Mánudagur 22.02.2016 - 22:01 - 5 ummæli

„High Line Park“ í París og mögulega í Reykjavík!

137-43_cmjnhhh

 

Það hefur  ekki farið hátt, en  Parísarbúar eiga sinn “High Line Park” sem er um 20 árum eldri en sá frægi í New York.

Þegar járnbrautarstöðin við Bastillutorgið var lögð niður árið 1984 til þess að koma fyrir Bastilluóperunni  voru járnbrautarteinarnir látnir óhreyfðir.  Opnaðist þá tækifæri til þess að skapa gönguleið í 8-10 metra hæð yfir gatnakerfi borgarinnar.  Leiðin sem er afar vinsæl af göngufólki og skokkurum, liggur frá Bastillutorginu alls 4,7 km nánast alla leið að Bois de Vincennes sem er stór fallegur almenningsgarður á jaðri miðborgarinnar.

Gönguleiðin hefur nokkur nöfn; Promenade Plante, Couleé Verte,  Viaduc des Arts, og eflaust enn fleiri.

Það er í raun undarlegt að þessi framkvæmd og þessi notkun á járnbrautarteinunum í París hafi ekki vakið meiri athygli en raun ber vitni. Hún á það svo sannarlega skilið. Það var ekki fyrr en High Line Park í New York vakti heimsathygli að men fóru að skoða þessa gömlu hugmynd frá París. Nú er verið að vinna að svipuðum gönguleiðum í Chicago, Queens í NY, Philadelphia, Jersey City, Fukuoka í Japan og víðar.

Þetta er ótrúlega skemmtileg lausn fyrir fótgandi og hjólandi fólk vegna þess að það verður ekki truflað af bílaumferð og gatnamótum á ferð sinni um aðlaðandi og gróðursælan veg.

Mér dettur einn staður í hug í Reykjavík sem svona eða svipuð lausn gæti átt vel við. Það er í Skeifunni.  Þannig væri hægt að koma á tengingu milli Voga/Heima hverfis og Bústaðahverfis, yfir Skeifuna og bílastæðaflæmið þar. Þá gæti fólk gengið, skokkað eða hjólað óhindrað um þessa fyrirstöðu sem er þarna í Skeifunni. Þá væri hægt að ganga beint af þessari gönguleið  inná efri hæðir húsanna í Skeifunni þar sem reiknað er með um 500 nýjum íbúðum á næstu árum.

Ég hef nú gengið bæði High Line Park í New York og Couleé Verte í París og álít báða staðina vera paradís í þessum tveim borgum.  Hvorutveggja sem samgönguæð og sem friðsæll en líflegur almenningsgarður.

Færslunni fylgja kort og nokkrar myndir, sumar teknar í dag. Þarna var líflegt andrúm og létt yfir fólki þrátt fyrir nokkurn kulda á mánudegi í febrúar. Allt önnur stemming en niðri í bílaþvarginu á gangstéttunum fyrir neðan. Mér er sagt að á góðviðrisdögum á sumrin sé þarna mikið um að vera og enn skemmtilegri stemming. Þetta er einn af þeim fáu stöðum í borginni sem ferðamenn hafa ekki enn uppgötvað.

+++++

Skeifan – París – New York

Þeir sem vilja kynna sér High Line Park í New York ættu að lesa þassa slóð:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/11/17/high-line-park-i-new-york/ 

Þar kemur fram hvernig High Line Park bindur Meatpacking district saman  á „the west side“ í borginni. En þetta hverfi á það sameiginlegt með Skeifunni að vera fyrrum iðnaðarsvæði sem hefur verið að breytast undanfarin ár í „heitasta“ hverfi New Yorkborgar. Umbreytingin hefur átt sér stað með einskonar sjálfsprottnum hætti. Það er að segja að fjárfestar og fasteignaeigendur hafa sjálfir ráðið ferðinni að mestu. Skipulag einstakra lóða er ekki háð framkvæmdum á næstu lóð nema að menn óski þess sérstaklega. Þarna hafa men byggt ofaná og utaní fyrrum pakkhús og iðnaðarskemmur. Forsendan fyrir skipulaginu er ekki að eitthvað sé rifið. Það er frekar val fasteignaeigenda. Þeir hafa breytt kornsílóum og vöruskemmum í hotel-, skrifstofu- og íbúðabyggingar án þess að upprunaleg ímynd hverfisins sé þurrkuð út. Þeir viðhalda anda staðarins þrátt fyrir mikla uppbyggingu.

Allt þetta er hægt að gera í Skeifunni ef menn halda vöku sinni og gæta þess að hverfið endi ekki eins og hvert annað hverfi í borgum sem enga á fortíðina eða söguna. Í Skeifunni á að auka byggingamagnið um 85.000 m2. Það er ekki lítið . Af þessum fermetrum verður sennilega um 50.000 m2 varið fyrir 500 íbúðir og 35.000 m2 fyrir aukna atvinnustarfssemi. Þetta mikla byggingarmagn gefur tækifæri til róttækra breytinga í samgöngumálum hjólandi og gangandi sem leiðir hugann að High Lin Park hugmyndinni. Þannig er hægt að koma fyrir grænum svæðum á öðru og „hærra plani“ en núverandi malbikað bílastæðaflæmi er án þess að þurfa að sækja fjármuni til borgarsjóðs. Þetta er einkum mikilvægt fyrir væntanlega íbúa þarna og samgöngur fyrir hjólandi og gangandi í borginni sem heild.

 

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/11/17/high-line-park-i-new-york/ 

 

la-coulee-verte-visoterra-43944

Gönguleiðin er líka kölluð „Viaduct des Arts“ vegna þess undir hluta leiðarinnar hefur verið komið listagalleríum.

IMG_7376

IMG_7366Að neðan koma tvö kort sem sýna aðstöðu við þessa frábæru lausn fyrir gangandi vegfarendur.

untitled

ceinture_verte_plan

 

Að neðan eru skokkarar að teygja eftir sprettinn með borgarumferðina fyrir neðan

eða bílaflæmið eftir atvikum!IMG_7364

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Alger draumur væri að geta gengið og hjólað sem víðast án þess að þurfa alltaf að víkja fyrir bílunum eiturspúandi.

  • Sigurlaug

    Það er líklegt að menn taki sig til og byggi svona gönguleiðir frá grunni úr því að þetta virkar svona vel. Ég man eftir í Þýskalandi og víðar voru lagðar göngu- og hjólaleiðir fjarri akstursleiðum bíla. Þannig gátu gangandi farið um með miklu öryggi vegna bílaumferðar. Þetta kostaði mikið fé en leiðirnar urðu óöruggar vegna glæpagemgja sem gátu stundað iðju sína án þess að akandi sáu til. Ég sé þetta fyrir mér í Skeifunni. sennilega er það samt eini staðurinn á Íslandi sem þetta smellpassar.

  • Dennis Davíð Jóhannesson

    Frábært að sjá hvernig íbúar Parísar og New York hafa breytt gömlum upphækkuðum járnbrautarteinum í lífrænar göngugötur. Verst að við skulum ekki eiga svona teina í Reykjavík sem hægt væri að endurnýta á þennan hátt 🙂 Hins vegar eigum við töluvert af gömlum húsum sem hægt væri að endurnýta með ýmsu móti til ánægju fyrir borgarbúa. Þau má alls ekki rífa.

  • Sigurlaug

    Þetta eru skemmtileg dæmi um mannvirki sem hafa fengið nýtt óskylt hlutverk. Það eru ábyggilega víða svipuð tækifæri.

  • Guðmundur Gunnarsson

    Fróðlegur pistill.
    Ég heyrði Hjálmar Sveinsson vara við algeru niðurrifi og algerri uppbyggingu í Skeifunni. Þetta sagði hann á Rás2 í dag. Ég er honum sammála. Skuggahverfið er víti tilvarnaðar. Pistlahöcundur styður þetta sjónarmið Hjálmars með vísan til NY.
    Gott mál.
    Áfram veginn 🙂

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn