Laugardagur 19.11.2011 - 23:16 - 9 ummæli

Háhýsi eða lága þétta byggð?

.

Margir telja að til þess að ná nýtingarhlutfalli*) lóða upp þurfi að byggja í hæðina og að háhýsi skili meiri nýtingu á þá lóð sem er til ráðstöfunar.

Þetta er skiljanlegt en er ekki alltaf rétt.

Á myndinni efst í færslunni er sýnt hvernig einn hektari byggingalands er notaður á þrjá mismunandi vegu með sama nýtingarhlutfalli.  Efst er háhýsi með 75 einingum húsnæðis.  Næst eru einskonar raðhús þar sem jafnstórum 75 einingum er komið fyrir og neðst er  sama landrýmið þar sem lágri þéttri byggð með 75 jafnstórum einingum er komið fyrir á sama hektaranum. (Ef tvísmellt er á myndina verður hún stór og skýr)

Það er gríðarlegur munur á lausnunum.  Ekki bara hvað ásjón varðar heldur fara gæðin á flestan hátt  hrakandi eftir því sem byggðin er hærri.

Efsta lausnin er fyrir lata verktaka og arkitekta, svo vitnað  sé í arkitektinn Jan Gehl og sú neðsta kallar á mesta vinnu frá hendi arkitektanna.

“Háhýsi eru fyrir lata arkitekta og lata verktaka”

Guðrún Ingvarsdóttir skrifaði eftirfarandi í athugasemdarkerfi vegna síðustu færslu sem fjallaði um háhýsi og segir: ” En þegar rætt er um háhýsi í samhengi við skipulagsmál tel ég að sjónræni þátturinn sé aðeins brot af jöfnunni.  Ekki síður mikilvægur þáttur er þau áhrif sem turnbygginar á norðlægum breiddargráðum hafa á nærliggjandi umhverfi, vindafar og sól.  Ef við værum stödd í miðri afríku væru sviptivindar eflaust vel þegnir til kælinga.  Þegar maður á venjulegum íslenskum degi stígur út úr bíl við Smáratorgsturninn, gengur fram hjá Sólheimablokk eða töltir fram hjá Skuggaturnunum á maður oftar en ekki fótum fjör að launa….. byggð á hverjum stað verður að taka mið af nátturufari og veðráttu – því er það mín skoðun að fara verði varlega í byggingu háhýsa hérlendis…………”

Það má bæta því við athugasemd Guðrúnar að rannsóknir hafa sýnt að félagsleg vandamál fara vaxandi eftir því sem húsin eru hærri og  heilsufar fer hrakandi í réttu hlutfalli við hækkandi hús. Þetta er vegna þess að útivist og félagsleg samskipti fara minnkandi eftir því sem hærra er byggt.

Myndirnar tvær að neðan eru annars vegar úr svokölluðu Skuggahverfi í Reykjavík og hinsvegar af byggðinni á horni Túngötu og Aðalstrætis.  Mér er sagt að nýtingarhlutfallið sé svipað á báðum stöðum eða rétt rúmlega 2.0! Á annarri lóðinni eru húsin 3-4 hæðir en á hinni allt að 18 hæðir.

Þegar hugleiðing Guðrúnar, sem studd er fjölda rannsókna víða að er skoðuð veltir maður fyrir sér hvers vegna enn er verið að byggja háhýsi hér á landi?

*) Hvað er nýtingarhlutfall?

Nýtingarhlutfall er oftast ákveðið í deiliskipulagi.  Nýtingarhlutfall segir til um hvað margir fermetrar eru byggðir á lóðinni sem er til ráðstöfunnar.  Ef lóðin er  1000 fermetrar og byggt er hús sem er 500 fermetrar þá er nýtingarhlutfallið 0,5.  Ef byggðir eru 1000 fermetrar á sömu lóð þá er nýtingarhlutfallið 1.0 og ef byggðir eru 2000 fermetrar á 1000 fermetra lóð þá er nýtingarhlutfallið 2.0.  Algengt er að nýtingarhlutfall í sérbýlislóða í jaðarbyggðum sé um 0,4.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • stefán benediktsson

    Vegna umræðunnar vil ég benda á kaflann „Borg fyrir fólk“ (9/14) undirkaflann „Hæðir húsa“ í AR 2010-2013, A hluta. Meginmarkmið og framtíðarsýn (bindandi stefna). Tillaga júlí 2013. Ef upp kemur misræmi í skipulagstillögum ræður A hluti.

  • Hef örugglega sagt það áður á þessum vettvangi, en „nýtingarhlutfall“ er vandmeðfarið hugtak. Stundum er verið að tala um nýtingarhlutfall á lóð (og þá er Skugginn með mikið hærra nýtingarhlutfall en þú nefnir Hilmar) og stundum er átt við nýtingarhlutfall svæðis … og þá eru hugsanlega bæði götur og græn svæði talin með. Háhýsaumræðan er samt ávallt áhugaverð!

  • Guðmundur Kristján Jónsson

    Þetta er áhugaverð umræða, en ég verð þó að viðurkenna að mér þykir framsetningin á myndunum, þá sér í lagi þeirri efstu af háhýsinu ekki gefa góða mynd af vel heppnaðri háhýsabyggð. Að sjálfsögðu þarf byggingin ekki að standa á miðjum reitnum umkringd bílastæðum og illa skipulögðu opnu rými. Það má finna ótal dæmi um vel heppnaða háhýsabyggð, sem dæmi má nefna háhýsi sem Mies van der Rohe hannaði í Toronto, New York og Chicago.
    Stórborgir nútímans eiga þess ekki annan kost að en að byggja inn á við og upp, og að mörgu leyti eru háhýsi því ákjósanlegur kostur til að bregðast við stöðugri fólksfjölgun í þéttbýli. Að mínu mati mætti hinsvegar oftar fara milliveginn, byggja meðalhá fjölnota hús, 5-8 hæðir með verslunar og þjónusturými á fyrstu tveimur hæðunum. Mér þykir fullyrðing Magnúsar hér að ofan varðandi það að ,,öllum að vera ljóst að hús í þéttbýli á ekki að byggja hærra en þrjár hæðir og kannske ris eða inndregin hæð( þá er átt við eðlilega salarhæð) en alls ekki hærra nema í undantekninga tilfellum.“ að mörgu leyti hæpin.
    Hvað um allar breiðgöturnar í stórborgum Evrópu svo dæmi sé tekið. Þar má finna æði mörg heillandi miðbæjar stræti og götur umkringdar meðalháum byggingum, oftar en ekki 6-7 hæðir, og víðast hvar er hægt að setjast niður í logni og sólskini og fá sér kaffibolla.

  • Það má líka benda á „sóun“ á plássi í nýju hverfunum í útjarði Kópavogs og Reykjavíkur. Þarna eru margir metrar á milli götu og gangstéttar, og svo aftur á milli gangstéttar og húsa, og mikið af „opnum svæðum“ og fyrirferðarmiklum hringtorgum. Þetta lítur kannski vel út á pappír en er mjög andsnúið gangandi umferð.
    http://ja.is/kort/#x=362359&y=401152&z=9&type=aerial

  • þorgeir jónsson

    Það er gott og gilt hvernig þetta er sett fram, en þetta er ekki öll sagan. Ef skoðað er byggingarhlutfall þá eru dæmin ólík. (Byggingarhlutfall er hlutfall botnplötu og lóðar). Einnig eru þessi dæmi ólík hvað viðhald varðar. Það eru fleiri fletir á lágri byggð (stærra yfirborð) Flóknari sérlausnir við horn og þök. Háhýsi eru ódýrari byggingarlausn og því skiljanlegt að verktakar vilji frekar byggja þannig. Gallinn er bara að þeir vilja byggja þessi hús á vitlausum stöðum en hafa velviljaða stórnmálamenn sem samþykkja þessi hús. Það ætti að vera metnaður arkitekta að hanna góð og falleg háhýsi þar sem þau njóta sín vel á hæðum og hólum, en ekki í dalverpum og við ströndina.

  • Árni Ólafsson

    Málið snýst ekki síst um bæjarumhverfið – bæjarmyndina. Annars vegar eru „hús á bílastæðum“ (efsta myndin) en hins vegar skipulag með götum, torgum og görðum – grunneiningum bæjarumhverfisins (neðsta myndin).

    Í annarri leiðinni felst flókið samspil margra þátta með fjölbreytt og áhugavert umhverfi sem niðurstöðu en í hinu tilvikinu er um að ræða skipulag einföldunar eða jafnvel einfeldni. Einföld framkvæmd, einföld hönnun, einföld eignaraðild, einfaldur rekstur –einfaldur heimur fyrir einfalt fólk? Við höfum byggt „hús á bílastæðum“ alveg frá innleiðingu nútímaborgarskipulags hér á landi með Aðalskipulagi Reykjavíkur 1962-1983 – og erum enn að.

  • Umræðan um háhýsi og lága þétta byggð með sömu landnýtingu hefur lengi verið á villigötum og það er nánast ótrúlegt hvað kollegar hafa sýnt þessu lítinn skilning. Svo virðist sem margir þeirra geri hvað sem er gegn greiðslu eða að þeir hafi ekki náð sýn á staðreyndir. Í annan stað er við að stríða lítt hæfa stjórnmálamenn sem annað hvort skilja ekki í hverju manneskjuvæn byggð snýst um eða gengið er erinda fjármagnseigenda og vertaka, þar sem æðsta takið er að hámarka gróða um leið og þeir skilja eftir sig skítug sporin. Þetta er að sjálfsögðu ekki séríslenskt fyrirbrigði.
    Í bókinni Livet i mellem husene eftir Jan Gehl sem út kom fyrir svo löngu sem 1971 rökstyður höfundur á afar samfærandi hátt tengslin milli húsahæða, borgarrýmis og hamingju íbúanna sem þar búa. Ótal rannsóknir víða um heim staðfesta allt sem fram kemur í þessarri bók. Að auki fundu Bandaríkja menn það fyrstir út að ekki bara sambandsleysi og óhaminja manna eykst með aukinni húsahæð heldur einnig glæpatíðni. Af þeirri ástæðu hafa heil hverfi háhýsa verið rifin til grunna þar í landi.

    Á norðurslóðum eins og hér á landi er það grundvallaratriði fyrir að mannlíf í borg þrífist utandyra, að sólar og skjóls njóti. Besta dæmið er mannlífið við norðanverðan Austurvöll á góðviðrisdögum, en ranghverfan er Austurstrætið sjálft hinum megin við. Muna menn e.t.v eftir að þegar Ísafoldarhúsið (tvær hæðir og ris) var flutt úr götunni og fyllt var upp í skarðið með fimm hæða húsi. Þá fór sólin og mannlífið utandyra með. Af hverju blómsrar götulífið uppi á Laugavegi? Það er augljóst. Flest húsin eru ekki hærri en tvær til þrjár hæðir.

    Það ætti öllum að vera ljóst að hús í þéttbýli á ekki að byggja hærra en þrjár hæðir og kannske ris eða inndregin hæð( þá er átt við eðlilega salarhæð) en alls ekki hærra nema í undantekninga tilfellum. Lítum á Þingholtin þar sem byggðin er hvað þéttust á landinu. Þar er nýtingingin víða yfir 2 eins og í gamla borgarhluta Kaupmannahafnar. Það er kannske ekki skrýtið að ansi margi vilja búa þar í dag.

    Þétting byggðar var hugtak sem við félagar sem vorum við völd í borginni 1978 -1982 fundum upp á. Það snérist um að byggja lága þétta byggð á auðum svæðum í anda Jan Gehl. Dæmi: Ártúnsholt og Suðurhlíðar. Skömmu síðar var dustað rykið af hugtakinu og snúið heldur betur upp á það því nú þýddi það að byggja sem hæst og rífa þá lágreistu eldri byggt sem fyrir var. Dæmi um það þekkjum við öll og það var einungis hrunið sem kom í veg fyrir að ekki var haldið áfram á sömu braut.

  • Steinarr Kr.

    Lifi fjölbreytnin!

  • Sveinn Ólafsson

    Efsta myndin ásamt dæmunum tveim vekur upp spurningar um hæfi þeirra sem hanna umhverfi okkar

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn