Þriðjudagur 13.09.2011 - 21:44 - 10 ummæli

Harpa í heimspressunni

Þrem vikum eftir að Richard Nixon forseti Bandaríkjanna hrökklaðist frá embætti var hann spurður hvernig hann héldi að hans yrði minnst í sögunni? Forsetinn fyrrverandi svaraði um hæl og sagði: ”Það fer eftir því hver skrifar söguna”.

Þetta kom upp í hugan þegar ég var að skoða umfjöllun um Hörpuna í erlendum fjölmiðlum. Maður áttar sig fljótlega á því að fjölmiðlaumræðunni og kynningunni er stjórnað af atvinnumönnum sem eru að þjónusta sinn viðskiptavin.  Stjörnurnar sem að verkinu komu eru með sitt PR fólk sem sér um að skrifa þeirra “sögu”.

Gott dæmi er teiknistofa Henning Larsen sem hefur gefið út veglegt og efnismikið netblað (sjá tengil að neðan) þar sem fjallað er ítarlega um húsið. Í blaðinu er viðtal við einn af stjórnendum Henning Larsen Architects, Peer Teglgaard Jeppesen og hönnunarstjórann (design manager) Ósbjörn Jacobsen. Þarna er einnig viðtal við Ólaf Elíasson myndlistarmann.

Í blaðinu er 31 arkitekt hönnunarteymisins nefndur með nafni. Aðeins tveir íslendingar eru nefndir í þessu stóra teymi. Það kemur á óvart vegna þess að Batteríið arkitektar áttu að mér skilst verulegan hlut að máli. Íslendingarnir sem komu að verkinu samkvæmt Henning Larsen eru þær Andrea Tryggvadóttir og Helga Vilmundardóttir sem hvorug starfar hjá Batteríinu.

Já, nú eru menn byrjaðir að skrifa söguna. Þeir velja það sem þeir skrifa. Segja hvergi ósatt en sleppa því sem þeim finnst hugsanlega komi illa út.

Endilega skoðið bæklinginn sem er fallegur og forvitnilegur. Viðtalið við Peer Teglgaard stjórnanda Hennig Larsen er beinlínis fyndið þegar hann talar um tengslin við borgina annarsvegar og sjóinn hinsvegar.

Slóðin að bæklingnum er þessi:

http://www.pagegangster.com/p/9cQKr/

Það má ekki gleyma því að PR fólk Hörpunnar, Ólafs Eliassonar, Artec Consultans, Henning Larsen og allra hinna fjölmörgu sem að verkinu komu eru um þessar mundir að mata fjölmiðla, hver með sinn sannleika og allir eru þeir aðalmennirnir.

Og ekki efast ég um að  allir lofa þeir  verkið.

Endilega skoðið bæklinginn.


Sjá einnig:

http://www.designboom.com/weblog/cat/9/view/10713/henning-larsen-architects-harpa-concert-hall-and-conference-centre.html

og

http://www.archdaily.com/153520/harpa-concert-hall-and-conference-centre-henning-larsen-architects/

og

http://www.dezeen.com/2011/08/25/harpa-concert-and-conference-centre-reykjavik-by-henning-larsen-architects/#more-150017

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Hilmar Gunnars

    Það hefur tíðkast í áraraðir, ef ekki aldir, að arkitektar skrifi um sköpunarverk sín. Það getur verið hluti af þróunarferli listamannsins. Arkitektúr er líka fræðigrein og skrif með faglegri skírskotun getur hæglega flokkast undir það.

    Frægasta dæmið er Le Corbusier. Hann eyddi jafn miklum tíma í skrif um sköpunarverk sín og að skapa þau, ef ekki meiri. Frank Lloyd Wright deildi mikið á hann fyrir þetta.

    Íslenskir arkitektar ættu að gera meira af þessu en þeir gera. Eins mættu þeir nýta sér betur samfélagsmiðla, jafnt faglega og almenna eins og Facebook. Arkís eru farnir að gera þetta og mér finnst það hið besta mál. Þetta kemur íslenskum arkitektúr á kortið og inn í umræðuna.

    Enginn er jafn nærri sköpunarverki eins og skaparinn sjálfur. Því er áhugavert að fá að heyra sjónarmið þeirra til sinna eigin sköpunarverka, hvað bjó að baki, hönnunarferilinn og margt fleira. Flestar meiriháttar stofur gera þetta. Það eru gefin út heilu bækurnar um einstaka byggingar.

    Hvað svo sem kemur fram í þessum umfjöllun arkitektanna sjálfra, hefur það fullkominn rétt á sér. Það er gott mótvægi við gagnrýnisraddir og hjálpar hverjum sem áhuga hefur, til við að mynda sér heilbrigða skoðun.

    Á minni stuttu ævi man ég varla eftir að bygging hafi verið einróma lofuð. Hver einasta bygging verður umdeild. Annað er óeðlilegt. Það væri lítið varið í þann kofa sem allir gætu verið sammála um. Hilmar hefur áður sagt hérna á blogginu sínu að við ættum að fara varlega í að fordæma um byggingar því það tekur tíma fyrir þær að „gróa“ og samlagast umhverfinu. Oft er skipulagið í kringum þær ekki komið í rétt horf fyrr en áratug eða tugum eftir að byggingin er risin.

    Ef til vill ætti Batteríið að gefa út sína eigin sín á Hörpuna. Ég er nokkuð viss um að Batteríið hefur upplifað hönnunarferlið á annan hátt en Danirnir. Ef til vill er áhugavert að heyra þeirra sjónarmið.

    Það má deila um hvort að nútímaskrif arkitekta eigi meira skylt við auglýsingamennsku framar fræðimennsku.

  • Húsið er nashyrningur á sterum.
    Hornótt, klunnalegt „og helt uden situationsfornemmelse“
    og jólaserían? … segi ekki meira.

  • Eyjólfur

    Mönnum var tíðrætt um svarta óskapnaðinn á Tryggvagötunni fyrir nokkrum misserum. Mér finnst Harpa því miður ekkert betri. Munurinn liggur hins vegar í að staðsetningin er enn skaðlegri fyrir borgarmyndina og moksturinn úr vösum skattgreiðenda gengdarlaus.

  • Þorgeir Jónsson

    Sé ekki betur enn að Batteríið sé titlað sem arkitektar hússins ásamt HLA í þessu vefriti…skiljanlegt að danir vilji ekki eyða sínum peningum í að auglýsa aðrar arkitektastofur…svona eru menn bara. Hver er sjálfum sér næstur. Einnota dönsk arkitektastofa er það sem HLA er kölluð af gárungunum.

  • Gunnar Guðmundsson

    Það er fróðlegt að bera saman tölvumyndirnar t.d. á Designboom annarsvegar og ljósmyndirnar í annan stað og svo veruleikann í lokin. Þetta sýnir bratta leið niður á við. Tölvumyndirnar eru tóm lýgi, ljósmyndirnar hvít lygi og veruleikinn sannleikurinn. Húsið er fallegast á tölvumyndunum og svo hallar á fegurðina þar til eftir stendur drungaleg bygging sem er fullkomin formleysa….en samt spennandi. Hún er betri en ekkert. Mönnum þótti Effelturninn ljótur í fyrstu enda reistur í nafni þekkingar og vísinda, ekki lista. Nú þykir hann fallegur. Vonandi gerist það sama með Hörpuna. Það verður samt ekki af henni skafið að hún ber vott um kjark volaðrar þjóðar. Við getum og eigum að vera stolt af henni.

  • Sveinbjörn Halldórsson

    Húsið er einfaldlega of dökkt fyrir íslenska skammdegið. Tilvísun í svart, glóandi hraun breytir litlu um það. Línurnar eru auk þess of hvassar og aggresívar, til að gera þessa dökku, speglandi fleti nógu aðlaðandi. Frá vissu sjónarhorni er húsið jafnan sýnt í grátóna lit, sem er einfaldlega rangt.
    Lýsingin sem er að mörgu leyti hugvitsamleg, nær ekki að framkalla það flæði sem þarf til að vega gegn hvössum hornunum sem einkenna húsið. Það er frumskilyrði að tónlistarhús sé aðlaðandi, svartir speglandi fletir og egghvöss horn virka hins vegar fráhrindandi. Hætt er við að menn hafi treyst um of á lýsingu í margstrendu gluggavirkinu.

  • Hallgrímur

    Þetta er einhver besta umfjöllun sem sést hefur um Hörpuna í íslenskum fjölmiðli. Tenglarnir sýna okkur fagrar ljósmyndir, grunnmyndir og sneiðingar. Allt sem þarf til þess að átta sig á húsinu. Það er líka vel til fundið hjá skrifaranum að minna okkur á að þetta efni er útbúið af þeim sem hlut eiga að máli og þess gætt að hvergi slái skugga á verkið. (á mörkum hvítrar lygi og lygi) Við sem hér erum og borgum brúsan sjáum veruleikann. Þetta er auðvitað glæsileg bygging en hvergi nærri eins glæsileg og í þessum kynningum. Svo er það auðvitað krafa að allur sannleikurinn komi í ljós og það að telja ekki upp íslensku arkitektana hjá Batteríinu er auðvitað bara skrök sem þarf að leiðrétta strax í netblaðinu. Það ætti að vera auðvelt…þetta er nefnilega netblað..

    En til hamingju með Hörpuna og umfjöllunina í þessum erlendu netmiðlum, þó hún sé tær auglýsingarmennska.

  • stefán benediktsson

    Hef held ég áður sagt eitthvað ljótt um arkitekta að tjá sig og þessi bæklingur svíkur engan í þeim efnum. Danir eða íslendingar breytir ekki miklu. Kannski ættu bara að vera lög sem banna arkitektum að tjá sig um eigin verk.

  • Birkir Ingibjartsson

    Sjá einnig hér á vefritinu Dezeen. Þrusuflottar myndir sem eiga eflaust eftir að draga fjölda fólks að til að skoða húsið.

    http://www.dezeen.com/2011/08/25/harpa-concert-and-conference-centre-reykjavik-by-henning-larsen-architects/#more-150017

  • Sveinbjörn Sigurðsson

    Þessi bæklingur er svakafínn, sem sýnir okkur flott hús en hann segir söguna eins og THL vill segja hana. Það vantar að nefna þann stóra hóp sem vann að verkinu hér heima. Þetta er ódrengileg hefð sem þarna kemur í ljós hjá frændum vorum dönum.

    Maður er hálf hryggur yfir þessu.

    Lesa má um verkið á þessari slóð:

    http://www.arkitekt.is/?p=83

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn