Þriðjudagur 17.11.2009 - 23:47 - 5 ummæli

Högna Sigurðardóttir.

Á Kjarvalsstöðum stendur nú yfir sýning á nokkrum vel völdum verkum Högnu Sigurðardóttur arkitekts.

Líkan á sýningu á Kjarvalsstöðum. Hér er „Hafsteinshús“ við Bakkaflöt í Garðabæ.

 

Þetta er mjög áhugaverð sýning á helstu verkum eins af færustu arkitektum Íslands. Einungis verk hennar á Íslandi eru þarna til sýnis en verkum t.d. í Frakklandi er ekki gerð skil  að þessu sinni.

 

 

 

Verk Högnu bera slík höfundareinkenni að það dylst engum hver hélt þar á blýantinum og gyldir einu hvort horft er á grunnmyndir, efnistök, form eða  funktion.

 

Grunnmyndir húsanna eru sérlega áhugaverðar aflestrar og efnistök einstök og mjög íslensk. Sennilega er Högna ”íslenskastur” allra íslenskra arkitekta þrátt fyrir að hafa búið fjarri föðurlandinu alla sína starfsævi.

 

Manni dettur í hug hús Jörn Utzons á Mallorca þar sem efnistök eru sprottin úr umhverfinu með eftirtekarverðum hætti á Miðjarðarhafseyjunni. Utzon er spánskari en nokkur spánverji í sínum arkitektúr. Það er samsvörun milli verka danans Utzons og íslendingsins Högnu á fleiri sviðum.

 

Sumarbúðir fyrir Landsbankann við Álftavatn í Grímsnesi frá árinu 1964, sker sig úr verkum á sýningunni vegna þess að það er eina verkið sem ekki er í skipulagðri borgarbyggð. Í tillögu sinni að bygggðinni er skipulagið meginverkefnið og lausnin helstu gæði verksins. Híbýlin standa þétt þannig að opin svæði verða meiri. Bílum er ekki hleypt inn á svæðið og húsin fléttast inn í landslagið.  Náttúran hefur forgang.

 

Ég hef stundum farið á málþing þar sem fjallað er um verk einstakra listamanna.  Það sem einkennir þau er að framsögumenn mæra listamanninn eins og hann eigi stórafmæli.  Það liggur stundum við að manni finnist menn vera að lesa upp úr minningargreinum. Mærðin er svo mikil.

 

Það örlar ekki á spurningum eða efasemdum um nálgun eða hugmyndir listamannanna.

 

Á laugardag var málþing um verk Högnu Sigurðardóttur. Þar voru flutt fjögur ágæt erindi sem voru bæði skemmtileg og fróðleg, en voru sama marki brennd hvað mærðina varðar.

 

Ég hefði viljað fá umfjöllun um nánast það eina sem mér finnst orka tvímælis í verkum Högnu. Það eru steypt húsgögn í híbýlum fólks. Það er auðvitað í lagi að steypa húsgögn í hotel eða hús þar sem starfsemin er mjög vel skilgreind og fólk staldrar stutt við.

 

En þegar kemur að híbýlum orkar það af ýmsum ástæðum tvímælis að hafa húgögn föst og jafnvel steinsteypt þó það henti vissulega sumum.

 

Arkitektar eiga að skapa ramma um líf fólks en ekki að ákveða hvernig líf þess á að vera. Það þarf að skapa svigrúm þannig að mæta megi duttlungum einstaklingsins sem þar býr. Það þarf að vera rými til að fullnægja eignagleðinni og fyrir erfðagripi m.m.

   

Þetta er eitthvað sem ég hefði viljað fá umfjöllun um á málþinginu á laugardag. Þessi hugmynd um föst húsgögn eiga sér auðvitað skýringar sem ég hefði verið þakklátur fyrir að heyra umfjöllun um.

 

Þó ég segi þetta hér má ekki skilja það sem svo að ég sé að kasta rýrð á verk Högnu.

 

Ég er þess fullviss að ég er alls ekki síðri aðdáandi Högnu Sigurðardóttur en þeir sem þarna töluðu. Þessi hugleiðing leitar bara á mig og ég hefði viljað fá umfjöllun um þetta og fl. á málþinginu.

 

Ég mæli eindregið með sýningunni sem er opin til 31. janúar 2010.

 

Lesa má að húsið við Bakkaflöt sæki í íslenska torfbæjinn. Þarna er útsýni lítið en birtan innandyra mikil og henni stýrt.

Íslenski torfbærinn að Keldum

 

Orlofsbúðir Landsbankans við Álftavatn í Grímsnesi er það besta skipulag sem ég hef séð af þessum toga hér á landi

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Rúnar Ingi

    http://www.heimaslod.is/index.php/Búastaðabraut_11

    Hér eru teikningar af fyrsta húsi sem Högna Sigurðardóttir teiknað o
    g reist var í Vestmannaeyjum 1960-61

  • Árni Ólafsson

    Það var mikill munur á Bjarnalaug á Akranesi, þar sem ég lærði að synda, og nýju (gömlu!) sundlauginni á Rútstúni í Vesturbænum í Kópavogi. Annars vegar fastmótuð samhverf bygging, að sumu leyti í ætt við Sundhöllina við Barónsstíg enda gerð af Guðjóni sjálfum – en hins vegar ótrúlegt og spennandi völundarhús með óvenjulegum og nýtískulegum lausnum. Á þessum árum um og upp úr 1970 var sundlaugin í Kópavogi að vísu í bráðabirgðabúningi í fyrsta áfanga stórbyggingarinnar sem kom síðar. En hún var ákveðinn snertiflötur við framsækna nútímabyggingarlist – innan um alla meðalmennskuna.

    Í nágrenninu voru einnig tvö sérstök hús, annað við Hrauntunguna í Austurbænum og hitt við Sunnubraut og það var á allra vitorði hver hönnuðurinn var. Háfgerð huldukona, sem hefur notið aðdáunar minnar og virðingar alla tíð síðan á unglingsárunum.

    Það var ánægjulegt að fylgjast með því þegar Högnu var veitt heiðursorða Sjónlistar hér fyrir norðan 2007 og full ástæða til þess að hún fái að vita það og finna að við kunnum að meta þau kennileiti sem hún hefur reist í íslenskri byggingarlist.

  • Gaman væri ef Högna sjálf myndi tjá sig meira um sína eigin byggingarlist, rétt að koma þessu að.

  • Ákveðin mærð er kannski óhjákvæmileg á svona stundum, Högna sjálf var viðstödd og hún er orðin öldruð kona. Íslendingar hafa ekki farið vel að ráði sínu gagnvart Högnu (nema örfáir prívat-einstaklingar) svo hún á það inni að henni sé heiðursvottur sýndur.

    Það sem mér var efst í huga á þessu málþingi er hvað þessi fundar- eða fyrirlestrasalur á Kjarvalsstöðum er óheyrilega frumstæður. Ég sá ekki nema sirka efsta fjórðunginn af myndunum sem varpað var upp á vegginn og heyrði illa það sem sagt var (ekki síst vegna þess að fólk var að brjóta sér leið inn á málþing þetta í heilar 40 mínútur eftir að það hófst með tilheyrandi troðningi, pískri og stólaglamri).

    Fundar- eða fyrirlestrasalurinn í Hafnarhúsinu er líka mjög frumstæður að því leytinu til að hlutföllin/aðstaðan er langt frá því að vera heppileg til að varpa upp myndum (hvort sem er videomyndum eða kyrrmyndum). Ég forðaðist þennan stað eins og heitan eldinn á RIFF hátíðinni (sumar myndirnar voru sýndar þar) og svo var um mjög marga sem ég þekki.

    Bæði þessi lóköl eru hönnuð utan um hinar sjónrænu listir og skrítið að það skuli ekki hafa verið hugsað til þess að gera fundar- eða fyrirlestrasalina þannig úr garði að þeir fúnkeri þokkalega sem sýningaraðstaða. Hinsvegar er mikil alúð lögð við kaffiteríu-aðstöðu.

    Kannski það hafi ekkert verið minnst á þetta atriði í verklýsingu.

  • Jóhann Guðmundsson

    Kemur færslunni óbeint við –

    Bjarke Ingels á TED, frábærar hugmyndir þarna á ferð. Nema Landsbankabyggingin…

    http://www.ted.com/talks/lang/eng/bjarke_ingels_3_warp_speed_architecture_tales.html

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn