Miðvikudagur 24.11.2010 - 16:03 - 4 ummæli

Höfnin í Kaupmannahöfn

Höfnin í Kaupmannahöfn hlaut slæm örlög.  Hún er nú einhvers konar bryggjuhverfi án skipa. Þar sem höfnin var áður eru nú  menningarhús, stjórnsýsluhús, skrifstofur og eitthvað af lúxus íbúðablokkum.

Þegar ég bjó í Kaupmannahöfn var hún iðandi af lífi. Brýrnar Langebro og Knippelsbro gengu upp og niður allan daginn. Nýhöfn skiptist í “den pæne side” og “den anden side” På den anden side voru knæpur, rónar og gleðikonur. På den pæne side var einn besti veitingastaður bæjarins, listaskálinn Charlottenborg og Konunglega danska Listaakademían.

Vandamál hafnarinnar í Kaupmannahöfn var fyrirséð. Miklar umræður voru um hvað gera skyldi þegar vöruflutningar hafnarinnar voru aflagðir. Til hvers átti að nota pakkhúsin og hvernig skildi byggja í skörðin? Hvaða starfsemi ætti að vera þarna?  En umræðan náði ekki til borgarbúa og var einangruð í tiltölulega litlum hópi. Margar greinar voru skrifaðar í fagtímaritin. Arkitektarnir Jörn Utzon, prófessor Tobias Faber og prófessor Halldor Gunnlögsson voru meðvitaðir um þetta og lögðu mikið til málanna en umræðan náðist ekki á flug.

Í raun var ástandið verra í Kaupmannahöfn en Reykjavík vegna þess að þar var ekki  fiskiskipahöfn að marki heldur  flutningahöfn, farþegaskipahöfn og höfn sjóhersins.

Byrjunin á hnignun hafnarinnar í Kaupmannahöfn gerðist þegar ráðuneytin voru byggð þar og í grenndinni. Hin rómaða bygging “Den sorte Diamant” sem var byggð skömmu fyrir síðustu aldarmót bætti ekki ástandið. Eftir það komu íbúðahús á borð við hin svokölluðu bryggjuhverfi á höfuðborgarsvæðinu, skrifstofubyggingar, Óperuhús Hennings Larsen o.fl.

Efst er gamalt málverk sem sýnir höfnina og áhugasamt fólk sem fylgist með skipaferðum.

Þeir sem vilja kynna sér þróunina í Kaupmannahöfn sérstaklega er bent á bókina “Byliv og Havnefront” eftir Nicolai Carlberg & Sören Möller Christiansen sem gefin var út af Köbenhavns Univeristet í samvinnu við Museum Tusculanums Forlag árið 2005

Fyrir dyrum stendur að byggja þarna enn eitt kúltúrhúsið “Bryggehuset“. Húsið er hannað af stjörnuarkitektinum Rem Koolhas sem  segir að byggingin sé innblásin af sögulegri skírskotun. Húsið hefur form sem minnir á stæður af skipagámum. Þess ber þó að geta að á þessu svæði var aldrei gámahöfn. Den Sorte Diamant eftir SHL er fjær og Brygghuset eftir REM nær.

Ný hús og gamlar byggingar í Cristianshavn mætast

Nýbyggingar í Sluseholmen

Gamlar búðir sem áhugamenn um báta og viðhald þeirra hafa notið sín um áratuga skeið. Nú er þessi tómstundastarfssemi víkjandi.

Nýbynningar við höfnina

Óperuhús Hennings Larsen

Den Sorte Diamant eftir SHL. Það glittir í gömul pakkhús frá tíma Christian 4.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Hilmargunn

    Manni finnst eins og Norðmenn standi vel að bryggjuhverfunum sínum víðast hvar, enda er mikið um smábáta og hobbý veiðar þar allt um kring. Siglingar eru þar veigamikill hluti af kúltúrnum en ekki er hægt að segja það sama um DK. Því er kannski eðlilegt að hlutirnir hafi þróast í þessa átt hjá þeim.

    Höfnin í Árósum er að stefna í sömu átt með uppbyggingu á þessu Lighthouse projekti. Hinsvegar hef ég séð í akademískum verkefnum meira contextual tillögur sem miða að því að tvinna saman sjósæknu aktíviteti og borgarmenningu.

    Hafnarlíf í þeirri mynd sem þú bendir á úr fortíðinni þrífst ekki nema fyrir því sé áhugi og fjárhagslegur ávinningur. Árósar tóku meðvitaða ákvörðun um að byggja upp bæinn sem hafnar og háskólabæ og það varð að veruleika.

    Það er fátt rómantískt við þessi risaskip og gámahafnir sem við sjáum í dag. Menn forðast að setja svoleiðis niður við miðbæjarhafnir bæði vegna umfangs og mengunar. Hafnarfjörður er uppi með áætlanir um mestu uppskipunarhöfn landsins út við Straumsvík sem mun þýða stóraukna bílaumferð og mengun, sitt sýnist hverjum um hugmyndir þær. Það myndi hinsvegar liðka til fyrir annarskonar hafnarlífi við miðbæ Hafnarfjarðar. Annars er ekki hægt að klappa húrra fyrir byrjunar tilþrifum Hfj við norðurbakka Hafnarfjarðarhafnar. Þvílíkt umhverfisslys.

    Það er vel hægt að segja að tækniframfarir við matvælavinnslu hafi breytt höfnunum okkar hvað mest. Nú er vinnslutækin um borð svo öflug, sem og frystilausnirnar að bátarnir þurfa ekki að landa eins oft. Að sama skapi hafa smábátarnir tapað tilverurétti sínum í kjölfarið.

    Út frá mínum bæjardyrum séð væri líklegasta leiðin til að auðga aktívitet smárra báta við miðbæjarhafnir á Íslandi, að breyta kvótakerfinu og við vitum að það er ekki að gerast.

    Ég tókst á við hafnarverkefni í mínu mastersverkefni og eitt af markmiðum þess verkefnis var að beina sjónum að uppfræðslu og ræktun á vistkerfi staðarins. Hugsanlega yrðu þessi prýðilegu hús við dönsku höfnina enn áhugaverðari ef þau hefðu brugðist við náttúru og nærumhverfi hafnarinnar á uppbyggjandi hátt?

  • Hilmar Þór

    Þegar ég tala um “vandamál” hafnarinnar þá á ég kannski frekar við fyrirséð “verkefni” hafnarinnar sem lútir að því að færa henni nýtt hlutverk sem hentar staðnum og sögu hans.

    Það er rétt að bæta því við að sennilega er best heppaði staður hafnarinnar Islands Brygge. Það svæði var illa statt þar til að íbúar tóku það í sínar hendur og útbjuggu bráðabirgða garð, “Havneparken”. Síðar var hann endurbyggður og byggt við hann “Havnebadet” sen rúmar eina 600 baðandi gesti. Þetta er líflegasta svæði hafnarinnar og er morandi í mannlífi síðdegis á góðviðrisdögum enda liggur Islandsbrygge vel við sól. En þetta er ekki „hafnarstarfssemi“, frekar einskonar útivistar lunga borgarinnar.

  • Var ekki höfnin í Kaupmannahöfn dæmd úr leik þegar ákveðið var að byggja aðalgámahöfn landsins upp í Árósum en ekki þar? Árósar hafa líka verið mun eðlilegri valkostur fyrir tíma brúa og jarðganga undir sund og belti.
    Mér finnst endurnýting hafnarsvæðisins í Kaupmannahöfn ekki hafa tekist vel. Það er ósköp dautt yfir þessu svæði alla jafna. Var þarna á ferð í haust og þurfti af vissum ástæðum að fara talsvert um Christianshavn og dvelja þar dálítið. Vissulega setti gráveður árstímans sinn svip á svæðið þá og það er hýrara yfir því að sumarlagi, en þetta lítur samt sem áður ekki út fyrir að vera vinsæll vettvangur fólks. Töluvert af nýja atvinnuhúsnæðinu þarna stóð reynar autt. Það mun stafa af efnahagserfiðleikum samtímans og lagast vonandi. Um fegurð húsa og umhverfis má endalaust deila. Hér voru þó a.m.k. ekki byggð háhýsi beint upp af vatnsfletinum. Margt í hönnun húsanna er vel af hendi og huga leyst. En heildin er sviplaus og fremur óaðlaðandi.

    Æ, það er alltaf eitthvað svo dauðadæmt þegar menn reyna að halda dauðahaldi í eitthvað sem er farið sinn veg. Hvað þá þegar reynt er að skírskota í eitthvað sem aldrei var.

  • stefán benediktsson

    Ég er ekki alveg að átta mig þegar þú talar um „vandamál hafnarinnar“. Höfnin tapaði í samkeppninni við Gautaborg um gámaflutninga. Það er eitt vandamál sem ekki hefði verið hægt að leysa nema með miklum landfyllingum í „den“ til að skapa pláss fyrir voða mikið af gámum. Af því að þessu verður ekki breytt hlýtur þú að vera að tala um uppbygginguna sem eins og svo oft, þar sem „við“ komum að, samanstendur af flottum húsum sem eru einhverra hluta vegna ekki að „skapa“ umhverfi eða svoleiðis. Svo má líka líta á það þannig að við verðum oft blórabögglar fyrir fálmkennd vinnubrögð yfirvalda. Gamla myndin bendir afar augljóslega til þess sem vantar til að fólk gangi um bryggjurnar. Skútuklúbbarnir við Strandvejen þurfa að fá tilboð sem þeir ekki geta hafnað um að flytja aðstöðu sína á hafnarsvæðið svo „folk har noget at se paa.“

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn