Mánudagur 04.02.2013 - 08:48 - 7 ummæli

Hannesarholt – Grundarstígur 10

 

 

 

Hannesarholt opnar formlega í lok vikunnar. Þar verður menningartengd starfsemi með veitingum og lístrænum uppákomum. Aðstandendur vilja með starfseminnni byggja „brú milli almennings og fræða“.

Húsið að Grundarstíg 10, Hannesarholt, hefur gengið í gegnum gagngera endurnýjun vegna þessa og byggt hefur verið við það.. 

Þarna í nýuppgerðu húsinu verður sjálfseignarstofnunin Hannesarholt rekin. Markmið stofnunarinnar er að efla jákvæða, gagnrýna hugsun í íslensku samfélagi, auka skilning á gildi sögunnar og hvetja til uppbyggilegrar umræðu og samveru. Ekki veitir af því að styrkja og bæta gagnrýna og uppbyggilega umræðu hér á landi.

Húsið var byggt árið 1915 fyrir Hannes Hafstein, fyrsta ráðherra Íslands. Húsið teiknaði Benedikt Jónasson verkfræðingur og þykir það ólíkt öðrum húsum í Reykjavík þeirra tíma. Þetta er voldugt tvílyft steinhús með mansardþaki, hátt til lofts og fallega skreytt innandyra og utan.

Benedikt var byggingarfulltrúi og bæjarverkfræðingur í Reykjavík á árunum 1911-1916. Hann teiknaði marga af vitum landsins fyrir Hafnarmálastjórn.  Benedikt Jónasson hafði næma tilfinningu fyrir byggingalist eins og sjá má af verkum hans. Grundartígur 10 er meðal 15 elstu steinsteyptu húsa í Reykjavík og var byggt í kjölfarið á Reykjavíkurbrunanum árið 1915.  Skriflegar heimildir benda til þess að bruninn hafi haft áhrif á gerð hússins.

Endurnýjun hússins sem var á höndum arkitektanna hjá ARGOS, þeirra Grétari Markúsyni, Stefáni Erni Stefánssyni í samstarfi við Árna Þórólfsson arkitekt. Byggt hefur verið við húsið einskonar jarðhýsi sem ætlað er til fyrirlestra og tónlistarflutnings. Salurinn  er um 100 fermetra fjölnotasalur sem tekur 70-80 manns í sæti. Endurnýjun hússins og viðbyggingin eru hvorutvegja sérlega vel heppnuð frá hendi arkitektanna. 

Það er mikil gæfa að það hafi tekist að finna leiðir til þess að hefja þetta merkilega hús til vegs og virðingar að nýju.

Nánar er hægt að fræðast um húsið og viðgerðir á því á heimasíðu Hannesarholts á þessari slóð: http://www.hannesarholt.is/husið/gengið-um-husið/

Heimasíða Hannesarholts er einhver sú besta sem ég hef séð af þessari gerð. Hér er slóð að miklum fróðleik sem er að finna á síðunni. Þar skrifar Guðjón Friðriksson af mikilli þekkingu um húsin við Þingholtsstræti.

http://www.hannesarholt.is/fro%c3%b0leikur/%c3%beingholtin/

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Pétur Örn Björnsson

    Maður fyllist vellíðunarkennd af að sjá svo fallega að verki staðið; natni, alúð og hugsun í öllu.

  • Takk fyrir falleg orð í garð Hannesarholts.

    Risið var reyndar ekki hækkað, eins og fyrst var áformað. Upphaflega stóð til að einangra þakið og setja á það skífur eins og voru á því þegar það var byggt. Hins vegar guggnuðum við á því að endurnýja skífurnar, vegna kostnaðar, og þá var plássið sem annars hefði farið undir lektur og skífur kjörið til þess að nýta fyrir þakeinangrunina. Þess vegna var þakið einangrað utanfrá og ekki nauðsynlegt að hækka risið.

    kkv,
    Ragnheiður

  • Þetta er frábærlega vel gert og vel hugsað. Núverandi borgarstjórn vill minnka bifreiðaumferð í borginni. Þetta er í samræmi við þá stefnu. Það þarf að færa þjónustuna inn í íbúðahverfin í meira mæli og skapa „gönguborgir“ eða það sem heitir „walkable citys“

  • Hilmar Þór

    Þarna segir þú mér eitthvað sem ég ekki vissi Stefán. Ég get ekki frekar en aðrir séð að húsið hafi verið, ekki bara stækkað um meira en 100 fermetra heldur líka hækkað!!

  • stefán benediktsson

    Vönduð vinnubrögð sjást oft best á því „ósýnilega“. Ekki er nokkur leið að sjá að ris hússins var reist til að bæta nýtingu þess.

  • Hannerarholt er velkomið í hverfið enda fallega og vel gert allt sem þar er að sjá. Vonandi blónstrar starfssemin. Ég hefði viljað að Völli hefði líka komið á Bókhlöðustíginn

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn