Verðlaunatillögur í samkeppnum eiga það til að taka allnokkrum breytingum frá því að dómnefnd fellir sinn dóm þar til framkvæmdum er lokð. Þar kemur margt til. Eitt er að bygginganefndin er hugsanlega ekki alveg sammála dómnefndinni eða að forsendur breytast á þeim tíma sem líður frá því að keppnislýsing var skrifuð og þangað til framkvæmdir hefjast.
Það var árið 2003 að niðurstaða fékkst í samkeppni um nýtt hús fyrir gufubaðið á Laugarvatni, Gufuna, eins og hún hét þá. Nú eru liðin rétt 10 ár og framkvæmdum að ljúka með síðustu baðkerjunum utandyra. Þetta var langur ferill þar sem vinningstillagan tók miklum breytingum af margvíslegum ástæðum. Fyrst stækkaði hún úr 200 m2 samkeppnistillöhunnar upp í hátt á annað þúsund fermetra.
Ástðan var sú að stórhuga athafnamenn sáu þarna viðskiptaækifæri. Þetta var þegar „góðærið“ stóð sem hæst. Einhverjir töldu að verkefnið stefndi í strand vegna stærðarinnar, hugmyndirnar væru of stórar. Arkitektarnir gerðu þá, að eigin frumkvæði, tillögu um að minnka húsið um meira en 50% þannig að það yrði ekki meira en 75o fermetrar. Því var vel tekið og málið komst á betri braut.
Það vakti athygli mína að allir þáttakendur í samkeppninni, að einum undanskildum, áttuðu sig ekki á sérstöðu gömlu Gufunnar á Laugarvatni. Hún var einstök vegna þess að hún stóð ofan á sjálfum hvernum. Þ.e.a.s. að hverinn sem gaf af sér gufuna var undir timburgólfi baðklefans þannig að gestir og baðandi heyrðu í hvernum beint undir fótum sér. Annað sem gaf einstaka tilfinningu var myrkrið og þær frumstæðu aðstæður sem voru í gufuklefanum.
Höfundar vinningstillögunnar voru Á Stofunni arkitektar og landslagsarkitektastofan Landform sem tóku að sér verkið.
Efst í færslunni er gamla Gufan. sem margir minnast með söknuði. Myndin er tekin skömmu áður en hún var rifin. Að neðan koma svo nokkrar ljósmyndir af nýju Gufunni á Laugarvatni sem fengnar eru á heimasíðu Fontana (!), eins og baðið heitir nú. Það sem einkum er ánægjulegt er að það hefur tekist að halda Gufunni á sama stað og hún hefur alltaf verið, yfir hvernum þannig að gestir finna hann banka í gólfið. Það hefur líka að vissu marki tekist að ná svipuðu anda og var í gömlu Gufunni, þ.e. lítil dagsbirta, timbur og hverinn bankandi undir gólfinu.
Ástæða er til þess að vekja sérstaka athygli á verkum Erlu Þórarinsdóttur myndlistarmanns sem gerði skúlptúrana í baðlaugunum. Þeir eru allir sérlega formfagrir og gerðir úr póleruðu graniti í ýmsum litum.
Neðst koma svo tvær skissur frá skjálfandi hendi arkitektsins sem gerði þar tilraun til þess að sannfæra verkkaupann um að byggja minna hús en þá var á teikniborðinu. Húsið er nánast alveg eins og þessar skissur meðan útisvæðin eru mjög frábrugðin.
Kannski er byggingin óþarflega straumlínulöguð miðað við gömlu Gufuna, en ég held hún þjóni þeim tilgangi sem til var ætlast þó ýmis smáatriði sem varðar bygginarlistina hafi ekki skilað sér að fullu í lokaútfærslunni. En það er ekki óalgeng niðurstaða þegar arkitaktar skila endanlega vinnu sinni. Hinsvegar eru útisvæðin frá hendi Landforms og Erlu Þórarinsdóttur mun betri en fram kemur í skissum arkitektsina að neðan.
Heimasíða baðhússins er www.fontana.is
Myndirnar eru fengnar af heimasíðu Fontana
Þetta er skemmtilegt hús og flottar skissur en gaman hefði verið að sjá upphaflegu tillöguna, helst frá „skjálfandi hendi arkitektsins“
Plebbalegt að rífa gömlu gufuna…
Og Fontana er plebbalegt nafn líka.
En samt ágætt ef hægt að rukka útlendinga(jafnvel einhverja Íslendinga) 2800 kr fyrir að baða sig.
— Það er alltof sjaldan sem maður sér svona skemmtilegar, einfaldar og upplýsandi arkitektaskissur (áður fyrr algengar) sem skýra svo margt leifursnöggt. — Maður fer að verða leiður á þessum sífelldu kaldhömruðu grafísku ‘orgíum’ sem ýkja í allar áttir.
„Fontana“?
Fátt lýsir plebbahugsun gróðærisins betur en þetta nýja nafn á gufubaðinu að Laugarvatni.
McGufubaðið hefði hljómað miklu betur. Síðan hefði mátt kaupa öll gufuböð landsins og endurgera þau í einum stíl.
Ég kom aðeins einusinni í gömlu Gufuna. Það var ógleymanleg upplifun.
Nýja gufan er líka kjörin til þess að eiga gæðastund með ungum börnum. Ég var þarna um daginn með einum 8 mánaða og einni 4 ára. Við vorum þarna í rúma tvo tíma. Það var peninganna virði og virkilega skemmtilegt. En ég held að þetta sé of dýrt til þess að skreppa í örstutt bað.
Til að byrja með þá er sorglegt að gufubaðið á Laugarvatni sé orðið að rándýrri heilsulind sem er alls ekki fyrir meðal fjölskyldu að baða sig í. En í því tilfelli er ekki við arkitektana að sakast.
Ég var þarna um daginn og tengingin við Laugarvatnið sjálft er alls ekki nógu góð. Þegar gengið er inn í húsið þeas inn í móttökusalinn starir maður beint á gufuvegginn annarsvegar, hinsvegar timbur handrið. Maður rétt sér glitta í vatnið.
Þegar ofan í var komið var það sama sagan. Gufan og timburhandriðið í vegi fyrir frábæru útsýni yfir vatnið !
Skissur arkitektsins virðast vera meira spennandi og í meiri tengslum við náttúruna og vatnið en raunverulega lausnin enda kannski ólíku saman að jafna.
Sammála. Útsýnið hefði ekki þurft að skerða svona. Það er eins og arkitektarnir hafi mist tilfinninguna fyrir staðnum á ferlinu milli skissunnar og vinniteikninganna. Eða að einhver hafi tekið af þeim völdin og þeir ekki ráðið við stöðuna!
Til hamingju með þetta vel heppnaða mannvirki HÞB og CO.
Var þarna á hverju sumri á árunum 1963-69.
Systir mín var eini starfskrafturinn í gufunni eitt sumarið, þá 13 ára gömul. Ekki hef ég hugmynd um hvað það myndi brjóta gegn mörgum reglugerðum í dag.
Ég man eftir því að ef gufan þótti helst til köld, þá kveiktu menn á eldspýtum. Sá verknaður átti að örva hverinn.
Eins man ég eftir því að stundum tók hverinn að ólga sem slíkum ákafa að menn hlupu út.
Við komum í Fontana og áttum þar gæðastund. Ef maður ætlar að gera eitthvað með börnum sínum (milli 3 manaða og 5 ára) þá er þetta staðurinn. En gefið ykkur tíma, 2-3 tíma. Ef þið gefið ykkur tíma verður þetta ekki eins dýrt og maður heldur! (það mætti samt lækka verðið)
Þetta er hið glæsilegasta hús en mikið er „Gufan“ mikið fallegra nafn en „Fontana“