Föstudagur 01.04.2011 - 08:12 - 3 ummæli

HÖNNUNARMARS-REYNSLA OG FJÖLMIÐLUN

Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt FILA sendi mér hjálagðan texta sem ég birti með hans leyfi. Einar hefur verið virkur í umræðunni um skipulags- og hönnunarmál um áratugaskeið. Hann var formaður Félags íslenskra landslagsarkitekta um tíma auk þess að hafa sinnt stjórnunar og kennslustörfum. Hér koma athyglisverðar hugleiðingar Einars í tilefni  nýafstaðins HönnunarMars.

Einar skrifar:

Nú þegar HönnunarMars 2011 hefur marserað hjá garði vakna hjá mér ýmsar spurningar. Tvær spurningar eru í mínum huga ágengastar og lúta að hlut arkitektagreinanna á slíkri “sammenkomst”.

Hvað viljum við fá út úr viðburði eins og Marsinum?

Eins að spyrja sig; hvernig má bæta fjölmiðlunina af viðburðum HönnunarMars?

Sameiginlegur ábyrgðaraðili og stjórnandi sýningarinnar er Hönnunarmiðstöð – sem er sameiginlegur vettvangur 9 sjálfstæðra fagfélaga sem öll vinna að hönnun. Hönnunarmiðstöð var sett á fót í samstarfi mennta- og menningarmála og iðnaðarráðuneyta sem þriggja ára tilraunaverkefni. Með tilkomu miðstöðvarinnar hefur athygli á hönnun og umræða aukist mikið.

Hönnunarhópurinn sem að miðstöðinni stendur er hinsvegar mjög ólíkur innbyrðis. Í einum hópnum er hönnuðir á sviði fata- og textíls ásamt fylgihlutum, annar hópur er að þróa vörur og efla grafíska hönnun sá þriðji vinnur á sviði byggingarlistar og rýmismyndunar. Sameiginlegt sýningahald eins og HönnunarMars sem á að efla og kynna allt það öfluga starf sem fer fram á sviði hönnunar – verður því miður auðveldlega handahófskennd og ómarkviss aðallega sökum fjölda viðburða.

Ég er ekki að gagnrýna það sem félögin og þeir einstaklingar sem leggja á sig ómælda vinnu árlega til að koma upp HönnunarMars sem sjálfboðaliðar. Ég veit að það er unnið af miklum metnaði og heilindum. Sem áhorfandi hef ég á tilfinningunni að stór hluti atburðanna týnist eða verði a.m.k. mjög óljós ef maður trúir því sem kemur til manns yfir fjölmiðla.

Ég leyfi mér líka að hafa þá skoðun á umfjöllun um svona viðburð að hún líði oft fyrir það hve ófaglega og yfirborðslega fjölmiðlarnir taka á málum. Ég hef það t.d. á tilfinningu eftir að hafa fylgst með fjölmiðlaumfjöllun af HönnunarMars 2011 að mikið hafi verið að gerast á sviði fatahönnunar og vöruhönnunar. Ég hef aftur á móti lítið sem ekkert lesið eða séð, nema í vandaðri sýningarskrá Hönnunarmarsins, af sýningu arkitektastéttanna sem var opnuð í Félaginu út á Granda á fimmtudagskvöldið. Sá viðburður á HönnunarMars er orðin gömul frétt nú í vikunni eftir- eða kannski ekkifrétt – þegar sýningu er lokið. Það voru nokkur hundruð manns sem mættu á opnunina á fimmtudagskvöldið og alla dagana sem sýningin var opin fram á sunnudagskvöld mætti fjöldi manns .

Þessi reynsla af þriggja ára sýningarhaldi á HönnunarMars og tækifæri til kynningar á hlutverki hönnunar þarf að endurskoða og læra af.  Ein leið væri að skipta þemum sýninganna á a.m.k. þrjú tímabil á árinu. Hafa marsana þrjá vetur, sumar og haust. Einbeita sér að afmörkuðum hönnunarþáttum í hvert skipti og blanda ekki öllu saman í einn hrærigraut. Umræða um sýningar og viðburði yrði mikið sýnilegri og hnitmiðaðri. Þessum atburðum væri síðan hægt að spila saman við árlega vorhátíð Listahátíðar í Reykjavík.

Önnur leið til auka veg þessara ólíku hópa væri að gera mikið úr einum þætti á ári þannig að byggingarlist og umhverfismótun yrðu aðalmálið þriðja hvert ár. Þannig næðist markvissari miðlun viðburða og fræðslu um mismunandi hönnunargreinar. Hönnunargreinarnar gætu einbeitt sér betur að því að koma sínu á framfæri. Fjölmiðlar þyrftu ekki láta kylfu ráða kasti um hvað þeir fjalla.

Þeim gæfist möguleiki á því að vanda umfjöllun um þemu sýninga með dýpri umræðu.

EES

Myndirnar að neðan sem eru eftir Guðmund Albertsson  en myndin að ofan er fengin af heimasíðu  Arkitektafélags Íslands:

www.ai.is

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Stefán Guðmundsson

    Þetta var of umfangsmikið og innihaldið of lítið. Það hefði auðveldlega verið hægt að koma öllu fyrir á Laugarveginum. En þá hefði þurft að grisja. Varðandi fjölmiðlana þá skipta þeir ekki meginmáli. Aðalatriðið er að ná til framleiðenda og seljenda þegar húsgögn, kjólar og skart er á ferðinni.

    Þessar hönnunargreinar eiga of litið sameiginlegt til að ná árangri í þessu annars góða sameiginlega átaki.

    Markhópur arkitekta og landslagsarkitekta eru stjórnendur fyritækja og stjórnmálamenn. Frúin í vesturbænum sem sækir tískusýningar skiptir þar engu máli.

    En hvenær kemst menntun í byggingalist í námsskrá grunnskóla á svipaðan hátt og tónlist, myndlist og bókmenntir?

  • Hvernig má bæta fjölmiðlunina af viðburðum HönnunarMars?

    Þetta eru áhugaverð skrif en miða aðalega að einum hluta fjölmiðlunar, hvað almennir fjölmiðlar fjalla um. Ég tel að til að bæta fjölmiðlun af viðburði sem þessum þurfi þeir aðillar sem að honum standa sjálfir að standa meira undir því að miðla hvað gerist.
    Ég bý erlendis og reyni að fylgast með því sem gerist á þessum dögum en það er lítið aðgengi að upplýsingum. Ef þeir sem standa að viðburðum vinna t.d. sjálfir stutt video, taka viðtöl eða leggja myndir inn á flikr með creative commons og annað í þeim dúr þá stuðla þau að hringsólun efnis á netinu. Ef vel er að staðið og allir sem hönnunarmars koma ýta undir að kynna þess konar efni þá vekur það líka athygli almennra fjölmiðla sem jú var markmiðið í upphafi.
    Þetta eykur einnig möguleika þeirra sem halda viðburði að hafa áhrif á umfjöllunina.

  • Ólafur.

    Þetta var umfangsmikill Mars og fólk vann vel og lagði mikið á sig og það ber að þakka framtakið sem að mestu var unnið í sjálfboðavinnu að mér skilst.

    Fatahönnun, húsgagnahönnun, skartgripahönnun, arkitektúr, landslagsmótun, skipulag, grafísk hönnun, textílhönnun, keramik, innanhússhönnun, skólakynningar og ýmis vöruhönnun eiga margt sameiginlegt en að blanda þessu öllu í eina súpu og kalla hana Hönnunarmars er sennilega ekki rétta leiðin til að kynna hönnun. Þetta verður svo fjölbreytt að einstakar greinar og einstaka verk fá ekki nægjanlega athygli. Svo á heldur ekki að hleypa öllu að. Gera þetta eftirsóknarvert þannig að miklu færri hönnuðir komast að en vilja. Það þarf að leggja meiri áherslu á gæði en magn. Einar bendir á efni sem þarf að skoða, endurskoða og reyna að finna aðra lausn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn