Þriðjudagur 03.08.2010 - 09:17 - 15 ummæli

Hjúkrunarheimili á Eskifirði

isometrialett

Fyrir nokkru var birt niðurstaða í samkeppni um nýtt hjúkrunarheimili á Eskifirði.

Heimilið í Fjarðabyggð er það fyrsta sem hannað er í samræmi við nýja stefnu stjórnvalda. Stefnan byggir  m.a.  á rétti íbúanna til að lifa eðlilegu heimilislífi og njóta friðhelgi. Þetta er metnaðarfull áætlun sem horfir til mikilla framfara.

Hjúkrunarheimili aldraðra eru sérstakar byggingar. Þær eru á sama tíma stofnun fyrir sjúka aldraða og heimili þeirra. Svo eru hjúkrunarheimili líka vinnustaður.

Hagsmunir þeirra sem þar búa og þeirra sem þar vinna fara ekki alltaf saman.

Vistmennirnir, sjúkir aldraðir sem hafa staðist vistunarmat, vilja hafa tækifæri til að hreyfa sig innandyra og hafa ekki á móti því að ganga nokkurn spöl til matsala eða sameiginlegra setustofa. Heimilisfólkið vill ekki að það sé undir stöðugu eftirliti og yfirsýn starfsmanna, það vill eins og sagt er í stefnunni njóta friðhelgi einkalífs og hafa sína hluti í kringum sig. Skapa sér heimili á stofnuninni. Á hinn bóginn vill það fá góða þjónustu fljótt og vel þegar eftir henni er kallað.

Starfsfólk hjúkrunarheimila er einn notendahópur og heimilisfólkið annar.

Starfsfólkið vill að vinnustaðurinn sé þannig að hægt sé að veita þá þjónustu sem þarf  fyrirhafnarlítið með stuttum gönguleiðum, yfirsýn o.fl. Það vill vinna kerfisbundið við góða aðstöðu eins og gerist á góðum sjúkrahúsum þar sem visst vinnuferli er stundað. Ekki ósvipað og færibandavinna þar sem eitthvað er framleitt.  Á sjúkrahúsi kemur sjúklingurinn inn um einar dyr og fer vonandi heilbrigður út annars staðar eftir stuttan tíma. Á hjúkrunarheimili kemur heimilismaðurinn inn til þess að eiga þar heima þar til hann er kallaður til betri heima. Þetta er munurinn á sjúkrahúsi og hjúkrunarheimili fyrir aldraða.

Í fyrsta sæti samkeppninnar er dæmd tillaga sem unnin er af Einrúm arkitektunum Anders Möller Nielsen, Kristínu Brynju Gunnarsdóttur og Michael Blikdal Erichsen.  Verðlaunatillagan virðist vera starfsmannamiðuð. Það er að segja, öll aðstaða starfsmanna er til fyrirmyndar á kostnað aðstöðu heimilisfólks. Vistmenn eru inni á lokuðum deildum og þannig búið um að þeir eiga ekki erindi um húsið utan sinnar deildar eins og gerist á sjúkrahúsum. Vistmenn þurfa einungis að ganga 3-4 metra frá einkarýmum sínum til að nálgast félagsrými og matsal.  Ekki er gerður mikill greinarmunur á einkarýmum og almenningsrými deildanna, ef ég skil umsögn dómnefndar rétt. Deild heilabilaðra hefur eins konar vaktmannabúr svipað og er að finna á Litla-Hrauni þar sem friðhelgi einkalífsins er ekki meginmálið. Ekki er gert ráð fyrir að allir heimilismenn geti safnast saman á einum stað í húsinu þegar það á við. 

Nokkrar íbúðir snúa til norðurs, sem ekki er í samræmi við byggingareglugerð. Það stafar sennilega af því að svigrúm hvað varðar stærð var afar takmarkað í keppnislýsingu. Örfáir aukafermetrar hefðu sennilega afstýrt þessu. Og svo er garðurinn nánast óhannaður.

Þetta virðist gott hús að vinna í en ekki eins gott að búa í. Þarna virðist dómnefnd hafa dregið taum starfsmanna á kostnað vistmanna.  Þarna togast sjónarmið á. Dómnefnd hefur verið starfsmanna- og rekstrarmiðuð, sem auðvitað á fullan rétt á sér í bland við annað.

Þetta er samt skrýtinn dómur sem á sér vonandi eðlilegar skýringar sem eiga eftir að koma fram hér eða á rýnifundi með dómnefnd.

Til samanburðar sýni ég aðra tillögu sem unnin er af Gesti Ólafssyni og Zoltan V. Horvath arkitektum. Sú tillaga gengur út á að skapa þorpsmenningu með sameiginlegu miðsvæði, kjarna, þar sem fólk hittist líkt og þegar farið er í bæinn. Einkarýmin eru lokuð og persónuleg. Þar er hægt að taka á móti gestum og snæða allar máltíðir. Þar er friðhelgi eikalífsins virt og þar er heimili vistmannsins.

Mikill og skynsamlegur greinarmunur er gerður milli einkarýma og almenningsrýma heimilisins í tillögunni, alveg eins og í þorpunum. Þegar gengið er út úr einkarýminu er heimilismaðurinn kominn í almenningsrými eins og þegar hann gengur út úr húsi sínu í þorpinu. Allir gangar enda á áningarstað. Miðsvæðið rúmar alla heimilismenn eins og torgið rúmar þorpsbúa. Þarna á heimilismaður kost á að hreyfa sig og skipta um umhverfi. Verða fyrir örvandi áreiti og vera þátttakandi í stærra samfélagi. Þetta eru sérstaklega mikilvæg atrið þegar fjallað er um hjúkrunarheimili á landsbyggðinni.

Nokkrar tillögur voru með þessa nálgun en fengu hjá dómnefnd bágt fyrir þann afgerandi kost að bjóða upp á góðar gönguleiðir fyrir heimilisfólk innandyra. Skrítið.

Það vakti einnig athygli mína að dómnefnd flokkaði húsin eftir formi þeirra, ekki eftir starfrænni hugmyndafræði eða arkitektóniskri nálgun. Tillögurnar voru dregnar í fjóra dilka eftir fominu og kallaðir Fingurform, Y form, H form og O form eins og munur tillagnanna fælist helst í forminu.

Alls bárust 36 tillögur í þessa litlu byggingu sem segir nokkuð um ástandið hjá arkitektum nú um stundir. Teiknistofa mín var einn þátttakenda og get ég staðfest að vinnustundafjöldi hefur verið milli 300 og 500 tímar. Gera má ráð fyrir að í heildina hafi verið varið í tillögugerðina meira en 8 mannárum í arkitektaþjónustu.

 Grunnmyndcroppuðlettlettlett

 

Tillaga nr. 3 eftir Einrúm arkitekta þar sem deildirnar tvær eru sjálfstæðar og einangraðar.  Setustofur veita innávið og stuðla þannig að fábreytni í upplifun hversdagsleikans.

 Gesturlettlett

Tillaga nr. 32 er unnin er af Gesti Ólafssyni og Zoltan V. Horvath arkitektum. Matsalur og félagsleg rými eru tengd inngangi með útsýni að innigarði og út fyrir húsið. Flæðið í húsinu er eðlilegt og örvandi sem stuðlar að betra lífi andlega og líkamlega.  Gönguleiðir innandyra eru fjölbreytilegar  og enda á áningarstöðum, með mismunandi útsýni og upplifun. Nokkrar tillögur af þessari gerð voru meðal þeirra sem lagðar voru fyrir dómnefnd en þær fengu almennt ekki góðar móttökur.

 Tolvumyndlett

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Hugleiðingar Ragnheiðar Kristjánsdóttur eru sérstaklega áhugaverðar og var mikill missir af þeim, sem og frá fleiri sem starfa innan þessa geira, í samkeppnisgögnunum enda skíra þær betur það andrúmsloft sem þarf að ríkja á hjúkrunarheimilum en fram kemur í gögnunum. Það er vonandi að arkitektafélagið beiti sér fyrir því að hugleiðingar þeirra sem til þekkja fái að fljóta með í arkitektasamkeppnum framtíðarinnar.

  • Ragnheiður Kristjánsdóttir

    Sæl öll þetta eru allt áhugaverðar umræður.
    Í starfi mínu reyni ég að viðhalda og auka hreyfigetu skjólstæðinga minna og er með sífelldan áráður um áægti hennar. En vegalengdir mega alls ekki verða „óyfirstíganlegar“ fyrir þá með skerta göngugetu og langflestir íbúa á hjúkruanrheimilum eru með mikið skerta hreyfigetu. Það eykur hættuna á því að fólk sé frekar keyrt í hjólastólum til matar og það fær enga hreyfingu út úr því. En að sjálfsögðu þarf að gefa fólki tækifæri til að hreyfa sig innan og utan dyra.
    En ekki allir heimilismenn á hjúkrunarheimilum hafa skerta hreyfigetu til dæmis hafa þeir sem eru með heilabilun ekki endilega skerta hreyfigetu og hafa mikla þörf að hreyfa sig og þarf hönnun á deild fyrir heilabilaða taka mið af því og bjóða helst upp á góða hreyfimöguleika innan og utan dyra. Mér finnst hugmynd Gest um það að geta gegnið í hring vera góð. Í H0llandi eru sér heimili fyrir heilabilaða þar sem allt umhverfi er hannað með þarfir þeirra og góður garður þar sem eru jafnveg dýr eins og geitur. Ég er sammála Kristínu Þorleifsdóttur að það mætti vera rætt meira um ytra umhverfi hjúkrunarheimila sem skiptir íbúa miklu máli. En kannski er það svona almennt að það er lítið hugsað um ytra umhverfi bygginga en þeim mun meira um bílastæði.

  • Þorsteinn

    Þetta er hárrétt hjá Gesti og Jóni Kristinssyni og margendurteknar ránnsóknir hafa sýnt að hreyfing er besta ráð sem til er vegna t.d. þunglyndis og annarra geðsjúkdóma. Þetta vita allir og sjúkraþjálfarinn Ragnheiður Kristjánsdóttir veit það líka.

    En dómnefndin hefur ekki hugmynd um það!!!

    Ganga og hreyfing er allra meina bót.

  • Gestur Ólafsson

    Ég og mínir samstarfsmenn höfum tekið þátt í mörgum samkeppnum og unnið sumar en aðrar ekki, eins og gengur. Yfirleitt höfum við þó að einhverju leyti getað skilið afstöðu dómnefndar þangað til í þessari keppni. Þar erum við alveg á gati.
    Að okkar mati snerist þessi samkeppni fyrst og frenst um það hvaða lífsgæði við gætum búið vistmönnum síðustu ár æfinnar, utan dyra og innan á þessari lóð á Eskifirði á hagkvæman og aðlandi hátt. Þarna er ekki allt unnið með því að stutt sé í matsal eða að farið sé eftir einhverri innpakkaðri danskri „leve-bo“ hugmyndafræði sem jafnvel borgir eins og Roskilde og Jyllinge eru nú hættar við. Í staðinn reyndum við að byggja á okkar eigin þekkingu og reynslu.
    Í þessu sambandi er rétt að rifja upp sögu sem kollega minn, Jón Kristinsson arkitekt sagði mér fyrir nokkru af hjúkrunarheimilum í Hollandi sem hann var að rannsaka. Þar kom í ljós að þar sem vistmenn gátu gengið í hring – í stað þess að geta bara gengið fram og aftur – notuðu þeir helmingi minna af geðdeyfðarlyfjum og voru auk þess miklu frískari en hinir. Kannske skiptir það líka máli.
    Fer nú ekki að verða kominn tími til að við mótum okkar eigin stefnu í þessum málum, grundvallaða á okkar eigin þekkingu, efnahag og reynslu og reynum líka að tryggja að hún sé til staðar í nefndum sem undirbúa og dæma svona samkeppnir?

  • Kristín Þorleifsdóttir

    Já, það er gott (nauðsynlegt) að sýna grunnmyndir allra tillagna en hinsvegar sýna þær ekki sömu hluti. Til dæmis sýna sumar eingönu beinagrind byggingarinnar, aðrar hluta lóðar og enn aðrar alla lóðina og jafnvel hluta nærumhverfis. Sumar eru í lit en aðrar í sv/hv og einhverjar snúa í norður og aðrar út og suður :-). Þetta gerir allan samanburð erfiðan og e.t.v. óréttlátan. KÞ

  • Björn H. Jóhannesson

    Niðurstaða dómnefndar í samkeppninni um hjúkrunarheimili á Eskifirði vekur nokkra undrun . Af 11 verðlaunuðum tillögum og tillögum sem hljóta viðurkenningu brjóta 4 byggingarreglugerð, þar á meðal tillagan, sem skipuð er í fyrsta sæti með því að sumar íbúðir eru einungis með glugga móti norðri, sem er brot á byggingarreglugerð og yrði væntalega ekki samþykkt af byggingarnefndum.
    Þeir keppendur, sem virtu ofangreint hafa augljóslega ekki verið að leysa sama verkefnið og þeir , sem brutu þá kröfu , en voru samt verðlaunaðir. Það er ekki gott. Eiginlega er það mjög slæmt .

    Í samkeppnislýsingu segir að byggingin megi ekki fara yfir 1500 fermetra brúttó og dómnefnd ítrekar í svari við fyrirspurnum á samkeppnistímabili að tillögur yfir 1500 fermetra verði ekki teknar til dóms. Í dómnefndaráliti er sagt að einungis þrjár tillögur hafi verið strærðarreiknaðar á vegum dómnefndar. Ekki er sagt hvaða tillögur það eru. Eðlilegt væri að allar tillögur hefðu verið stærðarmældar.

    Í sumum tillagnanna er sama fyrirkomulag einstakra rýma lýst neikvætt, sem í öðrum tillögum er lýst gott! Það er ekki gott, eiginlega er það slæmt.
    Eitt er þó til fyrirmyndar og er ekki alltaf gætt , þegar úrdráttur samkeppnistillagna hefur verið gefinn út á prenti og það er að grunnmynd allra tillagna fylgi með, en vöntun þess hefur verið reglan í samkeppnum og umsögn dómnefndar þess vegna verið merkingarlaus fyrir þann sem les. Svo er ekki um hjúkrunarheimilið á Eskifirði að þessu leyti.

    Guðrúnu Bryndísi, sem bloggar hé að ofan, er bent á að hægt er að fá ókeypis þennan úrdrátt með niðurstöðu dómnefndar hjá Framkvæmdasýslu ríkisins, Borgar túni 7 a.
    Þar getur Bryndís fundið tillögur , sem leysa eimitt það sem Bryndísi þykir vanta í sýndri fyrstu verðlaunatillögu.
    Sýning á öllum tillögum verður flutt frá Eskifirði til Reykjavíkur og sýndar á Háskólatorgi, neðri hæð 17.-29. ágúst n.k. samkvæmt vef Ríkiskaupa. Rýnifundur með dómnend verður 19. águst n.k. kl 16,30 á sama stað.

  • Kristín Þorleifsdóttir

    Það er tvennt sem mig langar að koma inn á. Annarsvegar val í dómnefndir og hinsvegar skort á gæðakröfum er varða ytra umhverfi. Hvorutveggja á almennt við.

    Í samkeppnisgögnum er hvergi að finna neitt um hæfi dómnefndarmanna. Búa þeir yfir þekkingu og/eða reynslu á þessu sviði? Hefur einhver þeirra starfað á hjúkrunarheimili eða með eldri borgurum? Hefur einhver þeirra reynslu af að hanna hjúkrunarheimli eða svipað umhverfi? Er einhver þeirra með sérmenntun á þessu sviði? Eru þeir almennt hæfir til þess að meta tillögurnar út frá þeim forsendum sem gefnar eru? Í nútíma þekkingarsamfélagi verður hið opinbera og viðkomandi fagfélög að gera meiri kröfur og vanda val á nefndarmönnum í ALLAR samkeppnir. Ég er ekki að segja að nefndarmenn í þessari samkeppni séu ekki hæfir – ég veit bara einfaldlega ekkert um það þar sem hvergi er greint frá því.

    Víkjum að mótun ytra umhverfis. Í stuttu máli sagt er hún skammarleg í þessari samkeppni sem og mörgum öðrum. Það að hið opinbera geri ekki kröfu um að landslagsarkitekt sé hluti af hönnunarteymi er afar slæmt. Það er nú bara einfaldlega þannig að byggingar standa ekki í vakúmi. Fjöldi rannsókna hafa á undanförnum áratugum sýnt fram á gríðarlega mikilvægt hlutverk garðrýma við hjúkrunarheimili sem og útsýnis frá þeim.

    Það er auðvelt að sjá strax hvaða tillögur eru mótaðar með aðkomu landslagsarkitekts – enda fáar. Sértaka athyli vekur þó að það virðist vera sem svo að margir af þátttakendunum hafi ekki lesið meðfylgjandi grunngögn t.d. vindrósir – svo fáránlega eru t.d. garðrými staðsett í mörgum þeirra. Aðrir virðast ekki kunna að lesa hæðarlínur svo annað dæmi sé tekið. Einhverjar tillögur staðsettu bílastæði norðan megin byggingar og byggingu í beinu framhaldi af því – en úps gleymdu að reikna með 3-4 metra hæðarmun! Fæstar tillögurnar taka sjónlínur að og frá með í reiknininn og einkar lítið er spáð í flæði á milli inni og útirýma. Einnig er almennt lítið hugsað út í notkunargildi útirýma, flæði á lóð , tengsl við nærliggjandi umhverfi eða bara yfirhöfuð nokkurn skapaðan hlut sem viðkemur lóðinni.

    Ég vil nota tækifærið og hvetja hið opinbera og fagfélögin til þess að auka samstarfið og gera meiri gæðakröfur. Umhverfið þarf alltaf að meðhöndla sem eina heild. KÞ

  • Hilmar Þór

    Ég er hugsandi yfir því að Ragnheiður Kristjánsdóttir sjúkraþjálfari telji það rangt að segja að heimilismenn á hjúkrunarheimilum hafi ekki á móti því að ganga til matsalar og félagslegra rýma. Ég held hún rugli saman viljanum og getunni. Ég held að allir vilji ganga en því miður geta það ekki allir.

    Ástæðan kann að vera sú að fólk er oft of illa á sig komið þegar það er er komið í gegnum vistunarmatið. Svo eftir örfá ár eru vistmenn orðnir þyngri (þurfa meiri hjúkrun) og verða að lokum rumfastir flestir hverjir. En það er ekki vegna þess að þeir vilji það. Eða hvað?

    Ég þekki ”Leve BO” í Danmörku og hef sjálfur sem ráðgjafi hannað breytingar á hjúkrunarheimili þar sem matsalur hefur verið minnkaður og færður nær hjúkrunarrýmum. En það breytir ekki því að fólkið getur hreyft sig um bygginguna sýnist því svo.

    Varðandi þessa færslu þá valdi ég tvær tillögur til að skrifa um. Önnur var sú sem dómnefnd taldi besta og svo valdi ég aðra sem dómnefnd taldi nánast ekki þess virði að skoða niður í kjölinn. Ég gagnrýndi verðlaunatillöguna og hældi hinni sem enga athygli fékk, út frá þröngu sjónarhorni. Í þessu þrönga sjónarhorni horfði ég á andstæðar óskir starfsmanna annarsvegar og heimilisfólks hinsvegar. Þetta var gert til þess að laða fram umræðu.

    Þetta er auðvitað umdeilanlegt en í stuttu bloggi þar sem athugasemdar eru leyfðar má kannski gera svonalagað. Í framhaldi af því vil ég þakka höfundum 1. verðlaunatillögunnar fyrir sitt innlegg.

  • Ragnheiður Kristjánsdóttir

    Ég er sjúkraþjálfari á hjúkrunarheimili. Ég verð að segja að sú fullyrðing að heimilsmenn á hjúkrunarheimilum hafi ekkert á móti því að ganga dálítinn spotta í matsal sé röng. Langflestir íbúa hjúkrunarheimila hafa ekki líkamlega getu til þess að ganga óstuddir einhverja leið. Í könnun Ingibjargar Hjaltadóttur frá 2007 á líkamlegu atgerferfi íbúa á hjúkrunarheimilum var einungis þriðjungur íbúa fær um að bjarga sér inn á herbergjum og ég gæti trúað því að hlutfallið væri enn lægra nú. Mín reynsla er almennt sú að ef vegalengdir eru styttri þá gangi fólk það frekar eins og þegar það eru einungis nokkrir metrar til borðstofu. Ef vegalegndir eru orðnar töluverðar veigrar fólk sér ( sem hafa einhverja göngugetu) við að ganga og er keyrt í hjólastólum. Með auknum stuðnigi við fólk í heimahúsum og almennt strangara vistunarmats er fólk almennt líkamlega illa á sig komið þegar það flytur inn á hjúkrunarheimili. Fæstir geta staðið upp án hjálpar.

    Mér sýnist að þetta hjúkrunarheimili sé byggt í anda leve og bo hjúkrunarheimila í Danmörku en um 90 prósent af hjúkrunarhemilum undanfarinn áratug eru byggði í þessum anda.Sem byggir upp á 6-10 manna einingum sem eru síðan oft tengdum ákveðnum kjarna. Hluti af þessari
    stefnu er að matseld á helst að fara fram á staðnum sjálfum og geta heimilsmenn ef þeir kjósa tekið þátt í matseldinni. Er það hluti af því að gera heimilið sem „heimilislegast“ og skýrir það þessi 3 eldhús. Ég er sammála Guðrúnu Bryndísi að rekstrarlega held ég að þetta að vera dýrara í rekstri er til mönnunar til dæmis á næturvöktum. Einungis eitt hjúkrunarheimili hefur verið reyst í þessum anda en það er Hrafnista í Boðaþingi sem var opnuð í marsmánuði þetta ár svo að ekki er getur verið komin mikil reynsla á reksturinn.

    Á Því heimili sem ég starfa hafa verið gerðar breytingar með að hætta með stóran borðsal og hafa minni setustofur þar sem matast er og það er almenn ánægja meðal íbúa með það. Fólki finnst það almennt notalegri stemmning þótt það hitti færri. Fer t.d frekar fram á sloppnum og borðar morgunmat en fannst það þurfa að vera klætt til þess að fara í matsalinn.

  • Kolbeinn

    Höfundum óska ég til hamingju með tillöguna þo svo að ég geti ekki hrópað húrra fyrir dómnefndinni. Það var ánægjulegt að lesa ummæli höfundanna um verk sitt þar sem fram kemur góður ásetningur og vilji.
    En markmið er eitt og árangur annað. Allir, höfundar, dómnefnd og verkkaupi, eru að gera sitt besta og allir eru að skapa heimili hver með sínum hætti og sinni sýn á viðfangsefnið.
    En heimilislegar eru ekki setustofur á stofnunum eða hefur einhver séð slíka og nefnt okkur hinum til upplýsingar? Er yfirleitt hægt að skapa heimilislega setustofu á stofnun. Verður hún ekki álika heimilisleg og húsagata eða torg þorpsins, svo notuð sé samlíking í inngangi?
    Ráðherrann skrifar sitt ávarp eins og hann best kann og arkitektarnir reyna að uppfylla allar óskir.
    Skilgreinig höfunda um að þjónustueiningin sé baklandið er aldeilis prýðileg en skilgreining þeirra á “heimili” er svoldið laus í lofti og kemur ekki vel fram í tillögunni.

    Hugleiðing Guðrúnar Bryndísar hér að ofan er greinilega skrifuð af þekkingu og/eða reynslu.

  • Guðrún Bryndís

    Kári Páll. Ég get ekki séð hvernig bygging sem er bútuð niður í þrjár sjálfstæðar einingar getur verið ‘starfsmanna og rekstrarlega hagkvæm’ lausn. Það má segja að félagslegi þátturinn sé einnig bútaður niður og þá hjá starfsmönnum og heimilismönnum.

    Það þýðir að félagleg virkni heimilisfólks minnkar, ef hugmyndafræðin gengur út á það að heimilisfólkið fari eftir einhverri stefnu þegar það kemur inn á hjúkrunarheimili þá er lausnin að sjálfsögðu að einangra fólk til hlíðni.

    Þumalputtareglan er sú að 90% af rekstrarkostnaði á líftíma bygginga er vegna þrifa, þegar bygging er bútuð niður eykur það flækjustig við það að komast á milli. Rekstrar- og stofnkostnaður eldhúsa er töluverður og því má velta því fyrir sér hvers vegna það þykir heppilegra að vera með þrjú eldhús fyrir rúmlega 20 einstaklinga.

    Mönnunarþörf starfsfólks fer eftir því hversu sjálfbjarga heimilismenn eru, hagræði í mönnun felst meðal annars í því að starfsfólk vinnur saman og samskipti milli starfsfólks spilar þar lykilhlutverk. Með því að ‘loka’ starfsfólk inni á sinni deild minnkar samstarf á milli deilda. Mönnun á næturvöktum getur einnig verið meiri en þörf er á. Það má ekki gleyma því að þetta hjúkrunarheimili er ekki stórt og því ætti að skipta máli að samskipti og samvera starfsmanna og heimilismanna sé hluti af byggingunni.

  • Páll Kári

    Vil nú bara byrja á að óska Einrúm til hamingju með sigurinn. Finnst nú vera einstaklega mikil leiðindi í gangi vegna niðurstöðu þessarar samkeppni.

    Fór dómnefndin ekki eftir samkeppnisgögnum og forsögn ?

    Ég get ekki betur séð eftir að hafa gluggað yfir keppnislýsinguna að þar komi einmitt fram að húsið skuli vera starfmanna og rekstrarlega hagkvæmt. Þetta er því stefna þeirra sem koma að forsögn hússins. Varla hægt að sakast við dómnefnd þó hún fari eftir vilja þeirra sem semja forsögnina.

    Annars bá kannski gerist það all oft að sumir keppendur í samkeppnum á íslandi leggi sig í líma við að uppfylla allar þær óskir og tilmæli sem koma fram í keppnislýsingu en svo vinnur oftar en ekki sú tillaga sem hefur farið útaf þeirri braut til hagræðingar.

    Kannski vantar meira og betra samræmi milli dómnefnda á íslandi í dag því arkitektar sem eru að gefa vinnu sína í stórum stíl vita oft ekki útfrá hverju má ganga þegar kemur að dómnefndinni í það skiptið.

  • Kári K.

    Það skiptir miklu máli um þróun byggingarlistar í landinu hvernig dómar í samkeppnum falla. Samkeppnir eru helstu gulrætur ungra arkitekta á þeirra framabraut.

    Eins og bent er á þarna þá liggur næstum fjórðungur úr æfistarfi arkitekts þarna frammi fyrir dómnefndinni. Þetta er ekki gamanmál og dómnefnd er ekki öfundsverð af ábyrgðinni.

    Á Eskifirði er greinilega eitthvað sem þarf meiri umræðu.

    Er ekki hægt að fá afstöðumynd, sneiðingar og útlit birt af 1. verðlaunatillögunni?

  • Kristín Brynja Gunnarsdóttir

    „Hönnun og skipulag Hulduhlíðar á allt að miða að því að því að skapa umhverfi og
    aðstæður sem líkjast eins og kostur er því sem fólk á að venjast á hefðbundnum
    einkaheimilum en mæta engu að síður þörfum þeirra sem hafa skerta getu til athafna
    daglegs lífs“.
    Segir orðrétt í inngangi þeim er Árni Páll Árnason félags- og tryggingamálaráðherra skrifar í samkeppnislýsingu fyrir
    hönnun hjúkrunarheimilisisn að Huldulíð á Eskifirði.

    Við byrjuðum hönnunarferlið á að spyrja okkur sjálf HVAÐ ER HEIMILI og komumst að þeirri niðursöðu að heimili er
    þéttur kjarni þar sem stutt er í sameginleg rými en hægt er að draga sig í hlé þegar þess er óskað.

    Gott HEIMILI þar sem ekki eru langir gangar og stofnanalegt yfirbragð. Langir gangar sem einna helst minna á t.d. fangelsi eða spítala.
    Ferðin verður aldrei óyfirstíganleg.

    Rými þar sem hægt er að bjóða vinum úr nærliggjandi húsum upp á kaffi í stofunni HEIMA en ekki í sameginlegu rými sem engin á og
    allir hafa aðgang að. Herbergi sem eru rúmgóð og björt, öll með útsýni þar sem hægt er að láta hugann reika um lendur minninganna á meðan
    sameiginleg rými stuðla að samveru og félagsskap.

    HEIMILI þar sem fjölskyldan hefur áhuga á að eyða brot úr degi og þar sem barnabörnin geta leikið í garðinum. Er einhver tilbreyting betri en þessi?

    Þjónustueiningin er BAKLANDIÐ sem styður við heimilin. Aðstoðin sem alltaf er nálæg. Öryggi.

    Útisvæðin með lokuðum skjólgóðum görðum, göngustígum og upphækkuðum kerjum þar sem hægt er að hvíla sig á kantinum meðan hugað er að
    morgunfrúm eða gulrótum.Yfirstíganlegt að ganga að næsta keri, setja markið hátt og
    fara framhjá fleiri kerjum næsta dag. Leiksvæði þar sem hægt er að horfa á barnabörn sín og annarra og draga til sín orku lífsins.

    Við erum stolt af tillögu okkar að hjúkrunarheimili að Hulduhlíð á Eskifirði. Við teljum okkur hafa hugsað út fyrir ramman og svarað
    óskum verkkaupa um betra HEIMILI fyrir eldri borgara. Vonandi er það vegna þessarar nálgunar sem við hlutum fyrstu verðlaun í þessari samkeppni.

    Við hvetjum fólk til að kynna sér þau gögn sem unnið er eftir við gerð húkrunarheimila í dag og skoða aðrar tillögur sem sendar voru inn í samkeppninga um hönnun hjúkrunarheimilisins á Eskifirði
    http://www.fsr.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=6048
    http://www.fsr.is/Pages/319

    Kristín Brynja Gunnarsdóttir
    fyrir hönd
    Anders Møller Nielsen
    Michael Blikdal
    SteffanIwesen og
    Þórs Tulinius

  • Helga Guðmundsdóttir

    Ég hef skoðað dómnefndarálitið þar sem farið er yfir form húsanna. Þar er einungis skoðað form grunnmyndanna og húsin flokkuð eftir þeim. (Y,H,O o.s.frv.) Ekki eftir húsformunum sjálfum eða þeirra byggingalist.

    Ég held, án þess að hafa mikla þekkingu á því, að það sé hagkvæmara að reka og betra að starfa í tillögu Einrúm arkitekta en tillögu Gests og félaga. Hinsvegar mundi ég ekki vilja sjálf búa í byggingunni sem hlaut fyrstu verðlaun eða að nokkur mér nákominn yrði vistaður þar. Frá sjónarhóli vistmannsins er Gests tillaga margfalt betri kostur.
    Samfélag 20 austfirðinga á svona heimili gæti verið góður kostur svona hugmyndafræðilega, rekstrarlega og félagslega. En að hólfa fólkið svona niður í 6-8 eininga einangraðar sellur kann ekki góðri lukku að stýra og til viðbótar að hanna svona innhverft hús.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn