Fimmtudagur 27.12.2012 - 14:59 - 5 ummæli

HORFT Í NORÐUR.

Kristinn Hrafnsson myndlistamaður sendi síðunni pistil um Reykjavíkurhöfn sem birtur var  29.11.2012 og hét: „Frystigeymla og myndlist á Grandanum“. Nú hefur hann aftur stungið niðuir penna og skrifað pistil sem er birtur hér. Neðst í færslunni er slóð að fyrri pistli Kristins þar sem koma fram margar áhugaverðar athugasemdir.

Hér er pistillinn:

Fyrir nokkrum dögum síðan varð mér það á að gagnrýna arkitektúr fyrirhugaðrar frystigeymslu HB Granda við Norðurgarð á Grandanum. Í bakgrunni málsins var samkeppni um listaverk við bygginguna. Málið vakti svolitlar umræður á þessum vettvangi, en nú er það algerlega dautt. Arkitektar hafa sagt sína skoðun á málinu og sjálfsagt myndlistarmenn og almenningur líka. Kannski er umræða á Íslandi ekki lengri en þetta – tuttugu manns segja nokkur orð og við töpum þræðinum?

Þetta yfirgaf mig samt ekki alveg. Mér fóru að berast upplýsingar um eitt og annað og svo fór ég að horfa í kringum mig á bryggjukantinum og velta fyrir mér ásjónu hafnarinnar og hvert stefnir í þeim efnum.

Hafnir eru alls staðar miðpunktur bæjarlífs á Íslandi og suðupunktur í borgum víða um heim. Það er óhjákvæmilegt að sigla er setning sem má finna í gömlum höfnum í Evrópu – rituð á grísku eða latínu – og hún hefur ratað í bókmenntirnar og jafnvel lógó siglingafyrirtækja. Hún er ljóðræn og lýsandi fyrir þennan stað á mörkum þess þekkta og óþekkta eða heima og heiman eða hér og þar. Án siglinga væri heimurinn annar.

Hafnir eiga að vera dínamískar vegna þess að þær þurfa á því að halda. Það helgast af athafnalífinu og þörfum þess og það helgast líka af því að þar eiga hlutirnir að vera á floti – í skjóli. Hafnir eru fullar af náttúru – þar er fugl og fiskur og þar sjáum við fallaskiptin og þar er fólk.

En hafnir eiga líka að vera klassískar. Það er mótsögnin í staðnum. Staður sem er fullur af nútíma og hraða þarf líka að vera fullur af tíma og sögu. Hafnir eru yfirleitt gamlar í sér, en þar sér maður líka það nýjasta og besta í tækni og formum. Straumlínulagað skip við hlaðinn grjótgarð eða haglega smíðaða bjálkabryggju. Það er fegurð hafnanna og þetta má allt heimfæra á Reykjavikurhöfn.

Þetta er því ekki einfaldur staður. Það er ekkert einfalt við hann og þess vegna þarf að fara varlega og líta til þess hvað gert er á hverjum tíma. Samtíminn á ekki meiri rétt á rými en fortíðin – fortíðin á hinsvegar þann rétt að um hana sé rætt áður en samtíminn tekur hana í nefið.Til að átta sig á stærð hafnarinnar er ágæt hugmynd að ganga meðfram henni allri. Það er ekki langur göngutúr, en það er samt eitt atriði sem er eftirtektarvert á þeirri göngu. Það sér nær því hvergi útúr henni. Hún er næstum því lokaður hringur af byggingum og öðru sem tilheyrir á svona stað. Það er helst þessi norðurátt sem ég nefndi áðan sem gefur svolitla sýn út á sundin og til Esjunnar. Og þar sem fjalla- og útsýnin er hvað ótrufluðust syðst í höfninni og vestur undir slipp, horfi maður sitthvorumegin við norðrið, sér maður hvar þessi fyrirhugaða frystigeymsla á að koma. Hún mun blasa við í Esjumyndinni sem við sjáum. Það vantar ekki að útsýnið er fallegt á þennan stað og það vantar ekki að staðurinn er allt að því frábær fyrir fallegan arkitektúr.

Áðurnefnd frystigeymsla, sem ég leyfði mér að kalla lélegan arkitektúr, er stórt mannvirki. Byggingin er 3.800 m2 og nálægt 12 metrum á hæð og mér sýnist hún um 67 metrar á lengd. Ég leyfði mér að kalla hana lélagan arkitektúr vegna þess að hún er í raun ekkert annað en þessar nefndu tölur sem klæddar eru með útveggjaklæðningu. Það finnst formanni skipulagsráðs, Páli Hjaltasyni, ekki sanngjörn einkunn. Hann hefur hinsvegar ekki ennþá sagt mér hvað arkitektúr er, þannig að það má vera að hann hafi rétt fyrir sér. Þar til hann gerir það, ætla ég að halda mig við þessa afgreiðslu.

Á göngu minni um höfnina tók ég myndir frá hafnarbakkanum við Geirsgötu, svokölluðum Miðbakka. Þá horfir maður nánast beint í norður á Esjuna og ég fór að velta fyrir mér hvort þetta hús tæki þetta útsýni frá mér og öðrum sem ganga eftir kajanum í vesturátt. Í gögnum um frystigeymsluna var þetta sjónarhorn ekki sýnt, þannig að ég prófaði að skella þessu mjög gróft inná myndirnar. Þetta virkar svosem ekkert rosalegt við fyrstu sýn og maður þakkar bara fyrir að tölurnar sem þarna eru klæddar í efni séu ekki stærri.

Það sem fyrst slær mig er að þarna skuli yfir höfuð vera hægt að byggja. Þó ég fari mikið um Grandann hafði ég ekki veitt því neina sérstaka eftirtekt að þarna hafi menn að húsabaki verið að gera fyllingar norðan við fiskvinnsluhúsin, hvaðþá af þessari stærðargráðu. Gamli garðurinn sem liggur þarna austureftir eins og vel dregið blíantsstrik í haffletinum er skyndilega orðinn hálfu styttri en áður. Hann er vart svipur hjá sjón og ekki nema spölkorn lengur út að litla innsiglingarvitanum sem einusinni var svo langt í burtu með sitt græna ljós. Og með allt þetta land í höndunum hafa menn eflaust hugsað með sér að þarna mætti nú setja eitthvað niður – jafnvel frystiklefa með listaverki utaná.

Á svæðinu eru vissulega byggingar fyrir, en þurfa þær að vera fleiri og verða þær að vera af einhverri ákveðinni stærð? Ef þarna þurfa að rísa hús, sem ágætar ástæður geta verið fyrir, þá mundi ég fyrst horfa á stærðarþáttinn. Hæðir, lengdir og breiddir skipta höfuðmáli, en útlit ekki síður. Þegar jafn dauð starfsemi og frystiklefi er sett þarna niður og ekkert mannlíf er æskilegt á svæðinu, þá vandast líka málið. Hvað á að gera við slíka byggingu? Ég svara því beint svona: Gera sem minnst úr henni. Gefa henni ekki færi á að taka það frá umhverfinu sem ekki tilheyrir henni. Það væri fyrsta skrefið. Annað skrefið væri að teikna hana inn í það umhverfi sem hún þarf að taka til sín. Ef þetta tækist væri þarna frystiklefi sem hvaða þorskhaus sem er gæti sætt sig við. Hann gæti jafnvel verið listaverk.

Í stuttu svari til mín vegna fyrri greinarinnar segir Páll Hjaltason að það sé ekki aðeins atvinnumál að þarna rísi frystiklefi, heldur sé það skipulags- og umferðarmál að auki. Þessi geymsla verði til þess að ekki þurfi lengur að keyra frystigáma í gegnum borgina og inn í Sundahöfn. Það finnst mér góð röksemd. En það hlítur þá að þýða að inn í Reykjavíkurhöfn komi reglulega gámaflutningaskip að sækja sinn farm. Það segir sig eiginlega sjálft og þá spyr ég hvort það sé jafn gott mál. Stór gámaflutningaskip eru engu minni en þokkalega stór skemmtiferðaskip og ekki fara þau lipurlega inn í höfnina. Það hef ég oft séð. Er það í eðli skipulagsins, þessa margflókna og allt að því guðlega kerfis sem allt skilgreinir, að leysa vandamálin á einum stað og færa þau yfir á annan og skija þau þar eftir óleyst?

Mér skilst á Páli Hjaltasyni formanni skipulagsráðs að það tíðkist ekki að efna til arkitektasamkeppni um svona byggingar og þar að auki sé þetta einkafyrirtæki sem ætli að byggja frystiklefann og til þeirra séu ekki gerðar jafn miklar kröfur og opinberra fyrirtækja. Það var og! Ég veit að það er efnt til samkeppni um nánast allt sem nöfnum tjáir að nefna og ég veit líka að hafnaryfirvöld geta sett slíkar kvaðir á fyrirtæki sem vilja byggja á mikilvægum lóðum við höfnina. Menn keppa í kömrum fyrir ferðamenn og menn keppa í vatnsstútum til að drekka úr og menn keppa jafnvel í skipulagi eins og mýmörg dæmi sanna og oftast mega þeir einir gera það sem hafa kjark í sértil að kalla sig arkitekta. Ég veit meira að segja til þess að það hafi verið efnt til samkeppni í Reykjavík um frystiklefa og geymsluhúsnæði. Og það var nýlega rifjað upp fyrir mér að höfnin hefur tvisvar sinnum efnt til skipulagssamkeppni á eigin helgunarsvæði. Mér finnst því harla slapt af einum æðsta embættismanni arkitektastéttarinnar og margreyndum keppnismanni í arkitektúr að slengja því á mann að það tíðkist ekki að einkafyrirtæki sem byggja frystiklefa láti efna til samkeppni. Staðurinn og tilefnið voru hvorttveggja næg ástæða í þessu tilfelli. Það þykir amk. sjálfsagt að efna til samkeppni um myndlist utaná óskapnaðinn sem þarna á að rísa. Hvað veldur því? Er það staðurinn eða byggingin sem krefjast þess? Varla er það svo, en það gætu hinsvegar hafa verið pólitíkusar (og jafnvel embættismenn) sem hugsuðu með sér: Hér þarf að gera mynd! Hér er ljót bygging og hér er flottur staður – þarna megin koma túristarnir siglandi inn í höfnina og þá setjum við verkið hér! Það á að vera við þennan 400 fermetra vegg og blasa við úr þessari átt. Það verður að vera veðurþolið eins og frystiklefi og það verður að vera táknrænt fyrir höfuðborg sem segir: Það er óhjákvæmilegt að sigla.

Staðurinn, tilefnið, stærðirnar og samhengið eru lögð upp í hendurnar á myndlistarmönnunum, en hversvegna kláruðu þeir ekki verkið sem vita svona vel hvað þeir vilja? Forsendurnar fyrir listaverkinu eru eins og skrifaðar upp úr skipulagsskilmálum og vonandi fá þeir úr nógu að moða til að finna verk sem fellur vel að þessum þáttum og þá eru amk. einhverjir ánægðir. Jafnvel skipulagið sjálft með sitt einþykka eðli.

Kristinn E. Hrafnsson

Myndirnar sem fylgja færslunni eru frá pistlahöfundi komnar. Ef lesendur vilja skoða myndirnar vel má tvísmella á þær og við það eiga þær að stækka.

Slóðin að fyrri pistli Kristins er þessi: http://blog.dv.is/arkitektur/2012/11/29/frystigeymsla-og-myndlist-a-grandanum/

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Guðmundur Guðmundsson

    þetta leiðir hugann að öðru :

    Iðnaðar og verslunarmannvirki sem risið hafa á síðustu árum eru oft einhverskonar staðlaðir kassar þar sem funktionin ein ræður ferðinni.

    Dæmi um þetta gæti verið korputorg, Ikea i Garðabæ, álverið á Reyðarfirði ofl byggingar af svipuðum toga.

    Hvernig falla svona mannvirki inn í Umhverfið ? Hvernig kallast kassi eins og álver á við tíguleg fjöllinn í kring ?

    Landið er samtímis markaðsett sem græn túristaparadís. Og hvað upplifir svo túristinn í flugrútunni fyrsta hálftímann á landinu ? Jú, Háspennulínur og álver……

    Ergo : Fagurfræðin þarf meira rúm í umræðunni

  • Gott innlegg Kristinn og þörf að ræða. Hér er bók sem var tekin saman um málin við sjóinn í Osló fyrir nokkrum árum. Voru þarna greinar ýmissra sem búið var að birta í blöðunum og fólk hvatt til að ljá áhugaverð perspektíf sem gætu bætt áætlarnirnar: http://www.norskform.no/Temaer/Byutvikling/Publikasjoner/Stemmer-om-fjordbyen/. Hér eru sprækir hugsjónamenn að verki.

    Það þarf að efla þessa umræðu.

  • Þetta er gullkorn sem vert er að leggja á minnið:

    „Samtíminn á ekki meiri rétt á rými en fortíðin – fortíðin á hinsvegar þann rétt að um hana sé rætt áður en samtíminn tekur hana í nefið“

    Umræða lifir of stutt hér á landi eins og höfundur hefur réttilega áhyggjur af. Þetta á sérstaklega við um vefmiðla. Þessa pistla á að birta í tímaritum og bókum. Þannig lifa þeir lengur.

    Umræða á Facebook er dauð nánast áður en hún hefst.

    • Hilmar Þór

      Þetta er athyglisvert sem Eiríkur nefnir hér. Umæður á facebook eru sennilega lítils virði, nánast gagnslausar. Einkum vegna þess að það er ekki hægt að slá upp í þeim og þær eru slæam heimild. En þessar vangaveltur mínar á vefnum er ekki gefið langt líf þó þær lifi eitthvað fram yfir fæðingu. Aðalatriðið er að þær fái fólk til þess að velta fyrir sér arkitektúr, skipulagi og staðarprýði. En ég þakka Eiríki fyrir mig.

  • Þetta er fallegur og vel skrifaður pistill hjá Kristni. Goð lesning. En ég vil endurtaka komment mitt frá því fyrir mánuði:

    V.F
    30.11 2012 @ 12:18
    Virkilega fín umræða hér. Mig langar að segja þá skoðun mína að teikningin sem sýnd er lofar góðu. Þetta er hin hógværasta bygging, einföld og lítillát. Hún sver sig í þann arkitektúr sem er ríkjandi í dag og „sprottin úr þjóðarsálinni“ í dag eins og Árni segir. Er það ekki svona bygggingu sem við viljum þarna. Byggingu sem enginn tekur eftir og lætur umhverfið í friði. Er ekki að monta sig eins og Harpa. Þar með er ég ekki að segja að Harpa megi ekki monta sig en það ér óþarfi að frystigeymsla sé að því.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn