Þriðjudagur 10.01.2012 - 21:30 - 18 ummæli

Hegningarhúsið–Safn um Hrunið?

Nokkrir lesendur síðunnar hafa beðið um að opna umræðu um  Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og framtíð þess.

Þær hugmyndir sem fram hafa komið um framtíðarnotkun hegningarhússins eru einkum  sýningarhald, veitingarekstur, og matarmarkaður.

Þetta eru vafalaust ágætar hugmyndir.

Hegningarhúsið eða “Tugthúsið” eins og það er stundum kallað er afar merkilegt hús. Það er einstakt, fallegt og gamalt og á sér langa sögu, enda friðað.  Friðunin tekur til ytra borðs ásamt álmunum til beggja hliða. Anddyri og stigi innandyra er einnig friðað.

Tugthúsið er hlaðið steinhús byggt í nýklassiskum stíl og stóðu danskir iðnaðarmenn fyrir verkinu sem lauk árið 1873.  Húsið er hlaðið úr lítið tilhöggnu grágrýti og hefur þess vegna aðra áferð en önnur steinhlaðin hús frá þessum tíma. (Stella Bankastræti, Alþingishúsið og fl.)

Sá sem hannaði húsið var Klentz  sem einnig teiknaði bókhlöðuna við MR, Íþöku . Klentz  fékk F.A. Bald til að hafa umsjón með byggingunni. Þessir tveir menn tengdust einnig byggingu Alþingishússins.

Í Hegningarhúsinu eru 16 fangaklefar þar sem 5 eru tveggja manna og 2 eru einangrunarklefar. Á efri hæð eru skrifstofur og salur sem áður hýsti bæjarþingsstofuna, Landsyfirrétt og síðar Hæstarétt þar til hann flutti í nýbyggingu við Lindargötu árið 1947.

Nú þegar nýtt hegningarhús er í undirbúningi á Holmsheiði þarf að finna húsinu verðugt hlutverk.  Mikilvægt er að í húsinu verði miðborgarstarfssemi sem glæðir götulíf en eykur ekki bifreiðaumferð að marki.

Mig langar að setja fram þá hugmynd að í húsinu verði komið fyrir sýningu sem fjallar um efnahagshrun heimsins í lok fyrsta áratugar þessarar aldar með sérstakri áherslu á Ísland.

Safninu eða sýningunni tengdist rannsóknarsetur og bókhlaða.  Miðað við stærð Hrunsins og áhrifa þess á sögu landsins má búast við að mikil eftirspurn verði eftir slíku safni.  Sýningin yrði margtyngd margmiðlunarsýning sem höfðaði til allra aldurshópa og erlendra gesta.

Það er mikilvægt að halda umræðunni um þessa merkilegu atburði vakandi og lifandi um ókomin ár, hvernig sem það er gert. Safnið mun þá minna okkur stöðugt á hve illa dramb, græðgi og kæruleysi fárra aðila getur farið með heila þjóð.

Núverandi skrifstofum  hússins yrði  breytt í rannsóknarsetur með góðu bókasafni. Bæjarþingsstofan yrði helguð dómsmálunum og klefarnir tileinkaðir aðalleikurum og gerendum Hrunsins, hvort heldur um er að ræða einstaklinga, fyrirtæki eða stofnanir.

Hegningarhúsið hefur haft þann tilgang alla tíð að verja réttvísina og siðgæði  í landinu ásamt því að betra menn og refsa þeim. Þetta hlutverk yrði áfram svipað ef þessi hugmynd hlyti brautargengi.

Að lokum má geta þess að samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur 1962 var gert ráð fyrir að Hegningarhúsið yrði rifið til þess að koma fyrir einni stórri aðkomuleið fyrir einkabíla inn í borgina.  Breikka átti Grettisgötuna og láta hana ná alla leið niður í Kvos. Þá var ætlunin að rífa stóran hluta húsanna við Grettisgöti og Hegningarhúsið eins of fyrr er getið. Ein bygging reis samkvæmt þessu skipulagi. Það er iðnaðarmannahúsið við Hallveigarstíg (þar sem nú er Bónusverslun). Það stendur nú þarna eins og álfur út úr hól.

Myndin að ofan er fengin af vef ljósmyndasafns Reykjavíkur og er frá árunum 1910-1920, af gatnamótum Bergstaðastrætis og Skólavörðustígs. Fyrir miðju er Hegningarhúsið, Skólavörðustígur 9 og timburhúsið til hægri er Skólavörðustígur 12, þvottahúsið Geysir, veitingahúsið Geysir og síðan Fjallkonan. Hlaðnir grjótgarðar meðfram götum.  Myndin efst í færslunni er tekin af Gunnari V Andréssyni ljósmyndara og er birt með hans leyfi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Aðalsteinn

    Þetta er upplagt. Málið þarf ekki að fara fyrir skipulagsráð vegna þess að fangelsi er stofnun og það er safn líka. Húsið er friðað og því þarf nánast ekkert að gera annað en að mála og snyrta til. Þvælingur í borgarkerfinu gæti drepið málið. Tengingin við Vegamótastíg, Laugaveg, Bergstaðastræti og Skólavörðustíg/Hallgrímskirkju njörfa hugmyndina niður og festa hana í sessi. Lýsandi ljósmynd Gunnars Andréssonar styrkir þetta líka. Nú þarf innanríkisráðherra bara að afhenda t.d. Þjóðminjasafninu húsið og málið er dautt.

  • Jón Sveinsson

    Hrunið verður senilega aldrei uppgert að fullu. Sýning og safn eins og hér er nefnt verður næst síðasti áfangi uppgjörsins. Sá síðasti verður sjálf sagan. Þess vegna þarf að vanda svona sýningu. Treystir sér einhver til þess?

  • Sigurður Ólafsson

    Þetta er uppbyggjandi og skemmtileg umræða. Tendensinn er greinilega sá að þarna verði glæpa og/eða vopnasafn. Ég hef ekki tjáð mig mikið í bloggheimum en spyr nú samt í tómum barnaskap; Hvert er framhaldið og les þetta einhver sem hefur eitthvað með málið að gera?

  • Steinarr Kr.

    Lögreglufélag Reykjavíkur á talsvert mikið safn af munum sem mynda spennandi safn. Frægustu munirnir eru líklega loftskeytatækin úr Kleyfarvatni. Þetta safn er í dag geymt á Árbæjarsafni, en gerður var samstarfssamningur við safnið fyrir þó nokkrum árum um geymslu þessara muna.

    Fangaverðir eiga eitthvað af munum og svo er kominn vísir að Tollmynjasafni.

    Á sínum tíma þegar ég skoðaði Hegningarhúsið var mér sagt að dómssalurinn væri friðaður, en enn notaður, m.a. til styttri þinghalda yfir föngum á staðnum. Hann sem slíkur er sýningargripur útaf fyrir sig.

    Alvörusöfn eru í stöðugri þróun og kæmi vei á svona safni að hafa sýningu um hrunkvöðlanna, en ekki fyrr en búið er að dæma, það er lágmark að klára málin fyrst.

    Garðurinn snýr á móti norðri og er lítil sem engin sól þar. Hann er líka lítill og myndi ekki búa til eitthvað alvöru rými, þó veggirnir væru teknir.

    Götumyndina mætti eflaust laga heilmikið, eins og bent hefur verið á, t.d. með því að gera götuna að einstefnugötu og auka pláss fyrir gangandi.

  • Anna Th. Rögnvaldsdóttir

    Skrítið að bæjarþingstofan skuli ekki vera friðuð. Síðast þegar ég vissi nýttist þessi litli salur sem kennslustofa fangavarðaskólans. Flott kennslustofa það!

    Matarmarkaður eða veitingahús finnst mér tæpast koma til greina, það þyrfti að raska svo miklu innandyra til að koma slíkri starfsemi fyrir.

    Safn er sennilega besti kosturinn — þetta er alveg frábær staðsetning fyrir lítið og skemmtilegt glæpasafn. Húsið er ekki stórt svo sennilega færi best á því að það hverfðist um glæpi og refsingu á síðasta aldarfjórðungi 19. aldar fremur en að leitast við að dekka 100 eða 200 ára tímabil sem gæti aldrei orðið annað en mjög yfirborðskennd umfjöllun. Húsið yrði mjög viðeigandi umgjörð um slíkt sögulegt safn.

    Slíkt safn gæfi þá tilefni til að færa húsið til aðeins upprunalega horfs. Fangaklefarnir voru t.d. mun fleiri í upphafi, á síðari stigum var þeim slegið saman tveim eða þrem til að gera þetta að manneskjulegri íverustöðum.

    Og fangelsismúrana má auðvitað alls ekki brjóta niður! Þetta er alveg forkostulegt mannvirki og alveg upplagt að gera fangelsisgarðinn að hluta glæpasafnsins. Ég held að þessi blettur (án múranna) liggi fremur illa við sól þannig að hann hefði takmarkað gildi sem „borgarrými“.

    Semsagt, ég frábið mér vaxmyndir af Lárusi Welding og félögum. Svo ekki sé talað um skjái hangandi út um allt með endalausum fræðandi útlistunum á hruninu, aðdraganda, kollsteypu og eftirmálum.

  • Jens Helga

    Stebbi er með ágæta hugmynd sem má sameina hugmynd Þóru, sýningu um Reykjavík sem væri líka vaxmyndasafn. Borgarsafn sem fjallar um sögu borgarinnar og skreytt með vaxmyndum af þeim sem hana byggðu og í henni bjuggu. Allt frá Ingólfi til Lugtargvendar og áfram til Davíðs Oddsonar. Svo má lengi bæta við nöfnum. Klefarnir dekkuðu skilgreind tímabil. T.d. er hvert aðalskipulagstímabil 20 ár. Borgin er 225 ára þannig að það er nóg af klefum.

  • Hvað með að Árbæjarsafn fengi húsið til að setja upp sýningar um Reykjavík? Staðsetning Árbæjarsafns er ekki mjög miðsvæðis en aðstaða við Skólavörðustíg gæti orðið safninu lyftistöng.

  • Hilmar Þór

    Rétt hjá þér Pétur. þakka ábendinguna.

  • Örn Úlfar Höskuldsson

    Guð hjálpi okkur. Safn um hrunið?

  • Pétur Ástvaldsson

    Hallveigarstaðir við Hallveigarstíg? Hér er væntanlega átt við iðnaðarmannahúsið; Hallveigarstaðir eru við Túngötu, ekki satt.

  • Heillandi hugmynd Guðjóns að opna garðinn og tengja hann litlum veitingastað. Það þarf líka að lækka götuna. En vantar ekki vaxmyndasafn í borgina með styttun af t.d. helstu ódæðismönnum þjóðarinnar í gegnum árin. Þ.m.t. útrásardólgunum?

  • Hólmfríður Sveinsdóttir

    Góð og þörf umræða. Hugmyndin af hrunsafni líka ágæt. Ég vil þó frekar sjá meira líf í húsinu eftir að það hefur lokið núverandi hlutverki sínu. Sammála að nóg sé af veitingastöðum en finnst sárlega vanta góðan matarmarkað í miðbæinn. Væri ekki hægt að hafa þarna einhverskonar „beint frá býli“ markað?

  • Guðjón Erlendsson

    Góð hugmynd með safnið. Annað sem þyrfti að gera er að lækka götuna við húsið. Í gegnum árin hefur yfirborð götunar verið hækkað smátt og smátt, og núna er húsið mjög sokkið í jörðina. Þetta tekur frá tignleika hússins. Síðan mætti einnig taka niður fangelsisveggina úti og skapa gott borgarrými í staðinn.

  • Þetta svokallaða- hrun var svo stórt að húsið yrði allt of lítið… gæfi til kynna mjög lítið svokallað-hrun.

  • Einar Guðjónsson

    Er eiginlega frekar sammála Borgþóri en finnst að hrun og góðærissafn gæti átt heima í Hörpu og eða Háskólanum í Reykjavík ( Nauthólsvík ).

  • Þetta er nú aldeilis frábær mynd sem þú hefur fengið af vef ljósmyndasafns Reykjavíkur.

  • Borgþór

    Þetta er of gott hús á of góðum stað til að vera veitimga- eða skemmtistaður. Þarna gæti verið góður staður fyrir sögu glæpa og löggæslu almennt i landinu. Óleyst mál eins og Geirfinnsmálið, Laugarlækjarmorðið og eldri mál væru ágætt sýningarefni. Það hafa allir áhuga á glæpum.

  • Jón Sveinsson

    Ég vil bæta við þessa góðu og nauðsynlegu hugmynd og legg til að Skólavörðustígur verði gerður að göngugötu alla leið upp að Klapparstíg. Minnsta kosti yfir sumarmánuðina.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn