Fyrir skömmu hélt alþjóðlegt fyrirtæki í Svíþjóð upp á tímamót í starfsemi sinni með því að gefa út mjög vandað rit, sem sýnir úrvals hönnun frá Skandinavíu sem kom á markað árið 1963. Fyrirtækið Iggesund Paperboard framleiðir hágæða pappírs karton sem nefnast Invercote og Incada. Þetta karton er aðallega notað í umbúðir fyrir háhæða vörur, t.d. ilmvötn og eru helstu framleiðendur slíkrar vöru meðal viðskiptavina þeirra.
Á síðasta ári þegar hugað var að útgáfu þessa rits var ákveðið að sýna í því úrvals hönnun frá öllum Norðurlöndunum. Þar var auðvitað um auðugan garð að gresja, nema frá Íslandi. Ljósmyndarinn sem kom að vali hlutanna, sá á Netinu mynd af lampa sem nefndist Hekla og er verk tveggja íslenskra hönnuða, þeirra Jóns Ólafssonar og Péturs B. Lútherssonar.
Lampinn reyndist við nánari athugun hafa komið á markað 1963 eins og Invercote kartonið. Fyrirtækið Fog & Mörup A/S í Danmörku framleiddi lampann í um það bil 15 ár, eða til um 1980 og seldi lampann í Evrópu, Bandaríkjunum og í Japan þar sem hann var framleiddur um tíma. Á níunda áratugnum hætti fyrirtækið framleiðslunni, enda komu mjög ódýrir lampar á markaðinn, aðallega frá Ítalíu. Heklu lampinn er að áliti þeirra félaga Jóns og Péturs sennilega fyrsta íslenska nútíma hönnunin sem fær viðlíka útbreiðslu á heimsmarkaði.
Ljósmyndarinn frá Svíþjóð hafði samband við þá félaga Jón og Pétur og kom síðan sjálfur til Íslands til að taka myndir af lampanum, enda markmiðið að fá sem heildstæðast útlit á ritið sem síðan var prentað á hágæðapappír frá fyrirtækinu Iggesund.
Forsaga Heklu lampans er sú, að Jón og Pétur voru í námi í húsgagna- og innanhússarkitektúr við Listiðnaðarskólann í Kaupmannahöfn þegar þeir ákváðu að taka þátt í samkeppni um nýja lampa. Þá voru þeir á öðru ári við skólann og ártalið var 1962. Skemmst er frá því að segja að þeir lögðu allt kapp á að vinna samkeppnina og gerðu líkan af lampa úr hvítu kartoni sem skorið var til og límt saman. Líkanið var með ljósi og við fyrstu sýn virkaði það eins og fullkominn lampi. Þeir unnu samkeppnina og fengu fyrstu verðlaun fyrir lampann Heklu og líka 3. verðlaun fyrir annan lampa sem nú er löngu gleymdur. Það varð síðan að ráði að þeir sömdu við fyrirtæki sem hét Fog & Mörup A/S í Danmörku og hófu þeir að framleiða Hekluna. Framleiðsla fyrirtækisins var mjög vönduð og var mikill hluti framleiðslunnar fluttur út frá Danmörku, aðallega til Þýskalands. Nafnið á lampanum var ekki tilviljun, samanber formið og ljósið sem minnti á eldfjallið þekkta, en þetta var áður en annar hver hlutur heitir efir kennileitum á Íslandi.
Fyrirtækið Fog & Mörup var með sýningarsal á Strikinu í Kaupmannahöfn við hliðina á Illums Bolighus, sem enn er þekkt víða um heim. Heklulampanum var árum saman stillt út í gluggann þarna, enda einn dýrasti lampinn í þeirra framleiðslu. Lampinn varð brátt mjög vinsæll og var seldur víða um heim. M.a. var hann seldur með framleiðsluleyfi á markað í Japan um nokkurra ára skeið. Lampinn var einnig snemma seldur til Íslands og mun hann hafa verið á söluskrifstofu Loftleiða h/f við Vesturgötu þar sem fyrstu 3 eintökin voru til sýnis. Fyrirtækið Fog & Mörup A/S er ekki lengur til.
Heklu lampinn hefur verið töluvert til sölu á Netinu síðustu ár á antikmarkaðnum. Hann er þá seldur á háu verði, en eingöngu er þar um notaða hluti að ræða. Sem kunnugt er, er ekki framleiðsla raflampa sem nokkru nemur lengur á Íslandi, en sjálfsagt er að skoða það í ljósi þess að hér er um hágæða, klassiska hönnun að ræða.
Hætt var að framleiða Heklulampann fyrir 33 árum. Það er full ástæða til þess að hefja framleiðslu á honum að nýju. Maður velir því fyrir sér hvort ekki sé lag núna á 50 ára afmæli lampans að hefja framleiðslu á honum hér á landi fyrir alþjóðamarkað. Byrja mættui á að semja við utanríkisþjónustuna, ríki og sveitarfélög um kaup á fyrstu 200-500 lömpunum sem í framhaldinu gætu orðið táknmynd íslenskrar snildar á hönnunarsviðinu svipað og PH lampinn er fyrir dani.
Tíminn mun leiða það í ljós.
Efst er mynd af HEKLU lampanum og kynning Iggesund í umræddu riti.
Að neðan koma ljósmyndir og frekari upplýsingar um þá hluti sem valdir voru sem bestu hönnunarhlutirnir í Skandinavíu árið 1963 eða fyrir réttum 50 árum. Allt eru þetta mjög þekktir hlutir sem vakið hafa athygli um víða veröld. Neðst koma svo tvær myndir. Önnur úr auglýsingabæklingi þegar íslenski lampinn HEKLA fór á markað og hin af frumútgáfu sem hönnuðirnir gerðu vegna samkeppninnar árið 1962.
Upplýsingar um fyrirtækið
Til þess að að sjá ritið á Netinu: http://www.iggesund.com/Invercote/1963/
Hægt er að panta eintak á þessari slóð: http://www.iggesund.com/1963-Kit.aspx
Að ofan er ljósmynd sem notuð var í sölubæklingi þegar lampinn var settur á markað fyrir réttum 50 árum.
Myndin að ofan er af líkani sem þeir félagar, Pétur B. Lútersson og Jón Ólafsson, gerðu af lampanum þegar þeir voru á öðru ári í námi í Kaupmannahöfn árið 1962. Líkanið var í fullri stærð með ljósi og hlaut fyrstu verðlaun í lampasamkeppni.
Það skiptir ekki máli hvað hönnuðirinn hefur hannað marga hluti. Einn góður hlutur sem lifir af alla tískustrauma í hálfa öld segir miklu meira um hæfileikana.
Fallegur og einfaldur lampi með fallegt nafn og sōgu. Alls ekki ólíklegt að þeir félagar hafi stúderað Alvar Aalto á þessum tíma eins og flestir í faginu. Ég sé allavega sterka Aalto tengingu -sérstaklega við þennan lampa frá 1959 (miðjuelementið sérstaklega) :
http://www.artek.fi/fi/products/lighting/138
Þessi lampi byggist á lampa frá 1954 sem hefur verið þróaður í allskonar útfærslum (standlampar, vegglampar, hangandi….) og er enn framleiddur og seldur í massavís enda löngu orðinn klassík.
Flott saga …
Svona hönnun má ekki gleymast. Það hlýtur að vera komin fram tækni sem gefur möguleika á að framleiða þennan lampa á samkeppnisfæru verði….33 ár er langur tími þegar framleiðslutækni er annars vegar.
Stundum mætir sjónum manns það sem er utan hins stundlega tíma. Það er í einfaldleika og tærleika sínum af slíkri gerð að fæstir sjá fyrr en síðar að var gersemi … og er gersemi … sem eitt hafi orðið til úr öllu … en þó hinu eina. Það hefur sig út fyrir afstæði tímans. Það gerist þegar andi og hönd renna saman í eitt og gleyma öllu öðru en því að skapa. Í því dúnalogni fæðist hið tímalausa.
Ótrúlega fallegur lampi, nýtískulegur en samt tímalaus og í floittum félagsskap með símanum, myndavélinni, kúlustólnum og Wegnesstólnum. Hlutir sem allir þekkja. En af einhverjum ástæðum hefur HEKLU lampinn farið framhjá þjóðinni hér út í ballarhafi. Enda er hún meira fyrir lýðskrum en hógværð og gæði!
EPAL. Samtök atvinnulífsins, Hönnuarmiðstöð og „athafnaskáld“ þurfa að setjast saman og koma HEKLU í framleiðslu aftur sem fyrst.