Föstudagur 10.12.2010 - 11:11 - 10 ummæli

Hörmungarástand í byggingariðnaði.

“ Yfir 13.000 íbúðir voru byggðar hérlendis á árunum 2005-2009 sem var langt umfram bjartsýna þarfagreiningu bankanna. Nú standa landsmenn uppi með offramboð og tvær til þrjár íbúðir losna daglega vegna fólksflótta frá landinu” 

Þetta stendur í góðri og upplýsandi grein í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær, fimmtudag.

Í blaðinu kemur fram að á árinu 2007 hafi nærri 5000 íbúðir verið fokheldar eða lengra komnar og um mitt ár 2008 töldu sérfræðingar Íbúðalánasjóðs að um 4000 íbúðir stæðu tilbúnar, auðar og óseldar, á landinu öllu. Í lok árs 2009 voru 2300 íbúðir fokheldar eða fullkláraðar á höfuðborgarsvæðinu einu. Því til viðbótar voru botnplötur fyrir um 900 íbúðir tilbúnar. Alls 3200 íbúðir. Árleg eftirspurn á höfuðborgarsvæðinu er talin 850 íbúðir.

Samkvæmt tölum þjóðskrár Íslands (FMR) fjölgaði íbúðum um á landinu á fjórum árum (2005-2009) um 13.206 og 25.253 íbúðir frá aldamótum.

Þessar tölur um framleiðslu íbúða byggja á úttektum byggingafulltrúaembættanna, fokheldisvottorð m.m.

Þetta eru ógnvekjandi tölur sem komu fram í grein Viðskiptablaðsins.

Í blaðinu var ekki fjallað um aðrar byggingar. Ég hef á tilfinningunni að svipað ástand sé hvað varðar atvinnuhúsnæði. Ég las í dagblaði árið 2008 að á höfuðborgarsvæðinu væru tæpir 8 fermetrar af verslunarhúsnæði á hvern íbúa. Eðlileg þörf er talin vera rúmir 3 fermetrar. Þetta er dæmi um slaka stjórn skipulagsmála ef satt reynist.

Ofaná þetta kemur svo, ef marka má Viðskiptablaðið, að það losna 2-3 íbúðir á degi hverjum vegna fólksflótta og því til viðbótar loka verslanir og fyrirtæki vegna efnahagsástandsins.

Ef horft er til atvinnuástands í byggingariðnaði nú, þá er það verra en nokkru sinni fyrr og á ekki eftir að lagast í nokkur ár  hvað varðar byggingu íbúða- og atvinnuhúsnæðis. Hafa ber í huga að það liggja á teiknistofunum þúsundir íbúða fullhannaðar sem ekki er byrjað að framkvæma. Sama á við um atvinnuhúsnæði ýmiskonar. Búið er að leggja götur fyrir þessar byggingar.

Þetta eru ótrúlegar ógöngur sem byggingariðnaðurinn er kominn í og í raun óskiljanlegur.  Bankarnir og Íbúðalánasjóður lánuðu fé til  bygginga sem ekki var þörf fyrir, fjárfestarnir lögðu lánsfé sitt í byggingar sem engin þörf var fyrir, sveitafélögin héldu áfram að skipuleggja og úthlutuðu lóðum fyrir húsnæði sem ekki var þörf fyrir, arkitektarnir og verkfræðingarnir hönnuðu hús sem engin þörf var fyrir, verktakarnir byggðu hús sem engin þörf var fyrir. 

Byggingariðnaðurinn er rétt að hefja göngu sína um langan dimman táradal. Ljósið er helst að finna i vinnu vegna viðhalds, endurnýjunar gamalla húsa og nýbygginga vegna ferða- og heilbrigðisþjónustu. En það dugar skammt fyrir allan þann mannauð sem hér er að finna og hefur sérhæft sig í byggingariðnaði.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Hilmar Þór

    Hér kemur ýmislegt fram bæði gott og slæmt.

    Mér sýnist íslendingar vera enn í sínum gamla vertíðargír og róa þegar gefur og fiska án þess að vita hvað gera á við aflann samanber ummæli Stefáns og Þorvaldar að ofan. Jón bendir á að það liggja minnst 100 milljarðar króna í ónotuðu íbúðahúsnæði. V.F. gefur nánast út dánarvottorð á byggingastarfsemi sem varðar nýbyggingar. Magnús hefur áhyggjur af að verðfall eigna geti valdið öðru hruni á fjármálamörkuðum.

    Halldór bendir á þá leið að beina kröftum nýbyggingageirans í að þétta byggðina og auka þéttleika innan Elliðaáa án þess að fjarlægja flugvöllinn. Þessi hugmynd er sú eina jákvæða sem fram hefur komið.

    Ég er sammála Halldóri um að brottflutningur flugvallarins er ekki forsenda þéttingar byggðar fyrir utan að af þessum upplýsingum Viðskiptablaðsins má sjá að sem stendur er engin þörf fyrir landið sem flugvöllurinn stendur nú á.

    Ég furða mig, eins og Jón Guðmundsson, á því hvað lítil umræða er um þetta mál. Sérstaklega í ljósi þess hvað þetta varðar marga, ekki síst lífeyrissjóði og fjármálastofnanir eins og Magnús bendir á.

  • Þetta er staðreynd sem við búum við og hefur legið fyrir í einhvern tíma. Við vitum einnig að stór hluti þessa ónýtta húsnæðis er í úthverfum Rekjavíkur og nágrannasveitafélögum. Það er minni áhugi fyrir fasteignum á þessum svæðum í dag en áður var. Áhugi til framkvæmda er meiri á svæðinu innan Eliðaár . Látum því verða af því að þétta byggðina, þar liggja sóknarfærin og áhugi fjárfesta. Meira segja hægt að gera án þess að fjarlægja flugvöllinn.

  • Og þá er hvort sem er enginn iðnaður til staðar til að hefjast handa.

    Fleirra kemur til:
    1. Yfirgnæfandi hluti eigna lífeyrirsjóðana byggir á fasteignum.
    2. Yfirgnæfandi hluti eigna bankana byggir á fasteignum.
    3. Veðhæfi þessara eigna og þar með raunvirði þeirra byggist á virkum fasteignamarkaði.
    4. Raunverulegt ástand þessara eigna er þar að auki mjög mikilvægur þáttur þe. hús í vöndu standi er alls ekki veðhæft nema að litlum hluta.

    Þetta þíðir að allt peninga og raunverulega hagkerfið (amk. það sem byggir á veðum) byggir að stæstum hluta á fasteignum. Afleiðingarnar eru því sennilega þær að ef kerfið kemst ekki afstað (ekki verið að tala um 2006-2007 ástand) þá eru góðar líkur á að fjármálakerfið bresti aftur – þess vegna er ófremdarástand í byggingariðnaði og á fasteignamarkaði ekki valkostur mikið lengur ef ekki á verulega illa að fara á fleiri sviðum.

    Þess vegna er bara um eitt að ræða – hefjast handa. Gallin er bara sá að ég er ekki viss um að það sé að fara að gerast. Allir sem vilja geta hugsað þetta frekar og velt fyrir sér afleiðingunum.

  • Þetta er ekki bara hörmulegt. Þetta er í raun dauðadómur yfir þeim hluta byggingaiðnaðarins sem snýr að nýbyggingum. Nýbyggingar hafa verið um 90% umsvifa greinarinnar.

    Engin lausn er í sjónmáli.

    Kannski það sé rétt hjá Árna að það fari að rofa til eftir 5. ár???

    Það stemmir við þær tölur sem koma fram hjá höfundi bloggsins.

  • Árni Ólafsson

    Í gamalli bók stendur að eftir 7 góð ár komi 7 hörmungarár. Það stemmir við greiningu á byggingariðnaðinum og hönnunargeiranum sem ég leit yfir nýlega þar sem búist er við vexti og betri tíð í byggingar- og hönnunargeiranum 2015.

  • Allt það sem byrjað er á og er frekar stutt komið og svo allt sem er á teikniborðinu og er ekki byrjað á þarf að endurhanna (breyta) til að vera einhver vara í fyrirsjáanlegri framtíð. Nú er bara ÍLS með sínar 20 millj. sem lánveitandi og það er ekki að fara að breytast.

    Þess vegna er ekki mjög langt að bíða að einhver verkefni detti inn en þau verða ekki jafn skemmtileg og 2004-2008 verkefnin. Það verður líka krafist meira af arkitektum og öðrum hönnuðum á sviði kostnaðaráætlana og hagvæmnis til lengri tíma (e. whole life costing).

  • Jón Guðmundsson

    3200 íbúðir tómar og í byggingu.

    Segjum 1000 tilbúnar á teikniborðinu. Alls 4200 íbúðir. Samkvæmt því þurfa hönnuðir að bíða í fjögur ár eftir verkefninu “íbúðahús”.

    Það er ótrúlega hljótt farið með þetta stórmál. Þessar 3200 íbúðir sem standa auðar og safna vöxtum kosta ekki minna en 92 milljarða!!

  • Þorvaldur Á

    Fyrirgefið.

    Erindi Ásgeirs Jónssonar hét „Valkostir Íslendinga“

    Morgunfundurinn var undir yfirskriftinni „Gjaldeyrishöftin og framtíð krónunnar – nauðsynlegt böl?“.

  • Þorvaldur Á

    Það er ekki alltaf kostur að vera duglegur og athafnasamur. Hér hefði þurft að ríkja smá leti og dramb. Þetta er vel mælt hjá Stefáni Benediktssyni hér að ofan í yfirveguðu kæruleysi sínu.

    Það sem ég óttast mest og er í raun fyrirliggjandi, er áframhaldandi verðfall fasteigna sem eykur enn á hörmungarnar.

    Annað sem undrar mig er að Ásgeir Jónsson forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings og ótvíræður lykilleikmaður í þessari atburðarrás hefur verið hækkaður í tign og er nú aðalhagfræðingur ARION banka.

    Í gærmorgunn hélt hann erindi á vegum bankans undir yfirskriftinni „Gjaldeyrishöftin og framtíð krónunnar – nauðsynlegt böl?“.

    Er einhver glóra í því að leita ráða hjá þessum köllum?

  • stefán benediktsson

    Bara svona í kæruleysi. Hvað ætli að þurfi til að koma í veg fyrir að svona endurtaki sig? Þetta er jú ekki í fyrsta skipti og ekki séríslenskt vandamál. Kannski væri ráð að auka mönnum lesti eins og drykkjuskap, reykingar, át, hangs og leti. Það stytti líf, drægi ótvírætt úr afköstum og framtaksáráttu sem minnkaði hættu á yfirkeyrslum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn