Laugardagur 01.02.2014 - 23:04 - 30 ummæli

Grín eða alvara í byggingarlistinni?

 

http://www.mbl.is/tncache/frimg/dimg_cache/e360x300/7/20/720104.jpg

Í fjölmiðlum var nýlega sagt frá því að Gatnamót ehf. áformi að byggja stóra þjónustu- og ferðamannamiðstöð við gatnamót Suðurlandsvegar og Biskupstungnabrautar ofan við Selfoss.

Hugmyndin er  að byggja 10-12 þúsund fermetra byggingu sem hýsa á ýmsa þjónustu fyrir ferðamenn. Þarna á m.a. að vera e.k. eldfjalla- og landmótunarsýning. Að ofan eru frumdrög af þessari miklu byggingu sem vissulega vekja athygli.

Það er auðvitað sjálfsagt að byggja upp þjónustu fyrir ferðamenn og upplýsa þá um mótun landsins og selja þeim veitingar og fleira. Slík upplýsingastarfssemi gæti líka gagnast skólakerfinu ef vel er á haldið.

Hinsvegar þurfa allar áætlanir í ferðamennsku að styrkja grunnþjónustu þess svæðis sem þjónustunni á að koma fyrir. Þá er ég ekki einungis að hugsa um innihaldið heldur ekki síður skipulag og arkitektur.

Ég velti því fyrir mér hvaða áhrif þessi bygging muni hafa á verslun- og þjónustu i Hveragerði og á Selfossi. Er ekki sjálfsagt að tengja þetta bæjarfélugunum þannig að starfsemin styrki þá sem veita nú þegar þjónustu við ferðamenn innan þéttbýlisins?.  Er ekki mikilvægt að starfsmenn geti sótt vinnu þarna fótgangandi? Ég hef einnig efasemdir um þá byggingarlist sem hér er kynnt og áformað er að byggja á þessum fallegu gatnamótum undir Ingólfsfjalli.

Hvers á Köguarhóll að gjalda, nú eða Hekla og önnur eldfjöll sem blasa við feðalöngum um land allt?  Spurt er hvort þetta sé ekki of sjoppulegt fyrir þjóð sem vill taka sig alvarlega í ferðamálum. Það vaknar líka upp spurningin um hvort þetta sé grín eða alvara?

Er ekki einhver gullgrafarastíll byggingarlistarinnar hér á ferðinni. Er þetta táknmynd um gullæði ferðaþjónustunnar?

Hvenær ætli gullæðinu linni í þessu Klondike, og svæðið  yfirgefið?

Sjá einnig:

 

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/12/19/vinnubudahotel/

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (30)

  • Hilmar Þór

    Sennilega varð þetta mál bráðkvatt á fundi kl 8.00 í morgun.

    Verið var að gefa þessa bókun út:

    ,,169. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2010-2014, haldinn fimmtudaginn 6. febrúar 2014 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10.

    1306045 – Staða mála varðandi deiliskipulag – gatnamót Suðurlandsvegar og Biskupstungnabrautar

    Vegagerðin vinnur að endurskoðun veglínu Suðurlandsvegar og meðan sú endurskoðun stendur yfir er ekki hægt að vinna deiliskipulag við gatnamót Suðurlandsvegar og Biskupstungnabrautar. Í dag liggur ekkert vilyrði fyrir af hálfu Sveitarfélagsins Árborgar um lóð við Biskupstungnabraut og verður ekki ráðist í deiliskipulag þess svæðis á þessu kjörtímabili. Enginn samningur er á milli Gatnamóta ehf. og sveitarfélagsins og verður ekki farið í úthlutun lóða við Biskupstungnabraut enda liggur ekki endanleg veglína fyrir. Áhersla sveitarfélagsins í skipulagsmálum er á uppbyggingu miðbæjar Selfoss og annarra byggðakjarna, grænum svæðum og verslunargötum með göngu- og hjólastígum.“

    • Sigrún Jónsdóttir

      Þetta er vel gert hjá bæjarráði Árborgar. Það þarf að sýna festu og framsýni þegar svona fjáraflahugmyndir vakna. Húrra fyrir stefnuföstum og staðföstum bæjarfulltrúum.

  • Listaverk sem vísað er í hérna og arkitektar ‘fá að’ hanna meðfram vegum hér í Noregi er olíuprósjekt.
    Þau eru dýr og óvíst hvað þau gefa í beinhörðum gjaldeyri eða laða að marga ferðamenn (það er úttalað markmið).
    Þau gefa þó stjörnur í augu erlendra arkitekta, fá fleiri til að öfunda Noreg vegna peninganna, gefa slitlag og stýra umferðinni.
    Hér leyfist enginn húmor, enda grafalvarlegt mál, norska náttúru á að líta í andakt.

  • Hér er sennilega verið að byggja niður svæði sem hentugt er til landbúnaðar.
    Þetta er eitt aðal pólitíska bitbeinið hér í Noregi.
    Framfaraflokkurinn var að komast í ríkisstjórn og nú á að byggja Ikea á þessum fína frjóa jarðvegi sem tekur uþb. 1000 ár að byggja upp.
    Þetta rýrir möguleika þjóðarinnar til að vera sjálfbjarga með mat.
    Það er umdeilt.

  • no further comment to Disneyland……, just look into that:
    http://www.dezeen.com/2012/07/07/trollstigen-by-reiulf-ramstad-architects/
    …. and the other projects.

  • Árni Ólafsson

    Bygging verslunarmiðstöðva utan miðbæja er ekki háð lögum um mat á umhverfisáhrifum (MÁU) hér á landi. Víða í nágrannalöndunum eru áform sem þessi háð slíkum lögum eða sæta ýmsum takmörkunum eða stærðarmörkum – beinlínis til þess að efla miðbæi og sporna við þeirri þróun að verslun og þjónusta sæki á jaðarinn og að stofnbrautunum.

    Í lögum um MÁU er „umhverfi“ skilgreint – m.a. sem samfélag, menning, atvinna og efnisleg verðmæti. Lögin ná til framkvæmda sem kunna vegna staðsetningar og starfsemi eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfiáhrif – en verslunarmiðstöðvar utan miðbæja eru ekki tilgreindar sérstaklega. Hins vegar líta yfirvöld svo á að breyting á kantsteinum stofnbrautarinnar (t.d. lagfæring á gatnamótum vegna innkeyrslu að verslunarmiðstöð) sé matsskyld framkvæmd skv. sömu lögum.

  • Með fullri virðingu, þá verð ég að spyrja hvað sé eiginlega í gangi í byggingariðnaðinum á Íslandi?
    Í fullri alvöru, Lausnin á Austurhöfninni er Breyðholtsarkitektúr a la 1990 City of London. Hótelgestum boðið upp á Ameríska Mótel a la „CSI“ og Sketchup (http://eyjan.pressan.is/silfuregils/2014/02/03/vonandi-ekki-of-seint-ad-breyta/) og Ferðamannaðiðnaðurinn stefnt á verslunarmiðsöðvar með eldfjalli..!
    Það er eins og stefnan sé að eyðileggja allt sem mögulega gerið landið sérstakt og fallegt með þriðjaflokks arkitektúr og virkjunarframkvæmdum. Hata Íslendingar landið sitt svona mikið eða eru menn algjörlega blindir?

    Og á meðan ég er á þessu ranti; af hverju er Verslunarmiðstöðvahönnun lausn allra lausna á Íslandi. Það eru nú orðið meira en 20 ár síðan þessi hönnunar og skipulagsstefna dó sína daga. http://www.businessinsider.com/shopping-malls-are-going-extinct-2014-1

  • Bara til upplýsingar.

    Þetta er ekki teiknað af arkitektum.

    Þetta er teiknað af stórhuga byggingafræðingum á Selfossi.

    Við fyrirgefum þeim því þeir vita ekkert hvað þeir eru að gera.

    Athafnamennirnir sem hafa ráðið þá til verksins vita greinilega heldur ekki hvað þeir eru að gera.

    • Dr. Samúel Jónsson

      En ef, ég segi ef þetta væri nú teiknað

      af afskrifuðum stórfyrirtækja-arkitektaverkfræðingastofunum

      og á mála hjá endurreistum bönkum

      væri þá allt fyrirgefið því þeir vita ekki hvað þeir gjöra

      á kostnað meðbræðra sinna og systra?

  • Hilmar Þór

    Eftirfarandi má lesa í góðri grein sem Hrafnhildur Magnúsdóttir arkitekt skrifaði um málið í bæjarblaðið á Selfossi:

    „Er skynsamlegt að svo stór hluti verslunar og þjónustu sé staðsettur í útjaðri bæjarins á kostnað miðjunnar sem sífellt holast að innan og hættir að geta sinnt þörfum íbúa sem skyldi? Þessi hugmyndafræði gengur ekki upp út frá sjálfbærnisjónarmiðum og þróun í þessa átt borgar sig einfaldlega ekki sé litið til lengri tíma. Hún er á kostnað þess mannlífs sem annars myndi skapast af heilsteyptum bæjarkjarna þar sem fjarlægðir gerðu umhverfið vænlegt bæði akandi og gangandi vegfarendum“.

    Greinina má nálgast í heild sinni á eftirfarandi slóð:

    http://dfs.is/adsendar-greinar/5414-afram-selfoss

  • Pétur Örn Björnsson

    Hér virðist enginn vilji vera fyrir hendi hjá stjórnsýslustofnunum ríkisvaldsins — og hvað þá sveitarfélaga — til að axla ábyrgð á einu né neinu eftir Hrunið haustið 2008.

    Hið opinbera lífeyrissjóðakerfi er með neikvæða tryggingarfræðilega stöðu upp á rúma 600 milljarða. Enginn vill axla þar ábyrgð.

    Ríkissjóður er 3000 milljarða í mínus. Enginn vill axla þar ábyrgð.
    Hér ráða glóbalískir auðdrottnar, stórbankar, hrægammar og leppar þeirra innan stjórnsýslustofnana rikisvaldsins og sveitarfélaga.

    Auðvitað búum við því hér í geggjaðri grínmynd sem tekur á sig furðulegri og farsakenndari myndir. Er virkilega einhver hissa á því ?

    Allt það kerfi sem við búum við er á fallandi fæti, það lafir á lyginni einni
    og blekkingum kerfisins og allar hugmyndafræðilegar stofnanir ríkisvaldsins eru nýttar til þess að viðhalda lygum og blekkingum um óskeikulleika þess fyrir hönd bankaglæpamanna og stórþjófa.

    Þetta er ekkert nýtt í sögunni, þetta er ekkert nýtt meðal þjóða:

    The Holy Empire krefst sinna tolla og farísearnir og lepparnir stýra umræðunni.

  • Er ekki bara sniðugt að hafa byggja fullt af svona útum allt til hafa staði til að halda túristunum sem lengst í stað þess að þeir traðki allt út þar sem ekki er peningur til byggja innviði til að vernda náttúruna?
    Það er líka verið að segja upp öllum landvörðunum.
    http://www.ruv.is/frett/osattir-vid-nidurskurd-i-landvorslu
    Þetta passar eins og hönd í hanska…

  • Ég treysti því að þetta sé grín.

  • Steinarr Kr.

    Nú er bara fyrir Árborg að gera eins og Færeyjingarnir, sem samþykktu ekki nýju lögreglustöðina, af því að hún er svo ljót.

  • Sveinbjörn

    Takið eftir því að á myndinni eru bara tvær rútur og bílastæðin fyrir einkabíla eru full. Sennilega er það fólk frá Selfossi, hveragerði og Hellu sem er að fara í bakaríið. Og auðvitað sumarbústaðaeigendur að kaupa sér eitthvað í Ríkinu!!!

    Ef þetta verður að veruleika þá er það á móralska ábyrgð stjórnmálamanna. Athafnamennirnir bera enga ábyrgð vegna þess að hlutafélagið lendir sennilega í fangi bankanna ef og þegar ila fer (og þaðan með beinum eða óbeinum hætti lendir þetta á lífeyrissjóðum eða öðrum sjóðum í eigu sparifjáreigenda)

  • stefán benediktsson

    Þetta er ekki grín, þetta er dauðans alvara og óhugnaður. Enginn leiðsögumaður með snefil af sjálfsvirðingu mun fara þarna inn og eldfjallið því dæmt til að deyja.
    Ennþá hættulegri er sú aðför sem þetta er að þeirri óburðugu smásöluverslun sem þrífst þó enn á suðurlandi.

  • Anna Th. Rögnvaldsdóttir

    „Gatnamót ehf skuldbindur sig til þess að sjá um og kosta gerð deiliskipulags fyrir svæðið í heild sinni og leggja fyrir sveitarfélagið til umfjöllunar og afgreiðslu.“ (úr fundargerð skipulags- og byggingarnefndar Árborgar).

    http://www.arborg.is/19-fundur-skipulags-og-byggingarnefndar/

    Er þetta ekki einhver bútasaumshugsun í skipulagsmálum? Manni finnst skorta heildræna hugsun, t.d. með tilliti til þess hvaða áhrif svona jaðarverslunarferlíki hafa á ásýnd bæja, verslun og þjónustu (eins og Árni nefnir) og lífsgæði íbúa almennt.

    Eldfjallshugmyndin er svo kapítuli út af fyrir sig. Í henni felst einhver „theme park“ hugsun sem er alveg sérlega ógeðfelld. Hafa menn velt fyrir sér samsetningu þessa hóps sem kemur til Íslands sem túristar — aldur, efnahagur, menntunarstig o.s.frv.? Eða eftir hverju hann er að slægjast?

    • Örnólfur Hall

      — Þetta er í sama anda og, uppdiktaði, miðaldatimburkirkju-skúrinn risavaxni sem átti að flytja inn og demba niður á Skálholtsstað !

  • Árni Ólafsson

    Við getum velt því fyrir okkur hvort massatúrismi sér vænleg stoð undir efnahag þjóðarinnar – ferðabransi sem leggur áherslu á að selja fjölda flugsæta og sjá svo til hvort þetta reddist ekki. Ferðaþjónustan er víðast árstíðabundin láglaunagrein – nema þar sem svarta hagkerfið sér rekstraraðilum fyrir feitari tekjumöguleikum. Fréttir af því að tvöföldun ferðamanna hafi ekki skilað krónu í kassann (opinberlega) bendir til þess að svarta hagkerfið fleyti rjómann ofan af hér hjá okkur eins og víða annars staðar.

    Ég er á þeirri skoðun að ferðamenn hafi almennt séð lítinn áhuga á að skoða það sem sérstaklega er gert fyrir ferðamenn. Þeir (og við sem ferðamenn) hrífast annars vegar af náttúrunni og hennar undrum og hins vegar af því hvernig heimamenn hafa búið sér (menningarlegt?) búsetuumhverfi , hvernig þeir lifa og haga sér. Sundlaugarnar okkar eru jákvæð dæmi um þetta svo og fallegt bæjarumhverfi nokkurra bæja, búsældarlegar sveitir, vel gerðar byggingar ….. . Á sama hátt er tilgerð, slæm byggingarlist, hús á bílastæðum, gámagisting fyrir ferðamenn og almennt sinnuleysi gagnvart umhverfinu eitthvað sem illa selst – og fáir gera sér ferð til að skoða – a.m.k. ekki oftar en einu sinni.

    Mér þykir líklegt að stórmarkaður við Suðurlandsveg vinni gegn almannahagsmunum íbúa nærliggjandi bæja. Hann bætir engu jákvæðu í bæjarumhverfið – dregur kraftinn úr verslun og þjónustu inni íbæjunum. Dregur kraftinn úr því sem ferðamenn gætu haft ánægju af að skoða.

    Mér finnst þessi tillaga vera hluti af viðskiptahugmynd sem ég er ósammála – tilgerð fyrir massann. En óneitanlega gengur þetta í takt við þá hreyfingu, sem er á samfélaginu – að kraka saman einhverjum aurum hratt með því að selja sem flest flugsæti.

  • Jón Jón Jónsson

    Þvílík neikvæðni hérna, minnimáttarkennd og íslenskur masókismi.

    Þetta verður örugglega alveg jafn fallegt og „klettarnir“, Harpan og Hótelið,
    þegar verður búið að setja á þetta nokkrar diskóteka jólaseríur.
    Það verður að búa til „skjól“ í sveitum landsins sem „skjól“ Hörpu og Hótelsins.

    Veitið þessu MvdR verðlaun í nafni ESB og þá mun öll lista- menningar- mennta- og fjölmiðla-elítan slefa af fryggð og mæra þetta upp í hástert.

    Ímyndið ykkur bara þegar þýska iðnaðarbandið Boney M. mætir og spilar þarna og Udo Jurgens tekur nokkra uber-germanska slagara.

    Þvílík blessun, þvílík dýrð. Eða eins og gamli bóndinn sagði:
    Hitler er góður maður, hann grætur yfir staðlaðri og vottaðri tónlist.

    • Jón Jón Jónsson

      En ef ég spila á orgelið með djúpu bassapípuna þá mun hún nötra af dýpstu alvöru og taglhnýttur við kómetur alheimsins mun rödd mín einnig þaðan mæla og segja allan sannleikann.um svínaríið sem hér viðgegnst í boði Leníngrad, Frankfurt, City og Wall Street og litlu leppanna hér á landi, milljónkallana á mánuði sem stýra umræðunni og reigja sig sem reittar hænur á pallborði skinhelginnar, allir nema blessaður síðuhafinn, Hilmar minn Þór 🙂

  • Dr. Samúel Jónsson

    Það sem höfðingjarnir hafast að
    halda aðrir að leyfist sér.

    Stundargræðgin lætur ekki að sér hæða.
    Hrun I dugði ekki til.

  • Jafnvel Bárður á Búrfelli hafði betri smekk en þetta.

  • Getur framsóknarmönnum aldrei dottið neitt í hug?

  • Þorsteinn

    Það er fullt af svona drasli í þeim löndum og svæðum sem hafa lítið uppá að bjóða fyrir ferðamenn. Sérstaklega þar sem ferðamennskan er komin á vonarvöl. T.d. á billegustu stöðunum á Spáni og víðar.

    Þetta er algengt í Florida sem hefur ekkert annað upp á að bjóða en Golf og gott veður. Sama á við um borgirnar í eyðimörkinni vestast í USA. Vegas og Reno.

    Þetta sem hér er sýnt er upphaf endaloka ferðamennskunnar hérlendis. Þegar svona er kynnt fyrir vönduðu fólki sem kemur til þess að sjá ekta óspillta náttúru þá nennir það ekki að koma og hættir við.

    Ömurlegt.

    • „Þegar svona er kynnt fyrir vönduðu fólki sem kemur til þess að sjá ekta óspillta náttúru þá nennir það ekki að koma og hættir við“.

      Orð að sönnu.

      Þetta er vissulega amkunarverð smekkleysa og skemmdarstarfssemi fyrir ferðamannaþjónustuna í landinu öllu o eins og Stefán Benediktsson segir að neðan er þetta aðför að allri smávöruversluná öllu suðurlandi…..

      Ath stærðina 10-12 þúsund fermetrar!!!!!! Fullt af drasli í drasl húsi.

    • Örnólfur Hall

      — Þorsteinn og Jón J.J.

      — Nú hafa Las Vegas-„showin“- og ‚tívolín“ aldeilis fengið samkeppni. Fyrst kom Hörpuljósa“showið“ (sem sumir kenndu við bilaða jólaseríu) svo nú þetta spúandi plast-eldfjall.

      — Ég óttast að stóru eldfjöllin í nánd sármóðgist og reiðist og láti hressilega til sín taka með mótmælum.

      — Það er t.d. mikill misskilningur að öllum ‚túristum‘ (túrhestum) sem eru að mynda Hörpuna finnist hún falleg þó fjöldi Landa haldi það. – Margir gera grín af okkur og glerstáss-bákninu okkar sem var byggt þegar Ísland var á hausnum og vilja eiga mynd af „viðundrinu“.

      — Margir hafa mun meiri áhuga á mynda útsýnið til náttúrunnar.

      — Hvað skyldu svo sinnugir ‚túristar‘ segja við nýja „viðundrinu“ á Selfossi. Já…eða hvað segja heimamenn.??

    • Hilmar G.

      Fullkomlega sammàla Þorsteini.

      Okkur væri nær að draga lærdóm af frændum okkar í Noregi. Þeir gera ferðamönnum kleift að njóta náttúrunnar með því að fjárfesta í infrastrúktúr sem verndar náttúruna og eykur öryggi þeirra. Þar er fókusinn á náttúruna, ekki á mammon. Ennfremur eru þeir búnir að koma í veg fyrir svona skrípalæti í skipulagslögum. Þar geturðu ekki reist verslanamiðstöð/hverfi nema að það sé í hlutfallsstærð við sveitarfélagið og styðji við markmið skipulagskaganna um sjálfbæra þróun. Það sem við horfum á hér er fullkominn fíflagangur.

      Þetta er gömul saga og ný. Hrunið hefði átt að kenna okkur að skerpa á reglugerðum en ekki standa í hnoði og blæstri endalaust.

      Ég leyfi mér að halda í þá von um að þetta verði aldrei að veruleika.

    • Jón Jón Jónsson

      Þjóðin verður að hafa skilning á því að elítan vill búa sér til „skjól“;
      „hrægammaskjól“, „aflandseyjuskjól“, „Austurhafnarskjól“, „sveitaskjól“.

      Hví skyldi ekki aumingja elítan hampa þessu sem öðru; kemur ekki alltaf frægðin að utan hjá þjóðrembu alþjóðarembunum ?

      Solla bakaði vöfflur af þjóðrembu (eftir uppskrift Dóra Ásgríms., „mömmukvóta“) og vildi í öryggisráð SÞ, skv. stalaðri alþjóðarembu.

      Eftir það lyfir hún í vellystingum.

      Þetta er kál og kenningin:

      Meira svona, meira svona og brauðmolarnir munu falla af borði elítunnar.
      Og elítan skipar í nefndirnar og ráðin og velur svo sjálfa sig.
      Hví skyldi ekki elítan hampa þessu, Las Vegas eða Frankfurt, vott þe diff ?

      „Money makes the world go around, and the greedy to play the Empire´s fools.“

      Hvað er þá til vinstri og hvað er til hægri ? Allt þetta kerfi er forheimskun !
      Samtryggingu í allar nefndir og öll ráð, það er dags-skipun uber-birtunnar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn