Miðvikudagur 07.09.2011 - 22:41 - 7 ummæli

High Line Park í New York- Miklabraut?

Hugsum okkur að búið væri að þétta Reykjavíkurborg, gera hverfi hennar sjálfbærari en nú er og koma upp sæmilegum almenningssamgöngum þannig að hraðbraut eftir borginni endilangri væri orðin óþörf.

Þá opnast kannski tækifæri til þess að mjókka Hringbraut frá Ánanaustum eftir Miklubraut alla leiðina upp í Mosfellsbæ. Fella niður 2-4 akgreinar þannig að gatan yrði aðeins 2 akgreinar alla leiðina.

Landið sem fór undir 2-4 óþarfa akgreinarnar yrði síðan sameinað helgunarsvæðum hraðbrautarinnar. Í framhaldinu væri landsvæðið endurhannað  sem 15 km langur almenningsgarður með hjólastígum, göngubrautum, áningarstöðum og yndislegheitum. Garðurinn tengdist svo stærri útivistarsvæðum á leiðinni, Hljómskálagarði, Klambratúni o.s.frv.

Ekki ósvipað hefur gerst í New York undanfarið. Hluti Broadway er orðin göngugata og brautarstæði fyrir járnbraut frá upphafi síðustu aldar sem ekki er lengur þörf fyrir var breytt í svifandi “almenningsgarð” sem er tæplega 2,5 km langur.

Eftir að hætt var að nota lestarteinana um 1980 komu fram óskir um að fjarlægja þá.

Í framhaldinu  stofnuðu aðgerðarsinnar samtökin “Friends of the High Line” þar sem Joshua David og Robert Hammond, sem bjuggu í grendinni,  voru í fararbroddi. Teinarnir voru á súlum og svifu 7-8 metrum yfir gatnakerfinu.

Samtökin  vildu vernda járnbrautina og finna henni nýtt hlutverk, breyta teinunum í almenningsgarð.  Og það tókst með miklum ágætum.

Garðurinn hefur nú verið opnaður og vakið heimsathygli.

Hjálagt eru nokkrar ljósmyndir ásamt skemmtilegu myndbandi þar sem spjallað er við Robert Hammond o.fl.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Gaman væri ef við gætum breytt verðrinu því það er það sem plagar okkur. Sjáið Laugardalinn, Miklatún og Elliðaárdal þar sem engin sála sést svo vikum skiptir. Þetta er við búum við og því er bíllinn í fyrsta sæti og fátt sem getur breytt því.

  • @Guðmundur Guðmundsson: framkvæmdin hefði þá varla verið borginni að kostnaðarlausu ef Ísl. Aðalverktakar ætluðust til að fá að ráðstafa byggingarlandinu í staðinn?

    Góður pistill.

  • Guðmundur Guðmundsson

    Góðar pælingar.
    Fyrir ekkert mörgum árum var rætt um að leggja hluta Miklubrautarinnar í göng og tengja síðan saman hverfin sem brautin sker í sundur.

    Ef ég man söguna rétt voru Ísl. Aðalverktakar tilbúnir að grafa göngin að kostnaðarlausu fyrir borgina ef þeir fengu að ráðstafa byggingarlandinu sem losnaði.
    Ekkert varð úr framkvæmdum og málið lognaðist út af þegar loftið byrjaði að síga úr Íslensku fasteignabólunni.

    En sjálf hugmyndin var kannski ekki svo galin ?

    Einnig má til gamans prjóna við umræðuna um byggðaþéttingu með lestarkerfi. Það væri eins og T í laginu úr lofti og efri parturinn lægi í austur / Vestur eftir Hringbrautinni út á Granda og upp í Mosfellsveit. Leggirnir tengjast síðan saman á ákjósanlegum stað fyrir samgöngumiðstöð.

    Lóðrétti leggurinn á T inu fylgir síðan td. Kringlumýrarbraut gegn um Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Áfram liðast síðan lestin eftir Reykjanesbrautinni og endar þar í flugstöðinni eftir viðkomu á gamla varnarliðssvæðinu sem þar með gæti orðið eins konar nýtt Breiðholt. Á vallarsvæðinu er nú þegar til ódýrt leiguhúsnæði í magni sem sárvantar í Reykjavík. Með þessu væri Stór Hluti SV hlutans orðinn að einu atvinnu og búsetusvæði.

    Byggðaþétting gæti skapað grundvöll fyrir lestarkerfi sem létti þunganum af umferðarþyngstu æðunum,sem gætu því mjókkað að sama skapi. Ýmsar leiðir eru síðan færar til að stýra fólksflutningum frá bílum yfir í lestir, þegar sá valmöguleiki er fyrir hendi. Gott dæmi um þetta er flugstöðin í Kaupmannahöfn, en þangað fer fólk ekki á bíl að nauðsynjalausu.

    .

  • Elín G. Gunnlaugsdóttir

    Hljómar mjög vel þessi hugmynd með Miklubrautina og stórkostleg þessi framkvæmd þarna í NY.

    Svipað hafa menn verið gera í Þýskalandi þar sem gömlum verksmiðjubyggingum, sem standa nálægt eða við jarðar bæja, er gefin nýtt hlutverk.
    Líkt og með járnbrautarteinana er þar um að ræða mikil stálvirki….mikil mannvirki sem ekki var not fyrir lengur.

    En því miður eru íslensk stjórnvöld 10-15 árum á eftir öðrum þjóðum, sem þegar hafa lært af mistökum sínum og eru byrjuð að endurskipuleggja og bæta fyrir mistök sín. Þar má helst nefna mistök varðandi umferð og „mikilvægi“ einkabílsins þar sem heilu hekrararnir voru „teppalagðir“ með malbikuðum bílastæðum.

    Varðandi Miklubrautina þá eru háværar kröfur íbúa sem búa í Hlíðunum um að umferð minnki á því svæði, að umferð verði hægari og um leið minni hljóðmengun en þá spyr maður sig hvernig fer það saman við þá gríðarlegu uppbyggingu sem á að eiga sér stað á nýju „hátækni“ sjúkrahúsi“?

  • Jón Guðmundsson

    Þetta eru góðar hugmyndir bæði hér og i NY. Maður stendur samt ráðþrota gagnvart einkabílnum sem er eins og ólæknandi sjúldómur í borginni sem verður sífellt frekari til plássins. Og ekki bætir Landspítalinn ástandið

  • stefán benediktsson

    Hef nefnt þetta nokkrum sinnum. Miklubrautartún frá Elliðaám að Háskóla. Almenningsgarðar, almenningsfarartæki, hjólastígar og gangstéttar.

  • Margrét Jónsdóttir

    Falleg framtíðarsýn fyrir Miklubraut, en stangast hún ekki á við veruleikann. Liggur ekki fyrir að auka umferð eftir Miklubrautinni á næstu árum?

    Vantar ekki fleiri og skipulagðari „aðgerðarsinna“ hér á Íslandi?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn