Þriðjudagur 04.08.2015 - 16:03 - 7 ummæli

Hörputorg og Hafnargarðurinn

Horpuborg jpeg

 

Það er sérlega ánægjulegt þegar „leikmenn“ tjá sig um arkitektúr skipulag og staðarprýði af þekkingu og ástríðu. Þetta er það sem við þurfum, almennan upplýstan notanda umhverfisins sem segir sína skoðun. Notandur sem eru gagnrýnir og lausnamiðaðir.

Arkitektúr og skipulag er allt of mikilvægt svið að það sé óhætt að láta arkitekta og stjórnmalamenn eina um málið.

 Einn þeirra leikmanna  sem eru virkir í umræðunni um arkitektúr og skipulag er Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir og prófessor sem skrifaði eftirfarandi grein í Morgublaðið fyrir nokkrum dögum. Þetta er athyglisverður og skemmtilegur lestur sem ég mæli með.

 

Hörputorg og Hafnargarðurinn?

París

Flestu fólki líkar vel við miðborg Parísar. Skyldi það vera tilviljun? Nei, ástæðan er sú að borgin var skipulögð með það fyrir augum að hún væri harmónísk, þ.e. að byggingar féllu að hver annarri með ákveðnu mynstri, sem George-Eugene Haussmann sagði fyrir um. Sem dæmi var ætlast til þess að byggingar sem stæðu hlið við hlið væru sex hæðir og svalir væru á 3. og 6. hæð. Verslanir á 1. hæð og góðar íbúðir fyrir ofan. Arkitektar og verktakar gátu ekki leyft sér, að byggja hvað sem þeim sýndist á úthlutaðri lóð.

Reykjavík

Reykjavík byggðist upp frá lokum átjándu aldar en eiginlegt götuskipulag varla fyrr en um 100 árum síðar. Vegna lágrar sólstöðu og skuggavarps voru menn framan af á því að hús ættu varla að fara yfir 3-4 hæðir. En hér var enginn Haussmann og er ekki enn þótt markir merkismenn hafi lagt til byggingasögu Reykjavíkur. Byggðin varð því sundurleit en samt nokkuð í samræmi við 4 hæða hugmyndina innan gömlu Hringbrautarinnar, sem hér er til umfjöllunar.

Verktakaskipulag

Eftir síðari heimsstyrjöld varð breyting og svo virðist sem vaxandi stefnuleysi hafi ráðið för en að verktakar hafi fengið að valsa frjálslega um. Verktakar tóku að byggja hús sem harmónera mörg hver ekki við umhverfið, þ.e. gömlu byggðina, auk þess sem ekki hefur verið gætt að því að tryggja mannlíf í miðborginni með brottflutningi verslunar og íbúa þaðan.

Mætti lesandinn ímynda sér hvernig Reykjavík liti út ef ekki væri Morgunblaðshöllin og nýbyggingar við hana, Landssímahúsið við Austurvöll, viðbótin við Útvegsbankahúsið (Héraðsdóm) og svarta furðuverkið á Lækjartorgi. Í staðinn væru lægri og smærri hús í samræmi við gamla umhverfið í kring. Ímyndið ykkur Ingólfstorg. Sá sem þetta ritar sér birtuna og sólina streyma inn í götur og torg ef ekki væru þessi hús. Hann fagnar því einnig, að endurbyggð voru gömul hús við Lækjartorg eftir brunann mikla og að forðað var niðurrifi gamalla húsa á mótum Skólavörðustígs og Laugavegar þar sem verktakar höfðu stórvaxnar hugmyndir. Á sama tíma jókst því miður skuggavarpið í Skuggahverfinu vegna nýrra háhýsa.

Hvar er Haussmann?

En áfram skal byggja og enn eru N.N. verktakar á ferð. Enginn veit hverjir þeir eru eða hver gaf þeim valdið. Þeir tilkynna bara fyrirætlanir sínar. Skipulagsyfirvöld og kjörnir fulltrúar almennings segjast engu ráða vegna furðulegrar skaðabótaskyldu gagnvart verktökunum. Hver leyfði kjörnum fulltrúum að gefa frá sér vald og ábyrgð? Birtar hafa verið myndir af fáránlegum hugmyndum að hóteli við Lækjargötu þar sem langeldurinn stóð. Og nú síðast birtist risavaxið deiliskipulag sunnan við Hörpu, sem augljóslega mun loka sjónlínum úr miðborginni að Hörpunni og Esjunni. Maður sýpur hveljur og veltir því fyrir sér hvort við Reykvíkingar getum virkilega ekki fundið einhvern Haussmann? Kaupstaðurinn á að vera fagur og mannvænn þótt vissulega þurfi að tryggja að hann sé ekki dautt safn gamalla húsa.

Tillaga

Á myndinni efst  er fyrirliggjandi deiliskipulag sunnan við Hörpu, ég kalla það Hörpuborg. Byggingarmagn Hörpuborgar er 62.000 fermetrar eða jafn stórt og fyrri áfangi fyrirhugaðra nýbygginga Landspítalans, sem sprengja á niður í gömlu Hringbrautina (annað byggingarslys í uppsiglingu, sem ég hef fjallað um áður og bent á lausn á). Ég er talsmaður þess að reist verði hótel við Hörpuna á norðvesturbakka lóðarinnar en tillaga mín er sú að ekki verði byggt austanvert á lóðinni frá Hörpu að Lækjartorgi og að svarta húsið á Lækjartorgi verði rifið. Holan við Hörpuna verði notuð að hluta til þess að hleypa Geirsgötu í stokk neðanjarðar/sjávar og undir hótelbygginguna eða komi upp sunnan við hótelið. Með þessum hætti myndast stórt torg, Hörputorg, sem væri gönguleið frá Hörpu alveg að Lækjartorgi og myndi kallast á við Arnarhól (sjá mynd 2) og myndi nýtast til mannfagnaða borgarbúa. Gamli hafnargarðurinn fengi að standa á Hörputorgi og etv yrði Lækurinn opnaður á ný. Útsýni að Hörpu og Esjunni og frá Hörpunni að Lækjargötu væri tryggt. Íhuga ætti að auki að minnka byggingarmagn á suðvesturhluta lóðarinnar og setja þar niður smærri og lægri byggingar. En stóru húsin, þ.m.t. höfuðstöðvar Landsbankans, verði utan gamla kaupstaðarins.

Höfundur er læknir, áhugamaður um fegurð og mannlíf í gömlu Reykjavík.

 

Horputorg jpeg2

 

HafnargarðurinnMynd 2. Holan við hörpuna yrði notuð fyrir Geisgötu sem yrði neðanjarðar og gamli hafnarkanturinn fléttaður inn í Hörputorg sem samnýttist Arnarhól.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Ég held í einlægni að ástæðan fyrir tíðum skipulagsmistökum hér á landi séu m. a. vegna þess að stjórnmálamenn, arkitektar og verktakar eru einir látnir um málið. Leikmenn með aðgerðarsinnum og grasrótarstókum eru miklu betri ráðgjafar eins og pistillinn sýnir. Lögbundinn athugasemdarferill þarf að vera lengri og vega þyngra. Dæmi eru Höfðatorg, hryllingurinn við Nýlendugötu, landspítalimn, færsla Hringbrautar o. m.fl.

  • Guðmundur

    Athyglisverð og þörf grein. Mér finnst samt svolítið vafasamt að óska eftir hinum Reykvíska Haussmann. Breytingarnar sem Haussmann gerði í París voru gerðar undir afar miðstýrðu og sterku ríkisvaldi sem er ansi langt frá því lýðræði sem við viljum búa við. Meira en 10 þúsund voru fluttir með valdi frá heimilum sínum til að hægt væri að leggja nýju breiðstrætin, svo dæmi sé nefnt. Vissulega er hægt að læra af Haussmann, enda gerði hann góðar og fallegar breytingar á borginni sem gerðu hana að þeirri stórborg sem hún er í dag, en við þurfum þá að finna aðrar leiðir að áþekkri niðurstöðu eða hugsunarhætti í skipulagsmálum, því valdboðsleiðin gengur augljóslega ekki.

  • Stefán Guðmundsson

    Alltaf er eitthvað skemmtilegt (og fróðlegt) að lesa á þessum byggingalistavef. Svona umfjóllun er örvandi fyrir umræðuna og bætir vísast umhverfið með aðhaldinu. „Þetta er of mikilvægt til þess að láta arkitekta, verktaka og stjórnmálamenn, eina um málin“.

  • Örnólfur Hall

    ATHYGILSVERÐ GREIN:
    -Vinur minn Páll Torfi Önundarson prófessor skrifaði athyglisverða grein (Mbl.16/7) um Austurhöfnina (Hörpureiti) og m.a. tengslaleysið við sögu gömlu Reykjavíkur (Víkur).
    – Það er snjallt að nota Hörpu-holuna og grafa niður Geirsgötuna og hafa hana sveigða (betra umferðarlega*) og mynda stórt fallegt torg þar sem afskorinn Arnarhóllinn fær mótsvörun og leiðin er opnuð að Lækjartorgi og áfram svo lækjarleiðina til Tjarnarinnar.- Alheill gamli hafnargarðurinn birtist þarna eins og himnasending inn í mynd margra mögulegra smærri tækifæra á torginu.
    – Hef líka bent á þetta ofhlaðna skipulag og tengslaleysið við söguna: Arnarhólinn, ströndin, gatan við lækinn, lækurinn og Tjörnin (höfuðþættirnir ), staðfræðilega, ásamt fornu aðalgötunni (Aðalstrætið).

    – Annað: Það er víðar en við Austurhöfn sem ofhleðsla á byggingamassa við höfn er gagnrýnd.- Danir eru nú að vakna upp við vonda drauma í höfnum sínum.
    – Úr Politiken (hörð grein nýlega): „Havnebyggerier bærer præg af havnebyggerier af nyopført historieløshed og hurtige kvadratmeter.

    * PS: Ætluð T- tenging Geirsgötu nú er alltof þunglamaleg.

  • Þúsundir eru sammála því, að alvarleg skipulagsslys séu í uppsiglingu bæði er tekur til Landspítalans og væntanlegrar uppbyggingar við Hringbraut og á Hörputorgi sem höfundur pistilsins nefnir svo. Hugmyndir hans eru athyglisverðar en fá væntanlega engan hljómgrunn. Skýringarnar eru sjálfsagt margar og ekki alltaf merkilegar. Þeir sem vilja fylgja því eftir að troða nýjum Landspítala niður í þrengslin við Hringbraut bera við töfum, ef fundinn er annar og heppilegri staður. Það hefur verið hrakið. Hvar er Haussmann, spyr höfundur en aðrir spyrja: Hvar er forsætisráðherra, hvar er heilbrigðisráðherra og hvar er fjármálaráðherra. Eru þeir heillum horfnir í þessum mikilvægu málum eða standast þeir ekki þrýsting einhverra óskilgreindra áhrifaafla. Ef svo er standa þeir í svipuðum sporum og kjörnir fulltrúar Reykvíkinga í skipulagsmálum. Áhrifa- og valdalausar liðleskjur sem láta einhver fjármálaöfl úti í bæ segja sér fyrir verkum.

  • Hér er vel mælt með stórri hugsun.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn