Miðvikudagur 14.10.2009 - 10:57 - 15 ummæli

Háskólatorg.

 

Að frumkvæði Páls Skúlasonar rektors og með stuðningi Háskólasjóðs Eimskipa hefur nú risið miðstöð stúdenta og starfsfólks Háskóla Íslands.

Skólinn samanstendur af mörgum deildum í mismunandi byggingum sem sköruðust lítið. Þverfagleg samskipti nemenda voru í lágmarki.

Með Háskólatorgi hefur þetta breyst. Götur stúdenta úr öllum deildum krossast í þessum byggingum þegar þeir sækja fyrirlestra, bóksölu stúdenta eða sameiginlegt mötuneyti skólans m.m.

Mikilvægur þáttur þessarrar velheppnuðu byggingar er verk Gylfa Guðjónssonar og félaga sem gerðu deiliskipulagið. Þar náðist að koma miklu byggingarmagni fyrir þannig að góðar  tengingar náðust við helstu byggingar Háskólans án þess að skyggja á það sem fyrir er. Þetta er gott dæmi um hvað deiliskipulagið skiptir miklu máli ef vel á að fara. Bílar eru hvergi sjáanlegir.

Nýbyggingin, sem er í raun tvær byggingar, eru teiknaðar af Teiknistofu Ingimundar Sveinssonar og Hornsteinum. Byggingarnar falla vel að aðliggjandi húsum, bæði starfrænt og hvað varðar útlit og samspil við nærliggjandi merkishús.

Á hjálögðum myndum má sjá að annað húsið er dökkt og dregur sig til hlés milli aðalbyggingar Háskólans og Lögbergs meðan hin hefur yfir sér aðra ásýnd milli Lögbergs og Gamla Garðs. Gul keila dregur athyglina að höfuðbyggingunni og inngangi  og hinni er skipt í tvo hluta, lárétt skipting, dökk að ofan og ljós að neðan til þess að draga úr ásýnd hennar í þessu gamla, þekkta og  geðþekka umhverfi. Aðalinngangur er frá göngustígnum eða trjágöngum, sem tengir göngukerfi  háskólasvæðisins saman.

Þetta er vel heppnað. Gott deiliskipulag, góð forsögn og góður arkitektúr.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Svartálfur

    Vantar samt sárlega sjálfsala í rýmið

  • Fagurfræðin er ekki allt Guðrún. Notagildið hlýtur líka að skipta máli. Þeir sem þurfa ekki að nota bygginguna eru ábyggilega þeir sem dásama fegurð byggingarinnar en þeir sem nýta sér plássið sjá kannski betur gallana. Svo er smekkur manna misjafn líka. Það sem einum finnst fallegt þykur öðrum ljótt.

  • Fangar þessi vefur eingöngu athygli manna sem sjá íslenskum arkitektúr allt til foráttu? Það hefur örugglega ekki verið tilgangurinn með henni. Það má að sjálfsögðu finna eitt og annað að Háskólatorginu, en það virkar, meira og minna alltaf fullt af fólki, annað var í byggingu Félagsstofnunar Stúdenta hér áður, svo ekki sé minnst á mötuneytið þar forðum. Svo ekki sé minnst á það að byggingin er fagurfræðilega mjög vel heppnuð.

  • Það er mikil framför í því að byggja og skapa miðju fyrir HÍ þar sem fólk af flestum fræðasviðum getur rekist á hvort annað. Þessi miðlægi vettvangur er oft líflegur þar sem tækifæri gefst til þverfræðilegra (þverfaglegt er óviðeigandi hugtak fyrir akademíu) samskipta. Þrátt fyrir jákvæða þróun má nefna nokkra augljósa galla.
    Arkitektúrinn skapar kalt og of opið andrúmsloft sem minnir frekar á járnbrautarstöð en samræðu og samskiptavettvang.
    Sökum hönnunar ríkir mötuneytisandrúmsloft í Hámu sem er annars ágætis veitingastaður. Bar Hámu kemur ekki í stað Stúdentakjallarns sem öldurhús og er það ótækt að það sé a.m.k. ekki einn þægilegur bar innan akademíunnar. Síðast en ekki síst ætti þetta að vera frjálst almannarými sem sameiginlegur vettvangur stúdenta og starfsfólks HÍ. Það virðist ekki raunin ef marka má þá árekstra sem Gáma á vegum stúdentasamtakanna Öskru olli vegna þess að samtökin töldu sig ekki þurfa að fara í gegnum skriffinskuferli til þess að öðlast formlegt leyfi yfirvalda til að bjóða upp á frítt hollustufæði.
    Hitt er svo annað mál að stærð rýmisins virðist jafnvel ekki vera fullnægjandi eftir mikla fjölgun stúdenta í kjölfar Hrunsins.

  • jaa, má ekki þá segja að það hefði kannski átt að þarfagreina þetta verkefni aðeins betur og komast að því hvaða skoðun nemendur og kennarar höfðu á því.

    Það er allt of sjaldan rætt við fólkið sem mun nota obinberar byggingar hér á landi, ekki hægt að ætlast til að einstaklingurinn rjúki til og hafi frumkvæðið að því.

  • Anna Rögnvaldsdóttir

    Ég hef heyrt marga háskólanema kvarta yfir þessari byggingu eða öllu heldur þessu ‘alrými’; þeim finnst það kuldalegt og ókósi, þeir finnst dagsbirtan irriterandi mikil, stólarnir óþægilegir, mikill gjallandi, lítið prívasí o.s.frv.

    Frá mínum bæjardyrnum séð finnst mér flest við þessa byggingu mjög vel heppnað, ekki síst þessi tiltölulega lági ‘prófíll’ svo og staðsetningin; þessi mikla nánd við aðalbygginguna, Lögberg, íþróttahúsið og nýbygginguna þarna, hvað sem hún nú aftur heitir. Og ekki síst að þarna skuli ekki vera nein aðliggjandi og yfirþyrmandi bílastæði, bara þessir gömlu stígar og gróður meðfram.

    (Maður beinlínis klökknar þegar upp rís opinber bygging þar sem bifreiðin er ekki sett í öndvegi, þar sem nýbyggingin er ekki bókstaflega umflotin bílastæðum. Tilhögun sem alltaf setur manneskjuna í annað eða þriðja sæti)

    Það er algjör bylting að það skuli vera búið að koma upp svona miðrými (þar sem allir minglast) á Háskólasvæðinu og persónulega finnst mér stíll yfir því að þetta rými skuli vera svona opið og loftmikið.

    Ég á reyndar mjög sjaldan erindi í þessa bygginu en borða endrum og sinnum í Hámu og/eða fer í bókabúðina.

    Þetta er torg — raunar næstum eins og flughöfn — og ég kann því ekki illa. Aðalattraksjón þessa stóra rýmis felst í því að 1) maður sér alveg rosalega margt fólk (á álagstímum, eins og í hádeginu), eiginlega þverskurð af nemendum og jafnvel kennurum, og 2) að öll þjónusta er til staðar og hún er mjög effektív.

    Öll hönnunin þarna inni miðast við það að hægt sé að afgreiða fólk bæði hratt og örugglega — það er nákvæmlega ekkert til stðar sem hvetur til þess að menn t.d. slappi af og dveljist þarna löngum stundum við það að lesa eða læra eða hanga á netinu.

    Eins og áður er sagt, margir háskólanemar virðast vera mjög óánægðir með þessa byggingu og kvarta yfir því í stríðum straumum að hún sé ópersónuleg og ekki nógu kósí og meira og minna ómöguleg á alla enda og kanta.

    En hverslags byggingu eða miðrými vildu Háskólanemar þá fá?

    Af því fer engum sögum.

    Ég held að nemar í Háskóla Íslands hafi aldrei nennt að leiða hugann að þessu máli. Fyrr en þessi bygging reis. Þá gusu upp allskyns gagnrýnisraddir.

    Týpískt íslenskt eitthvað.

  • Já ég er sammála með útlitið á þessari byggingu, minnir á bakhlið kringlunnar. Hugmyndin er mjög góð og þetta var alveg nauðsynlegt fyrir skólann, hinsvegar finnst mér þessi útfærsla ekki alveg vera að gera sig. Virkilega ópersonulegt rými að mínu mati

  • Sammála fyrsta ræðumanni! Maður situr ýmist með sólina beint í augun eða að frjósa úr kulda. Vel oftast kaffistofuna á Árnagarði eða Odda framyfir Háskólatorg. Lesrýmið þar er líka agalegt. Hugmyndin sem slík er góð en illa framkvæmd.

  • Frekar glatað að það sé engin tengin á milli Aðalbyggingarinnar og Háskólatorgs. Þegar torgið var tekið í notkun var matsölunni í aðalbyggingunni lokað, svo að nú verða stúdentar að hlaupa á milli bygginga í sínum 10 mín hléum til að sækja sér kaffibolla. Og það er allt of mikið álag á Hámu, því allir fara í hlé á sama tíma.
    Hallærsileg 2007 bygging sem hefur það að markmiði að sameina nemendur í plebbagreinum en úthýsir hugvísindum.

  • Þetta er mikil bylting fyrir stúdenta.

    Megnið af laganámi mínu var maður í raun og veru strandaður í Lögbergi yfir skóladaginn og þó að laganemar séu alveg ágætir þá voru þeir skárri í hófi.

    Síðasta/ustu annirnar í HÍ voru hins vegar mun betri að þessu leyti. Auðvelt að hitta vini í öðrum deildum og dagurinn að flestu leyti líflegri.

    Þetta er afar vel heppnað hjá Háskólanum.

    kv. ÞHG

  • Pétur Maack

    Svo því sé til haga haldið þá er frumkvæðið að byggingu þessari upphaflega frá stúdentum sjálfum. Mig minnir að það hafi reyndar verið Dagur B. Eggertsson sem fyrstur vakti máls á þessu þegar hann var í stúdentapólitík fyrir rúmum 10 árum.
    Páll tók þessa hugmynd þó strax upp og var henni afar velviljaður og kom þessu til leiðar.
    Ég vildi mikið að þessi hús hefðu verið þarna þegar ég var við nám í HÍ.

  • Það er svo sem rétt að arkitektar mættu vel hugsa meira um notagildið. Hinsvegar er þessi bygging bylting fyrir HÍ. Notagildi bygginga eins og Odda var næstum ekkert og sama mátti segja um margar aðrar byggingar.

    Mikil framför þó betur mætti auðvitað fara.

  • En þessi bygging er alger viðbjóður! þetta er eins og að ætla að fara í kringluna eða smáralind til þess að læra!

  • Svo má ekki gleyma stiganum. Svakalega óþægilegur og hefur orsakað ófáar kaffiskvetturnar…

  • Það má vel vera að byggingin sé mikið sjónprýði en hvað notagildi fyrir nemendur þá held ég að mikið vanti upp á. Háma, kaffistofa nemenda í Háskólatorgi er yfir veturinn ískaldur staður þar sem ekki er hægt að sitja nema í öllum yfirhöfnum, helst með vettlinga á höndum. Það er því ógerlegt að ætla að sitja og læra, jafnframt því að sötra kaffið sitt. Rándýrir sérhannaðir stólar skrapast eftir steinflísagólfinu ef þegar maður sest eða stendur upp þannig að allir í nánasta nágrenni hrökkva við og leita að hávaðavaldinum. Þá á eftir að taka fyrir lesstofur hússins. Þær eru með appelsínugulum skilrúmum og stórum gluggum þannig að nemendur sem sitja og læra blasa við öllum þeim sem labba framhjá. Hurðirnar lokast ekki nema með miklum skelli sem truflar mikið þegar fólk er að einbeita sér að lærdómi. Á sama tíma glymja fótatök þeirra sem labba framhjá lesstofunum. Það hefur því mikið hugvit farið í að láta allt líta vel út en lítið púður farið í að huga að notagildi fyrir stúdenta, en fyrir þá var byggingin byggð.
    Arkitektar mættu hafa í huga fólkið sem þeir hanna fyrir og eyða aðeins minna púðri í útlit bygginga.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn