Sunnudagur 15.08.2010 - 21:51 - 9 ummæli

Háspennu risar

 

sshot-1-jin's[1]

Í ársbyrjun 2008 efndi Landsnet hf, í samstarfi við Arkitektafélag Íslands, til alþjóðlegrar samkeppni um hönnun nýrra háspennumastra.

Trúnaðarmaður var Haraldur Helgason arkitekt. Fagdómarar voru Jes Einar Þorsteinsson og Örn Þór Halldórsson arkitektar.

Alls voru 98 tillögur teknar til dóms. Hvað tillögufjölda varðar er þetta ein af stærstu samkeppnum sem haldnar hafa verið hér á landi. Þrenn verðlaun voru veitt. Þrjár tillögur hlutu sérstaka viðurkenningu og 11 til viðbótar þóttu sérstaklega athyglisverðar.

Ein tillagan var frá Choi + Shine Architects í Bandaríkjunum. Mig langar að kynna hana lítillega hér. Tillagan minnir á risa sem ganga um í landslaginu, konur og karla. Til þess að mæta landslaginu eru risarnir látnir krjúpa eða lyfta höndunum þegar þannig stendur á. Tillagan sem er innblásin af styttum Páskaeyja fékk nýlega verðlaun frá Boston Society of Architects fyrir framúrskarandi “óbyggðan arkitektúr” (unbuilt architecture)

Ég er ekki viss um að það væri góð hugmynd að hafa öll möstur í þessari mynd en það væri gaman að hafa svona mastur á einstaka völdum stöðum. Til dæmis síðustu 5-6 möstrin áður en orkan er afgreidd á inn í álver Rio Tintó Alcan í Straumsvík. Ferðamenn og aðrir hefðu eflaust gaman að því.

Myndirnar eru fengnar af heimasíðu Choi + Shine Architects. Slóðin er : arch@choishine.com

sk-7[1]

 

Pylon-Backdrop---Kjolur-Highlands-ts-2[1]

 

MF-Pylon-Backdrop-4[1]struts---pylon-3-(multi-position)[1]

 

pascoa-fotos[1]

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Haraldur Guðbjartsson

    Stærsti vandinn við rafmagnslínur er ekki bara útlitið á kerfinu heldur rafmengun. Nátúrulegar orkulínur jarðarinnar mengast af þessu háspennukerfi og þessar nátúrulegu orkulínur bera þessa mengun með sér langar vegalengdir. Þær geta lent í verustöðum og hýbílum manna og valda oft miklum veikindum sem er ótrúlega fjölbreytt flóra af sjúkdómum og vanlíðan.
    Þetta er aðal vandin sem þarf að finna lausn á vegna háspennukerfa og nátúrunnar sem við erum jú hluti af.
    Hægt er að finna miklar upplýsingar um þetta fyrirbæti á netinu.
    Þetta er mikið og flókið málefni þar sem margir fletir skerast, yfirlappast og margfaldast við það. td. http://www.electricalpollution.com/
    Ein best þekta staðfesting þessara orkukerfa jarðarinnar er að flest fólk sem stundar gönguferðir og útiveru í óbyggðum kemur endurnært og hlaðið orku til baka að þeirra sögn.
    Að öðru leyti eru þessar nýstárlegu hönnunartilraunir á háspennumöstrum bara frumlegar og til bóta þannig séð.

  • Hilmar Þór

    Þakka þér ábendinguna Árni Ólafsson.

    Auðvitað er 151 meira en 98.

    Ég lagfæri þetta strax.

    Ég vissi ekki af þessari samkeppni á Akureyri sem þú nefnir. Ég vissi hinsvegar um samkeppni Landsbnkans um miðbæ Reykjavíkur þar sem hinn almenni hugmyndaríki borgari kom með sínar hugmyndir og sýn á borgina. Þær skiptu einhvejum hundruðum. En mér fannst sú samkeppni ekki eiga við í þessu samhengi.

    Þakka aftur ábendinguna og allar þínar góðu athugasemdir við þessi skrif hér á blogginu.

  • Þórður

    Þetta er hárrétt hjá Birni hér að ofan. Stefnan á að vera að leggja háspennustrengi í jörð allstaðar þar sem því er við komið. Þar sem nauðsynlegt er að hafa möstur þá eiga þau að vera hönnuð þannig að maður taki nánast ekki eftir þeim. Þau eiga að vera hvorki smart né púkaleg. Helst einkennalaus.
    Þessir risar yrðu áberandi. Sennilega of áberandi eins og sést á myndunum sem fylgja færslunni. Þeir fanga augað fyrr en fögur náttúran. Svoleiðis má það ekki vera.
    En ég er sammála um að það mætti nota risana á stöku stað. OR/Landsnet ætti að kaupa svona 10 stykki og dreifa þeim um landið.

  • Björn H. Jóhannesson

    Meginvandkvæði birtingarmyndar rafmagnsflutnings eru möstrin, sem eru yfirþyrmandi í víða berangurslegu, en tilkomumiklu og töfrandi landslaginu hérlendis. Best væri að línulagnir væru huldar í jörðu. Kosturinn við núverandi rafmagnsmöstur er einmitt að þau eru abstrakt og einsleitt, þótt betur megi forma.
    Yfirþyrmandi möstrin kalla síður á athygli vegna einsleitninnar, þótt í augum stingi, en væru þau fígúratív.

    Starfsmönnum vegagerðarinnar hefur víða tekist vel að fella vegi og brýr að landslaginu, en eru ekki í mótsögn við það. Gamla brúinn yfir Hvítá í Borgarfirði og þjóðvegurinn yfir sömu á vitna t.a.m. hér um.
    Abstrakt form Eyrarsundsbrúarinnar milli Danmarkar og Svíþjóðar er einnig góður vitnisburður. Nálgunin að verkefninu og úrlausnin var í samræmi við tilganginn með brúnni.

    Fígúratív möstur geta verið góðra gjalda verð í þéttbýli alveg eins og útitónleikar. Ég held samt að fólk almennt myndi ekki gleðjast yfir óumbeðna músík á ólíklegustu og óvæntustu stöðum um landið á kostnað náttúrunnar, hvort heldur um góða klassíska músík eða dægurlagamúsík væri að ræða. Sama gildir um möstrin, sem virðast hafa heillað starfsmenn Landsnets h.f. og sem ábyggilega með góðum huga vilja fígúratíva útfærslu á möstrum, en eiga hér ekki við.

  • Þegar ég var yngri ímyndaði ég mér gjarnan að háspennumöstrin væru í raun og veru risastórir róbótar. Maður þarf ekkert að beygja ímyndunaraflið mikið til að sjá þá í flestum möstrum, sumir eru meira að segja með eldflaugar á öxlunum! Skemmtilegt að einhver hafi tekið þessa ímyndun skrefinu lengra, og ég er sammála því að það væri snilld að sjá svona möstur við Reyðafjörð, þessi hefðbundnu möstur eru ansi yfirþyrmandi í túnfætinum.

  • Glæsileg hönnun og frábær hugmynd. Þetta er dæmi um hvernig hægt er að breyta algengri sjónmengun í glæsileg listaverk.

  • Árni Ólafsson

    „Alls voru 98 tillögur teknar til dóms. Hvað tillögufjölda varðar er þetta stærsta samkeppni sem haldin hefur verið hér á landi.”

    Leiðrétting:
    Í maí 2005 voru kynnt úrslit í samkeppninni „Akureyri í öndvegi” sem fjallaði um miðbæ Akureyrar. Alls barst 151 tillaga frá 40 löndum. Hvort það er stærsta samkeppni hvað tillögufjölda snertir, sem haldin hefur verið hér á landi, veit ég ekki en hitt veit ég að 151 eru fleiri en 98.

  • Hvernig var vinningstillagan í samkeppninni? Ég man ekki eftir þessu. Voru íslenskir arkitektar meðal verðlaunahafa? Eða var svo brjálað að gera hjá þeim þarna 2007-2008, að þeir höfðu ekki tíma fyrir skapandi hugmyndavinnu?

  • Æltaði Besti flokkurinn ekki einmitt að gera allskonar skemmtilegt í borginni.
    Auka húmorinn.
    Mikið væri gaman ef Jón Gnarr tæki upp símann og hringdi í Harald Flosa stjórnarformann Orkuveitunnar, sem segði svo í framhaldinu Hjörleifi Kvaran að hafa samband við amerísku arkitektana og panta svo sem 10 svona háspennumöstur. Þ
    að væri virkilega gaman að því.

    Þetta er frábær hönnun sem gleður hvern mann sem kann að gleðjast.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn