Föstudagur 06.11.2009 - 10:55 - 22 ummæli

HR – Stærsta skipulagsslys síðari tíma?

 

 

 

Stærsta skipulagsslys síðari tíma varð þegar Reykjavíkurborg og háskólaráð  Háskólas í Reykjavík sömdu um 20 hektara lóð fyrir skólann í Nauthólsvík, suðvestan undir Öskjuhlíð.

 

Þar sem skógi vaxin hlíð mætir hafinu til suðvesturs á besta útivistarsvæði borgarinnar er nú að rísa 35 þúsund fermetra háskólabygging með tilheyrandi bílastæðaflæmi. Móðir náttúra tók til fótanna og lagði á flótta undan ósköpunum.

 

Þarna verður skólinn opnaður í vetur án nokkurra ásættanlegra tenginga við borgina.

 

Sama hvernig á það er litið,- skipulagslega, samgöngulega eða félagslega. Skólinn er í raun langt fyrir utan bæinn þegar horft er til aðgangs að þjónustu, sem voru þó helstu rök fyrir staðarvalinu.

 

Í kynningarbæklingi vegna skólans er eitt af markmiðunum talið að: “Byggingin falli vel að umhverfinu og styrki útivistarsvæði Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar”

 

Ekki veit ég hvernig þessi bygging og starfsemin þar “styrkir útivistarsvæðið við Nauthólsvík og Öskjuhlíð” en það fólk sem tók þessa ákvörðun á sínum tíma var auðvitað að gera sitt besta.

 

Það kom fram á sínum tíma að Línuhönnun, VSÓ ráðgjöf og erlendir sérfræðingar frá Rickes Assosiate í Boston hafi verið fengin til þess að leggja mat á staðsetninguna sjálfstætt og án samráðs.

 

Ekki kom fram, hvort leitað hafi verið til arkitekta eða landslagsarkitekta vegna matsins. Þrír staðir voru skoðaðir og það hefur alltaf undrað mig að lóð borgarinnar við Kirkjusand eða Valssvæðið voru ekki meðal valkostanna.

 

Á grundvelli álits þessara aðila tók háskólaráð HR ákvörðun um staðsetninguna.

 

Í frétt af málinu kom fram þessi rökstuðningur.:

 

“Það er mat Háskólans í Reykjavík að Vatnsmýrin skapi einstakt tækifæri til að mynda þekkingar- og nýsköpunarumhverfi á heimsmælikvarða í hjarta höfuðborgarinnar. Auk þess sem íbúum muni fjölga verulega á svæðinu á næstu árum, megi gera ráð fyrir að 20 til 30 þúsund manns verði við nám og störf í þekkingar-, háskóla- og rannsóknarumhverfi á Vatnsmýrarsvæðinu. Það sé álit þeirra sem til þekki að Vatnsmýrin hafi flest það sem gott háskólaumhverfi þarfnist, þ.e.a.s. nálægð við miðborgina, hátæknisjúkrahús, fræða- og menningarsetur, listasöfn, menningarlíf og fjölbreytta þjónustu. Þá verði háskólinn, sem stefni að því að fjölga umtalsvert erlendum nemendum og kennurum, staðsettur rétt við helsta veitinga- og gistihúsasvæði borgarinnar, sem sé afar mikilvægt m.a. vegna alþjóðlegra funda og ráðstefnuhalds fræðimanna.”

 

Af þessu má lesa að forsendan virðist vera að flugvöllurinn fari og að háskólasjúkrahús verði byggt. Hvorugt lá fyrir og ekki eru líkur til þess að flugvöllurinn fari næstu 20 árin.

 

Nálægð við miðborgina, menningarsetur, veitinga- og gistihúsasvæði o.s.frv. er ekki fyrir hendi þarna eins og allir sjá sem vilja sjá. Svo má skynja í fréttinni allnokkurt yfirlæti með draum um heimsathygli í anda þess tíma sem þetta var ákveðið.

Fyrir örfáum misserum var þarna lifandi mannlíf. Fólk kom undan hlíðinni og birtist þegar skóginum sleppti og við tóku tún og móar þar sem börn voru að leik. Nú er þarna kolsvart bílastæðaflæmi og bygging sem hýsir starfsemi sem á ekkert skylt við útivist.

 

Myndin er af vef Landmóta og það skal tekið fram að landmótun og húsahönnun er með miklum ágætum. Það er bara landnotkunin sjálf sem er umhugsunarverð.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

  • Samson Bjarnar Harðarson

    HR við rætur Öskjuhlíðar er staðreynd. Það er ekki alslæmt fyrir Öskjuhlíðina sem útivistarsvæði að fá meira af fólki í nágrenni við sig. Öskjuhlíðin er það sem næst kemst slömm-útivistarskógi. Ég tel nauðsynlegt að bæta útivistaraðstöðuna þar og vonandi að meðm tilkomu HR verði það bætt. A.M.K. er skólinn staðreynd.
    Það er aftur á móti annað mál með þessi ókjör af bílastæðum. Er vandamálið ekki skipulagslöggjöfin sem segir til um 1 stæði á 50 fermetra, þarf ekki að breyta því. Væri ekki hægt að gera kröfur um góðar almenningssamgöngur og göngu- og hjólastígatengingar.
    Þetta er endalaus barátta við blikkbeljuna, það er kanski ágætt að bensínið hækki, hvað kemur komandi kynslóðum til með að þykja um það að við höfum eitt allri þessari orku, landi og peningum í fáránlegar einstaklingsmiðað samgöngukerfi.

  • Til að kóróna þetta skipulagsslys þá var frumhönnun mannvirkja sem voru hugsuð efst á Urriðaholt í Garðabæ endurnýtt við rætur Öskjuhlíðar. Hugmyndin um borgvirki gekk ágætlega upp efst á Urriðaholti en virkar vægast sagt undarleg í rótum Öskjuhlíðar. Þetta verður minnisvarði um heimskuna og hégómann sem var drifkrafturinn á bak við hrun íslensks samfélags.

  • Þetta var samþykkt á korteri í einhverju brjáluðu stresskasti R-listans á sínum tíma yfir því að skólanum hafði verið boðin lóð í nýju fyrirhuguðu þekkingarþorpi í Garðabæ sem þeir hugðust taka. Þetta þótti
    R-listanaum algerlega óttækt og ekki síst vegna þess að Garðabæ var stjórnað af Sjálfstæðisflokknum.

  • Hilmar bendir réttilega á það hvernig textar með skipulagstillögum virðast oft vera óskilgreindir og merkingarlausir eða jafnvel eitthvað þaðan af verra. Textinn sem vitnað er til virðist vera við það miðaður að flugvöllurinn sé ekki til staðar og að ný hverfi hafi verið reist í Vatnsmýrinni með „fjölbreyttri þjónustu.“ Samkvæmt aðalskipulagi verður flugvöllurinn á núverndi stað amk til 2016. Jafvel þótt byrjað verði að byggja við völlinn fyrr verða það sundurlausir bútar sem ekki eru tengdir innbyrðis. Almenn uppbygging svæðisins mun að lágmarki taka 2 áratugi miðað við 2007 aðstæður. Textinn á því við aðstæður sem gætu orðið eftir 20-30 ár. Reyndar er allt breytt núna og HR mun því verða mjög einangraður um langa framtíð. Sjálf skólabyggingin er í um 2,7 km fjarlægð frá Austurvelli (loftlína) eða álíka langt og Valhúsahæð og Laugarnes frá sama stað.

    Í lýsingu HR á skólabyggingunum kemur eftirfarandi fram:

    Leiðarljósið við hönnun háskólabyggingarinnar tengist stefnumörkun HR um opinn, alþjóðlegan háskóla þar sem eftirfarandi áhersluatriði eru í fyrirrúmi:
    • Sveigjanleiki í hönnun og rekstri
    • Opin háskólabygging með auðveld samskipti milli allra háskólasviða
    • Hvetjandi starfsumhverfi þar sem lögð er áhersla á þægindi, gæði og margbreytileika
    • Stúdentamiðuð bygging þar sem vinnuaðstaða nemenda og þjónusta er í fremstu röð
    • Byggingin falli vel að umhverfinu og styrki útivistarsvæði Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar

    Þessi texti er að mestu merkingarlaus auglýsingamennska. „Opin skólabygging, hvetjandi starfumhverfi, stúdentamiðaðar byggingar“ sem falli vel að umhverfi og „styrki útivistarvæði.“ Það er eins og þeir sem að málum koma séu stöðugt að að selja okkur en þó helst hverjum öðrum eitthvað.

    Við þurfum að komast burt frá umfjöllun af þessu tagi um skipulags- og byggingarmál. Skipulag byggir á vel skilgreindum grunnatriðum eins þarfagreiningu ásamt ljósi og skugga, veðurfari, samgöngum, umhverfis- og vistfræði, hagfræði o.fl.

    Látum rithöfundum eftir hina fagurfræðilegu texta en gerum kröfu til þeirra sem taka ákvarðanir um skipulagmál að þeir viti hvað orðið „langt“ þýðir og að það getur haft margar merkingar. Það getur t.d. farið eftir veðri.

  • Erna Valdís

    Ég er enn að velta því fyrir mér á hvaða lyfjum borgaryfirvöld voru þegar þau samþykktu að taka þetta dásamlega útivistarsvæði undir háskóla með öllu sem því fylgir. Hef árum saman, allan ársins hring, gengið um Öskjuhlíðina og veit að það er ómetanlegt að hafa svona perlu innan borgarmarkanna. Spillum því ekki meira en orðið er.

  • Guðmundur

    Mjög sammála þessu. Hef oft pirrað mig á því hvað var verið að láta háskólann fá þessa lóð á eins góðum útvistarsvæðum og Öskjuhlíðin og Nauthólsvík eru. Einnig verður forvitnilegt hvernig umferðin verður þegar við erum með HR, HÍ, Landsspítalann og miðbæinn á nokkuð litlum radíus þar sem umferðarþunginn getur orðið gríðarlegur.

    Frábært blogg hjá þér Hilmar.

  • Björgum Laugaveginum og setjum Listaháskólann (álíka stórt hús og Tollstöðin) hinum megin við bílastæðin.

  • Nú þekki ég ekki vel til , þegar kemur að skipulagi Vatnsmýrar og Öskjuhlíðar. Það væri því gaman að sjá í næstu færslu einhverskonar kynningu á framtíðarsýn borgaryfirvalda á svæðinu. Kannski líka niðurnjörvað plan sem sýnir íbúabyggð, verslun og þjónustu.

    Ég held persónulega að fyrst þetta hús er komið þarna á annað borð, er ekkert alvitlaust að gera bílastæði ofanjarðar á ódýran hátt, en reyna að fella þau eftir fremsta megni inn í landslagið. Reykjavík er nú einu sinni „car city a la America“ eins og hún stendur í dag.
    Seinna meir, eftir því sem miðborgin þéttist mætti grafa þessi stæði niður undir næstu hús sem reist yrðu í nágrenninu. Þá mætti einnig hugsa sér að almenningssamgöngur væru í betri horfum en í dag.

    En ég þegar ég horfi á formið á byggingunni og bílastæðunum á þessari teikningu, verð ég svolítið efins.
    Þessi miðjun finnst mér full sterk fyrir minn smekk. Orkan inni í þessari kringlu á greinilega að samsvara því að standa inní sjálfu Panthéon. Sem er í sjálfu sér allt í lagi draumórar. En það er greinilegt að sjálf bílastæðin spila stóra rullu í myndmálinu. Og ekki minnkar hún með þessum öxli sem liggur í gegnum þau og myndar sjónlínu milli sjálfrar miðjunnar og einhvers konar lundar í bílastæðagarðinum, þar sem eflaust er hugsuð falleg stytta af einhverjum öldnum grískum fræðingi.

    En þegar kemur að flugvelli eða ekki flugvelli, hef ég ekki hugmyndi hvort er rétt. Ég veit bara að mér þætti ógeðslega gaman að búa í nágrenni við lítinn flugvöll sem væri fullur af lífi. Horfa á einhverja dellukarla smyrja cessnunar sínar meðan ég drekk morgunkaffið mitt. Það væri allaveganna skemmtilegra en að búa í svefnúthverfi upp til fjalla…

  • Þetta bloggaði ég 2005:
    „19. Apríl, 2005
    Háskóli Reykjavíkur undir Öskjuhlíð.
    Á vefsíðu RÚV er greint frá því að Háskóli Reykjavíkur hyggist byggja upp sinn háskóla á svæðinu undir Öskjuhlíðarskógi, milli Nauthólsvíkur og Loftleiðahótels. Þeir lýsa yfir að það sé „steinsnar“ frá miðbæ Reykjavíkur, sem er náttúrulega algert rugl.
    Þetta er bara enn eitt úthverfasullið því ekkert er í kring til að styðja við háskólann, s.s. pizzustaður, kaffihús, bíó, bókabúð og allt hitt sem kallast „steinsnar“ frá miðborg. Hvað þá húsnæði á almennum markaði, sem nemendur ættu að geta sótt í nálægt skólanum. Þarna hefur verið vegur í áratugi, sá sem liggur að Nauthólsvík. Það er ill-skiljanlegt hvers vegna byggt er þvert á veginn, utan einhvers konar grafísk teiknara æfing. Svo er þetta „hverfi“ umkringt hafsjó bílastæða, sem væntanlega verða stærri en ráð er gert fyrir. Við skulum kalla þetta tilvonandi húsaklasa Háskóla Reykjavíkur. Gert er ráð fyrir stúdentagörðum yfir nokkuð stórt landrými og munu þeir gera svæðið frekar einhæft, hvers vegna stúdentagörðum er ekki bælandað inn í venjulega byggð er galli á gjöf Njarðar, en eiginlega týpískt fyrir þetta tindátaskipulag sem virðist ráða í Reykjavík.
    Mér líst þó afar vel á að byggja nær flugvellinum og þétta byggðina að honum. Það er þó ekki sama hvernig það er gert.
    Svo eru Bretamynjar þarna sem virðast munu hverfa alveg. Hvar tilfinningin fyrir sögu er, veit ég ekki. Það er ekkert nýtt að framtakssamir niðurrifsseggir vilja skemma fornmynjar.
    Þetta sýnir og sannar það sem ég hef verið að halda fram: Vatnsmýrarskipulagið verður úthverfa-gutl á endanum, ekkert verður farið eftir heildarmynd. Bara farið eftir bílaumferð og öðru ó-borgar- og ó-menningarlegum forsendum. Enda er skipulagið í Reykjavík ekki upp á marga fiska, endalaus umhverfis- og skipulagsslys á skipulagsslys ofan eins og bókasafnið við Suðurgötu sannar. Virkið gegn borginni umhverfis er vitaskuld klæmaxinn á anti-borgar mentalitetinu.
    Aftur að Vatnsmýrinni, sumir sjá fyrir sér háhýsin, einhvers konar tilgerðarlegt mini-Manhattan. Vil leggja áherslu á að háhysi í samfélagsstærð Íslands virka alls ekki nema til að móta neitt nema póstkortamynd. Asnalegir turnar svamlandi í hafsjó bílastæða. Þetta er formúlan og sem borg mun það ekki virka. Og svo kæmu túristarnir aldrei til að skoða slíkt, enda álíka áhugavert og kommúnistablokkir austurtjaldslandanna sem eyðilögðu þær borgir fyrir 50 árum síðan. Talandi um tímaskekkjur. Og ekki bæta þær umhverfið á jörðu niðri, þar sem kaffihús og þétt athafna og íbúðahverfi á að rísa í stað einhæfra blokka.“
    http://www.dingaling.net/blogg-2005.htm

  • Auðvitað er þetta skipulagsslys. Ekki það stærsta og ekki það eina og það er að koma annað stærra.

    Ósammála þessu með landmótunina, hún er auðvitað ekki með ágætum, skoða bílastæðaflæmið. Þetta hefði alveg eins getað verið shopping mall.

    Kannski er það það bara, enda kaupa nemendur sér gráðurnar.

  • Mikið er ég hjartanlega sammála þessum pistli. Þetta er búið að angra mig alveg gríðarlega síðan þetta var samþykkt. Maður einfaldlega skylur ekkert hvað var verið að hugsa þegar þessi staðsetning var valin ?

  • Eg verd ad nota tækifærid ad hæla lodarhønnudum. Tharna eru hønnud bilastædi sem hafa yfir ser grænt yfirbragd. Trjagrodur og thesshattar.

    Svo eru hluti theirra græn til thess ad draga ur ahryfunum.

    Thad hefur ekki verid audvelt ad na thessu i gegn.

    Svo er lagdur fallegur gøngustigur vid jadar skogarins i att ad byggingunum.

    Vitleysan liggur ekki i hønnuninni heldur i krøfunum um bilastædi.

    I raun ætti ekki at thurfa nein bilastædi vid haskola. Haskolar eiga ad vera stadsettir thar sem gott frambod er a kolleltivum folksflutningum.

    Thad er ekkert stædi vid Sorbonne i Paris eda NY university i New York.

    Thetta er vodaverk gagnvart utivistarsvædinu i Øskjuhlid og strøndinni.

  • Árni Ólafsson

    Manni dettur jafnvel í hug að ein af ástæðum fyrir staðarvalinu sé að þrengja að flugvellinum og þröngva honum í burtu með illu. Það er augljóst að fæst markmiðanna um tengsl við aðra starfsemi, sem fram koma í tilvitnuninni í háskólaráð hér að ofan, munu nást – nema flugvöllurinn verði lagður af. Ég ítreka skoðun mína um að bygging draumalandsins í Vatnsmýrinni muni ekki bæta hag íbúa annarra bæjarhluta Reykjavíkur neitt – sennilega frekar draga úr áhuga á endurbótum borgarumhverfisins í austurborginni.

    En þetta er orðinn hlutur og ekki annað að gera en lifa við það. Enn eitt dæmið um hús á bílastæði án tengsla við borgarumhverfið – alveg eins og í Borgartúninu og Skeifunni. Skipulag sem kallar á hámarksumferð og hámarksbílastæðafjölda. En hvað sem öðru líður verður HR í góðum tengslum við ylströndina!

  • Vantar ekki sektarheimild í lögunum fyrir að beita sér fyrir svona forheimsku ?

  • Málið í heild sinni er alger hneisa fyrir borgina. Eitt af fjölmörgum misráðnum ákvörðunum skipulagsráðs borgarinnar. Bílastæðin eru vissulega mjög slæm, en hvernig að að mæta aukinni umferð að svæðinu í heild sinni, núveranda umferðarmannvirki anna því ekki.

  • Það væri gaman að vita hvaða veruleikafirrtu fábjánar það voru sem samþykktu að öll þessi bílastæði yrðu ofanjarðar en ekki neðan.
    – Það er allt að því glæpsamlegt að leggja svo stóran hluta öskjuhlíðarinnar undir bílastæði.

  • Ef þáverandi borgarstjórn með Dag B hefði viljað vera umhverfisvæn hefði HR átt að nýta bílastæði með íþróttaaðstöðunni hjá Val. Þaðan hefðu nemendur getað gengið og hefði sú vegalengd alls ekki verið lengri en nemendur við aðra skóla í Evrópu þurfa almennt að ganga í skóla.

    Rektor HR er mesti lobbýisti í heimi. Henni hefði tekist að fá að byggja skólann í þjóðgarðinum á Þingvöllum með bílastæði yfir gamla kirkjugarðinn ef henn hefði dottið það í hug.

  • Samúel T. Pétursson

    „Öll þessi starfsemi hefur það sameiginlegt að þurfa mikið magn bílastæða“

    Það er nú 64. gr. byggingarreglugerðar sem ákveður lágmarksfjölda bílastæða, þótt líklega telji enginn sem nálægt þessari framkvæmd hann eitthvað annað en eðlilegan og sjálfsagðan hlut. Sjálfsögð gæði sem úthluta skal endurgjaldslaust til bíleigenda. Nú sem fyrr. Til að draga úr byggingarkostnaði eru þessi stæði höfð á yfirborðinu, enda munar um að kosta til einungis hálfri milljón per stæði á yfirborði fremur en rúmum 3 milljónum í bílahúsi.

    Það verður líka fróðlegt að fylgjast með borgarstarfsmönnum bisa við að setja upp steinbúkka við hvern þann litla slóða sem nemendur finna til að stytta sér leið í gegnum Öskjuhlíðina á leið í og úr skólanum …

  • Steinarr Kr.

    Sammála, góður pistill.

  • HR, samgöngumiðstöð, íþróttamannvirki, Íslensk erfðagreining eiga eitt sameiginlegt. Öll þessi starfsemi hefur það sameiginlegt að þurfa mikið magn bílastæða.
    Vatnsmýrin, þetta stórfenglega tækifæri okkar til að flytja íbúðarbyggð nær miðbænum verður stærsta skipulagða bílastæði Evrópu.

  • Pétur Henry Petersen

    Nú veit ég ekki alveg hvað græn bílastæði eru, en finnst fyndið að þau séu lengst í burtu frá byggingunni, ættu þau ekki að vera næst? 😉

  • Þetta er skelfilegt skipulagsslys og skömm fyrir borgina að hafa samþykkt þetta.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn