morgun, fimmtudag, verður haldinn fundur á vegum Torfusamtakanna þar sem fjallað verður um Reykjavíkurhöfn milli Hörpu og Sjóminjasafnsins. Nokkur óvissa ríkir um þetta svæði og nærliggjandi reiti.
Undanfarna áratugi hefur átt sér stað umbreyting hafna í allri Evrópu og víðar. Enginn annar staður í borgarlandslaginu hefur tekið jafn miklum og hröðum breytingum og hafnarsvæðin.
Flutningagámar, þjónusta skipa og útgerða, kranar, ferjubryggjur og verksmiðjur eru á brott. Fólksflutningar á sjó hafa líka minnkað eftir að flugsamgöngur jukust og bifreiðaeign landsmanna varð almennari.
Við þessa breytingu losnaði mikið land á hafnarsvæðum sem þurfti að finna annað hlutverk.
Í stað bygginga sem þjónuðu höfnunum og skipunum hafa víða komið íbúðir, höfuðstöðvar stórfyrirtækja, hótel og menningarbyggingar.
Skipum og bátum hefur fækkað og sumstaðar nánast horfið.
Spurningum á borð við, hvernig á að nota gömlu hafnarsvæðin, hafa vaknað? Hversu mikið á að byggja? Fyrir hverja á að byggja? Eða á eitthvað að byggja? Þessar spurningar hafa ekki verið í almennri opinni umræðu.
Hér, eins og stundum áður, virðist atburðarásin hafa tekið völdin. Einhver smáskammta- eða bútasaumsþankagangur virðist hafa verið ríkjandi.
Sú borg sem ég þekki best til, Kaupmannahöfn, hefur farið afar illa út úr endurmótun hafnarsvæðanna. Nú er svo komið að það sjást ekki skip í gömlu höfninni sem hefur verið afhent stórfyritækjum, hótelum, menningarhúsum, lúxusíbúðum og þ.h. Byggingarnar á ”kajanum” hýsa ekki hafnsækna starfssemi eða þjónustu sem tengist höfninni eða sjónum. Einstaka plastbátur og bátar með túrista í skoðunarferð sjást í höfninni.
Höfnin við Sundið er dauð. Þarna er ekki höfn heldur „Waterfront“.
Spurningin er hvort ástæða sé til þess að óttast að Reykjavíkurhöfn sé að stefna í sömu átt og Kaupmannahöfn og aðrar svipaðar borgir? Í átt að Waterfront án skipa? Vilja borgarbúar að sú þróun verði ofaná hér í Reykjavík? Viljum við höfn sem miðuð er við ferðamenn og bissnissmenn eða viljum við að höfnin verði hluti af daglegu lífi borgarbúa með smábátaútgerð og fiski- og matarmörkuðum ætluðum neytendum, svo dæmi sé tekið? Eða er hægt að blanda þessu öllu saman?
Eru ekki einhver eftirsóknarverð gæði í því fólgnar að hafa virka hafnarstarfsemi við miðborgina?
Er strandlengja Íslands ekki nógu löng fyrir lúxushótel, höfuðsetur stórfyritækja og byggingar af þeim toga?
Svona vangaveltur eiga erindi á fund um höfnina og vonandi verður maður einhverju nær á morgunn. Þetta er mál sem skiptir alla Reykvíkinga máli.
Það er ánægjulegt þegar grasrótarsamtök á borð við Torfusamtökin boðar til fundar og hafa frumkvæði að umræðu um þetta viðkvæma mál.
Maður skynjar að það sé að byrja betri og opnari umræðuhefð hér á landi um skipulagsmál en tíðkast hefur. Skipulags- og byggingasvið Reykjavíkur hélt fyrir nokkrum misserum almenna fundi þar sem sérstaklega var óskað eftir málefnalegri gagnrýni. Vesturbæjarráð Reykjavíkur hefur átt frumkvæði að fundum með íbúum hverfisins þar sem skipulagsmál á frumstigi voru til umræðu. Það er ástæða til að halda að umræðan sé að breytast eftir áratugaskeið þar sem þeir sem voru í einhverjum vafa um stefnu í skipulagsmálum borgarinnar voru litnir hornauga og umræðan var nánast lokuð í þröngum hópum. Þá var skipulagið kynnt þegar vinnunni var lokið. Svona virðist þetta ekki vera lengur. Ágætt dæmi er forkynning á skipulagi Landspítalans við Hringbraut. Þar er skipulagið kynnt rækilega á vinnslustigi og borgarbúum gefinn kostur á að segja sitt álit og hafa áhrif. Þetta er ánægjuleg og skynsamleg breyting frá því sem áður var.
Líklegt er að skortur á opinni og málefnalegri umræðu hafi bitnað á borgarskipulaginu undanfarna áratugi.
Nú er öldin önnur. Það er beinlínis vel séð að fólk blandi sér í umræðuna og láti í ljós vonbrigði sín eða velþóknun eftir atvikum.
Það verður því spennandi að heyra umræðurnar á fundinum annað kvöld sem hefst kl 20.00 á Cafe Haiti, Tryggvagötu 16 niður við Reykjavíkurhöfn.
Iðandi mannlíf í Reykjavíkurhöfn fyrir örfáum áratugum.
Reykjavíkurhöfn í deiglu
Í skipulagstillögunni að ofan er lagt til að nánast ný byggð komi á milli gamla miðbæjarins og Reykjavíkurhafnar. Það er eins og fleygur komi vestan úr Faxaflóa sem er rekinn milli Gömlu hafnarinnar og gamla miðbæ Reykjavíkur.
Að neðan er svokallað Mýrargötuskipulag.
Hér að neðan eru slóðar að nokkrum pistlum sem birst hafa hér á vefnum um Reykjavíkurhöfn og hafnir almennt undanfarið:
Reykjavíkurhöfn:
http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/11/18/reykjavikurhofn/
Framtíð Reykjavíkurhafnar:
http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/11/26/framtid-reykjavikurhafnar/
Höfnin í Kaupmannahöfn:
http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/11/24/hofnin-i-kaupmannahofn/
Þórshöfn í Færeyjum:
http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/11/29/thorshofn-i-faereyjum/
Mýrargötuskipulagið:
http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/08/15/reykjavikurhofn-myrargotuskipulagid/
Markaður við Reykjavíkurhöfn
http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/10/06/matarmarkadur-vid-reykjavikurhofn/
Fiskimarkaður við Reykjavíkurhöfn
http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/10/14/fiskimarkads-tilraun-i-reykjavik-2010/
Vonandi hefur Hjálmar með sér staðarandann, í verki:-)
En ég er alveg sammála Elínu. Hvað kikk fá menn út úr því að kyrkja staðar-andann og husla svo líkið í mölina?
Og sammála Páli, látum spriklandi þorsk og ýsu sjást og heyrast því sumir segja að fiskurinn hafi fögur hljóð.
Náum einhverri tengingu við lífið, slippinn, bátana og fiskinn.
Sigurbjartur og fl.
Þetta er dagskráin samkvæmt fésbókarsíðu Torfusamtakanna. :
http://www.facebook.com/#!/event.php?eid=267830913253946
Dagskrá:
Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi kynnir hugmyndir um breytingar á deiliskipulagi.
Magnús Skúlason, arkitekt kynnir athugasemdir frá Vitafélaginu og íbúum á svæðinu.
Opnar umræður
Spennandi àtti ad standa
SpeNandi, en hverjir eru frummælendur à fundinum à morgun?
Upplýsingar fengnar hjá Hagstofu Íslands http://hagstofan.is/Hagtolur/Sjavarutvegur-og-landbunadur/Afli-og-verdmaeti og á Fiskistofu má sjá að Reykjavík er einnig með mestan hlut aflaheimilda miðað við þorskígildistonn http://www.fiskistofa.is/umfiskistofu/frettir/nr/586
Flottar tölur hjá Páli. Sammála honum!
Ekki hafði ég hugboð um að Reykjavík væri einn stærsti útgerðabær landsins fyrr en nú. Vonandi eru þetta réttar tölur hjá Páli þó ótrúlegar séu.
Á höfuðborgarsvæðinu (Hafnarfj+Reykjavík) er um 25% af bolfiskafla þjóðarinnar landað og í Reykjavík er landað 10% af þorskaflanum, 9% af ýsunni, 29% af ufsanum, 47% af karfanum eða í stuttu máli þá er Reykjavík ein mikilvægast löndunarhöfn landsins. Er ekki kominn tími til að láta það sjást og heyrast að sjávarútvegurinn skiptir líka máli í Reykjavík.
Vil að slippurinn standi, það er nefnilega svo huggulegt að sjá skip í slipp við höfnina, frábær borgarbragur á því
Sammála Elínu, það var mikið slys að missa Daníelsslipp, og Stálsmiðjan fer víst brátt með sína starfsemi burt líka. Væntanlega hefur þessi starfsemi ekki þótt nógu fín fyrir fína fólkið sem átti að laða að hafnarsvæðinu. Og grátbroslegt að lesa athugasemdir borgarminjavarðar í greininni sem Elín tengir á, og lýsir kannski vel hugsunarhættinum. Það er svosem gott og blessað að varðveita slippsvæðið, en án starfseminnar er svæðið svo gott sem dautt.
„Spurningum á borð við, hvernig á að nota gömlu hafnarsvæðin, hafa vaknað?“
Það væri óskandi að þessum spurningum hefði verið svarað áður en blómlegum fyrirtækjum var skipað á brott.
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=284891&pageId=4143779&lang=is&q=Gunnar%20Richter
Harpan, luxushótel, World Trade Reykjavík og höfuðstöðvar Landsbankans eru fyrirhugaðar í Austurhöfninni! Eru þessi hús háð staðsetningu við höfnina?