Miðvikudagur 13.01.2010 - 14:19 - 11 ummæli

Hagsmunaaðilar deiliskipuleggja

 

 
Nú sýnist mér að forræði yfir deiliskipulagi Landspítalalóðarinnar sé að færast frá borginni til hagsmunaaðila. Það er að segja að Skipulagsráð kjörinna fulltrúa með sína færustu arkitekta og skipulagsfræðinga hjá borginni eru að afhenda meðferð málsins til verkefnisstjórnar LSH.

Það er ekki góð reynsla af því að afhenda hagsmunaaðilum forræðið í deiliskipulagsvinnu.

Maður veltir fyrir sér ástæðum þess að ekki er farið í hefðbundið skipulagsferli á þessum umdeilda og viðkvæma stað. Ferli með tilheyrandi forsögn, umræðu og kynningu.

Í staðinn fyrir hefðbundið vinnulag velur LSH hópa hönnuða til að leggja fram sínar hugmyndir að skipulaginu og þeim byggingum sem þarna eiga að rísa. Hóparnir munu vinna sínar tillögur eftir forskrift spítalans og með hagsmuni LSH að leiðarljósi.

Svo er ein tillagan dæmd best af fámennri dómnefnd.

Eftir að niðurstaða dómnefndar er undirrituð verður pakkinn opnaður. Öll vopn borgaranna og Skipulagsráðs eru slegin úr höndum þeirra og pakkinn gleyptur umræðulaust í einu lagi að undangengnu smá tuði.

Ég trúi því ekki að allt það duglega hugsjónafólk sem nú situr í Skipulagsráði og allt það færa fagfólk sem vinnur í borgarskipulaginu ætli að láta þetta vinnuferli yfir sig og okkur borgarbúa ganga.

Þetta verklag er komið af stað án þess að nokkur maður sé búinn að átta sig á hverjar afleiðingarnar geta orðið. Hvernig verður t.d. brugðist við þegar deiliskipulagið fer í lögboðið kynningarferli. Deiliskipulag sem unnið er á forsendum spítalans.

Þarna verður ekki einungis um deiliskipulag að ræða heldur líka teikningar af fullunnum frumdrögum af húsunum sjálfum, sem verða um 66 þúsund fermetrar.

Hvernig er hægt að snúa við þegar svo langt er komið í ferlinu.

Verður það ekki áhrifalaus sýndarkynning?

Auðvitað verður niðurstaða samkeppninnar að fara í lögboðið kynningarferli, en verður það marktækt?

Er þetta vinnuferli í anda skipulagslaga?

 

 

 

 

 

Yfirlitsmynd af eldri verðlaunatillögu, endurskoðuð.

Verðlaunatillagan séð að norðan.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Gestur Ólafsson

    Í lok nóvember s.l. kom fram að þrátt fyrir ævintýralegan fjárausutur undanfarin ár í bollaleggingar um framtíðar byggingar LSH er ekki enn til samþykkt deiliskipulag af umræddri lóð við Hringbraut. Við, íslenskur almenningur, sem borgum þessa reikninga hljótum að spyrja hver sé ábyrgur fyrir þessu háttalagi.
    Í forvali fyrir fyrirhugaða samkeppni er heldur ekki gerð nein krafa um að í teymum sé nokkur aðili með lágmarks menntun í skipulagsfræðum en hins vegar gerð krafa um þekkingu á smáspennukerfum!!
    Halda þeir aðilar sem þarna ráða ferð virkilega að forsvaranlegt skipulag þessa borgarhluta verði til af sjálfu sér?

  • Guðrún Bryndís

    Í forvalsgögnum eru sömu magntölur og í samkeppni frá 2004 – þ.e. 67.ooo m2 í fyrsta áfanga ásamt 30.000m2 heilbrigðisvísindadeild og heildarbyggingarmagn lóða verði að lokum 175.000m2. Til að setja mælikvarða á stærðina eru þetta u.þ.b. 9 Höfðatorgsturnar. Hvar er verið að minnka framkvæmdina?

    Samgöngumiðstöðvar, háskólar og sjúkrahús eru í flokki ofurmannvirkja (mega-structure), við tæplega 2km Hringbrautarbútur á að þjóna 4 ofurmannvirkjum, sem hvert um sig þarf 2-4 akreinar m.v. 60km/klst hámarkshraða.

  • Stefán Benediktsson

    Ég hélt ekki að það væri hægt að skilja þetta þannig að borgin ætlaði að láta endurtaka samkeppnina aftur og aftur eins og Velkvakandi virðist skilja mig. “ Ætlið þið í skipulagsráði að láta breyta verðlaunatillögunni ef ykkur líkar hún ekki? Svarið við því er já og verkefnisstjórn LH veit af þeirri afstöðu. “ Samkeppnin snýst um val á arkitektum ekki fullnaðartillögu. Skipulagsráð ber ábyrgð á því að fullnaðartillagan falli sem best að umhverfi sínu.

  • Jón Guðmundsson

    Dapurlegt að svona skuli staðið að málum. Besti kosturinn væri að verkefnið færi á ís, en mönnum er greinilega ómögulegt að standa sómasamlega að því. Það tapa allir á þessu.

  • Velvakandi

    Stefán Benediktsson er í skipulagsráði og tjáir sig skynsamlega hér í athugasemdum.

    Ég skil svar hans þannig að ábyrgðin og áhættan er öll hjá verkefnastjórn LSH, ekki hjá borginni.

    Ef skipulagsráð fellir sig ekki við lausnina og hafnar henni þá verður leikurinn endurtekinn. Verkefnastjórnin ber áhættuna og skattborgarar borga.

    Þetta er ansi mikið 2007 hugsunargangur.

    Af hverju voru vinningshafar í fyrri samkeppni frá árinu 2005 ekki látnir klára deiliskipulagið í samræmi við núverandi forsendur? Að lokinni þeirri vinnu er engum vafa undirorpið hvort lóðin henti spítalanum eða ekki. Eins og staðan er í dag veit það í raun enginn.

    Þetta er óábyrg meðferð á tíma og opinbert fé.

    Og hugtakið “bréfalúguskipulag” er vel við eigandi.

  • Ég verð nú að segja að Steinarr Kr. hittir naglan vel á höfuðið með samgöngumiðstöðina.

    Svo á bara að byggja hentuga flugstöð og tengja saman með tíðum strætó-ferðum.

  • Steinarr Kr.

    Það virðist ljóst að þarna kemur til með að vera einn stærsti vinnustaður Íslands. Væri þá ekki lógískt að setja samgöngumiðstöðina á horn Hringbrautar og Njarðargötu? Þá væri auðvelt að tengja flugvöllinn, spítalann, HÍ, HR og miðborgina við þessa hana, í stað þess að troða henni Loftleiði, sem er úr leið fyrir alla nema HR.

  • Eiríkur Jónsson

    Sammála Hilmari um að þessi aðferðafræði að henda út í sömu samkeppninni gerð skipulags og bygginga er ávísun á margvísleg vandræði. Þessi aðferð er kannski valin vegna þess að verkefnisstjórninni hefur ekki tekist á rúmlega fjórum árum að leggja grundvöll að uppbyggingu og skipulagi fyrir nýbyggingar spítalans. Það er með endemum að nú skuli þurfa að fara á stað aftur frá byrjunarreit eins og gert var árið 2005 þegar skipulagssamkeppnin var haldin. Þó svo að hugmyndir um verkefnið hafi breyst og byggingamagn minnkað er óskiljanlegt hvers vegna þeir aðilar sem gerðu þá tillögu hafi ekki verið notaðir til að ljúka því verkefni sem stefnt var að, þ.e. að gera skipulag fyrir uppbyggingu LSH. Ef það hefði verið gert væri samkeppnin nú um hönnun bygginganna og forsendur deiliskipulagsins búnar að fá eðlilega umfjöllun.

  • Stefán Benediktsson

    Þetta eru í raun þrjár umræður í einu Hilmar. Fyrst er umræðan um fyrirkomulag samkeppninnar, sem er að verða aldarfjórðungsgömul. Ég hef alltaf verið hlynntur opinni samkeppni en þetta form er til, það er samþykkt og margir kjósa það. Vísindalega verður líklega seint hægt að sanna hvort formið er betra. Í öðru lagi er umræðan um hvort skipulagssvið borgarinnar hefði bara átt að gera þetta. Þau geta það tvímælalaust en ég er hræddur um að í því andrúmslofti tortryggni sem við búum við í dag væri erfitt að rökstyðja þá leið. Síðast er það spurningin. Hvað gerist eftir samkeppnina. Ætlið þið í skipulagsráði að láta breyta verðlaunatillögunni ef ykkur líkar hún ekki. Svarið við því er já og verkefnisstjórn LH veit af þeirri afstöðu. Þetta er afstaða núverandi skipulagsráðs sem auðvitað getur breyst ef mikil útskipti verða á fulltrúum og viðhorfum.

  • Sigurður S.

    Ef besta skipulagstillagan sem fram kemur í keppninni er með einhverja starfræna galla.

    Hvernig tekur dómnefnd á því?

    Er yndislegt harmoniskt umhverfi sem smellur að anda Reykjavíkur og er í fullkominni sátt við umhverfið minna virði en til dæmis gallalaus langlegudeild?

    Ef maður hugsar sig um eitt augnablik sér maður að leið LSH er ekki heillavænleg. Borgin á að sjá um deiliskipulagið með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Það er í hennar verkahring.

  • Árni Ólafsson

    = Bréfalúguskipulag.
    Þ.e. borgin fær deiliskipulagið inn um bréfalúguna og hefur lítið eða ekkert um það að segja. Eða hvað?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn