Fimmtudagur 17.08.2017 - 22:20 - 7 ummæli

Hlemmur Mathöll

Það er stórviðburður í Reykjavík n.k. laugardag þegar Hlemmur Mathöll opnar.

Margir hafa átt sér draum um matarmarkað í Reykjavík. Menn hafa velt þessu fyrir sér um áratugaskeið.

Arkitektarnir Gestur Ólafsson og Kristinn Ragnarsson settu einn slíkan á stofn á árunum fyrir 1980 og ráku með miklum ágætum í hátt í áratug. Markaðurinn var í rauðum tjöldum á Lækjartorgi. Hann var opinn á föstudögum allt árið og þar var selt grænmeti og fleiri afurðir beint frá framleiðanda. Maður kom þarna iðulega við til þess að kaupa allskonar ferskt grænmeti.  Ekki veit ég af hverju þetta lagðist af. Líklegt er að það hafi komið einhver þreyta í frumkvöðlana eða að reglugerðafargan hafi náð til þeirra og lagt steina í þeirra götu eins og oft vill verða þegar skortur er á lausnamiðuðum embættismönnum. Kannski var það söluskatturinn eða einhver bókhaldsmál sem lögðu steina í götu frumkvöðlanna.

Nú á laugardaginn opnar matarmarkaður formlega á Hlemmi við Rauðárárstíg milli Hverfisgötu og Laugavegar.

Hann verður rekinn í fyrrum strætisvagnamiðstöð  sem þarna er sem teiknuð var af Gunnari Hanssyni. Húsið þótti sérlega nýstárlegt á sínum tíma og fékk menningarverðlaun DV fyrir frammúrskarandi byggingalist. Húsið er úr gleri og stáli með sérlega vönduðu leirflísagólfi. Endurhæfing hússins fyrir nýja starfssemi hefur verið á höndum Tripolí arkitekta og dóttur Gunnars Hanssonar, Helgu Gunnarsdóttur arkitekts og eflaust fleirum.

Þrátt fyrir nýja og óskylda notkun er engu raskað í grunnhugmynd hússins. Þetta er enn ein staðfesting á því að óþarfi er eð rífa hús þó starfsemi og ýmsar kröfur líðandi stundar eða tíðarandinn breytist.

Um tíma safnaðist í húsinu og næsta nágrenni ógæfufólk sem gekk gjarna undir nafninu „Hlemmarar“.  Húsið fékk óorð á sig og þótt slæmt. Margir vildu rífa þetta fína hús og sögðu það ljótt sem það var aldrei.  Ég á von á að þetta eigi eftir að breytast þannig að Hlemmarar verði samheiti yfir matgæðinga og að menn eiga eftir að verða sammála um að húsið er fallegt.

Ég kíkti við þarna í dag og varð mjög ánægður. Þetta er allt fyrsta flokks og byggir nokkuð á hugmyndum, hvað hönnun snertir, frá Torvehallerne í Kaupmannahöfn sem reknar hafa verið þar í borg um nokkurt skeið. Staðsetningin er líka frábær við Borgarlínuna eins og hún var kynnt í aðalskipulaginu AR2010-2030. Staðsetningin mun líka styrkja Laugarveginn sem göngugötu og skapa pól á móti Kvosinni og Ingólfstorgi.

Þarna koma nokkur fráðbær fyritæki sem sýsla með mat.

Ég nefni Kröst grill og vínbar, Jómfrúna með smurt brauð, skemmtilega lifandi ísgerð sem heitir því skemmtilega nafni Ísleifur Heppni, handverksbakarí og margt fleira. Svo má ekki gleyma hinu framúrskarandi Borði sem við Vesturbæingar þekkjum af Ægisíðu 123 og framleiðslu þeirra á mat í hæsta gæðaflokki.

Fyrir utan húsið koma sölubásar af svipaðri gerð og þeir Festur og Kristinn ráku fyri 30-30 árum ef ég skildi rétt.

Það er synd að húsnæðið skuli ekki vera stærra. Það hefði hiklaust getað verið þreföld þessi stærð.

Til hamingju Reykjavík.

Sjá einnig:

Nokkuð hefur verið fjallað um matarmarkaði í Reykjavík hér á vefnum undanfarin ár. Hér er slóð að nokkrum þeirra:

http://blog.dv.is/arkitektur/2015/01/26/matarmarkadur-vid-midbakka/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/10/06/matarmarkadur-vid-reykjavikurhofn/

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/12/15/harpa-matarmarkadur-hus-folksins/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/10/14/fiskimarkads-tilraun-i-reykjavik-2010/

 

Ísleifur heppni framreiðir ís með nýstarlegum hætti.

KRÖST er að mér skilst grill og vínbar.

Hér kemur Jómfrúin sem selur mat útúr húsinu líkt og Borðið. Það verður gott að koma þarna við, fá sér vínglas, og kaupa inn í kvöldmatinn áður en maður hoppar upp í Borgarlínuna á leið heim.

Mathöll við Hlemm

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Steinarr Kr.

    Ég var að vona meira eftir „streetfood“ en víni í kristalsglösum, þannig að þetta voru smá vonbrigði fyrir mig.

    Sumir staðirnir eru of stórir miðað við stærðina á húsinu.

  • Jón Guðmundsson

    Þetta lofar vissulega góðu. En hvað með þessa margrómuðu bættu þjónustu við farþega almenningsflutningakerfisins? Meiga þeir vera þarna áfram og bíða í hlýjunni eftir Strætó?

  • Magdalena

    Ég er með KRÖST, vínbar og grill. Einar Ólafs er með Ísleif heppna og svo er líka arkitekt einn af eigendum Skálar.

  • Magdalena

    Þetta er einstaklega spennandi og verður vonandi lyftistöng fyrir þennan hluta miðbæjarins. Þess má geta að það koma enn fleiri arkitektar að Mathöllinni, það eru a.m.k. þrír arkitektar sem eru hluti af eigendateymi á stöðunum þarna og hafa séð um hönnunina á sjálfum básunum, ég sjálf meðtalin. Skemmtileg tilviljun, eða kannski ekki? 🙂

    • Hilmar Þór

      Gaman að því Magdalena.

      Til hamingju.

      Ég hafði hugboð um að söluaðilar hafi ráðið hver sinn arkitekt til að teikna sinn bás. Enda sér maður það strax.

      Hvaða bás teiknaðir þú og veist þú hvaða aðrir arkitektar komu að þessu?

  • Helgi Helgason

    Ég hef aldrei hugleitt þetta með borgarlínuna niður Hverfisgötu og hvernig Hlemmur Mathöll getur styrkt Laugaveg sem göngugötu. Það er mjög athyglisvert vegna þess að ég sný oftast við á mótum Barónsstígs og labba niðureftir aftur.

    Gott mál.

  • Guðbjörg

    Það verður spennandi að sjá þetta á Menningarnótt.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn