Laugardagur 15.07.2017 - 12:32 - 18 ummæli

Hafnarfjörður-Sleginn nýr tónn á traustum grunni

Ég hef haldið því fram allan minn starfsferil að í „Regionalismanum“ felist framtíð byggingalistarinnar.

Það er byggingalist sem reist er á grudvelli þeirrar sérstöðu sem er að finna á þeim stað sem á að byggja.

Þessi hugsun var kennd af Vitruvíusi í 10 bókum hans um arkitektúr fyrir um 2000 árum. Þetta var einnig kennt á Konunglegu Dönsku Akademíunni fyrir fagrar listir þegar ég var þar við nám fyrir 40-50 árum.

En staðbundinn arkitektúr hefur átt erfitt uppdráttar síðustu 100 árin eða svo. Alþjóðlegar stíltegundir hafa mengað staðbundinn arkitektúr hvarvetna í heiminum í miklu mæli og jafnvel svo að maður veit stundum varla hvar í heiminum maður er staddur þegar byggingalistin er skoðuð.

Það gladdi mig því mjög þegar kynnt var verðlaunatillaga um íbúðabyggð á Dvergs-reitnum í Hafnarfirði sem unnin er með hliðsjón af staðarandanum þar sem byggðin mun koma. Tillagan er unnin af arkitektum á stofunum Tripoli og Krads í samvinnu við Landmótun sem sáu um landslagshönnun á svæðinu.

Styrkur tillögunnar liggur einkum í góðri og faglegri greiningu arkitektanna á staðnum þar sem þeir byggja og grundvalla tillögugerðina á. Í sérlega faglegrin og góðri greinargerð skrifa höfundar m.a. eftirfarandi:

„Hafnarfjarðarbær hefur sjálfstæðan karakter og skemmtilegan sjarma, sem einkennist ekki hvað síst af mannlegum hlutföllum byggðar í nánum tengslum við lifandi höfn og spírandi miðbæjarlíf.“

og síðar:

„Hin nýja byggð sem rísa á á gamla Dvergsreitnum sækir leiðarstef sín í aðliggjandi umhverfi byggðarinnar. Stakstæð timburhús frá því um aldamótin 1900 standa keik með ræktarlegum trjágróðri við Brekkugötuna undir Hamrinum til austurs og handan Lækjargötunnar til norðurs með litrík söðulþök og klæðningar úr bárujárni.“

Og:

„Fyrir utan nokkur timburhús af minni gerðinni, eru flest timburhúsanna myndarlega byggð, með einkennandi tröppum, hlöðnum garðveggjum og háum sökklum sem setja reisulegan svip á hið manngerða umhverfi. Þótt þök og annað séu með svipuðu sniði, eru húsin af ólíkum stærðum og með margskonar útskot, svalir, kvisti og annað, og standa frjálslega hvert með öðru í landslaginu. Þetta yfirbragð ákveðinnar grunngerðar í byggingarlagi með margvísleg tilbrigði og persónuleg sérkenni gefur áhugaverðan tón fyrir leiðarstefjum að nýju byggðinni.“

Þessi frábæra tillaga sprettur með eðlilegum hættti upp frá greiningu höfunda á staðnum. Höfundar greina staðinn áður en hugmyndavinnan hefst. Útlitið er ekki ákveðið af arkitektunum heldur er það ákveðið af staðnum eins og vera ber.  Allt er eðlilegt og allt fellur vel að því sem fyrir er. Allt er nútímalegt og allt er tæknilega í takti við það besta í dag en er samt byggt á þeim grunni sem blasir við eftir greiningu staðarins.

Þetta sannar enn einu sinni að nútímalegur arkitektur þarf ekki að vera andstaða þess gamla eða að staðbundinn arkitektúr sé steinn í götu framfara eins og margir telja og halda fram. Því hefur jafnvel verið haldið fram af kollegum mínum að ef horft er í bakspegilinn þá geti það haldið aftur af þróun og útilokað framfarir.

Þvílík vitleysa.

Þegar ég gekk í arkitektaskóla var um þriðjungur tímans sem fór í tillögugerð notaður til þess að greina staðinn. (registrering af stedet) Þar var allt skoðað frá félagslegu sjónarmiði, fjárhagslegu, skipulagslegu, menningarlegu sjónarmiði o.s.frv. Staðarandans var leitað. Í lok greiningarinnar var ákveðið hvað skyldi byggja og hvernig? Eða hvort byggja skyldi yfirleitt.

Í deiliskipulagi við Austurbakka í Reykjavík (Hafnartorg) var hvergi að sjá neina skilgreiningu á staðnum eða greiningu einkenna umhverfisins. Það er heldur ekki að sjá nokkra tilburði til þess í húsahönnuninni sjálfri. Sama má segja um fyrirhugaða byggingu við Gamla Garð og fl.

En hér á Dvergs-reit í Hafnarfirði hafa höfumndarnir verið framsæknir, skynsamir  og faglegir. Greint staðinn og látið umhverfið ráða útlitinu. Tripoli arkitektar og Krads hafa unnið hér gott verk sem er til fyrirmyndar.

 

 

Að neðan er loftmynd af þeirri byggingu sem fyrir var. Hafnarfjarðarbær á hrós skilið fyrir framkvæmdina og dómarar í samkeppninni hafa unnið góða vinnu sem skilar sér í góðri niðurstöðu frá hendi arkitektanna. En allt hangir þetta saman. Í dómnefnd voru Þormóður Sveinsson og Gunnþóra Guðmundsdóttir arkitektar og Stefán B. Veturliðason vekkfræðingur. Fleiri bæjarfélög ætti að líta til Hafnarfjarðar þegar byggt er i grónum hverfum.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Interesting article.

  • Þóroddur

    „Það er holl áminning um að það er ekki alltaf þannig að gamalt sé gott og varðveisluvert.“ Góð ábending sem segir okkur að það sé sjálfsagt að rífa skipulagsslys á borð við þetta í Hafnarfirði, kannski Moggahöllina, húsin við RÚV og örugglega væntanleg skipulagsslys við Gamlagarð og víðar

    • Hilmar Þór

      Og hugsanlega stærsta skipulagsslys allra tíma, meðferðarkjarna Landspítalans.

  • stefán benediktsson

    Grunnurinn að þessari góðu lausn liggur í þeirri ákvörðun að rífa gamla húsið sem var yfir hálfrar aldar gamalt og margir höfðu reynt að finna not fyrir, án árangurs. Það er holl áminning um að það er ekki alltaf þannig að gamalt sé gott og varðveisluvert.

  • Takk fyrir goða grein að vanda Hilmar; það er alltaf mikið ánægjulegt að lesa hugsanir þínar.

    Þetta er mjög vel unnin tillaga sem tekur einstaklega vandlegt tillit til eiginleika fyrirliggjandi byggðar. Það er því miður alltof óvenjulegt að nálgast verkefnum með slíkri umhyggju fyrir borgarumhverfinu í dag. Lóðarskipulagið og götumyndin hér eru svo sannarlega til fyrirmyndar.

    Ég efast þó um smáatriðin í nokkrum byggingum sem koma fram á myndunum og að hve miklu leyti þau endurspegla anda þessa tiltekna staðar í rauninni. Mér finnst þessi ferhyrndu útskot, hinn fullkomna skortur á þakbrúnum og gluggarnir sem líta út eins og göt í þykkum einsleitum veggjum skapa frekar „generískt“ bragð. Slík smáatriði eru orðin nánast fyrirfram ákveðnar lausnir í mörgum nýjum smáhúsum sem arkitektar hafa ábyrgð á, en þau eru yfirleitt bara merki um tísku tímans heldur en form sem eru aðlöguð að staðaröflum og menningarhefðum. Fyrir mér líta nokkur þessara húsa nakin út. Það er venjulegt að lýsa slíkum lausnum sem „nútímalegum“ í verkefnislýsingum, en hvað þýðir eiginlega þetta? Þessi form hafa nokkrar talsverðar neikvæðar tæknilegar afleiðingar samanborið við smáatriðin í hefðbundnari byggingum, ekki minnst í íslensku loftslagi. Af hverju sjáum við þá þess konar smáatriði sem framfarir í tengslum við umræður um eldri byggingalist?

    Raðhúsin á myndinni með torfþökum (og fínum forgörðum af grunnmyndinni að lesa) hafa aftur á móti smáatriði sem eru mótuð með verulega einstakari hætti að mínu mati. Þau hafa líka útlit sem við gætum án efa kallað „nútímalegt“ í venjulegri merkingu þessa hugtaks, en þau virðast verða náttúrulegur hluti af staðnum og umhverfinu í miklu meira mæli vegna þess hvernig er farið með smáatriðin. Hér gætir möguleika regiónalismans að fullu.

  • Sæmundur

    Það þarf kjark og einbeittan vilja til þess að ná svona fram. Það þarf mikið að ganga á. Hafnarfjörður hefur líklega önnur sýn á umhverfið er RVK. Þarna er líklega ekki verið að kaupa dýrt land og selja það aftur til braskara í hagnaðarskyni á enn dýrara verði. Og ungt blankt fólk látið blæða. Þarna ræður hugsjónafólk skipulaginu í stað gróðapunganna í Reykjavík.

  • Æ Æ.

    Að bera þetta saman við Reykjavík þar sem lóðir eru á uppsprengdu verði. Þetta eru svokallaðar gangstéttar lóðir í alla staði vonlausar. Þá er nú Kirkjusandur betri.

  • Pétur Örn Björnsson

    Hafnarfjörður virðist vera að taka frumkvæðið á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar manneskjulega nálgun á því hvernig skuli brjóta byggingarmassa niður í mannlegan skala húsa og lífs sem fái þar þrifist á sem bestan hátt. Mjög svo virðingarvert.

  • Glæsilegt. Sammála þér í öllum atriðum Hilmar. Mér finnst líklegt að þarna hefðu komið 5 hæða svalagangshús ef þetta væri í Reykjavík.

    • Hilmar Þór

      🙂

      Það er ekki ósennilegt.

      Þarna hefði líka verið góður staður fyrir fimm stjörnu hótel á 5 hæðum. 🙂

    • Hallgrímur

      Umhverfis- og skipulagsráð þarf að vanda sig meira í Reykjavíkurborg. Þeim liggur stundum of mikið á. Það á helst ekki að leyfa svalagangshús. Period!
      Þetta dæmi frá Hafnarfirði er til mikillar fyrirmyndar þar sem mammon er settur í annað sæti en umhverfið og manneskjan í það fyrsta.

  • Ekki viessi ég að arkitektar greindu svona umhverfið. Ég hélt að það væru sett skilyrði í skipulaginu (deiliskipulagi?) og svo hönnuðu arkitektarnir bara eftir sínu listræna höfði. En nú skil ég þetta betur. Umhverfið ræður oftast meiru en mann grunar. Það er áhugavert að skoða byggingar með það í huga. 🙂

    Takk fyrir pistilinn.

  • Sigrún Guðmundsdóttir

    Mikið er gaman að sjá þegar arkitektar eru að vanda sig. Það er að sama skapi sorglegt að sjá hvað menn eru kærulausir í Reykjavík og víðar þegar hús eru byggð í og við eldri hverfi. Þar ber hæst Hafnartorg og svo þessi hörmung við Gamla Garð sem á að berja með ofbeldi í gegnum allar skynsamar viðvaranir. Ussbarasta!

  • einar e.sæmundsen

    Hilmar þakka þér góða umfjöllun!

    Þér láðist að geta að tillagan er unni í samvinnu við Landmótun sf.

    kv

    ees

    • Hilmar Þór

      Takk fyrir ábendingua sem er vel þegin eins og allar ábendingar af svipuðum toga.

      Er búinn að lagfæra.

  • Guðrún Þorsteinsdóttir

    „Útlitið er ekki ákveðið af arkitektunum heldur er það ákveðið af staðnum eins og vera ber“.

    Vilja nú allir arkitektar skrifa undir þetta?

    • Hilmar Þór

      Þetta er nú bara eins og flestar kennisetningar Guðrún.

      Þær eiga oft við en ekki allar allstaðar.

      En svarði spurningu þinni er því miður nei.

      Það eru ekki allir arkitektar sem vilja skrifa undir þetta en þeim fer vonandi fjölgandi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn