Föstudagur 02.10.2009 - 13:41 - 10 ummæli

GUNNLAUGUR HALLDÓRSSON ARKITEKT

 

Í sumar hefði Gunnlaugur Halldórsson arkitekt orðið 100 ára. Hann var fæddur í Vestmannaeyjum 6. ágúst 1909.

Gunnlaugur var einn merkasti arkitekt á Íslandi á síðustu öld. 

Hann útskrifaðist með sæmd frá Konunglegu Listaakademíunni í Kaupmannahöfn vorið 1933 aðeins 23 ára gamall. Yngstur allra.

Gunnlaugur var heiðursfélagi í Arkitektafélagi Íslands og vann til fjölda verðlauna í fagi sínu og voru verk hans með því besta sem gerðist um hans daga og jafnvel þó leitað væri langt út fyrir landsteinana. 

Hann rak eigin teiknistofu alla sína tíð og hannaði mörg meistaraverk. Verk hans einkenndust af hinum „mjúka norræna funktionalisma“ þeim hinum sama og Gunnar Asplund, Arne Jacobsen, Vilhelm Lauritzen og feiri aðhylltust. 

Sem dæmi um verk Gunnlaugs má nefna verkamannabústaði við Hringbraut (Sólvelli), S.Í.B.S. á Reykjalundi, Tryggingastofnun, Amtsbókasafnið á Akureyri, Englaborg, hús Jóns Engilberts Búnaðarbankann, Háskólabíó og mörg fleiri

Þetta eru allt fyrsta flokks verk sem menn ættu að skoða. 

Þá teiknaði hann Búnaðarbankabygginguna í Austurstræti, sem er einstök og með því allra besta sem byggt var á Norðurlöndum um þær mundir. Þar stofnaði Gunnlaugur til merkilegs samstarfs með skólafélögum sínum frá Akademíunni, listamönnunum Sigurjóni  Ólafssyni og Jóni Engilberts ásamt Skarphéðni Jóhannssyni húsgagnaarkitekt, sem seinna varð þekktur arkitekt. Hinn heimsfrægi danski húsgagnaarkitekt, Börge Mogensen kom einnig að verkinu og hannaði ýmsa lausamuni sérstaklega fyrir bankann.

Háskólabíó sem Gunnlaugur teiknaði ásamt Guðmundi Kr. Kristinssyni er tvímælalaust með best hönnuðu kvikmyndahúsum frá öndverðu fram á okkar dag, arkitektúr í hæsta gæðaflokki hvernig sem á er litið.

Gunnlaugur vann sjálfstætt og engum háður allt frá því að hann kom heim frá námi, til dauðadags.

Hörður Ágústsson, fræðimaður og myndlistarmaður, sagði um Gunnlaug: „Hann skapar ekki aðeins fullburða verk rúmlega tvítugur að aldri heldur brýtur hann með þeim blað í íslenskri sjónlistarsögu. Ég kem ekki auga á annan jafn ungan listamann sem slíkt afrek hefur unnið. Og það sem meira er, með þessum verkum skipar Gunnlaugur sér sess sem fyrsti íslenski sjónlistamódernistinn, um áratug á undan Svavari Guðnasyni.“

Teiknistofa  okkar Finns Björgvinssonar arkitekts átti því láni að fagna að vinna með Gunnlaugi nokkur síðustu starfsár hans. Eitt sinn spurði ég Gunnlaug, hvaða ráð hann gæti gefið ungum arkitekt sem væri að hefja starfsferil sinn. Hann svaraði að bragði: „Hann á að finna sér verndara“.

Ég skildi svarið ekki strax, en áttaði mig á því seinna.

Gunnlaugur vann, eins og margir aðrir arkitektar á þeim tíma, í skugga Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins, sem er af sumum álitinn besti, en jafnframt ofmetnasti arkitekt Íslands.

Guðjón vann að margra mati í skjóli Jónasar frá Hriflu og fékk fleiri tækifæri en nokkur annar íslenskur arkitekt hefur nokkurn tíma fengið eða mun að líkindum nokkurn tíma fá. Hann hannaði flestar opinberar byggingar á Íslandi sem byggðar voru á fyrri hluta síðustu aldar í embætti Húsameistara ríkisins samtímis með því að hann tók að sér verkefni á einkastofu sinni.

Þeir sem vilja kynnast Gunnlaugi Halldórssyni, ævi hans og verkum nánar er bent á fyrirlestur Péturs H. Ármannssonar í Norræna húsinu n.k. mánudagskvöld 5. október kl. 20.00.

Myndin af Gunnlaugi sem fylgir er fengin að láni frá vef Hönnunarmiðstöðvar Íslands.

Búnaðarbanki Íslands í Austurstræti

S.Í.B.S. Reykjalundur hannaður í upphafi í samstarfi við Bárð Ísleifsson

bilde

Háskólabíó eftir þá Gunnlaug Halldórsson og Guðmund Kristinsson er sennilega eitt besta hús á íslandi og hefur algera sérstöðu hvað form og funktion varðar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Birta Marín

    Þetta er langafi minn

  • Birta Marín

    Þetta er langafi minn

  • Örnólfur Hall

    Af STJÖRNU-skreyttum listamönnum og arkitektum – og enn af TR-húsi

    STJÖRNU-listamaðurinn hefur eflaust gert ýmsa góða hluti en við sumt setur undirritaður stórt spurningarmerki eins og yfirþyrmandi margbrotna, “paljéttu”-líka glerkápan á kassalaga og þunglamalegu TR- húsinu við Austurhöfn.
    – Bygging sem er, að mati undirritaðs, án áhugaverðra eða spennandi forma,

    Sumir segja að það vanti anda Reykjavíkur í þessa byggingu og hún virki framandi og kallist ekki á við umhverfið. Undirritaður er í þeirra hópi.
    Það verður óvinnandi vegur að halda þessari glerkápu hreinni og speglandi eins og forsvarandi dönsku STJÖRNU- HLT-arkitektanna leggur mikla áherzlu á. Sjávar-saltstorkan ásamt fíngerða rykinu mun setjast á og í mýmargar kverkar, brot og glerfleti og mynda viðvarandi grámyglulega ásýnd.
    Tveir burðarþolssérfræðingar hafa sagt við undirritaðan að þeir óttist mjög að burðargrindin og rammar fyrir glerkápuna séu of veikburða til að standast þá ógnarkrafta sem geta orðið þarna á stað mesta veðravítis Höfuðborgarsvæðisins.

    PS Upp úr aldamótunum var hafist handa við að leggja drög að TR-húsinu við Austurhöfn. Þá voru skráðir í A.Í. u. þ. b. 330 félagar (þeir eru nú 418). Í þeim hópi voru og eru arkitektar (án stjörnuskrauts) sem hefðu getað hannað áhugaverða formfagra íslenzka tillögu og sem hefði höfðað til anda Reykjavíkur og kallast á við umhverfi hennar (í þrengri og víðari skilningi) og verið sómi fyrir þjóðina.

    Upp úr miðri síðustu öld voru kommaríkin Austur-Þýzkaland og Tékkó-slóvakía að gortast með formdauf þunglamaleg kaupstefnuhús (Kaufmessehallen) klæddum uppbrotnum glerhjúpum. – Undirritaður vill og má ekki hugsa til þeirra í þessu sambandi.
    Örnólfur Hall arkitekt

  • Örnólfur Hall

    Stiklur um GUNNLAUG HALLDÓRSSON – Í tilefni 100 ára ártíðar

    Ég átti því láni að fagna að kynnast Gunnlaugi, eins og Hilmar og Finnur, þegar ég vann við tillögugerð að Stjórnarráðshúsi á Torfureitnum (sem þá var bara talinn reitur með dönskum fúaspítum sem minntu á danskan höfuðstað). – Gunnlaugur var einn fjögurra arkitekta (arkitektanefnd) sem ég vann undir (þetta var skömmu eftir námslok). – Það gat oft verið erfitt að þjóna fjórum herrum því hver hafði sína skoðun á byggingarlistinni. Stundum komu líka ráðherrarnir Bjarni Ben. og Emil Jónsson og höfðu líka sínar skoðanir á málunum og voru ekki alltaf sammála..
    Smámál gátu líka verið deiluefni t.d. stærðir á “klósett”rýmum. – Ég komst fljótt að því að Gunnlaugur var bráðskarpur og átti auðvelt með koma hugmyndum sínum á fallegt, hreint og skiljanlegt mál. Hann gat líka verið stríðinn og stríddi oft félugum sínum í nefndinni og ég fékk líka minn skerf.
    Eitt sinn kom einn nefndarmanna hálftíma fyrir fundartíma og sagðist vera með hugmynd sem hann vildi forma í hvítan arkitektaleir sem var á einu borðinu. Hann bretti upp ermarnar og formaði lengi og vel.- Næstur kom svo Gunnlaugur. Hann horfði á félagann og gekk einn hring í kring um borðið og skoðaði verkið og sagði svo : “ Mikils hefur nú bakarastéttin farið á mis að hafa ekki fengið að njóta starfskrafta þinna”
    Þessi byggingaráform runnu svo út í sandinn og Torfusamtökin voru stofnuð og Gunnlaugur skifti um skoðun og varð öflugur talsmaður þeirra.

    Gunnlaugur hafði góðan húmor og á góðri stundu sagði hann mér eftirfarandi sögu af sjálfum sér: Á námsárunum var hann að vinna að skipulagsverkefni hjá prófessor í skipulagsfræðum. Tillagan gekk út á borgarkjarna með opinberum byggingum og menningarstofnunum. Í flýti hafði hann skrifað -offentlige huse- á opinberu byggingarnar. Hann bar svo tillöguna undir prófessorinn. Spozkur leit proffinn á Gunnlaug og sagði svo: “Eruð þið Íslandsmenn virkilega svo mikið og vel náttúreraðir að þið viljið hafa svona mörg “hús” ?

    -Örnólfur Hall arkitekt-

  • Örnólfur Hall

    Þetta er gott og tímabært tillegg, Hilmar. Þú tekur ómakið af forystu arkitekta (AÍ) og ert skarpur -skribent- þegar kemur að skrifum um arkitektúr og skipulag. – Mér líst vel á hugmyndir þínar um Kvosartorgin.

  • jón jónsson

    ATHUGIÐ en skv. vef arkitektafélagsins http://www.ai.is þá
    hefst fyrirlesturinn kl. 20.30 en ekki kl. 20 eins og stendur hér að framan.

  • Guðrún G

    Gott að fá þessa umræðu fram, fínir pistlar.

  • Guðríður Adda Ragnarsdóttir

    Rakst á síðuna þína af tilviljun.
    Mjög áhugavert.
    Vona að þú haldir áfram:-)

  • Albína Thordarson

    Til hamingju með glæsilega byrjun á blogsíðunni þinni !

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn