Mánudagur 14.02.2011 - 18:49 - 10 ummæli

Grænland- BIG is getting bigger


Ég hef haldið því fram að Bjarke Ingels, aðaleigandi og stofnandi arkitektastofunnar BIG í Danmörku, skorti oft tilfinningu fyrir staðnum, staðarvitund. Þá álygtun dreg ég af verkum hans undanfarin ár. Nú virðist vera breyting á. Hann er farinn að lesa staðinn betur en áður. Það sést á tillögu hans að byggingu í New York sem kynnt var hér á síðunni fyrir nokkru og nú aftur í verðlaunatillögu hans um Grönlands Nationalgalleri for Kunst í Nuuk.

Haldin var lokuð samkeppni um húsið meðal fremstu arkitektastofa á norðurlöndum og í Grænlandi. Alls var 6 stofum boðin þátttaka, einni frá hverju landi, án nokkurs undanfara á borð við auglýsingu eða forvals.  Þetta voru stofur á borð við Snöhetta frá Noregi, Heikkinen-Komonen frá Finnlandi og Studio Granda frá Íslandi.  Arkitektar hér á landi og á hinum norðurlöndunum þótti þetta tíðindum sæta enda ekki í samræmi við það verklag sem krafist er í löndum Evrópusambandsins þar sem allt á að vera í gannsæju og opnu ferli.  Skýringin er sennilega sú að Grænland er ekki í samskonar sambandi við Evrópu og t.a.m. Ísland.

Samkeppnisgögn voru afhent 23. ágúst 2010 og skiladagur var 9. nóvember s.l.  Það kom öllum á óvart þann 8. Nóvember þegar  Íslenska stofan upplýsti að hún hyggðist ekki leggja sína tillögu til dóms.

Ég hef ekki séð tillögurnar 5 sem dæmdar voru en get sagt að verðlaunatillagan er afar spennandi og virðist frumleg og vel leyst. Hún tekur á aðstæðum þarna við sjávarborðið í Nuuk á sannfærandi hátt og bregst vel við umhverfinu og helstu einkennum þess.  Þó hef ég áhyggjur af innganginum sem er snilldarlega leystur að forminu til en hætta er á að þar verði sífellt ónæði ef hreyfir vind. Það er sennilega torvelt að mynda skjól við byggingu sem er hreinn hringur að formi til. En þetta er smámál.

Það er alltaf takmörkunum háð að lýsa skoðun sinni á verðlaunatillögu í samkeppni án þess að hafa séð aðrar tillögur og ætla ég því að láta teikningar og tölvumyndir nægja. Ég vil þó vekja athygli á að húsið er réttur hringur, sumir segja kleinuhringur, sem leggur sig á klappirnar þannig að hann tekur af þeim form. Formið er svo unnið nánar þannig að niðurstaðan virðist vera starfrænt hús sem jafnframt tryggir útsýni og skjól innan hringsins.  Brekkan sem húsið stendur í og tekur form sitt af er notuð innandyra til þess að skapa starfræn rými sem um leið virðast bjóða uppá spennandi upplifun. Þetta er ekki stórt hús, aðeins um 3000 m2.

Manni sýnist að hér sé framúrskarandi arkitektúr á ferðinni og verður spennandi að fá að skoða þetta hús og þá muni sem það hefur að geyma.

Hér eru áhugaverðir tenglar:

http://www.natgal.gl/?page_id=46

Dómnefndarálit:

http://www.natgal.gl/wp-content/uploads/natgal.pdf

Umfjöllun archdaly.com

http://www.archdaily.com/111251/big-wins-competition-to-design-greenlands-new-national-gallery/#more-111251

Útveggnum er lyft lítillega þannig að þar myndast tækifæri til þess að ganga inn í bygginguna án þess að rjúfe vegginn,kragann.

Þegar inn í bygginguna sem virkar lokuð utanfrá opnast manni óvænt útsýni til sjávar og fjalla.

Vetrarmynd

Ásýndin gefur fólki þá tilfinningu að húsið sé óreglulegt í grunnmynd. En það er það ekki. Þetta er hreinn hringur.

Að ofan er mynd sem sýnir innra fyrirkomulag í meginatriðum og að neðan skýringarmynd sem sýnir hvernig tekið er á útsýninu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Hilmargunn

    Ég verð að hrósa Big fyrir þetta verkefni, eitt það allra einfaldasta og flottasta sem ég hef séð frá honum. Hinsvegar fékk hann ekki harða samkeppni að þessu sinni, það verð ég að segja.

    Hvað varðar athugasemdir til Granda finnst mér í meira lagi meðvirkt tal. Ég held að það sé alger óþarfi fyrir íslenska arkitekta að taka það inn á sig að þau hafi ákveðið að skila ekki inn tillögu. Vangavelturnar af hverju eru enn síðri því það er alfarið þeirra einkamál.

    Big er þekktur fyrir að lifa fyrir hugmyndina sjálfa, síður en að taka tillit til umhverfisþátta eða context. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir þetta og mér sýnist hann vera að taka það til sín, hugsanlega. Annars starfaði hann fyrir Remman í amk 2 ár, að mér skilst og ekki er Remminn neitt sérstaklega stressaður yfir einstökum útfærslum eða díteilum. Mig grunar að hann geri það með yfirveguðum hætti.

    Big hefur kóperað margt næstum hrátt frá Remmanum og ekki síst hvernig hann kommúnikerar við fjölmiðla. Hann beitir sér á áhrifaríkan hátt og hann hlýtur að hafa mökk af liði að vinna fyrir sig. Þvílíkt magn af flottri visjúlaseringu.

  • Ég tek undir með Magnúsi. Það er afleitt að fulltrúi Íslands í þessari boðskeppni skili ekki inn tillögu. Ef þau sáu sér ekki fært að gera það af einhverjum ástæðum hefðu þau átt að leyfa annari íslenskri stofu að spreyta sig.

  • Björn Hallsson

    Hilmar, bestu þakkir fyrir þessa færslu sem og aðrar. Vetvangurinn sem þú hefur skapað er mjög áhugaverður og merkilegur frá mínu sjónarhorni. Þessi umræða er skemmtileg þar sem hun varðar gæði og gerð hugmynda og ég get ekki varist að blanda mér í hana.

    Eitthvað er gott við verk allra arkitekta. Það á að sjálfsögðu við um verk BIG, sem hefur náð framgangi á skömmum tíma umfram marga. Sérstaklega er áhugavert að sjá nálgunaraðferðir í mörgum verkefnum þeirra og sniðugar útkomur í stórum dráttum hugmyndanna. Það verður hinsvegar að segja eins og er að á þeim punkti virðist þróun hugmyndanna stöðvast meira eða minna, sem er afskaplega miður.

    Afraksturinn eru nánast undantekningalaust afar hráar hugmyndir sem ná því ekki að verða að full þróuðum lausnum. Yfirbragðið er gjarnan eins og fyrstu módel í frumgerð hugmynda sem síðan fá ekki frekari þróun. Ekki er gott að segja hvað veldur þessu, en það er áhugaverð spurning. Er það ákafi arkitektanna í að koma tillögum á framfæri, er það hugsanlega áhugaleysi umfram frum hugmyndir, er um að ræða skort á virðingu fyrir verkefninu, eða vantar hreinlega tilfynningu fyrir þróun góðra hugmynda þannig að þær nái að verða góðar lausnir í smáatriðum jafnt sem þeim stóru? Grænlandsverkefnið er einkennandi fyrir þetta vinnulag, en mörg önnur verkefni BIG má nefna, New York hugmundin er undantekning og virðist snöktum dýpra hugsuð og vísar vonandi til betri vega fyrir BIG.

  • Ég tek undir allt sem Einar nefnir hér á undan.

    Bjarke hefur áorkað heilmiklu á skömmum og að mínu skapi margt flott hjá honum. Hann er ögrandi og með flotta sýn á hlutina. Hlakka til að sjá meira frá honum.

    Gaman að skoða vefsíðuna hans http://www.big.dk og t.d. eitt verk sem er merkt BKI verðlaunatillaga að nýjum höfuðstöðvum Landsbanka. Þar í lokin má sjá Björgúlf Guð skælbrosandi við fundarborðið.

  • Hilmar,

    Mér finnst persónulega að Studio Granda ekki koma PRO fram í þessu að hætta við 1 degi fyrir skiladag – þeir setja niður við það. Fyrst þeir eru valdir fyrir hönd Íslands sem okkar fremsta arkitaktastofa þá maá segja að stéttin hafi sett niður við þessa framkomu SG.

    Verkkaupar eiga að hafa val um það hvernig þeir velja sína verktaka – það er fáránlegt og hreint alveg fráleitt að þar sé krafa um að allir séu jafnir eins og ESB þruglið mælir fyrir um. Sem verkkaupi og þar með greiðandi þá ræður maður hvern maður vill fá til verksins – annað er bara yfirgangur.

    Í þessu tilfelli fylgja þeir bara þeim reglum sem gilda og þá er það bara gott og gillt.

  • Einar Jóhannsson

    Þó húsið virðist tómir stælar við fyrstu sýn er ekki svo. Það er eins og borgarísjaki sem fjarað hefur á klöppinni er vel skipulagt og fellur vel að umhverfinu. Ég hugsa til Jan Gehl og hugmynda hans um lífið milli húsanna, það getur ekki verið fjölbreytilegt en þegar gengið er inn í borgarísjakann opnast manni nýr heimur fullur af fróðleik og ævintýrum.

  • „Leyndin þjónar hagsmunum þeirra sem hafa eitthvað að fela. Svo einfalt er það“.

  • Hilmar Þór

    Magnus.

    Þér finnst þetta ekki PRO!. Ég veit ekki hvort þú átt þarna við aðdragandann að samkeppninni og forvalið eða það að Stúdió Granda hætti við.

    Varðandi forvalið og aðdragandann þá var það ekki PRO. Þetta segi ég ekki vegna þess hverjir voru valdir og af hverjum. Það mátti vel fá einhverja einráða sem handvöldu þessar ágætu stofur eftir sínum geðþótta. Það sem mér finnst slæmt var leyndin. Það vissi engin af þessu fyrr en allt var um garð gengið. Það vissi engin hverjir völdu eð hver þóknunin var o.s.frv. Lítið var talað um samkeppnina opinberlega þar til niðurstaðan lá fyrir. Þessi leynd var óþarfi og ekki PRO.

    Varðandi að Stúdíó Granda náði ekki að skila í þetta sinn getur vel átt sér eðlilegar faglegar skýringar. Þetta er mikil hugmyndavinna, rannsóknir eru gerða og tilgátur. Reynt er að sannreyna tilgáturnar og vinna verkið áfram. Ef það ekki tekst þá er um tvennt að velja. Annarsvegar að senda inn lítt ígrundaða tillögu eða hætta við. Í þessari samkeppni er færustu arkitektastofum norðurlandanna att saman og metnaðurinn í hámarki. Hugmyndavinnan og tilgáturnar er meginvinnan sennilega 80%. Uppteikningin er minna mál og nú á dögum frekar á vettvangi grafískra fagmanna en listamanna á borð við arkitekta. Þessi grafíkvinna breytir ekki hugmyndinni heldur selur hana. Studíó Granda hefur lagt þetta niður fyrir sig og ákvæðið að stoppa hér. það er allt í himnalagi með það en vissulega sárt.

    Ég er annars þeirrar skoðunar að margir ættu frekar að hætta við að senda inn tillögur en að leggja léleg verk fyrir dómnefnd. Það þarf kjark til þess að hætta við og það er auðvitað ekki létt ákvörðun vegna þess að mikla vinnu er búið að inna af hendi þegar kemur að henni.

    Dæmi sem mér dettur í hug þar sem oftar á að hætta við er þegar Menningarverðlaun DV í byggingalist er veitt. Það gerist stundum að þau hús sem hljóta verðlaunin eru svo léleg að betra hefði verið að hætta við. Menningarverðlaun DV setur niður við að veita öðrum en afburðahúsum verðlaunin. Nú í ár sé ég ekkert afburðarhús byggt á síðasta ári sem ætti að verðlauna. En auðvitað get ég haft rangt fyrir mér ég þekki ekki öll hús sem byggð voru á síðasta ári. Við skulum vona það besta.

  • Af hverju dró Studio Granda sig út úr keppnini? Hefur það einhverntían komið fram – mér finnst ekki PRO að gera þetta svona eins og þú lýsir því að þeir hafi staðið að þessu.

  • Yes is more

    Þessi maður, Bjarke Ingels, er greinilega mikill orkubolti. Hann er aðeins 36 ára gamall. Fæddur 1974 og stofnaði teiknistofu á námsárunum. Útskrifaðist fyrir 12 árum árið 1998. Googlið manninn. Hann vinnur samkeppnir á þriggja vikna fresti. Hvar endar þetta?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn