Fimmtudagur 09.12.2010 - 14:48 - 6 ummæli

Hvað er fegurð?

Hjálagt er slóð að skemmtilegum fyrirlestri um fegurðina þar sem því er haldið fram að skynjun fegurðarinnar sé falin í erfðaefnum okkar, ekki  ”in the eye of the beholder” eins og algengt er. 

Fyrirlesturinn er kallaður ”A Darwinian theory of beauty” og er fluttur af hinum ágæta Denis Dutton frá Eyjaálfu.

Myndbandið er um 17 mínútna langt svo lesendur skulu ekki byrja að horfa á það í vinnutíma sínum, heldur geyma það til betri tíma.  Þetta er afburða fyrirlestur sem er skemmtilega myndskreyttur og er áhugaverður fyrir alla sem láta sig fegurð og listir varða.

Það sem þarna kemur fram er skemmtilegt námsefni sem er heppilegt fyrir leshringi og nemahópa. Þetta efni er góður grundvöllur til umræðna um þær spurningar í listinni sem sennilega aldrei verður að fullu svarað. Sem betur fer.

Ég mæli með því að lesendur skoði myndbandið tvisvar og veiti því tíma til umhugsunar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Stefán Snævarr

    Ég hef eitt og annað við boðskap Duttons að athuga. Hann virðist gefa sér að ef mönnum og skyldum skepnum líki við eitthvað eða eitthvað vekji jákvæða kennd hjá þeim þá sé það sama og að þeim finnist það fagurt.
    En augnabliks íhugun sýnir að svo er ekki, það er ekki einu sinni hægt að segja að ef mönnum líki við eitthað á estetískan máta þá finnist þeim það fagurt. Mönnum getur þótt viðfangið stórbrotið eða elegant, ekki endilega fagurt.
    Að finnast persóna kynferðislega aðlaðandi þýðir ekki endilega að manni þyki persónan fögur. Konum sérstaklega finnast sumir karlmenn of sætir til að vera aðlaðandi, sumar konur laðast að ólaglegum mönnum.
    Í mörgum tungumálum eru orð á borð við fagur varla til, Grikkir hinir fornu drógu ekki skarpar markalínur milli þess sem var fallegt og þess sem var almennt gott.
    Í okkar máli og mörgum öðrum eru leifar af mun víðtækara fegðurðarhugtaki en nú er notað, „það var fallega gert“ segjum við. Kannski þýddi „fallegt“ upprunalega „gott, jákvætt“, kannski höfðu forfeður okkar ekki eiginlegt hugtak um fegurð.
    Platon telur að ríki og margt fleira sem við tengjum ekki við fegurð geti verið fagurt.
    Dutton á að vita að þær rannsóknir sem hann vitnar í um landslag sem öllum þykir fagurt eru mjög umdeildar. Sumir segja að vestrænar hugmyndir um fallegt landslag hafi fyrir löngu gegnsýrt alla menningarheima, þess utan er engan veginn öruggt að eskimói sem líkar við mynd af tilteknu landslagi hafi neina hugmynd um að það sé fallegt, kannski er hugtakið um fegurð ekki til í hans menningarheimi.
    Lítið er vitað um líf forfeðra vorra á sléttum Afríku og því vafasamt að draga víðfeðmar ályktanir af því hvað þeim hafi þótt eftirsóknarvert.
    Homo erectus kann að hafa fílað þessa steina sem hann sýndi en getur skepna sem ekki hefur tungumál í raun og veru haft hugmynd um fegurð? Að þykja X fagurt þýðir að viðkomandi hafi íbyggt viðfang (.e. intentional object), dæmi um slíkt viðfang er að nú er kenning Duttons viðfang minnar hugsunar. En til þess að hafa slík viðföng verður viðkomandi að vera svo avanseraður að hann hlýtur að hafa eitthvað sem líkist máli.
    Auk þess getur hann ekki haft slíkt viðfang sem viðfang fyrir fegurðarskyn nema hægt sé að gera einhverja grein fyrir þeim ástæðum sem hann hefur eða ætti að gera haft fyrir því að finnast X fagurt en ekki skemmtilegt, stórbrotið, flippað, elegant, grasiöst, aðlaðandi osfrv.
    Til að geta greint milli þessara hugtaka verður viðkomandi að geta byggt afstöðu sína á rökum en þá hefur hann einhvers konar sjálfræði eða viljafrelsi. En þá er ekki hægt að líta svo á að fegurðarskyn hans sé bara eitthvað sem orsakast af erfðum eða menningu.
    Dutton telur ranglega að annað hvort sé fegurðarmat menningarlegt eða meðfætt. Við verðum að hafa frjálsan vilja til að geta unnið úr menningarlegu og meðfæddu hráefni með þeim hætti að við fellum dóma um vissa hluti sem fagra aðra ekki.
    Afsakaði langa og heimspekilega rullu

  • Árni Ólafsson

    Vel slípuð framsetning. Lifandi fyrirlestur.
    Er fegurðarskynið innbyggt? Fer skynjunin í gegn um hjartað eða heilann?

    Ein minning frá skólaárunum í því sambandi. Eftirminnilegur kennari sagði eitthvað á þessa leið (staðfært með breyttum formerkjum til Íslands):
    Torfbærinn hittir okkur í hjartastað – við skynjum fegurð hans með hjartanu. Fúnksjónalisminn fer í gegn um heilann. Okkur þykir hann ekki fallegur nema við þekkjum og skiljum hugsunina og hugmyndafræðina á bak við hönnunina.

  • Hann er óborganlegur búturinn um fegurð landlags. Brilljant.
    Mæli messu.

  • Magnús Sigurðsson

    Þetta er skemmtilegur fyrirlestur á góðri ensku sem er hægt að skilja. Rætur fagurfræðinnar skilgreind á nýjan og sannfærandi hátt. Ég er sammála Stefáni Snævarr um að það er samt nokkuð eins og Gunnar í Krossinum sé að tala. En þetta er allt satt og rétt og þess virði að velta þessu fyrir sér. Dutton hefur mikið til síns máls og teikningarnar eru frábærar.

  • Takk horfi á þetta síðar.

    Þar sem þú ert arkitekt langar mig að benda á að gömul rótgróin hverfi og þeirra arkitektúr er fegurð að mínu mati en ekki nýjustu hverfi höfuðborgarinnar með öllum sínu steingelda kassa bílastæða og gatna skipulagi. 😉 Arkitektar ættu að læra af gömlu hverfunum þegar þeir búa til ný hverfi.

  • Stefán Snævarr

    Takk fyrir þetta, ég mun líklega horfa á myndbandið í mínum vinnutíma þar eð listspeki og fagurfræði eru hluti af minni vinnu. Hef lesið eitt og annað eftir Dutton, m.a. lungann úr nýjustu bókinni hans, finnst hann dálítið frelsaður.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn