Föstudagur 15.08.2014 - 11:48 - 16 ummæli

„GRETTISGATA – APARTMENTS“

photo 4

 

Viða í borgum eru til hverfi og götur sem almenn sátt er um. Þetta er oft í eldri hlutum borganna.

Gestir og ferðamenn laðast að þessum hverfum og götum. Fólk vill búa í svona umhverfi. Ástæðan er oftast sú að þar er einhver harmónía. Húsin eru kannski ekki ofurfalleg öllsömul eða góð en þau skapa saman einhverja heild sem fólki líkar. Þau fara vel saman og standa hlið við hlið og í sátt við hvert annað. Þarna er oftast eitthvað sem við erum farin að kalla staðaranda. Á þessum stöðum standa oftast hús sem flokka má undir „regionalisma“ Svo er þarna götulíf og allt gróið. Maður veit á hverju maður á von og fyllist öryggistilfinnungu. Maður veit hvar maður er staddur og samsvarar sig við húsin.

Það er líka fleira sem laðar fólk að og gerir svona hverfi eftirsóknarverð.

Það er handverkið.

Vegfarandinn og íbúinn sér og finnur fyrir handverkinu.

Mannshöndinni.

Það fer minna fyrir því í nútímahúsum.

Vegfarandinn sér hefil- og sagarförin í timbrinu, penslistrokur málaranna og strúktúr múraranna í múrverkinu, naglhausana og m.fl. Þetta er allt eitthvað svo aðlaðandi, skiljanlegt og manneskjulegt. Manni finnst jafnvel maður geti gert þetta sjálfur.  Þetta á líka við um garðana og rýmin milli húsanna.

Arkitektar á borð við Jan Gehl og Vandkunsten hafa áttað sig á þessu og skilgreint sem gæði sem fólk kann að meta. Þeir leggja áherslu á arkitektúr í augnhæð.

Þrátt fyrir þetta er þessum hverfum nú ógnað. Þeim er aðallega ógnað úr tveim áttum. Annarsvegar er þrýstingur um að breyta starfsseminni í húsunum og og hinsvegar af byggingarlistalegu inngripi með nýbyggingum og viðbyggingum sem ekki eru í samræmi við anda staðarins.

Túrisminn og breytt notkun húsa í hans þágu er ógnun. Túrisminn hefur eyðilagt margar borgir eins og við vitum. Ég nefni Feneyjar og San Gimingnano (svo nefndar séu tvær borgir sem mé voru kærar á Ítalíu), arkitektúrinn er sá sami og áður en starfssemin og mannlífið annað. Ég fyrir minn hlut nenni ekki að heimsækja svona staði.

Á svæðinu sunnan Laugavegar  er  aukin ásókn ferðaþjónustunnar ógnvaldur. Hann hefur þær afleiðingar að húsaleiga og íbúðaverð hækkar og fjólskyldufólk flytur burt. Bornin á götunum og í görðunum hverfa. Þetta ógnar götunum eins og við þekkjum þær og viljum flest hafa þær.

Önnur ógn eru svo stórhuga athafnamenn sem ráða til sín arkitekta sem hafa aðra sýn á gæði umhverfisins en flest okkar hinna.

Afleiðingin er ráðgjöf og framkvæmd sem rýra gæði hverfisins og einkenni þess. Þetta gerðist ekki í Feneyjum og San Gimignano góðu heilli. Húsin eru þau sömu en starfssemin önnur. Mér sýnist þetta sama vera að gerast ofan Laugarvegar auk þess sem verið er að byggja við húsin og reisa ný hús sem ekki eru í takti við það sem fyrir er..

Hjálagt eru sex myndir teknar í hverfinu þar sem nýbygging er á einni og ný viðbygging á annarri.

Það vakna margar spurningar þegar gengið er um hverfið ofan við Laugaveg og við- og nýbyggingar skoðaðar. Ein er hvort þarna sé verið að brjóta blað í byggingarlistinni á svo háu plani að venjulegur maður skilur ekki neitt í neinu eða hitt  að þeir sem þarna eru að tjá sig í byggingarlistinni hafi aðra sýn á umhverfið og sjái þarna önnur gæði í umhverfinu en sum okkar hinna.

 

 

photogr3

photo 1

Aðgerðarsinnum tókst að bjarga silfurreyninum við Grettisgötu sem var ógnað í skipulagsáætlunum. Það las ég í blaðinu í morgun. Borgaryfirvöld eiga að fagna hugsjónastarfi aðgerðasinna og eiga hrós skilið fyrir að bregðast við. Hér er samráð í verki. Borgaryfirvöld eiga að kalla áhugasama að borðinu og taka þeim fagnandi. Þeir vilja bara vel og eru oftast með heildarhagsmuni að leiðarljósi.  Til hamingju með þetta borg og aðgerðarsinnar.

 

photo 2

Að ofan er nýbygging við Njálsgötu og að neðan er viðbygging við gamalt hús í sömu götu. Það þarf að hafa í huga að viðbyggingin er í smíðum og ekki hægt að segja lokaorð um útkomuna. En maður bíður auðvitað spenntur eftir því að sannfærast um þessa nálgun á úrlausnarefninu.

photogr2

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

  • Pétur Örn Björnsson

    Það er eins og menningin sé nú vegvillt.

    • Pétur Örn Björnsson

      Takk fyrir góðan og þarfan pistil Hilmar.

  • Stefán Benediktsson

    Sammála Gulla.

    • Treysti því,að menn eins og Stefán Ben og Palli Hjalta fjalli um þetta efni í umhverfis og skipulagsráði með það sem markmið,að raunveruleg breyting verði á í náinni framtíð !

    • Hilmar Þór

      Fínar og lausnamiðaðar umræður hér. En ég er ekki viss um að þessi frábæra hugmynd um að byggja hótelin utan gamlaborgarhlutans á samgönguásnum frá Hlemmi að Elliðaám sé nægjanlega áréttuð í AR.

  • Tvær hugleiðingar um þetta efni:
    vernda þarf hverfin í borginni,sem hafa svip „regionalima“,þ.e. svæðin umhverfis Tjörnina austur að Snorrabraut.Hér þarf að koma á ströngum ákvæðum varðandi ný og viðbyggingar.
    Ef „þörf“ er á enn fleiri hótelum ,eins og Stefán talar um, verður að staðsetja þau utan svæða ,sem gefa borginni eigin einkenni og sjarma.

  • Stefán Benediktsson

    Langar til að velta upp einum fleti þessa máls sem snertir samband skipulags og ferðamennsku. Menn telja að enn vanti „vel borgandi“ ferðamenn og jafnari dreifingu gesta allt árið. Svarið við því eru ráðstefnur en þær má markaðssetja allt árið ef innviðirnir eru góðir, hótel og ráðstefnuhallir. „Góðar“ ráðstefnur eru venjulega fyrir 3000 til 4000 manns og enn eigum við í Reykjavík ekki nóg hótelrými til að hýsa slíkan fjölda með öðrum gestum. BB getur ekki mætt slíkum þörfum. Það þarf sumsé að byggja fleiri hótel af miklum gæðum. AR gerir ráð fyrir að uppbygging ferðaþjónustu verði á ásnum Hlemmur – Ártúnshöfði og þar virðist enn vera nægt pláss fyrir hótel til að hýsa 3-4000 gesti. Fólki óar þessi þróun en ég kýs hana margfalt frekar en stórvirkjanir og álver.

  • Anna Th. Rögnvaldsdóttir

    Í fyrra eða hitteðfyrra voru 18 svona túristaútleiguhús við Grettisgötuna, sagði mér vinur minn einn sem hefur búið við götuna í 35-40 ár. Þeim hefur sennilega fjölgað síðan þá.

    Þetta gerir ekki mikið fyrir hverfisandann, svo mikið er víst. En það eru ansi margir fletir á þessu máli.

    Mikið er býsnast yfir „græðgisvæðingu“ í þessu sambandi, þegar eigendur gamalla og yfirleitt tiltölulega lítilla húsa í gamla miðbænum skipta þeim upp í smáíbúðir til að gera út á túristana. Sem er umtalsvert arðbærara en að leigja venjulegu fjölskyldufólki.

    En það má ekki gleyma því að við erum að upplifa hreina túristaholskeflu og þessir aðilar eru að taka við yfirfallinu. Því einhvern veginn verður að hýsa alla þessa túrista sem koma til landsins. Það er annaðhvort þetta eða fjölga stórum hótelum í miðbænum enn meir (túristar vilja alveg endilega gista í miðbænum).

    Ef túristaásóknin skyldi nú hrynja (að vísu eru engin teikn á lofti um að það gerist í bráð) þá verður gömlum húsum á borð við „Grettisgata – Apartments“ snarhendis breytt aftur í venjulegt íbúðarhúsnæði.

    En það er erfiðara að eiga við einhver kólossal hótel sem rísa á uppgangstímum (á viðkvæmustu stöðunum í borginni), að finna slíkum draugabyggingum nýtt hlutverk þegar túristastraumurinn þornar upp.

    Mér finnst mjög mikilvægt að Reykjavíkurborg hafi hemil á hóteluppbyggingunni í okkar örsmáu og í meira lagi þorpslegu miðborg. Það er einmitt þetta þorpslega við Reykjavík sem gerir borgina aðlaðandi fyrir útlendinga, það er bókstaflega allt í göngufæri! Fólk er ekki vant svona nánd heiman frá sér. Ég held að þær séu fáar borgirnar þar sem svo óhemju mikið er að gerast á svo litlum bletti. Stór hótel eiga hreinlega ekki heima í svona litlu þorpi. Hvert nýtt hótel sem rís í miðborginni ryður frá sér ýmiss konar „smástarfsemi“, skondnum flestum, það er bara staðreynd. Og miðbæjarlífið verður fátæklegra með hverju nýju hótelinu.

  • Orri Ólafur Magnússon

    Sjálfsagt þörf ábending á þá hættu sem steðjar að gamla miðbænum af misráðnum framkvæmdum og breytingum á því sem fyrir er. Út af fyrir sig er samt ekki við túrismann að sakast – túristarnir heillast af því sem þeir halda að sé ekta, alíslenskt og óspillt. Það má færa rök að því að ásókn túristanna í miðbæinn hafi leitt til hækkaðs fasteignaverðs á húsum sem fyrir fáeinum árum voru talin lítils eða einskis virði ; verðmætaaukningin leiðir svo til þess að það borgar sig fyrir eigendur að halda fasteigninni við í stað þess að láta hana drabbast niður einsog hér var lenska fyrir tveimur – þremur áratugum síðan. Ég fyrir mitt leyti fagna því að fjárfestar breyta Reykjavíkurapóteki í hótel og gera þessa sögufrægu og merkilegu byggingu Guðjóns Samúelssonar, fyrsta raunverulega stórhýsinu í Reykjavík, upp í leiðinni – vonandi með tilliti til upprunalegs útlits.
    „Gentrification-in“ kostar því miður oftast það upprunalega í hverfunum – t. a. m. börn á leik í götunni einsog þú bendir á. Fátækar barnafjölskyldur eru því miður sjaldnast nógu vel stæðar til að halda við gömlu krúttlegu timburhúsunum í miðbænum. Ef þú kannt ráð, hvernig bæði er hægt að eta kökuna og eiga hana, væri slíkt eflaust vel þegið.

    • Eyjólfur Ármannsson

      Reykjavíkurborg þarf að samþykkja allar framkvæmdir, líka þær misràðnu. Ábyrgðin liggur þar.

  • Einar Guðmundsson

    Er viðbyggingin á neðstu myndinni ekki bara fyrsti áfangi nýbyggingar? Gamla húsið greinilega ekki til frambúðar?

    • Eyjólfur Ármannsson

      Hvernig stendur á að Borgin samþykkir svona viðbyggingu?
      Hver eru rökin? Væri fróðlegt að sjá þau.

  • Gunnar Jónsson

    Hverfið allt innan Snorrabrautar, Hringbrautar, Sóleyjargötu, Fríkirkjuvegar, Lækjargötu, og Kalkofnsvegar er auðlind til frambúðar ef vel er á haldið. Þetta hverfi er aðdráttarafl fyrir túrista en á ekki að vera svæði fyrir ferðamannaþjónustu. Þetta er svæði (eða getur orðið það) á pari við Gullfoss og Geysi til samans. En þar eiga ekki að búa túristar frekar en við Gullfoss og Geysi. Þeir eiga að fara þangað til þess að skoða en þeir eiga alls ekki að búa þar. Heldur annarsstaðar. Þetta á að vera hverfi fyrir heimili innfæddra
    Pössum upp á þennan gullmola og rífum þetta drasl sem þarna hefur verið byggt undanfarið.

    • Hilmar Þór

      Ég hef verið þeirrar skoðunnar um skeið að friða eigi alla byggð innan gömlu (og nýju) Hringbrautar.

      Það hefur gerst að vissu marki í krafti menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagrð og nú í nýju aðalskipulagi Rykjavíkur 2010-2030.

      Menningarstefnan hefur ekki það bakland og stuðning sem þarf til þess að hún skili því sem við var búist og vonast var eftir.

      Nú sjáum við til með markmið AR 2010-2030 sem hefur nánast sömu markmið og menningarstefnan frá 2007.

      Við vonum það besta.

      En ég árétta að viðbyggingin sem sýnd er á einni myndanna er ekki tilbúin og landslagshönnunin blasir ekki við…. ennþá.

  • Jón Gunnarsson

    Það vekur bjartsýni þegar kjörnir fulltrúar hlusta á umbjóðendur sína og taka sjónarmið þeirra til skoðunar. En er það ekki bara í litlum atriðum eins og að þyrma einu tré sem hlustað er á kjósendur? Hvað með stóru málin, Landspítala Austurhöfn og Vatnsmýri?

  • Guðbjörg

    Það skortir skipulag í ferðamálin bæði á ferðamannastöðunum úti á landi og í borgum og sveitarfélögum. Það er of mikill Mammon í þessu öllu saman.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn