Mánudagur 18.10.2010 - 22:29 - 24 ummæli

Höll sumarlandsins

Sumarhús voru upphaflega hugsuð sem athvarf borgarbúa úti á landi. Staðir til hvíldar frá annríki borganna.  Sumarhúsin voru oftast lítil í byrjun og illa búin miðað við hvað við þekkjum í dag. Menn byggðu sumarbústaði sína að mestu með eigin höndum. Lítil vinna var aðkeypt. Bygging hússins var hobby í sjálfu sér og hluti af útivistar- og samvinnuverkefni fjölskyldunnar.

Fólk fór í sumarbústaði til þess að breyta um lífsstíl í frítíma sínum. Fólk naut náttúru og útivistar sem ekki var á boðstólnum í borginni. Útivist var stunduð með göngutúrum, fjallgöngum og ýmiskonar basli við trjárækt, viðhaldsverk og veiðiskap. Fólk var í útivistarfötum og allar athafnir byggðust á andstæðu þess sem geriðist í bænum. Fólk gerði aðra hluti í sveitinni en í borginni. Það var einmitt það sem sóst var eftir.

Nú hefur þetta breyst þannig að fólk byggir nú sumarhús sem eru ekki mjög frábrugðin heimilum þess í borginni. Húsin eru stærri, vandaðri með hita og rafmagni þannig að þau eru nothæf allt árið um kring.  Allur frágangur er þannig að  manni finnst maður varla vera í sveitinni. Í raun eru sumarhús nútímans lítil einbýlishús sem eru byggð á stórum lóðum úti á landi. Fólk gerir orðið sömu hlutina í sumarbústaðnum og í borginni. Það er horft á sjónvarp og það er nettenging. Viðhaldsverkin eru minni og nánast öll vinna er aðkeypt.

Munurinn á sumarhúsalífinu og borgarlífinu er orðinn minni en áður.

Hér fylgja nokkrar myndir sem birtar hafa verið á arkitektúrsíðunni DECODIR.com. Þær sýna sumarhús í Fljótshlíðinni. Húsið er teiknað af Guðmundi Jónssyni arkitekt. Þarna er margt spennandi og velútfært sem vert er að skoða, smátt og stórt. Ríkjandi byggingarefni er steinsteypa, gler og timbur. Það vekur athygli hvað húsið er “fótogent”, myndast vel. Þarna eru margir spennandi vinklar sem heillað hafa ljósmyndarann. Út um glugga er fagurt útsýni yfir grundir og til Vestmannaeyja. Sumarbústaðirnir neðar í brekkunni hvila fallega í landslaginu en líta samt út eins og hjálegur í samanburði við hús Guðmundar.

Einhvernvegin virðist manni andrúmsloftið í húsinu ekki vera fyrir fjölskyldufólk. Frekar fyrir gesti. Stofan líkist meira hóltelobbyi eða Saga Lounge í Leifsstöð, en heimili í sveitinni. Ég er ekki viss um hvort tekist hafi að fanga andrúm sveitarinnar þarna í stofunni. Ég hef aldrei í þetta hús komið og vona að þetta sé röng ályktun hjá mér. En þetta er að líkindum það andrúm sem verkkaupi hefur óskað eftir og arkitektinn fullnægt.

Slóðin er þessi:

http://www.decodir.com/2010/03/casa-g-vacation-house-design-by-gudmundur-jonsson/

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (24)

  • have you ever tried avast antivirus before?

  • Stefán Steinsson

    Flott að hafa Þríhyrning í baksýn sbr. seinustu myndina. En ekki datt mér í hug að kindin væri uppstoppuð. Þetta er jú í sveit.

  • You can edit audio files with audacity.

  • Ég get ekki séð annað en að þetta falli eins vel að umhverfi sínu og hver annar bústaður, þannig séð. Stendur eins og klettur. Fólk á almennt erfitt með að hugsa út fyrir steretýpuna af sumarbústað.

    Margir virðast sammála um að íslensk náttúra og samfélag sé fullt af andstæðum. Þetta verkefni fellur vel að þeirri hugmynd.

  • Ég sé fyrir mér einhverja vel hífaða gellu í aðþrengdum kjól og í háhæluðum skóm með rauðvínsglas í hendi.

    Hvernig ætli sé að sitja þarna í sófanum undir átta metra háu yfirslúttandi bjarginu?

    þarf ekki líka að malbika þarna í kringum húsið?

  • Guðmundur

    Rolluskjátan á fyrstu myndinni hafði slík áhrif á mig að ég las þetta fyrst sem „…steinsteypa, gler og gimbur. „

  • Páll Kári

    Ekkert að því að útbúa sér sumarhöll ef maður „á“ næga peninga. Flottar útfærslur þarna og detailar. Kannski ekkert rosalega cosy en engu að síður flott !

    Aftur á móti finnst mér útlitið ekki alveg vera að gera sig og hvað þá á þessum stað. Hvað er eiginlega málið með Forsetasvalirnar !

  • Árni Ólafsson

    Er þetta byggingarlist fyrir lengra komna?
    Flott og vel útfært 2007-hús á röngum stað – eða hvað?
    Kannski gott dæmi um nauðsyn endurmats ákveðinna gilda – og pælinga um staðinn og staðarvitundina sbr. bloggið hér um daginn.
    Annars finnst mér sauðurinn á svölunum með ósýnilega handriðinu toppurinn. Enda sauðir ekki lofthræddir.

  • Svo spyr maður um staðarvitundina? Hér sér maður að hún er ekki eingöngu formlegs eðlis eins og þegar fjallað var um Þingvelli fyrir nokkru. Hægt að tala um félagslega eða huglæga staðarvitund. Kannski líka einhverskonar staðarvitund í vistvænum skilningi?

    Það er margt hægt að skoða og skilgreina í byggingarlistinni.

  • Þorvaldur Á

    Ég er ekki viss um að það sé rétt hjá HRÖNN að hljómburður sé slæmur þarna. Veggurinn með standandi klæðningunni er ábyggilega með miklu ísogi þannig að það er vel hægt að tala saman í húsinu.

    Jú jú hljómburður er kenndur í öllum betri arkitektaskólum. Byggingarnar og rými teikna sig með birtunni og hljómburðinum. Það vita allir arkitektar sem eitthvað kunna fyrir sér.

  • Steinar Þór

    Eitt af fáum bloggum sem ég hef virkilega gaman af að lesa. Þessa upplifun hefur maður fundið í sumum sumarbústöðum þar sem maður hreinlega veit ekki hvort maður sé staddur í sveitinni eða borginni þegar farið er að rökkva á kvöldin.

    Ég væri líka spenntur fyrir því að heyra hvað þér þykir vel heppnaðir sumarbústaðir og jafnvel sjá dæmi um slíkt. Það er væntanlega hægt að hanna nýjan og fallegan ,,sumarbústað“ sem samt er í þeim heilsársstíl sem flestir þessara bústaða eru í dag.

  • Dálítið í takt við tíðarandann og græðgisvæðinguna. Grár Guccifílingur:(

  • Það sem mér kemur fyrst í hug er að þarna er væntanlega hryllilegur hljómburður eða hljóðvist. Í allt of mörgum nýjum húsum sem maður kemur inní bergmálar eins og í tómri tunnu og það er eins og arkitektum komi ekkert við hvort lífvænlegt sé í húsunum sem þeir teikna. Þekki fólk sem hefur orðið að kosta til hundruðum þúsunda í lagfæringar vegna ömurlegs bergmáls. Þegar nokkrir sitja saman í stofunni líður manni eins og í risa-fangelsis-mötuneyti á háannatíma og ef hundur geltir er eins og hleypt hafi verið af byssu. Arkitektinum kemur þetta ekki við að því er virðist. Er ekkert kennt um hljóðvist í arkitektaskólum??

  • Mér finnst handbragð völundar nánast óaðfinnanlegt

  • Ragnhildur Kolka

    Þetta er flott hönnun og arkitektinum til sóma, þótt húsið og umhverfið falli ekki hvort að öðru, en eins og þú segir þá má ætla að verkkaupinn hafi ráðið því.

    Rollan og skotskífan í stofuglugganum hefðu mátt missa sín en eru líklega tilraun ábúenda til að gefa húsinu sitt persónulega touch.

  • Ég teku undir með Þorvaldi, þetta er móttökuhús eða það sem ég myndi einfaldlega kalla partíhús.

  • Gott að börnin eru fá…mín börn og barnabörn myndu hreinlega frjósa í hel ef þeim yrði boðið inn í þennan „sumarbústaða-óskapnað“

  • Sigfús Almarsson

    Týpist dæmi um nýríka manneskju sem hefur ekki hugmynd um eitt eða neitt.
    Reisir sér minnismerki og lætur arkitektinn leika sér einsog lítill krakki í sandkassa… Andlaust með öllu……….. Vægsast sagt ömurlegt og á ekkert skylt við sumarhús í dreibýli………

  • Þorvaldur Ág.

    Það má sjá að þarna er vandað til verka og miklu kostað til. Arkitektinn hefur hugsað allar lausnir af kostgæfni og unnið vel. Byggingameistarinn hefur líka skilað sínu vel og vonandi eru allir ánægðir sem að málinu komu. Enda er þetta vandað allt saman.

    Hinsvegar tek ég undir að hugmyndafræðin er ekki í samræmi við ímyndina um sumarbústað fjölskyldunnar í sælureit sveitarinnar. Þetta er frekar móttökuhús.

  • Líkara safnahúsi en sumarbústað.

  • Kannski eru þessar uppstoppuðu rollur tilraun til að fá einhverja sál í húsið 🙂

  • Já talandi um naumhyggju , en samt svo yfirgengilegt þetta er eins og viðbjóðslega stövarhúsið og móttökusalurinn við hellisheiðarvirkjun.

  • Það er auðvitað ekki bundið við sumarhús – nýtískuhíbýli eru mörg hver eins og þar hafi lifandi fólk aldrei stigið niður fæti. Naumhyggja. Sjónsteypa – gler – stál – „fáir en vandaðir munir“ – en því miður – engin sál. Fólk kemur heim úr gler-stál-og-steypuskrifstofunni í nákvæmlega sams konar umhverfi. Ég fyrir mína parta gæti ekki búið í svona naumhyggju-strangflatahorror.

  • Þarna hafa menn algerlega misskilið hvað það aðeiga sumarhús snýst um. Það er alveg eins hægt að gista á hóteli, eins og að dvelja þarna.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn