Mánudagur 28.03.2011 - 09:38 - 3 ummæli

Húsin í Flatey – I

 

Áður en vegakerfi á landi og bílaumferð varð eins og við þekkjum í dag  voru samgöngur á sjó algengastar til vöru- og fólksflutninga víða á strandlengju Íslands. Það vru engir vegir en hafið var „beinn og breiður vegur“. Þetta var áberandi á Breiðafirði.

M.a vegna þessa varð Flatey helsta verslunar- og menningarmiðstöð við Breiðafjörð.

Flatey  þjónaði byggðinni á ströndinnu umhverfis fjörðinn og myndaðist þarna snemma raunverulegt þéttbýli. Staðsetning eyjarinnar, Höfnin og aðrir landkostir voru ákjósanlegir fyrir þjónustumiðstöð. Þarna varð fljótt menningarsetur, með kirkju, klaustri og miðstöð verslunar, samgangna, útgerðar og landbúnaðar.

Um 1960 varð breyting og fólk fluttist frá eynni. Í kjölfarið var húsum illa haldið við og þar til fólk fór að tínast þangað í frítíma sínum til hvildar og til þess að njóta þeirrar  náttúruperlu sem Flatey er.

Enduruppbygging Flateyjar hófst með endurbyggingu Bókhlöðunnar í á árunum 1979-1988. Síðan þá hefur endurreisnarstarfið staðið óslitið og er nú svo komið að þarna er eitthvað fallegasta og best varðveitta húsasafn sem finnst á Íslandi.

Sagt er að tímin hafi staðið í stað þarna í  um 100 ár.

Ég ætla að segja örstutt frá nokkrum húsanna í Flatey í þessari færslu og styðjast við frábærar ljósmyndir Ágústar Atlasonar sem allar eru teknar sama dag að vetrarlagi.

Efst í færslunni er mynd af  Bókhlöðunni  sem var reist árið 1864 að frumkvæði Brynjólfs og Herdísar Benediktsen. Bókhlaðan var fyrsta hús sem sérstaklega var reist til að hýsa bækur á Íslandi. Húsið sem er í umsjá Minjaverndar er mjög lítið í sérlega fallegum hlutföllum, reglulegt augnayndi.

Séð niður Götuskarðið þar sem Reiturinn og Plássið blasir við

Gunnlaugshús og Félagshúsið eru sambyggð. Félagshúsið sem er fjær á myndinni er elsta hús eyjarinnar og var byggt árið 1843 af Guðmundi Scheving sem byggði Silfurgarðinn. Gunnlaugshús er frá árinu 1851. Bæði húsin hafa verið gerð upp og endurbyggð í sinni upprunalegu mynd.

Ásgarður (t.h.) var byggður árið 1907 sem íbúðar og kaupmannhús. Efni var fengið úr öðru húsi sem stóð í grenndinni, Gamlhús. Þegar Gamlhús var rifið til þess að nota efnið í Ásgarð var það orðið 130 ára gamalt. Viðir Ásgarðs eru því milli 230 og 250 ára gamlir. Vinstramegin við Ásgarð eru Vorsalir sem byggðir vori 1885 sem verslunar og vörugeymsluhús. Þarna var rekið Kaupfélag Flateyjar um áratugi.

Eyjólfshús, Stóra-pakkhús (Kaupfélagspakkhúsið) nú Hótel Flatey og Samkomuhúsið þar sem á sumrin er rekinn fyrsta flokks veitingastaður. Húsin eru endurgerð á faglegan og smekklegan hátt af Minjavernd samkvæmt leiðsögn arkitektastofunnar ARGOS.

 

Silfurgarður við Grýluvog sem var hlaðinn árið 1833. Hann var á sínum tíma talinn eitt mesta mannvirki sem reist hafði verið á Íslandi. Guðmundur Scheving lét hlaða garðinn og greiddi vinnumönnum með silfri sem var óvenjulegt í þá daga. Þaðan er nafnið komið.  Á myndinni sést frá vinstri Eyjólfshús (1882), Stórapakkhús og Samkomuhúsið (1890).  Bláa húsið er Vogur(1885) og þar á bakvið sést í Vorsali(1885) og Ásgarð(1907).

Vestan við Bókhlöðuna er Flateyjarkirkja sem teiknuð er af Guðjóni Samúelssyni. Kirkjan var vígð  í desember 1926 eða fyrir tæpum 85 árum. Þarna var fyrst flutt lag Sigvalda Kaldalóns eftir ljóð Eggerts Ólafssonar frá Svefneyjum, „Ísland ögrum skorið“

Á Bakkanum austan Þýskuvarar standa ein átta hús. Þeirra á meðal eru Myllustaðir (2000) sem er í eigu nokkurra Svefneyinga. Þá kemur Strýta (1915) og fjærst eru Sólheimar (1935).

Að neðan er mynd af sauðfé með kirkjugarðini í baksýn

Myndirnar með færslunni eru teknar af Ágústi Atlasyni fyrir stuttu og birtar með góðfúslegu leyfi hans. Það er óvenjulegt að sýndar séu vetrarmyndir frá Flatey. Ég geri ráð fyrir að gera aðra færslu fljótlega um húsin í Flatey þar sem fleiri fallegar ljósmyndir eftir Ágúst Atlason verða notaðar.  Heimasíða ljósmyndarans er  www.gusti.is

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Stórglæsilegt að sjá fallegar vetrarmyndir úr eyjunni okkar. Jafnan hafa birst fallegar sumar- og stemmingamyndir úr Flatey í blöðum, tímaritum, bæklingum og í netheimum en fallegar vetrarmyndir úr Flatey er fágæti og gleði fyrir augað og bæði skemmtilegt og gaman að skoða og upplifa. Hafi Árni Atlason þakkir fyrir þessar glæsilegu myndir með von um fleiri fallegar myndir úr Flatey og úr Breiðafirði öllum.
    Hilmar Þór Björnsson „Myllustaðabóndi“ hefur jafnan skrifað áhugaverða pistla um arkitektúr, hús og byggingar og er skemmtilegt að lesa þessa samantekt um „Húsin í Flatey“ Vona að hann fari kerfiðbundið yfir eyjuna og skrifi um öll húsin í Flatey á sama hátt enda bæði mikil saga og fjöldi fallegra húsa sem áhugamenn um gömul hús og söguskoðun á Íslandi hafa án efa áhuga á. Húseigendur í Flatey hafa lift Grettistaki í viðhaldi og endurbótum á húsum sínum svo eftir er tekið. „Þorpið“ í Flatey er heilfriðað sem áhugaverð og heilstæð húsamynd gamalla húsa á Íslandi. Fólk þarf að koma út í Flatey til að upplifa þessi hughrif og fá þessa fegurð beint í æð.

  • Í Flatey gengur maður að hlutunum vísum. Sömu kallarnir á bryggjunni. Sömu húsin eru þarna og voru fyrir 100 árum, bara betri og fallegri. Sama lognið og sama fjarlægðin frá amstri og streði nútímans með sínum svikum og prettum. Maður stingur klukkunni í vasann og gleymir tímanum. Flatey fær mann til þess að kunna að meta lífið. Kem þarna milli ferða á hverju ári og endurnærist. Kyrrðin í þessum vetrarmyndum er heillandi. Skítt með málverk Baltasars þó þau ein og sér séu ferðarinnar virði.

  • Stefán Guðmundsson

    Þetta eru ótrúlega fallegar vetrarmyndir sem sýna að Flatey er ekki síður góð heim að sækja í vetrarkyrrðinni en á sumrin þegar fuglalífið er næstum yfirþyrmandi og stórkostlegt.

    Einu vil ég þó bæta við. Það er varla hægt að fjalla um Flateyjarkirkju án þess að minnast á stórkostleg myndverk Baltasars Samper á kirkjuhvelfingunni. Annars er þetta stórskemmtileg umfjöllun. Hlakka til næstu færslu um húsin í Flatey

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn