta og atvinnulausra í verkið….prontó.

    Þetta á að vera fyrsta samþykkt nýrrar borgar- og sveitastjórna höfuðborgarsvæðisins!!!

  • Sveinbjörn S.

    Þetta eru góðar hugmyndir.

    Getur einhver upplýst hvort búið sé að stika gulu og rauðu leiðina og gefa út gott göngukort?

    Veit það einhver? og ef svarið er já. Hvar er þá hægt að nálgast göngukortin.?

  • Steinarr Kr.

    Áhugavert, vonandi tekst að sannfæra hin misvitru bæjar- og borgaryfirvöld að nýta sér þessa hugmynd og framkvæma þetta.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn